Og kom til að kveðja

Sumar nætur vekur hann mig, Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni. Og ég sem sef á næturnar og vaki á daginn, læt mig hafa það að vakna, allavega til hálfs. Á góðum nóttum fer ég kannski fram úr og laga kakó en oftast situr hann bara á rúmstokknum og spjallar við mig þar til augnlokin síga og ég tala samhengislaust. Þá kyssir hann mig á ennið og fer.

-Ég held ég sé að fullorðnast, sagði hann.
-Er það þessvegna sem þið ætlið að giftast?
-Hjónaband er hagkvæmt.
-Þú ert sumsé í alvöru að fullorðnast?
-Er það vont?
-Nei. Það er gott.
-Ég hætti samt ekki að vekja þig á næturnar.
-Þú heldur það. Einn daginn mætirðu mér á götu og manst allt í einu að þú ert þrítugur, með tvö börn og húsbréf og áttar þig á því að þú hefur ekki hitt mig í fimm ár.
-Ég er nú ekki svo nálægt því að komast yfir PétursPan-komplexinn.
-Þetta snýst ekki um það. Vinir koma og fara. Þannig er það bara og það er allt í lagi.

-Eva þú trúir þó ekki á heilagleika hjónabandins?
-Ekki heilagleika nei, hjónaband er ekkert annað en samningur um ævilanga vináttu. Af því að slík vinátta er hagkvæm.
-Þú ert ekki á móti því að við giftumst er það?
-Auðvitað ekki kjáninn þinn, ég er bara hissa. Átti ekki von á að þú yrðir fyrstur úr bekknum til að taka þetta skref.
-Ég kom eiginlega til að skila bréfinu sem þú skrifaðir mér einu sinni, sagði hann.

Þá vissi ég að hann var kominn til að kveðja. Þótt hann gerði sér enga grein fyrir því sjálfur. Því bréfið er aðeins stutt kveðja og runa af fyrirmælum, laust við heimspeki eða skáldskaparlegt gildi, langt frá því að vera þess virði að halda upp á það.

-Af hverju hentirðu því ekki bara?
-Þú mátt ekki henda því. Þú skrifaðir MÉR það manstu. En þú verður að geyma það.
-Ég geymi það, lofaði ég.

Svo fór hann. Ég veit ekki hvort hann kemur aftur. En í morgun vaknaði ég samt með æðarnar fullar af endorfíni.

Sumt fólk verður svo stór hluti af lífi manns, svo stór hluti af sál manns, að það er alger óþarfi að syrgja það þegar það fer.