Og dag nokkurn eignaðist hún ástpennavin

Mæómæ! Ég hitti skáld á netinu, við höfum bullast á í nokkra klukkutíma og nú er ég ástfangin. Það er reyndar ekki mikið að marka, ég verð svo ástfangin af öllum góðum ljóðskáldum að ég stend sjálfa mig að því að mæna á gamlar myndir af Einar Ben og Jóhanni Sigurjóns eins og smástelpa á poppgoð.

Sjálfsagt er þessi skáldgaukur bara gömul fyllibytta að leita að drætti en hann er ritfær mannhelvítið og mig dauðlangar að hitta hann. Hann segist vera 34 ára en það er nú klassískt trix á netinu að ljúga til um aldur, þynd og eðlisfar, svo ég læt mér nægja að yrkjast á við hann í bili.

Samt velti ég því fyrir mér hver hann sé;

Kannski gamall raftur?
Klæminn kjaftur, ljótur bæði og leiður?
Sem þráði í æsku orðsnilld lýðnum bjóða en enginn vildi?
Og skildi loks að skáldum er ei ætlað annað hlutskipti en hinum
–að éta, skíta, vinna fyrir brauði,
sem af sér leiðir andans mæðu og dauða?

Eða er hann ungur, heitur, ör,
ofstopi sem engum reglum hlítir
en vakir einn við orðalist og leiki fram á nætur?
Í Óðreris dreggjar undir morgun spýtir,
fer á fætur ósofinn og flýtir sér til vinnu, skyldum sinnir,
sjaldan glaður, alltaf graður
oftast alveg örmagnaður?

Sjá mun hann brátt að svelti er hlutskipti skálda.
Andlegt hungur ef hann iðinn, geldu verki gegnir
–og ef hann yrkir, aldrei nóg í kviðinn.
Og þegar eftir þrældóm dagsins, þreyttur sér á eyrað hallar,
ekki heyrir hann Andann snjalla.
Finnur bara böllinn stinnan, stífan
og strýkur sér til útrásar því eðlið kallar.

Hugsar hann þá til sætrar píku,
safaríkrar.

Henni myndi hugnast líka,
holds og anda hungur seðja,
angur sefa,

yndishlýju aftur gefa
honum kraft að kveða ljóð að nýju.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“date“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Best er að deila með því að afrita slóðina