Daglegt líf

Þá erum við búnar að koma okkur fyrir og skila lyklunum að gömlu íbúðinni og enn er langt í mánaðamót. Eins og bróðir minn Mafían segir; góðir hlutir gerast hægt en frábærir hlutir gerast hinsvegar í hvelli.

Þessar vikur sem við Spúnkhildur bjuggum saman í allt of litlu íbúðinni í Vesturbænum voru nógu góðar til þess að mér finnst ástæða til að vera bjartsýn á framhaldið. Það fer ekkert fyrir telpunni, hún situr bara og teiknar eða horfir á sjónvarpið, drengurinn hennar Spúnkhildar er formlega búsettur hjá pabba sínum og unglingarnir mínir verða meira og minna úti á landi í allt sumar svo þetta verður bara rólegt sumar.

Spúnkhildur kemur heim úr bakaríinu upp úr átta á morgnana og við drekkum saman kaffi á veröndinni og lökkum á okkur neglurnar áður en hún fer að sofa. Þetta er æðisleg verönd. Svalir mannins sem heitir ekki Guðmundur eru alveg yfir henni svo maður situr í skjóli enda þótt rigni.

Hugmyndin er sú að ég sé heima á meðan Spúnkhildur vinnur á næturnar og svona lauslega til staðar fyrir Uglu litlu á meðan Spúnkhildur sefur. Ugla er á ellefta ári. Ég er alls ekkert bundin yfir henni og hingað til hefur ekkert reynt á barnfóstruhæfni mína. Það eina sem ég hef þurft að sjá um að er koma morgunmat í barnið. Það er létt verk sem felst í því að minna hana á að borða og rétta henni skál undir morgunkorn en það er, ásamt hlaupböngsum, uppistaðan í fæði hennar. Ég hef reyndar líka séð hana borða bearnisesósu.

Spúnkhildur heldur því fram að Ugla hafi ljóstillífað fyrstu fjögur ár ævi sinnar.
-Nú er hún komin á svipað stig og fluga. Þarf ekki annað en ofurlítinn sykur til að þrífast, segir hún.
Ugla rennir allavega engum stoðum undir þá kenningu að sykur geri börn æst og óróleg. Hvílíkt ljós sem hún er. Ég hef unnið heima algerlega ótrufluð og sé fram á að geta yfirleitt verið búin með verkefni dagsins og tilbúin að hella ótæpilegu magni af kaffi í Spúnkhildi þegar hún rankar úr rotinu einhverntíma á fimmta tímanum.

Svo já, þetta er gott líf. Eiginlega fullkomið að öðru leyti en því að faðir Spúnkhildar liggur fyrir dauðanum og fyrirtækið hennar úti á landi stefnir hægt og rólega í gjaldþrot. Já og Myndgerður fékk lús og maðurinn sem heitir ekki Guðmundur er kominn út fyrir allar aldir á morgnana svo ég hef áhyggjur af því að hann verði var við Fjólu þegar hún snýr heim eftir næturbröltið.

Hvað mig varðar er lífið frekar lágfreyðandi þessa dagana. Sonur minn Byltingin er búinn að hitta foreldra Sykurrófunnar sem þegar hafa gert honum ljóst að hann samræmist ekki hugmyndum þeirra um blautan tengdamömmudraum. Ekki svo að skilja að það sé neitt vesen á honum en hann gengur í ósamstæðum sokkum og hefur skoðanir á heimsmálunum og það skilst mér að þyki ekki kærastalegt í þeim ranni. Pysjan krefst þess að vísu reglulega að ég flytji norður í Skagafjörð og á það til að setja í brýn en hann er ekki til frekari vandræða. Móðir mín hótar reglulega að gera eitthvert systkina minna arflaust en ég er í blessunarlega litlum samskiptum við hana.

Svo já, þetta er eiginlega bara fullkomið líf

Best er að deila með því að afrita slóðina