Willy Wondernail

Ég kynntist Haffa laust eftir áramótin. Tók leigubíl og hann var við stýrið. Venjulega fara skrafhreifnir leigubílstjórnar í taugarnar á mér. Bilstjórar eru þjónar. Hlutverk þeirra er að koma mér á milli staða en ekki að hafa ofan af fyrir mér. Þeim kemur ekkert við hvað ég geri eða hvort ég var á djamminu. Því síður kæri ég mig um að heyra sögur úr lífi og starfi leigarans og allra síst kann ég að meta leigubílstjóra með húmor. Reyndar kann ég yfirleitt illa við fyndna menn og því verr ef þeir eru líka sætir.

Haffi uppfyllti öll skilyrði þess að teljast vanhæfur leigubílstjóri. Hann spjallaði látlaust allan tímann, spurði mig spjörunum úr og deildi fullkomlega óviðeigandi upplýsingum um sjálfan sig, reytti af sér brandara og svo var hann sætur líka. Klykkti svo út með því að reyna við mig. Ekki beinlínis gróflega en hann kom því að að hann væri skráður á einkamal.is undir nafninu Willy Wondernail. Ég ældi næstum í bílinn.

Daginn eftir hittumst við í bankanum. Hann bauð mér í kaffi og einhvernveginn endaði það vel. Eða illa, svona eftir því hvernig á það er litið.

Hann var edrú í bæði skiptin, enda í vinnunni. Síðan hef ég aldrei hitt hann edrú. Og nú hringir hann og segist vera í fríi um helgina. Vill hitta mig.
-Frábært að þú skulir vera í fríi. Ég er einmitt að flytja og vantar aðstoð, sagði ég. En það var víst ekki það sem hann hafði í huga.

Við erum reyndar búnar að koma meirihlutanum af smádótinu upp í Gólanhæðir og meira að segja búnar að raða í eldhússskápana en við þurfum hjálp til að flytja húsgögn og heimilistæki. Öryrkinn er á sjónum svo ég reikna með að við fáum burðarjálkana okkar að austan til að bera þungu hlutina.

Ég er að hugsa um að leyfa Fjólu að sofa fyrir ofan rúmið mitt og bjóða Haffa að gista.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina