„Ég fann hús“ sagði Spúnkhildur. „Að vísu uppi í Gólanhæðum en við erum að tala um tvíbýli en ekki blokk, nógu mörg herbergi fyrir allt liðið og meira að segja garð. Reyndar garð með heitum potti og veröndin er undir svölum efri hæðarinnar svo það hlýtur að vera sæmilega skýlt þar. Og hún er laus Eva, við getum flutt inn í kvöld ef við kærum okkur um.“
Við höfum leitað lengi en í Reykjavík er takmarkað úrval af leiguhúsnæði fyrir tvær einstæðar mæður með fjögur börn á ólíkum aldri. Það er ekki fermetrafjöldinn sem er vandamál en í stórum íbúðum hafa veggir oftar en ekki verið rifnir og mörgum litlum herbergjum breytt í stórar, samliggjandi stofur.
Spúnkhildur hafði fengið lykilinn til að sýna mér íbúðina og gerði ráð fyrir að undirrita leigusamning strax eftir hádegið nema svo ólíklega færi að ég neitaði. Þar sem við eigum við að flytja út úr allt of litlu íbúðinni okkar eftir 10 daga er það eiginlega ekki valkostur.
Ég brenndi af stað til að líta á slotið og já, hún er ágæt. Lítið niðurgrafin kjallaraíbúð, ekki nógu björt fyrir minn smekk en maður fær ekki allt. Mig vantar að vísu ekki heitan pott en íbúðin hentar betur en nokkuð annað sem við höfðum skoðað og ekki skemmir útsýnið yfir Elliðaárdalinn. Satt að segja hefðum við ekki getað verið mikið heppnari. Litsamsetningin í íbúðinni er reyndar alger hryllingur, æpandi, skærrauður og grænblár á einu herbergi, sítrónugulur á öðru og það þriðja er í bónuslitunum. Skakkir veggfóðursborðar toppa svo smekkvísina. En við getum lifað með því og kannski biðjum við bara um leyfi til að mála síðar.
-Nefndi leigusalinn gæludýr? spurði ég.
-Já. Ég sagði honum að við værum með fugla, sagði Spúnkhildur.
-Það er út af fyrir sig satt en hann hefur nú sennilega séð fyrir sér búr með tveimur kanarífuglum, sagði ég.
-Og hvað? Ætlastu til þess að ég taki ábyrgð á því sem gerist í hausnum á honum? Eða þér?
-Nei, auðvitað ekki. En hvað með köttinn?
-Við eigum engan kött.
-Spúnkhildur?
-Kettir eiga sig sjálfir.
-Þannig að þú tókst ekkert sérstaklega fram að Grái Kötturinn kæmi til okkar í mat tvisvar á dag og ætti sinn sérstaka stað í sófanum?
-Nei. Ég tók heldur ekki fram að Öryrkinn gisti hjá mér þegar hann er í bænum eða að þú sért stundum úti heilu næturnar. Finnst þér honum kannski líka koma það við?
-Ókei, ég skil hvað þú átt við. En hvað með Fjólu? Nefndirðu hana ekkert heldur?
-Ég sagði honum að við værum með fugla.
-Spúnkhildur. Hún Fjóla er ekki eiginlega ekki fugl.
-Nú hún er með vængi er það ekki?
-Jú en hún er samt ekki fugl. Ekki heldur flugvél.
-Segir hver?
Já hver sagði það eiginlega? Þegar allt kemur til alls er flokkun dýra í tegundir ekkert annað en mannanna verk og Spúnkhildur trúir á Gvuð.
Við settumst á veröndina og hofðum yfir Elliða á meðan Spúnkhildur reykti sígarettu.
-Og hvað ef leigusalinn kemur í heimsókn og sér Gráa, Fjólu og allt liðið? sagði ég.
-Blessuð hafðu ekki áhyggjur af því. Hann er í hjólastól blessaður maðurinn og fer áreiðanlega ekki að gera sér ferð niður þessar bröttu tröppur nema ganga fyrst úr skugga um að einhver sé heima en auk þess er engin hætta á að hann verði var við þessi ímynduðu gæludýr þín.
-Það er alveg logn hérna. Við getum drukkið morgunkaffið úti í sumar, sagði ég.
-Já og lakkað á okkur neglurnar, sagði Spúnkhildur sem telur víst að naglalökkun sé ein af undirstöðum hamingjunnar.
-Það er bara eitt sem ég er að spá í, sagði ég. Nú ertu farin að hitta Öryrkjann oft í viku og ef svo fer að þið farið að búa saman, þá ræð ég ekki við leiguna ein.
-Ég er ekki að fara í neina sambúð, að minnsta kosti ekki næstu tvö árin, sagði Spúnkhildur ákveðin.
Ég fór heim og byrjaði að pakka á meðan Spúnkhildur gekk frá leigusamningnum. Litla Gula Hænan var óvenju óróleg og þvældist hvað eftir annað fyrir löppunum á mér.
-Hvað með Öryrkjann? gaggaði hún. Ætlar hann að flytja inn eða verður Spúnkhildur flutt út fyrir haustið?
-Ég er ekki að fara að búa með Öryrkjanum, sagði ég. Og Spúnkhildur er heldur ekki að flytja til hans. Segir hún.Litla, Gula Hænan goggaði í tærnar á mér.
-Bakkaðu út úr þessu á meðan þú getur. Ég gef þessu fjóra mánuði, gaggaði hún. Fjóra, eða í mesta lagi sex.
Ég lokaði hana inni í kústaskáp og pakkaði bókunum niður í kassa.