Af rassgötum og tussum

Ég nota orðið rassgat sem vægt blótsyrði, svona til að gefa til kynna að mér sé eilítið sigið í skap.
-Rassgat, segi ég ef kaffifilterinn rifnar og korgurinn rennur ofan í könnuna.
-Rassgat, hnussa ég þegar ég sé svona fyrirsagnir. Ég get líka átt það til að biðja syni mína um að rassgatast til að ganga betur um, segja að krakkarassgatið hafi skilið frystinn eftir opinn eða að einhver sem mér finnst vera of langt í burtu frá mér, búi úti í rassgati.

Ég nota rassgat ekki sem blótsyrði af því að ég hafi sérstaka óbeit á rassgötum. Rassgöt eru stórfín til síns brúks og ég reikna með að langflestir séu nokkuð sáttir við sitt eigið. Því síður táknar óánægja mín með að geta ekki stjórnað búsetu vina minna að ég sé harður andstæðingur byggðastefnu eða mér finnist börn ómerkilegri lífverur en annað fólk þótt tiltekið krakkarassgat geti reynt á þolrif mín um stundarsakir. Rassgat er bara orð sem ég nota til að tjá ergelsi. Ég hugsa ekki einu sinni sérstaklega um rassgöt þegar ég nota orðið í þessháttar merkingu og þótt myndmálið sé skemmtilegt á ég ekki við að bókstaflegt heljarstökk, hvað þá líffræðilegt endaþarmsop, þegar ég bendi Samfylkingingunni vinsamlegast á þann möguleika að hoppa upp í rassgatið á sér.

rassgat.jpg
Þessari mynd af Samfylkingunni stal ég af myndasíðum google.

Tungumálið afhjúpar viðhorf okkar, svo langt sem það nær. Það að rassgat skuli hafa dálítið neikvæða merkingu í daglegu tali segir okkur eitthvað um afstöðu menningarsamfélags okkar til líkamans og skáldskaparhefðin staðfestir hana. Öll ástarskáld yrkja um augu, mörg um hár, barm og hendur en rassgöt koma sjaldan fyrir í ástarkveðskap. Tali skáld á annað borð um rassa (sem er sjaldgæft), hafa fagrar konur lendar, tröllkonur þjóhnappa og feitar kjeddlingar afturenda eða skut. Ég man ekki eitt einasta dæmi úr íslenskum ljóðum eða skáldsögum þar sem bakrauf er vegsömuð og trúað gæti ég að fyrsta skáldið sem yrkir hástemt lofkvæði um hina unaðsbleiku stjörnu sinnar heittelskuðu verði talið til gárunga. (Hér hefði verið gaman að vísa á mynd af fallegu rassgati en einu borumyndirnar sem komu upp þegar á leitaði að ‘anus’ á google voru af gylliniæð, njálg, Opruh Winfrey og svo kennslubókarteikningar.) Reyndar man ég heldur engin dæmi um að önnur líkamsop séu beinlínis mærð en menn eiga þó til að hvísla í eyru og það þykir sjálfsagt að anda að sér ilmi. Tilvist hlusta og nasa er þannig viðurkennd þótt þessum líkamshlutum sé ekki gert hátt undir höfði en tilgangur rassgatsins er hinsvegar algert tabú (af skiljanlegum ástæðum).

Niðurstaða; rassgöt þykja ekki fín og jafnvel þótt orðið geti haft yfir sér jákvæðan blæ þegar smábarn er kallað rassgat í bala, vegur það ekki á móti neikvæðu merkingunni. Auk þess verður litla rassgatið seint talið virðulegt og álit þess verður ekki veigamikið fyrr en það er hætt að vera svona mikið rassgat.

Tungumálið afhjúpar okkur -já, en samt sem áður segja orðin sem við notum ekki allan sannleikann um viðhorf okkar, það þarf að setja þau í samhengi líka. Þegar ég slæ upp ‘algjört rassgat’ á myndasíðum google, er þetta fyrsta myndin sem kemur upp en það hvarflar ekki að mér að það sé merki um hundahatur. Það bendir heldur ekki til kvenfyrirlitningar að nota orðið tussufínt.

Nei, rassgöt þykja ekki fín. Það þykja tussur ekki heldur. Og það er í sjálfu sér umhugsunarvert. Hugsanlega jafnvel eitthvað sem við ættum að breyta og þar sem tungumálið lýsir ekki aðeins veruleika okkar heldur skapar hann líka, er það eitt þeirra tækja sem við getum notað til að móta viðhorf. Já, reyndar alveg tussufínt tæki.

 

Þessi voðalegu orð

Ef maður sem hefur beitt þig andlegu, líkamlegu, fjárhagslegu og kynferðislegu ofbeldi árum saman tekur upp á því að hanga öllum stundum fyrir utan heimili þitt, þarf margra mánaða ferli til að fá því framgengt að honum verði bannað að koma nálægt þér áður en hægt er að fá lögregluna til að fjarlægja hann. Dæmin sanna þó að mjög erfitt er að fá nálgunarbann með dómi því ferðafrelsi ofbeldismannsins er talið dýrmætara en öryggi þolandans.

Það þarf hinsvegar ekki meiri ógn en skilti með áletrun á borð við stríð er glæpur til þess að maður sem aldrei hefur verið orðaður við ofbeldi af nokkru tagi, sé fjarlægður af almennri gangstétt og handtekinn ef einhverjum hjá bandaríska sendiráðinu finnst áminningin óþægileg.

(Hér eru Myndir og umfjöllun Svipunnar )um aðgerðina sem Lárus var síðar dæmdur fyrir og mótmælin gegn ákærunni á hendur honum.

Niðurstaða dómsins yfir Lalla sjúkraliða er skýr, Lárus er sekur. Borgararnir eiga samkvæmt honum að hlýða lögreglu í einu og öllu, hvort sem skipunin á við einhver lagarök að styðjast eða er bara geðþóttaákvörðun. Samkvæmt dómnum er lögreglu þannig heimilit að reka hvern sem er, af hvaða opinbera svæði sem vera skal. Nú bíð ég spennt eftir dómi um að lögreglu sé heimilit að banna manni að ganga í bol með áletrun sem fer í taugarnar á einhverjum eða bera ögrandi skartgripi og hárgreiðslu.

Og hvernig kemst dómurinn að þessari niðurstöðu? Jú í dómnum segir:

Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda sendiráð fyrir árásum og koma í veg fyrir röskun á friði eða skerðingu á virðingu þess.

Ekki hefur komið fram hvort Lárus var handtekinn vegna yfirvofandi árásar á sendiráðið, röskun á vinnufriði eða hvort áletrunin stríð er glæpur skerðir virðingu þess. Eitthvað af þessu hlýtur að vera grundvöllur handtökunnar, annars væri hún ólögleg. Allir sem hafa séð myndbandið frá atburðinum (það var birt í fréttum en ég finn það ekki) hljóta að viðurkenna að þarna var engin árás í uppsiglingu og engin röskun á friði heldur. Við hljótum því að túlka dóminn á þá leið að Lárus hafi verið handtekinn fyrir að vega að virðingu sendiráðsins.

bilde Stríð er glæpur

Stríð er glæpur! Hann sagði það! Hann sagði það ekki bara, hann skrifaði það líka! Hann sagði stríð er glæpur. Hvílík gífuryrði, hvílík móðgun. Hugsa sér að nokkur skuli vega þannig að virðingu stríðsherranna og það í nafni tjáningarfrelsis. Hversu langt getur einn maður leyft sér að ganga í því að vega að virðingu hinna göfugu manna sem stjórna baráttunni fyrir heimsyfirráðum Bandaríkjamanna? Stjórnarskrá Íslendinga hefur þetta að segja um tjáningarfrelsið:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Þessi skilgreining á tjáningarfrelsinu tryggir Lárusi, samkvæmt dómnum, ekki rétt til að veifa skilti á gangstétt. Semsagt; Lárus Páll hefur brotið gegn allsherjarreglu og öryggi ríkisins. Hann stefnir siðgæði þjóðarinnar væntanlega í hættu með því að innleiða þá hugmynd að stríð sé glæpur og vegur að mannorði helstu stríðsherra Bandaríkjanna með því að halda þessari skoðun fram á þessum helga stað. Þá má leiða líkur að því að hann spilli heilsu manna með tiltækinu, enda munu neikvæðar tilfinningar vera heilsuspillandi. Aukinheldur vegur hann að réttindum stjórnar Bandaríkjanna til að drepa þá sem drepa þarf og svipta þá frelsi sínu sem eru yfirvöldum til leiðinda. Það hlýtur því að teljast nauðsynlegt og samræmast lýðræðishefðum að taka þennan stórhættulega glæpamann úr umferð.

Stríð er glæpur.
Ó hve voðaleg orð

noface.jpgÞetta var einu sinni barn. Afghanskt barn. Nú vitum við að það er glæpsamlegt að vega að virðingu bandaríska sendiráðsins með því að kalla það sem kom fyrir þetta barn glæp.

Lárus Páll hefur nú tvívegis verið handtekinn á Laufásveginum að beiðni starfsmanna bandaríska sendiráðsins. Ekki vegna þess að hann hafi gert neitt ólöglegt. Ekki vegna þess að hann hafi ógnað nokkrum, tafið neinn eða truflað neinn með hávaða. Hann hefur verið handtekinn og í annað skiptið dæmdur sekur, einfaldlega fyrir að skrifa þessi voðalegu orð.

 

Kapítalismi er anarkismi

Ég er kapítalisti. Þ.e.a.s. mér finnst rugl að ríkið standi í því að reka framleiðslufyrirtæki. Ég vil heldur ekki að ríkið reki þjónustufyrirtæki fyrir utan heilbrigðis- mennta- og aðrar velferðarstofnarnir. Mér finnst eðlilegt að hlutir og þjónusta umfram nauðsynjar kosti það sem fólk er tilbúið til að borga. (Hinsvegar held ég að upplýst samfélag sé ekki tilbúið til að borga ósanngjarnt verð.) Ég vil að fyrirtæki skili arði og mér finnst hvorki æskilegt, né tel ég gerlegt að allir lifi við sömu kjör.

Eins mikla óbeit og ég hef á framkvæmd kapítalismans, get ég ekki annað en kyngt því að þessar skoðanir gera mig að kapítalista. Og nú myndu flestir sem þekkja mig segja að ég sé að misskilja hugtakið því allt sem ég stend fyrir sé í eðli sínu barátta gegn kapítalisma,

Málið er að það er bara ekkert rétt. Barátta vinstri manna og anarkista gegn einkavæðingu og stórfyrirtækjum er nefnilega fyrst og fremst gegn vondu siðferði. Þótt mér finnist rugl að ríkið reki símafyrirtæki eða sjái landanum fyrir afþreyingarefni, álít ég líka að frelsi markaðarins takmarkist af rétti annarra. Af rétti fólks til að nýta landið sem það býr á til að sjá sér farborða og búa við heilsu og öryggi. Af rétti komandi kynslóða til að taka við jörðinni í nýtingarhæfu ástandi. Af rétti okkar allra til að njóta óspilltrar náttúru því hreint loft, hreint vatn og fegurðin sjálf eru sannarlega lífsgæði. Um fyrirtæki á semsagt að gilda sama lögmál og um fólk; enginn hefur rétt til að skaða aðra.

Það gefur auga leið að fyrirtæki sem virða rétt annarra geta aldrei vaxið svo mikið að þau verði að voldugu skrímsli. Hagkerfi sem fygldi þessari einföldu siðferðisreglu gæti aldrei orðið stórt. Það gæti aldrei mokað mjög miklu fé undir mjög fáar manneskjur. Hinsvegar myndu þeir snjöllu og duglegu bera dálítið meira úr bítum en þeir værukæru og það yrði alltaf einhver hvati til að auka hagkvæmi og þægindi. Á endanum myndi slíkt samfélag bera svo sterkan keim af anarkisma að það yrði hægt að henda hinu ógeðfellda fyrirbæri ríkinu og reyndar þyrfti bara að gera það sem allra fyrst því ríkið hefur sannarlega stutt stórfyrirtæki í því að öðlast æ meiri völd og misnota þau, í stað þess að veita þeim aðhald.

Sumir myndu segja að áhersla mín á að allir eigi rétt á mat, húsaskjóli, heilsugæslu og menntun, geri mig að krata eða jafnvel sósíalista. Það má leiða rök að hvorutveggja en þar sem hrifning vinstri manna á ríkisvaldinu vekur mér beinlínis óbeit get ég miklu fremur flokkað mig sem hægri mann. Bæði kratismi og sósíalismi gætu hinsvegar skilað ágætu samfélagi ef réttur fólks til að stjórna sér sjálft væri virtur. Þar með yrði ríkisbáknið óþarft því hlutverk þess í huga vinstri manna er að hafa vit fyrir almenningi.

Ég held reyndar að hvaða stjórnmálastefna sem er gæti dugað til þess að byggja upp nokkuð mannúðlegt og gott samfélag svo fremi sem menn virtu rétt annarra til frelsis og afkomu. Og reyndar held ég að allar stefnur endi í anarkisma ef réttur annarra er virtur. Það er vegna þess að anarkismi er í kjarna sínum sú skoðun að annað fólk sé hvorki yfir þig hafið né undir þig sett. Þessi einfaldi sannleikur er þegar upp er staðið það eina sem greinir anarkisma frá öllum öðrum stjórnmálakenningum og það eina sem gæti gert einhverja þeirra nothæfa.

———-

Umræður:

„..þar sem hrifning vinstri manna á ríkisvaldinu vekur mér beinlínis óbeit“. Skoðaðu þenslu ríkisbáknsins í tíð Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna og berðu saman við þessar fáu vinstri stjórnir sem einhverju hafa fengið að ráða á þessu landi. Staðreyndirnar tala sínu máli um meinta „hrifningu“ vinstri manna á bákninu miðað við íhaldið.

Posted by: baun | 20.05.2010 | 19:39:25

Almennt hef ég töluvert meiri óbeit á Sjálfstæðisflokknum og Framsókn en á Vg, enda eru báðir þessir flokkar spillingarbæli einhverra jakkafatafasista. Umsvif ríkisins hafa eflaust verið meiri í tíð þessara flokka sem hafa það efst á sinni óopinberu stefnuskrá að meira sé aldrei nóg en forræðishyggjan er mest áberandi hjá vinstri grænum.

Af öllum illum kostum vil ég helst hafa Vg við stjórn, vegna þess að enginn annar flokkur hefur sýnt áhuga á mannúðar- og umhverfismálum. Helst vildi ég þó leggja niður allt sem heitir ríki og yfirvald. Það er sjálfsagt álíka daunhæfur draumur og að fólk stundi viðskipti án þess að valta yfir meðbræður sína.

Posted by: Eva | 21.05.2010 | 6:53:22

Ég er ekki kapítalisti, því mér finnst við eigum að reka þetta allt saman öll saman. Og hætta að búa til gerviþarfir. Gerast nægjusöm og sátt hvert við annað. Álíka raunhæfur draumur og þinn…

Posted by: Kristín í París | 22.05.2010 | 9:03:29

Mér hundleiðast þessir merkimiðar allir. Held að hægri og vinstri séu úrelt hugtök, jafn líkleg eða ólíkleg til að tryggja réttlæti. Ég held samfélag þar sem almenn stemning er fyrir því að fólk láti hvert annað í friði nema til þess að sýna vinsemd og samábyrgð, geti af sér nægjusemi og örlæti. Þetta er kannski bara spurning um hvort eggið eða hænan kemur á undan.

Posted by: Eva | 23.05.2010 | 0:45:22

 

Súrt

Einu sinni hélt ég að til þess að rithöfundur gæti lifað af því að skrifa (eitthvað annað en fréttir), þyrftu verk hans að vera inni á metsölulistum mánuðum saman, vera þýdd á fleiri tungumál, vinna til verðlauna og helst þyrfti hann að vera á listamannalaunum líka.

Samkvæmt þessum fréttum er vel hægt að lifa af því að skrifa eitthvað sem fáir nenna að lesa.

Það gleður mig samt ekkert sérstaklega.

—————————–

Ummæli:

Baggalútur gæti varla skrifað svona „brandara“.

Posted by: Ási | 20.05.2010 | 21:00:32

 

Af dræsum og dándikonum

Ég spái því að óttinn við að almenningi verði ljóst að grínarar standi sig ekkert verr en þeir sem vilja láta taka sig alvarlega, verði svo sterkur að útkoman úr borgarstjórnarkosningunum verði samstarf sjálfstæðismanna, krata og vinstri grænna.

Sóley Tómasdóttir gaf það út fyrir löngu að hún útilokaði ekki samstarf við sjallana. Það kom illa við mig því þótt ég sé ekki sammála Sóleyju um það hvernig best sé að vinna að hagsmunum og frelsi kvenna, hef ég hrifist af heilindum hennar. Þar fer nefnilega kona sem hefur staðið af sér langvinnustu internetofsóknir gagnvart einstaklingi sem þekkjast á Íslandi vegna þess að hún hefur haft meiri áhuga á hugsjónum sínum en persónulegum vinsældum. Ég met það mikilis og finnst ömurlegt að svo mikil prinsipp manneskja skuli vera tilbúin til að skoða samstarf við flokk sem mun vinna á móti öllu sem hún stendur fyrir.

Eftir á að hyggja var það full bláeygt af mér að vænta þess að vg myndu ekki gefa Sjálfstæðisflokknum tækifæri til að riðlast á sér enda er hórirí á pólitískum vettvangi almennt viðurkennt. Þ.e.a.s. á sömu forsendum og kynferðislegt hórirí. Fólk sem á fátt sameiginlegt getur stofnað til hjúskapar af því að það er hagkvæmt og það þykir bara sjálfsagt og eðlilegt að þau (og sérstaklega konan) þurfi þá að éta ýmis markmið og skoðanir ofan í sig og brosa út á við þótt heimilislífið sé í rúst. Kona sem lofar karli kynlífi út á svo og svo marga fimmþúsundkalla en gefur honum ekkert upp um framtíðarplön sín eða lofar honum neinu öðru, þykir hinsvegar hreint ekki fín.

Og þetta er einmitt munurinn á dindilhosum Besta flokksins og vinstri grænna. Dræsan lofar kjósandanum skyndirunki út á atkvæði en gefur engin marktæk loforð um framtíðina. Dándikonan lofar hinsvegar að halda heimili með bara einhverjum. Gott heimili jájájá, þótt sé reyndar útilokað að segja til um hvað makanum detti í hug eða að hve miklu leyti þurfi að lúffa fyrir honum. Það er allavega einhver svona umgjörð sem við þekkjum og einhvernveginn minna dræsulegt að gefa vel orðuð loforð og svíkja þau svo en að segja hreint út; ‘bara rosaflipp og svo líka svona allskonar fyrir aumingja ef við getum þá staðið við það’.

—–

Tjásur:

Segjum að Sóley hefði sagt að hún útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Hvað hefði þá gerst ef VG og Samfylking hefðu samanlagt náð meirihluta? Þá hefði Samfylkingin verið stikkfrí til að gera það sem henni sýndist en VG gæti ekki annað en gefið eftir í öllum málum í mögulegum meirihlutaviðræðum við Samfylkinguna því flokkurinn hefði engan annan valkost nema að svíkja kosningaloforð. Úr því samningaferli kæmi síðan borgarstjórnarstefna sem væri litlu skárri en ef VG væri raunverulega í meirihluta með Sjálfstæðisflokk.

Ef VG hefði í slíku ferli fræðilegan möguleika á að semja við Sjálfstæðisflokkinn þá væri einmitt möguleiki á að ná fram fleiri stefnumálum flokksins í meirihluta með Samfylkingunni.

Posted by: Óli Gneisti | 18.05.2010 | 9:29:13

 

Já, þetta er áreiðanlega alveg rétt hjá þér. Hvernig sem á það er litið er fulltrúalýðræðið í skársta falli umgjörð utan um hrossakaup. Eiginlega algjör brandari.

Mér finnst útfærsla Spaugstofumanna á ýmsum pólitíkusum líkari þeim en þeir sjálfir og hef stundum sagt að Karl Ágúst og félagar myndu sennilega ekkert standa sig verr en ‘alvöru’ Alþingismenn.

Þegar Jón Gnarr var pottormur sagði skólastjórinn honum að hann gæti nú ekki lifað af því að vera sniðugur. Annað kom reyndar á daginn. Ef kjósendur komast að þeirri niðurstöðu að það sé hægt að stjórna borginni með því að vera sniðugur, hlýtur spaugstofuframboð til næstu Alþingiskosninga að vera rökrétt framhald. Mér finnst það óstjórnlega fyndið.

Posted by: Eva | 18.05.2010 | 10:03:08

 

Ég sé bara voðalega lítinn mun á að kjósa Jón Gnarr í borgarstjórn og að kjósa Sigmund Erni í prófkjöri Samfylkingarinnar og koma honum þannig inn á Alþingi. Fræga fólks fíkn.

Posted by: Óli Gneisti | 18.05.2010 | 10:14:41

 

Meira eftirlit með útlendingum

Ég hefði ekki áhyggjur af vinnustaðaskírteinum

  • ef væri ekki hægt að fylgjast með nánast hverri hreyfingu fólks með því að skoða greiðslukorta, síma og netnotkun
  • ef heimildir lögreglu til þessháttar eftirlits hefðu ekki verið auknar fyrir nokkrum árum, í stað þess að herða þær eftir því sem slíkt eftirlit verður auðveldara

Halda áfram að lesa