Tilfinningagreind er kjaftæði

Tilfinningagreind, hver fjandinn er það? Flestum greindarþáttum má lýsa sem getu til að leysa verkefni en tilfinningagreind er dálítið flóknara fyrirbæri. Að einhverju leyti það að þekkja eigin styrk og veikleika. Vera fær um að bregðast við og vinna úr áföllum. Hæfileikinn til að taka sem mest tillit til annarra án þess að ofbjóða sjálfum sér. Hæfileikinn til meðlíðunar, geta til að leysa ágreiningsefni þannig að sem flestir séu sáttir. Hvort hægt að að mæla þessa eiginleika af nokkurri nákvæmni er svo aftur umdeilanlegt og það kom mér dálítið á óvart þegar ég fann EQ próf sem á að vera ‘vísindalegt’. Halda áfram að lesa

Er facebook að gera okkur sjálfhverfari?

Þegar afi var að alast upp var bóklestur unglinga eitt stærsta samfélagsmeinið. Ungdómurinn nennti ekki lengur að vinna, heldur lá yfir bókum og ekki blessuðu guðsorðinu neiónei, heldur allskyns siðspillandi ævintýrum og annarri þvælu. Einn og einn las jú líka einhver fræði svona meðfram bullinu en bókvitið varð ekki í askana látið og menn óttuðust að unga kynslóðin yxi úr grasi dyggðum sneydd og full af ranghugmyndum. Halda áfram að lesa

Nýtt hóprunk

Jæja þá virðist vera dottið úr tísku að segja reynslusögur af kynferðislegri áreitni og ofbeldi af hálfu gvuðsmanna, allavega í bili. Nú eru ellilífeyrisþegar að ‘stíga fram’ og segja frá fátækt sinni. Ég á samt von á því að hryllingssögur af burthlaupnum unglingstelpum fái meiri lestur og reynist endingarbetri í samfélagsumræðunni. Dóp og kynlíf koma nefnilega við sögu. Slík þykir safaríkt, svo það má búast við fleiri foreldrar verði hvattir til að ‘stíga fram’.

Halda áfram að lesa

Af meðvirkni

Meðvirkni er í tísku. Bæði það að játa meðvirkni sína og iðrast hennar og einnig að hneykslast á meintri meðvirkni pólitískra andstæðinga eða vorkenna þeim fyrir að eiga svona bágt.

Hvað merkir hugtakið?

Meðvirkni er það að afneita, breiða yfir eða réttlæta vandamál og ólíðandi hegðun annarra. Sú manneskja finnst varla sem dettur ekki einhverntíma í þá gryfju svo það er nú lítið vit í að tala um meðvirkni nema afneitunin sé orðin að síendurteknu mynstri.

Það er ekki meðvirkni þótt foreldri verði það einu sinni á að kenna óvitahætti og slæmum félagsskap um drykkjuskap unglings. Það er hinsvegar meðvirkni að reyna að telja öðrum á heimilinu trú um að krakkaskrattinn fái alltaf vírus á mánudögum. Það er heldur ekki meðvirkni þótt flokksgæðingur kenni öllum öðrum en ríkisstjórninni um afleiðingarnar af einni óheppilegri ákvörðun en þegar menn bera í bætifláka fyrir flokk sem heldur áfram á sömu braut eftir að stefna hans kom ríkinu undir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, þá getum við kallað það meðvirkni. Reyndar er ég ekki frá því að meðvirkni sé það eina sem allir sjálfstæðismenn eiga sameiginlegt.

Ég hef aldrei sætt mig við þann hugsunarhátt að ef maður styðji stjórnmálaflokk eða grasrótarhreyfingu, þá hafi maður þar með afsalað sér réttinum til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og tjá þær opinberlega. Meðvirkniskortur minn er þó engin dyggð heldur byggist hann á óþoli gegn pólitískum merkimiðum auk þess sem ég er fremur ófélagslynd og lengi að mynda tilfinningatengsl. Ég gæti vel orðið meðvirk ef ég væri í miklum og nánum samskiptum við ‘sjúklinginn’ of lengi en það er einmitt í því umhverfi sem meðvirkni þróast.

Undirrót meðvirkni er ást

Elskandi maki drykkjumanns lýgur því að sjálfum sér að ástandið sé annað hvort skárra en það er, eða einhverju allt öðru en drykkjunni að kenna. Jafnvel þegar hann sér sjálfur hvar vandinn liggur, getur hann átt það til að reyna að slá ryki í augu annarra. Það er meðvirkni, undirrót hennar er ást og hjálpsemi en þegar þjónkunin við alkann bitnar á rétti annarra á heimilinu, geta afleiðingarnar orðið skelfilegar.

Meðvirkni með stjórnmálaflokkum þróast á sama hátt. Sá sem tekur virkan þátt í starfi stjórnmálaflokks eða hreyfingar, myndar tilfinningatengsl við manneskjur, málefni og viðhorf. Það er þessvegna sem pólitísk umræða hefur tilhneigingu til að verða ómálefnaleg og ‘meðvirk’. Fólk er sjaldan reiðubúið að skipta um skoðun á máli sem það hefur barist fyrir af hita og hörku, þrátt fyrir nýjar upplýsingar sem eru algerlega á skjön við forsendur þess, það er bara svo sárt að viðurkenna að maður hafi vaðið í villu og eytt tímanum til einskis eða jafnvel til ógagns. Það er líka auðveldara að fyrirgefa valdsmönnum og áhrifafólki afglöp í starfi þegar nefndir afglapar hafa boðið manni í afmælið sitt og hjálpað bróður manns að flytja.

Viðbrögðin við grein Ármanns Jakobssonar

Grein Ármanns Jakobssonar um endalok meðvirkni sinnar hefur vakið talsverð viðbrögð enda tókst Ármanni þar að móðga á einu bretti, alla hópa skuldara, hvernig sem skuldir þeirra eru tilkomnar og hvar í flokki sem þeir standa.

Reiða jeppakallinum sem með góðærisglígju í augum safnaði neysluskuldum og vill fá draumahúsið sitt að gjöf, finnst að sér vegið enda óþægilegt að fá umbúðalausan sannleikann í smettið. Hann vandar hinum strætisvagnaelskandi háskólauppskafningi ekki kveðjurnar en sennilega skammast sín líka pínulítið.

Atvinnulausi strætókortseigandinn sem missti bílinn sinn þegar hann gat ekki lengur borgað af láninu og er kominn í bullandi vanskil gagnvart íbúðalánasjóði er jafnvel ennþá móðgaðri en jeppinn. Honum finnst ríkisstarfsmaður, sem hvorki þarf að óttast atvinnuleysi né húsnæðismissi, óþarflega hofmóðugur þegar hann leyfir sér að kalla atvinnu- og heimilislausa vinnuveitendur sína ‘öskrandi jeppaeigendur’. Já, vinnuveitendur segi ég, því enda þótt sá atvinnulausi greiði ekki tekjuskatt þarf hann að borga virðisaukaskatt af öllu sem hann kaupir og fasteignagjöld af íbúðinni sem hann skuldar að 150 prósentum.

Hann kærir sig eiginlega ekki um að Ármann fái krónu til viðbótar úr ríkiskassanum en hann segir samt ekkert strax. Ekki fyrr en konan hans er farin að skella hurðum og segja að næst verði hann sjálfur að húka í röðinni hjá fjölskylduhjálpinni. Lágtekjufólk er nefnilega svo vant því að fá það framan í sig að það greiði ekki skatt og ætti því ekki að leyfa sér að hafa skoðanir á ríkisútgjöldum (og hvet ég boðbera þess viðhorfs til að hoppa upp í sjálfstæðisflokkinn á sér) að hann nennir ekki að ræða þetta lengur, heldur ákveður að borða eggin frá fjölskylduhjálpinni og taka frekar með sér stein á næsta mótmælafund.

Meðaljóninn sem enn stendur í skilum og ekur Toyotu í góðu standi er líka sármóðgaður. Árið 2007 hélt hann að nú væri hann loksins að verða ríkur og var jafnvel farinn að gæla við drauminn um sumarbústað. Hann á ekki nógu bágt til að hafa beinlínis rétt til að væla en hann er skíthræddur um að missa vinnuna og líður djöfullega í egóinu sínu. Nú getur hann ekki lengur borgað tómstundastarf fyrir börnin, keypt ný föt og farið í sumarfrí og þótt hann geti vel neitað sér um lúxus, þjáist hann af vanmetakennd yfir því að standa ekki lengur undir klassakröfum fjölskyldu og samfélags.

Hann hefur líka marga nóttina legið andvaka af reiði yfir því að kallarnir sem komu honum í þessa aðstöðu, fái sjálfir skuldir sínar afskrifaðar og geti haldið braskinu áfram. Hann ætti auðveldara með að sætta sig við hrakandi kjör ef eitthvert réttlæti væri í sjónmáli.
Auk þess mætti hann ekki aðeins sjálfs sín vegna (enda kaus hann þessi stjórnvöld yfir sig sjálfur og finnst þessvegna að hann ætti kannski bara að þegja) heldur aðallega vegna þess að gamla konan á neðri hæðinni, sem hefur gengið í sömu kápunni í 14 ár, er komin í biðröðina hjá fjölskylduhjálpinni og það var þá fyrst sem hann áttaði sig á því að eftir efnahagshrun lenda fleiri en óreiðumenn og væluskjóður í vandræðum.

Meðvirkni er ekki það sama og meðlíðan

Ármann segist, allt fram til 4. október sl., hafa sýnt ákveðna meðvirki með skuldugu fólki. Ég trúi því að Ármann hafi fundið til meðlíðunar með þeim sem eru að missa heimili sín, því Ármann er góðmenni og hefur alla tíð sýnt samúð með lítilmögnum. Ég trúi hinsvegar ekki á meðvirkni hans. Ég trúi því ekki að Ármann hafi nokkurntíma, svo lengi sem eina mínútu, trúað því að fólk sem hefur safnað skuldum sem það hefði getað forðast, með því að búa þröngt, borða grjónagraut og hjóla í vinnuna, geti nokkrum öðrum en sjálfum sér um kennt.

Það er staðreynd að Ármann Jakobsson hefur búið við meira öryggi en margir þeirra sem sjá ekki fram úr skuldum sínum í dag. Hafa og ýmsir látið í ljós þá skoðun sína (með hinum svaðalegasta fúkyrðaflaumi) að með þægilegu starfi og fjárhagslegu öryggi hafi Ármann fyrirgert málfrelsi sínu. Það er svo aftur önnur staðreynd að Ármann er hvorki kvótaerfingi né útrásarvíkingur, heldur ávann hann sér öryggi sitt sjálfur, með ráðdeild, dugnaði og hófsemi. Hann gerir sér grein fyrir því að skuldasafnarar eru ekki allir blásaklaus fórnarlömb kreppunnar og þótt hann hafi ekki beinlínis kallað skuldara ‘klingjandi heimskar óráðsíu yfirdráttardruslur’, hefur hann margsinnis bent á firringuna og áhættuna sem ofneysla hefur í för með sér. Það sem gerðist í kollinum á Ármanni þann 4. október var ekki ‘endalok meðvirkni hans’ því meðvirkur var hann aldrei. Allavega ekki með skuldurum. Meðlíðun á nefnilega ekkert skylt við meðvirkni.

Meðvirkni Ármanns

Mig rennir hinsvegar í grun að Ármann hafi lengi verið haldinn ákveðinni meðvirkni gagnvart stjórnmálaflokknum sínum, bæði fólki og viðhorfum, allavega minnist ég þess ekki að hafa nokkurntíma séð hann gagnrýna vg eða forystumenn flokksins fyrir neitt. Ég hef enga trú á því að það sé vegna þess að Ármanni hafi aldrei þótt neitt sem gert hefur verið í nafni vg gagnrýnivert.

Ég hef heldur enga trú á því að Ármanni finnist í alvöru að mótmæli eigi ekki rétt á sér þegar stjórnvöld sem gefa sig út fyrir að vera vinstri sinnuð;
-beita niðurskurðarhnífnum á heilbrigðiskerfið á sama tíma og þau halda uppteknum flottræfilshætti þegar sendiráðsbústaðir eru annars vegar.
-einkavæða og selja ríkisfyrirtæki
-kunna engin ráð gegn auknu atvinnuleysi og atgervisflótta
-láta banka í eigu ríkisins komast upp með að slá striki yfir milljarða skuldir auðkýfinga.

Ég held að Ármann horfist bara ekki í augu við það að stjórnmálaflokkar eru í eðli sínu valdsæknir og að hans flokkur er ekkert öðruvísi en aðrir flokkar að því leyti að hann mun alltaf setja hugsjónir sínar skör neðar voninni um völd. Ég hef trú á ýmsum þingmönnum vg og fólki sem starfar í grasrótarhreyfingum tengdum flokknum en ég hef enga trú á flokknum sem slíkum, fremur en nokkrum öðrum pólitískum flokki.

Ég trúi því að Svandís Svavarsdóttir sé í einlægni mótfallin stóriðju, að Ögmundur Jónasson hafi raunverulegan áhuga á mannréttindum og að Stefán Pálsson hati Nató meira en krabbamein, alnæmi og Sjálfstæðisflokkinn samanlagt. Ég hef hinsvegar enga trú á því að ef valið stæði á milli þess að fórna Þjórsárverum, skerða réttindi flóttamanna og fylgja Nató inn í Íran EÐA að fórna setu í ríkisstjórn, þá yrðu hugsjónirnar látnar ráða.

Ég spái því að:
-Varnarmálastofnun verði ekki lögð niður 1. janúar, heldur verði því frestað til 1. apríl og svo aftur.
-Fram að næstu kosningabaráttu, verði ekki tekið eitt einasta skref í átt að úrsögn Íslands úr Nató.
-Ísland muni ekki viðurkenna ríki Palestínumanna á þessu kjörtímabili.
-Ísland muni ekki fordæma meðferð Kínverja á Tíbetum á alþjóðavettvangi.
-Fram að næstu kosningabaráttu verði umhverfissjónarmið hvað eftir annað látin víkja fyrir voninni um efnahagslegan ábata og að stjórnarflokkarnir kenni hvor öðrum, Sjálfstæðisflokknum og kreppunni um það.
-Í stjórnartíð vg verði erlendum aðilum seldur nýtingarréttur á auðlindum þjóðarinnar, ekki í stórum stíl heldur bara til að redda einhverju fyrir horn.
-Fleiri auðmenn fái milljarða gjafir frá Ármanni og öðrum skattgreiðendum í formi afskrifta.
-Athafnamenn og fyrirtækjabraskarar sem þegar hafa sýnt af sér vafasama viðskiptahætti fái bunch of money úr vasa Ármanns og annarra skattgreiðenda í formi uppbyggingarlána og/eða styrkja.
-Pólitískar stöðuveitingar verði réttlættar með orðunum ‘hann á ekki að gjalda fyrir ætterni sitt/vináttu sína/pólitísk afskipti sín’.

Ennfremur spái ég því að Ármann Jakobsson muni samt ekki skrifa pistil um endalok meðvirkni sinnar með vg.

 

Eva | 17:34 | Varanleg slóð |

 

TJÁSUR

 

BRAVÓ!!!!!

Djöfull ertu góð.

Posted by: anna | 4.11.2010 | 19:07:43

 

Verð að viðurkenna að ég stiklaði á stóru. Hafði ekki eirð í að lesa hvern stafkrók. Athyglisbresturinn, sjáðu.

Ármann er sjálfsagt ágætis drengur. Þó er hann meðvirkur. Meðvirkni er oftar en ekki tengd áfengisneyslu, en þó þarf ekki því til að dreifa að fólk verði meðvirkt.

Sjálfur var ég meðvirkur á yngri árum, en hef fyrir löngu þroskað sjálfan mig út úr því rugli. Ég ólst upp við áfengisneyslu og allt stuðið og stemmninguna sem því fylgir.

Hins vegar var ég eitt sinn kvæntur. Konu sem var (og er) meðvirkari en bæði andskotinn og ég. Þó voru engin deyfilyfjavandamál í hennar uppeldi.

Posted by: Krulli | 4.11.2010 | 20:38:49

 

Frábær grein!

Posted by: Ibba Sig. | 4.11.2010 | 20:59:48

 

einu endalokin sem ég upplifði voru virðing mín á pistlahöfundi sem svo sannarlega var til staðar. Eftir að hafa orðið vitni að því að 68 ára lífeyrisþegi missi ofan af sér og borði pönnukökur í öll mál til að ná endum saman efast ég ekki um neyð í landinu mínu þó ég sé kannski ekki persónulega að upplifa hana. Vonandi verð ég meðvirkur alla mína ævi

Posted by: páll heiðar | 5.11.2010 | 16:42:44

 

Ármann var ekki að afneita fátækt á Íslandi Palli. Hann tók stórt upp í sig með því að tala eins og allir sem mótmæla ríkisstjórninni í dag hafi offjárfest en hann hefur aldrei afneitað því þörf sé á sérstökum aðgerðum til hjálpar þeim verst stöddu.

Posted by: Eva | 5.11.2010 | 19:08:47

 

Af rassgötum og tussum

Ég nota orðið rassgat sem vægt blótsyrði, svona til að gefa til kynna að mér sé eilítið sigið í skap.
-Rassgat, segi ég ef kaffifilterinn rifnar og korgurinn rennur ofan í könnuna.
-Rassgat, hnussa ég þegar ég sé svona fyrirsagnir. Ég get líka átt það til að biðja syni mína um að rassgatast til að ganga betur um, segja að krakkarassgatið hafi skilið frystinn eftir opinn eða að einhver sem mér finnst vera of langt í burtu frá mér, búi úti í rassgati.

Ég nota rassgat ekki sem blótsyrði af því að ég hafi sérstaka óbeit á rassgötum. Rassgöt eru stórfín til síns brúks og ég reikna með að langflestir séu nokkuð sáttir við sitt eigið. Því síður táknar óánægja mín með að geta ekki stjórnað búsetu vina minna að ég sé harður andstæðingur byggðastefnu eða mér finnist börn ómerkilegri lífverur en annað fólk þótt tiltekið krakkarassgat geti reynt á þolrif mín um stundarsakir. Rassgat er bara orð sem ég nota til að tjá ergelsi. Ég hugsa ekki einu sinni sérstaklega um rassgöt þegar ég nota orðið í þessháttar merkingu og þótt myndmálið sé skemmtilegt á ég ekki við að bókstaflegt heljarstökk, hvað þá líffræðilegt endaþarmsop, þegar ég bendi Samfylkingingunni vinsamlegast á þann möguleika að hoppa upp í rassgatið á sér.

rassgat.jpg
Þessari mynd af Samfylkingunni stal ég af myndasíðum google.

Tungumálið afhjúpar viðhorf okkar, svo langt sem það nær. Það að rassgat skuli hafa dálítið neikvæða merkingu í daglegu tali segir okkur eitthvað um afstöðu menningarsamfélags okkar til líkamans og skáldskaparhefðin staðfestir hana. Öll ástarskáld yrkja um augu, mörg um hár, barm og hendur en rassgöt koma sjaldan fyrir í ástarkveðskap. Tali skáld á annað borð um rassa (sem er sjaldgæft), hafa fagrar konur lendar, tröllkonur þjóhnappa og feitar kjeddlingar afturenda eða skut. Ég man ekki eitt einasta dæmi úr íslenskum ljóðum eða skáldsögum þar sem bakrauf er vegsömuð og trúað gæti ég að fyrsta skáldið sem yrkir hástemt lofkvæði um hina unaðsbleiku stjörnu sinnar heittelskuðu verði talið til gárunga. (Hér hefði verið gaman að vísa á mynd af fallegu rassgati en einu borumyndirnar sem komu upp þegar á leitaði að ‘anus’ á google voru af gylliniæð, njálg, Opruh Winfrey og svo kennslubókarteikningar.) Reyndar man ég heldur engin dæmi um að önnur líkamsop séu beinlínis mærð en menn eiga þó til að hvísla í eyru og það þykir sjálfsagt að anda að sér ilmi. Tilvist hlusta og nasa er þannig viðurkennd þótt þessum líkamshlutum sé ekki gert hátt undir höfði en tilgangur rassgatsins er hinsvegar algert tabú (af skiljanlegum ástæðum).

Niðurstaða; rassgöt þykja ekki fín og jafnvel þótt orðið geti haft yfir sér jákvæðan blæ þegar smábarn er kallað rassgat í bala, vegur það ekki á móti neikvæðu merkingunni. Auk þess verður litla rassgatið seint talið virðulegt og álit þess verður ekki veigamikið fyrr en það er hætt að vera svona mikið rassgat.

Tungumálið afhjúpar okkur -já, en samt sem áður segja orðin sem við notum ekki allan sannleikann um viðhorf okkar, það þarf að setja þau í samhengi líka. Þegar ég slæ upp ‘algjört rassgat’ á myndasíðum google, er þetta fyrsta myndin sem kemur upp en það hvarflar ekki að mér að það sé merki um hundahatur. Það bendir heldur ekki til kvenfyrirlitningar að nota orðið tussufínt.

Nei, rassgöt þykja ekki fín. Það þykja tussur ekki heldur. Og það er í sjálfu sér umhugsunarvert. Hugsanlega jafnvel eitthvað sem við ættum að breyta og þar sem tungumálið lýsir ekki aðeins veruleika okkar heldur skapar hann líka, er það eitt þeirra tækja sem við getum notað til að móta viðhorf. Já, reyndar alveg tussufínt tæki.

 

Hvað merkir orðið velferðarkerfi?

Eftir umræðuna um atvinnuleysi á facebook í gærkvöld, get ég ekki orða bundist. Það er engu líkara en að fólk skilji ekki hvað orðið velferðarkerfi merkir. Þeir eru jafnvel til sem tala með fyrirlitningu um Norræna velferðarkerfið og benda á að það sé ekki hægt að reka velferðarkerfi nema mylja undir stóriðju. Á fb síðu Heiðu B. Heiðars tjáir sig fólk sem telur að vandi atvinnulausra geti fyrst og fremst skrifast á þá sem misnota bótakerfið.

Án þess að ég ætli neitt að gera lítið úr því álagi sem fylgir fjárhagserfiðleikum, þá snýst velferðarkerfi ekki bara um bætur og niðurgreiðslur. Velferðarkerfi snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólki líði vel. Það krefst útgjalda en þegar upp er staðið sparar það peninga að hafa sem hæst hlutfall af heilbrigðu, virku og hamingjusömu fólki, þessvegna er velferðarkerfi ekki bara mannúðarmál, heldur líka hagkvæmt.

Langvarandi atvinnuleysi hefur ekki bara fjárhagserfiðleika í för með sér, það er langtum alvarlegra en svo. Þegar maður hefur á tilfinningunni að hann sé eingöngu byrði á samfélagi sínu, að enginn hafi þörf fyrir starfskrafta hans og að eini áhugi stjórnvalda á velferð hans snúi að því að halda í honum lífinu, er eðileg afleiðing af því, það sem kallast má lært hjálparleysi. Fólk verður framtakslaust, það missir metnað sinn, sjálfsmat þess verður neikvæðara. Endalaus frítími en engir peningar til að njóta hans á þann hátt sem markaðurinn segir að sé við hæfi og takmarkaður félagsskapur (því allir sem áður töldust jafningar þínir eru í fullri vinnu) auka svo enn á einmanaleikann og eymdina. Þetta ástand getur leitt til alvarlegs þunglyndis, sem aftur er ein af orsökum aukinnar óreglu og glæpastarfsemi.

Þegar stjórnvöld sjá fram á langvarandi atvinnu leysi er nauðsynlegt að koma á einhverskonar atvinnubótavinnu. Laun fyrir vinnu þurfa að vera hærri en atvinnuleysisbætur, jafnvel þótt það séu störf sem ekki eru bráðnauðsynleg til að halda samfélaginu gangandi, vegna þess að fólk sér yfirleitt lítinn tilgang í því að vinna nema það skili því meiri lífsgæðum.

Það er enginn skortur á verkefnum sem einhver þyrfti helst að vinna. Fólk á sjúkrahúsum, elliheimilum, fangelsum og fleiri stofnunum yrði himinlifandi ef einhver kæmi til að sinna félagslegum þörfum þess nokkra klukkutíma á viku. Það hefði sáralítinn aukakostnað í för með sér.

Í ársbyrjun 2009 heyrðust hugmyndir um að atvinnulausir fengju ókeypis aðgang að ýmsum menningarviðburðum sem annars krefjast fjárútláta þegar mörg sæti væru hvort sem er laus. Hvað varð um þær hugmyndir? Það væri velferðarmál sem ekki krefðist stórra útgjalda.

Af hverju geta læknar ekki framvísað þunglyndum, feitum og bakveikum sundskírteini eða aðgangskorti að líkamsræktarstöð í stað lyfja? Það væri velferðarmál.

Af hverju viðgengst það að hús standi auð á sama tíma og hópar af duglegu en skítblönku fólki dreymir um að koma á pólitískri félags- og menningarmiðstöð fyrir almenning? Það er engin slík miðstöð í Reykjavík, Friðarhúsið kemst líklega næst því og margir hópar hafa fengið afnot af því fyrir ákveðin verkefni en það er þörf fyrir miðstöð sem er stöðugt opin og aðgengileg. Það væri velferðarmál að bjóða grasrótarhreyfingum afnot af húsum sem standa auð.

Ókeypis strætóferðir fyrir þá sem ekki eiga bíl væru líka bæði umhverfis- og velferðarmál.

Það er eitt af sjúkdómseinkennum frjálshyggjunnar að hugsa velferðarmál fyrst og fremst út frá krónutölu og hvað stóriðjulausnina varðar, bendi ég á að Danir eiga engar auðlindir en halda samt uppi velferðarkerfi sem stendur hinu íslenska mun framar.