Glámbekkurinn

Þegar ég er orðin húsgagnahönnuður, ætla ég að sérhæfa mig í hönnun glámbekkja. Ekki klámbekkja því ég held að sé nóg framboð á þeim á markaðnum.

Ég var nær fullorðin þegar ég áttaði mig á þeirri augljósu staðreynd að glámbekkur hlýtur að vera bekkur fyrir glám. Kannski vegna þess að bekkir eða hillur sem eru sérstaklega til þess hugsaðar að geyma á þeim gleraugu, fylgja sjaldnast innréttingum. Sem er auðvitað stórfurðulegt í ljósi þess að á meðalheimili má gera ráð fyrir því að einhver þurfi fyrr eða síðar á gleraugum að halda. Og þar með glámbekk til að geyma þau á.

Ég reikna með að hönnun glámbekkja muni færa mér ótakmörkuð auðæfi.

Þá verðum við ekki ljóti andarunginn

nato_skilti_stor_280114Æ æ. Það yrði nú ljótan ef við yrðum eina liðið í félaginu án loftvarna. Sem betur fer er til einföld lausn.

-Við ættum fyrst að vera stolt af því að vera eina Natóríkið án loftvarna.
-Næst ættum við að draga fyrir dóm þá menn sem hafa gefið okkur ástæðu til að óttast að aðrar þjóðir líti á okkur sem óvini, biðja Íraka formlega afsökunar og biðja þá að líta á þá stefnu okkar að vera vopnlaus og varnalaus sem merki innilegrar iðrunar.
-Við ættum að sýna friðarvilja okkar með því að kjósa ekki á þing þá sem hlaupa með lafandi tungu á eftir stríðsherrunum, heldur hina sem vilja losa okkur undan þeirri smán að eiga aðild að hernaðarsamtökum.

Ef við gerum það verðum við ekki lengur eina ríki Atlantshafsbandalagsins án loftvarna.

Þarf virkilega að ræða það?

healthWrightÉg er frekar hrifin af þeirri aðferð að ræða málin fordómalaust frá öllum sjónarhornum áður en ákvörðun er tekin. Sumar hugmyndir eru samt svo siðlausar að það er engin ástæða til að ræða þær.

Þegar Darri fæddist spurði Haukur mig auðmjúklega hvort hann mætti lemja litla barnið. Ég sá ekki sérstaka ástæðu til að skoða möguleikann á því að uppfylla þessa barnalegu ósk eða ræða hana frekar. Sagði honum bara að svoleiðis gerði maður ekki, án þess að rökstyðja það nánar.

Ég sé heldur ekki ástæðu til að ræða möguleikann á því að ríkir fái forgang eða sérþjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Þetta er allt að koma

Við erum búnar að fá „ráðstefnusalinn“ afhentan… vííí!

Fáum 25 manna hóp úr MH í heimsókn á mánudaginn svo ég reikna með að fyrirhuguð dansæfing með Hörpu og Sigrúnu (sem stóð til að yrði fjögurra tíma sessjón) verði í styttri kantinum.

Nú þegar búið er að fixa og trixa bloggið mitt svo ég get fengið ritræpu án þess að lenda í vandræðum, hef ég hvorki tíma né andríki til að skrifa.

En þessa dagana gerast góðir hlutir á viðunandi hraða og bráðum verður allt fullkomið.

Geðprýði dagsins

Síðustu 10 daga hafa útsendarar Ístaks í Vesturbænum andskotast með höggbor á stærð við Hallgrímskirkju, án afláts, á bak við búðina mína. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Ístaks mun framkvæmdum, með margvíslegri hljóðmengum, ljúka í júní 2007 og er útilokað að segja til um hversu lengi við þurfum að búa við ófögnuðinn af þessum bor. Halda áfram að lesa