Nánd

Grasagarðurinn mannlaus, fyrir utan okkur tvö.

Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni snarstansar og slítur höndina upp úr vasanum.
-Fyrirgefðu hvað ég er sljór, segir hann, og tekur í höndina á mér .
-Sljór? hvái ég.
-Þú sýndir mér lófann. Tvisvar. Og ég skildi ekki hvað þú varst að biðja um.
-Sýndi ég þér lófann? Það hefur ekki verið meðvitað,
segi ég.
Gott að vita að þú gerir stundum eitthvað ómeðvitað eins og annað fólk, segir hann og leiðir mig áfram í gegnum garðinn.

Þá verður líf þitt lágfreyðandi

Ég hef svo mikla reynslu af því að hjálpa sjálfri mér að ég gæti skrifað heilt bókasafn af sjálfshjálparbókum.

Ég reikna samt ekki með að gera það.

Í raun þarf maður ekki að kunna nema eina grundvallarreglu til að komast út úr hringiðu dramsýkinnar og verða þeirrar gæfu aðnjótandi að geta horft á sápuóperu tilverunnar utan frá í stað þess að hrærast í henni þáttaröð eftir þáttaröð.

Reglan er þessi:
Veröldin er full af dásamlegu fólki sem vill þér vel. Þú þarft ekki að umgangast þessa örfáu sem gera líf þitt erfiðara.

Söngur þakrennunnar

Þegar ég var barn
söng þakrennan í vindinum.

Á daginn kátt og klingjandi
-þá voru álfar á ferli.
Um nætur djúpt og dapurlega
-þá riðu draugar húsum.
Regnvatnið rann niður glufur
í ryðguðu rörinu
og lék undir þann söng.

Dag nokkurn gerði mikinn storm
og þakrennan hrundi niður.
Það gerði ekkert til,
hún var hvort eð var búin að gegna sínu hlutverki.

Og söng ekki framar.

Ný renna kom í hennar stað.
Heil og gljáandi,
beindi regnvatninu aðeins eina leið.
Hina réttu leið.
Og söng ekki.

Þann dag voru fjöllin hnípin
og vöfðu grá sjölin
fastar að herðum sér.

Hvað gerið þið þegar enginn annar er hérna inni?

Undanfarna daga hafa þrír krakkar komið inn í búð til mín og spurt hvað við gerum þegar engir kúnnar eru í búðinni.

Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma velt þessu fyrir mér þegar ég var barn. Allavega ekki fyrr en ég var orðin nógu gömul til að átta mig á því að „búðarkonan“ þarf að gera fleira en að afgreiða.

Mér finnst skrýtið að þessi spurning komi svona dag eftir dag. Ætli sé að spinnast einhver goðsögn um okkur eða eru börn almennt að velta fyrir sér hinum ósýnilega hluta hinna ýmissu starfa. Spyrja þau t.d. tannlækninn hvað hann sé að gera á milli þess sem hann tekur á móti sjúklingum?

Leysingar

Myrkar skríða nætur
úr skotunum
gera sér hreiður í snjóruðningum

og dagarnir
skoppa út í bláinn.

 

Síðar breytti ég þessu ljóði en ég held að fyrri gerðin sé betri. Seinni gerðin er þannig:

Myrkar skríða nætur
úr skotunum
gera sér hreiður í snjóruðningum;
þar hafa dagarnir sofið.

Í mjóum taumum
renna þeir út á götuna
leystir úr viðjum
skoppa þeir fagnandi
út í bláinn.

Nýr málsháttur

Rím og stuðlar láta málshætti hljóma vel en þeir auka ekki endilega sannleiksgildi þeirra. Geta jafnvel verið villandi.

Þetta veit hún Heiða mín, sem notar gjarnan málsháttinn margur er knár, án frekari skýringar, enda eru knáindi manna líkamsvexti þeirra óviðkomandi.

Oft er flagð undir fögru skinni er álíka sönn speki. Ég hef orðið vitfirringslega ástfangin af tveimur forljótum mönnum, sem hvor um sig gaf mér nýjan skilning á orðinu drullusokkur. Dreg af því þá ályktun að ankannalegt útlit sé engin trygging fyrir fjarveru fláræðis og flagðabragða. Gallinn er sá að oft er flagð er ekki góð setning. Margur er flagð, væri kannski betra. Eða ekki. Auk þess finnst mér málsháttur ekki réttur nema hann feli í sér stuðla eða eða rím.

Ég tek hér með upp nýjan málshátt og sannari til mótvægis við gamla bullið:
Margur er þrjótur, þótt hann sé ljótur.