Þegar ég var barn
söng þakrennan í vindinum.
Á daginn kátt og klingjandi
-þá voru álfar á ferli.
Um nætur djúpt og dapurlega
-þá riðu draugar húsum.
Regnvatnið rann niður glufur
í ryðguðu rörinu
og lék undir þann söng.
Dag nokkurn gerði mikinn storm
og þakrennan hrundi niður.
Það gerði ekkert til,
hún var hvort eð var búin að gegna sínu hlutverki.
Og söng ekki framar.
Ný renna kom í hennar stað.
Heil og gljáandi,
beindi regnvatninu aðeins eina leið.
Hina réttu leið.
Og söng ekki.
Þann dag voru fjöllin hnípin
og vöfðu grá sjölin
fastar að herðum sér.