Dindilhífihælar

Thailenska búðin við Engihjalla finnst hvorki í símaskránni né á gulu línunni. Ég var samt svo þrælheppin að finna dindilhífihæla í mínu númeri í dag!

Ég get reyndar alveg hugsað mér að eiga fleiri skó sem passa á mig, þ.á.m. fokkmíbúts, ég hef aldrei átt slík.

Veiðarfæri

Annaðhvort hefur álitlegum karlmönnum í umferð fjölgað með hraði síðustu vikuna eða þá að minn standard hefur lækkað all snarlega.

Í gær hitti ég af tilviljun gamlan félaga sem er ekki fíkill og er viðhengislaus í augnablikinu. Hann fékk símanúmerið mitt.

Í dag mun ég hitta sætan sölumann sem virðist við fyrstu kynni allavega, hafa sæmilega heilbrigð pólitísk viðhorf.

Veðurspáin gerir víst ekki ráð fyrir dónalega stuttu pilsi næstu daga og ekki hef ég enn fundið dindilhífihæla í mínu númeri. Kannski ætti ég í staðinn að ganga með nokkur jarðarber á mér og leika þau lostafullum vörum þegar eintök af hinu hærðara kyni verða á vegi mínum. Þeir ku víst vera svo einfaldir þessar elskur.

Áætlun 1

Enga höll hef ég ennþá reist mér fyrir austan sól,
aðeins lítið hús fyrir austan fjall
og garðurinn í óttalegri órækt.

Enga sigurför hef ég farið á hvítum hesti á enda veraldar,
tel það nokkuð gott að aka út í Kaupfélag,
hef ekki einu sinni rænu á að þrífa bílinn.

En dag nokkurn mun ég að standa upp
og axla bakpoka áhættunnar.
Leggja leið mína yfir fjöllin sjö
þangað sem nornir sitja ennþá og spinna mér örlagaþráð.

Og ég mun hrifsa þann þráð úr höndum þeirra
og setja upp minn eigin vef
og slá hann af krafti,
til hallarbygginga og sigurfara,
sjálf.

Þegar ég er búin að koma garðinum í þokkalegt stand
og bóna bílinn.

Í alvöru

Seyðkonan: Það er æðislegur maður að vinna þar. Ég meina æðislegur, þú veist, í alvöru æðislegur. Svo er líka annar en hann er svona meira eins og fyrir þig.

Jamm. Það er harla ólíklegt að við eigum nokkurntíma eftir að slást út af karlmanni.

Ástagaldur

Áhrifa ástargaldursins sem ég framdi um síðustu helgi er þegar farið að gæta. Hver sjarmörinn á fætur öðrum hefur sýnt mér athygli síðan þá og ég sé ekki betur en að dræsugallinn sem ég hef notað árangurlaust í margar vikur, sé skyndilega farinn að skítverka.

I feel pretty.

Það verður fróðlegt að sjá hvað rekur á fjörur mínar um helgina.

Allt fer þetta einhvernveginn

Þetta verður allt í lagi
sagði ég sannfærandi
og lét sem ég tæki ekki eftir efanum
sem seytlaði niður í hálsmálið
og rann í köldum taum niður bakið.

Þetta bjargast áreiðanlega
sagði ég ákveðin
og þóttist ekki finna hvernig ég kipptist til
þegar kvíðinn skreið upp í buxnaskálmina
og nartaði í hnéð.

Allt fer þetta víst einhvernveginn
tautaði ég
og bauð hættunni heim
á meðan uggurinn gróf sig undir hörundið
og bjóst til vetursetu.

Og þegar allt fór á versta veg
og angistin skaut rótum
á bak við þindina
sá ég ekki ástæðu til að líta í spegilinn.
Allt fór þetta jú einhvernveginn
og ég varð ég ekki einu sinni hissa.

Elena

 

Ég þýddi þennan texta fyrir Begga bróður minn. Síðasta erindið er til í tveimur útgáfum, poison arms og broken arms. Mér finnst poison gefa ljóðinu merkingarauka sem ég reyni að undirstrika í þýðingunni. Lesendur geta svo skemmt sér við að giska á hvaða karlmannsnafn ég hefði notað í stað Angeles ef ég hefði þýtt textann fyrir sjálfa mig. Halda áfram að lesa