Tiltekt

Stóð í tiltekt heima fram á nótt og er búin að verja því sem af er deginum í að smíða rafeindatæki.

Ég ætlaði eiginlega að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að grynnka á ruslasafni Ygglibrúnarinnar í dag en dauðlangar að lýsa hér með yfir helgarfríi og kíkja á sunnudagskrossgátuna.

Mér var boðið í tvö Júróvissjónpartý í gær en langaði ekki baun. Keppnin hefur aldrei höfðað til mín og ég hef yfirleitt ekki úthald í meira en 3-4 lög en auk þess hrís mér hugur við því að þurfa að blanda geði við fleiri en 2 ókunnuga í einu. Ég er að hugsa um að ráða mig á einhvern fjölmennan vinnustað í 4-5 tíma á dag. Það myndi allavega þvinga mig til að mynda einhver félagsleg tengsl. Ég er hægt og rólega að verða eins og Gísli á Uppsölum.

Þversögnin í umræðunni um Silvíu Nótt

sylvíaÍslendingar lifa sig inn í Júróvissjón. Annað menningarlíf leggst nánast af á meðan á keppninni stendur og þjóðin liggur í þynnku daginn eftir.

Íslendingar senda fulltrúa sinn til keppni. Að þessu sinni kemur meirihlutinn sér saman um leikna persónu, holgervingu sýndarraunsæisstefnunnar sem gegnsýrir alþýðumenningu okkar þessa dagana. Halda áfram að lesa

Pólitísk krísa

Ég er í pólitískri krísu. Sem ég lendi reyndar í fyrir hverjar einustu kosningar.

Ég er flokksbundin í VG af tveimur ástæðum:

a) Ég treysti heilindum forystumanna flokksins -ennþá.
b) Enginn annar flokkur er verulega heitur í þeirri afstöðu að náttúran hafi réttindi, óháð því hvort einhver nennir að góna á hana eður ei og enginn annar setur sig gegn veru okkar í Nató.

Umhverfismálin eru mitt hjartans mál. Að sjálfsögðu vil ég líka að við séum góð við gamla fólkið og veiku börnin en það ætla nú allir flokkar að gulltryggja. Að flestu leyti er ég hægri krati, let´s face it, en ég myndi aldrei fórna umhverfisstefnu og heilindum fyrir stefnuskrá sem að öllu öðru leyti væri algerlega eftir mínu höfði.

Samfylkingin hefur margsinnis sýnt að þar á bæ ræður hentistefna ferðinni, frjálslyndir bjóða ekki fram í Hafnarfirði. Auk þess treysti ég þeim ekki rassgat og þar fyrir utan finnst mér hreinasta rugl að endurvekja sveitir landsins.

VG

Aldrei hefði hvarflað að mér að óreyndu að við yrðum beðnar um að selja lopapeysur til Afríku. Viðskiptin hreinlega þefa okkur uppi.

Ég er að hugsa um að nefna viðskiptagaldrana mína VG.