Tiltekt

Stóð í tiltekt heima fram á nótt og er búin að verja því sem af er deginum í að smíða rafeindatæki.

Ég ætlaði eiginlega að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að grynnka á ruslasafni Ygglibrúnarinnar í dag en dauðlangar að lýsa hér með yfir helgarfríi og kíkja á sunnudagskrossgátuna.

Mér var boðið í tvö Júróvissjónpartý í gær en langaði ekki baun. Keppnin hefur aldrei höfðað til mín og ég hef yfirleitt ekki úthald í meira en 3-4 lög en auk þess hrís mér hugur við því að þurfa að blanda geði við fleiri en 2 ókunnuga í einu. Ég er að hugsa um að ráða mig á einhvern fjölmennan vinnustað í 4-5 tíma á dag. Það myndi allavega þvinga mig til að mynda einhver félagsleg tengsl. Ég er hægt og rólega að verða eins og Gísli á Uppsölum.