Spegilbrot

Spegilbrot – 1

Svala að sumri
svella við vetrarins kul
blár þinna brúna

Spegilbrot – 2

Lít eg þig augum
les þér úr hári og hug
örlagaþræði.

Spegilbrot – 3

Fjórleikur augna
orðalaus snerting við sál
faðmi þér fjarri.

Spegilbrot – 4

Hljóð hefur farið
dauða um hendur mér, köld
hvítmyrkurþoka.

Angurgapi

Er nokkuð að marka þetta? Er þetta ekki bara óttaleg vitleysa, hnussaði Angurgapinn og geiflaði sig af hneykslan þess sem þarf ekki að kynna sér hlutina áður en hann dæmir þá.

Venjulega útskýri ég hugmyndafræðina í stuttu máli en þessi var greinilega bara komin til að fá útrás fyrir einhverja geðbresti og það eru takmörk fyrir því hversu langt ég nenni að ganga í samfélagshjálpinni.

Jafnvel þótt ég væri nógu galin til að byggja rekstur fyrirtækis á tómri vitleysu, væri ég samt ekki nógu heimsk til að viðurkenna það svaraði ég drungalega og gaut augunum illilega á hana.

Hún keypti reykelsi. Þefaði ekki einu sinni af þeim fyrst.

Skilnaðarblús

Í síðustu viku sölsaði ég undir mig Nornabúðarveldið. Nú þarf ég bara að finna meðeiganda sem nennir að standa í því að hnattvæða dæmið.

Ef búðin væri þegar orðin hnattræn (eða „global group“, svo maður tali nú skiljanlegt mál), gæti ég fundið meðeiganda í gegnum raunveruleikaþátt. Fyrsta verkefnið yrði að leggja tarotspil fyrir Birgi Baldurs. Ekki af því að ég hafi unun af því að horfa á fólk þjást (ég hef það vissulega en einmitt þessvegna voru bollgaggið og pískurinn sett á markað), heldur til að útiloka miðlamafíuna og finna fólk sem getur staðið með mér án þess að þurfa vikulega áfallahjálp.

Ég hef komist að því síðustu daga að skilnaður við viðskiptafélaga er meira vatnslosandi en netluseyði. Munurinn á þessu og skilnaði við fávita af loðnara kyninu er sá að viðskiptafélaginn hefur hvorki umgengnis- né forsjárskyldu gagnvart afkvæminu.

Sem betur fer er samt allt í góðu á milli okkar og ég reikna með einhverju samstarfi áfram. Og það er nú gott því ég elska Spúnkhildi meira en búðina. Ef það er þá hægt.

Afrek dagsins

Sögulegur atburður hefur átt sér stað. Ég innbyrti mat sem inniheldur fleiri næringarefni en hvítan sykur og coffein.

Ég hef aldrei átt erfitt með að treysta fólki. Enda er fólki almennt treystandi. Fólk bregst nánast aldrei af því að það sé illa innrætt, heldur vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Í augnablikinu á ég ponkulítið erfitt með að treysta aðstæðum þeirra sem hafa lýst yfir áhuga á samstarfi. Það er nefnilega fyrirsjáanlegt að aðstæður gætu orðið óviðráðanlegar.

Ég er satt að segja búin að fá af óviðráðanlegum aðstæðum í bili.