Venjulegt?

Mér finnst dálítið óhugnanlegt til þess að hugsa að það séu „venjuleg viðbrögð“ hjá sérsveitinni að miða byssum á höfuð óvopnaðra unglinga sem af tilviljun eru staddir nálægt hugsanlegum vettvagi glæps. Hversu góðum rökum þarf grunur að vera studdur? Er nóg að vera á ferð í götu þar sem eitthvað hefur gengið á? Í hverfinu? Er nóg að líta grunsamlega út?

Ég velti því fyrir mér hvort sérsveitin hefði brugðist jafn „venjulega“ við ef ungar stúlkur hefðu komið gangandi eða akandi frá húsinu. Móðir með börn? Hjón á áttræðisaldri? Þrír þekktir embættismenn? Þrír þekktir fjölmiðlamenn?

Getur verið að það sé út af fyrir sig grunsamlegt að vera „gaur“?

Heimsókn til Þórunnar

Í dag er alþjóðadagur grasrótarheyfinga gegn stóriðju. Þeir sem standa að þessu degi eru m.a. Saving Iceland, Rise Against í Trinidad, Earthlife Africa í S-Afríku, Alcan´t í Indlandi, Movement of Dam Affected People í Brasilíu og Community Alliance for Positive Solutions í Ástralíu. Allar þessar heyfingar eiga í höggi við sömu fyrirtækin en þar ber hátt nöfn eins og Rio-Tinto, Alcan og Alcoa.

Halda áfram að lesa

Trúin læknar nottula allt

Reyndar vildi ég miklu frekar að trúboðar beindu áróðri sínum að slagsmálahundum og fyllibyttum en að börnum í leik- og grunnskólum en mér finnst samt eitthvað óhuggulegt við að fá staðfestingu á því að yfirmaður hjá lögreglunnii álíti trúboð gott stjórntæki.

Vinkona mín varð fyrir alvarlegu bílslysi í fyrra og hefur átt við þráláta verki að stríða síðan. Um daginn fór hún til læknis og bað um sterkari verkjalyf. Nú vill svo til að fyrir 15 árum var hún í óreglu og væntanlega í tilefni af því spurði læknirinn hana hvort hún héldi ekki að hún hefði meira gagn af AA fundum en verkjlyfjum. Óháð því hvort er einhver ástæða fyrir hugmyndum hans um að hún ætli að misnota lyfin (mér finnst sjálfri eðlilegt að treysta fólki sem hefur tekið ábyrgð á lífi sínu í 15 ár) er með öllu óþolandi að fólki sem leitar til læknis sé vísað á sértrúarsöfnuð. Að sama skapi vil ég að löggæslan sinni sínu starfi án aðstoðar trúboða.

Mara

Skrattinn steig niður af veggnum og tróð sér undir sængina.
-Hvað varð um líkið sem þú geymdir í kjallaranum? spurði hann og rak kaldar klaufirnar í vinstri sköflunginn á mér.
-Ég gróf það, svaraði ég og breiddi betur úr mér í von um að hann yrði fljótt leiður á þrengslunum.
-Meeeehhh. Hversvegna varstu að grafa þetta fallega lík? spurði hann og lét ekki á sér finna að plássleysið færi neitt fyrir brjóstið á sér. Halda áfram að lesa

Verjum Þjórsá

Þann 12. september standa grasrótarhreyfingar víða um heim fyrir alþjóðlegum mótmælum gegn stóriðju. Á Íslandi er þessi dagur helgaður stuðningi við baráttu íbúa í nágrenni Þjórsár gegn áformum Landsvirkjunar um stíflur og lón í neðri hluta Þjórsár.

Þær aðgerðir sem eru fyrirhugaðar á vegum Saving Iceland þennan dag eru afskaplega Íslendingslegar (eins og reyndar flestar aðgerðir Saving Iceland, það eru aðeins þær allra hörðustu sem rata í fjölmiðla) og ættu að henta jafnvel forpokuðustu hvítflibbum. Við ætlum að fá okkur labbitúr fyrir framan Stjórnarráðið, dreifa lesefni og svo er fyrirhuguð mótmælastaða við Þjórsá og nestisferð að Urriðafossi.

Þeir sem hafa áhuga á að vera í samfloti að Þjórsá geta sent mér tölvupóst eða hringt í mig.

Brú

Auðvitað hlaut að koma að því að við hittumst á götu. Nánar tiltekið rétt fyrir utan Nornabúðina -sem er reyndar rökrétt.
-Nú er ég „hið óumflýjanlega“, hugsaði ég kampakát, kastaði á hann kveðju, bauð honum ekki inn með orðum en skildi dyrnar eftir opnar, bara svona til að kanna viðbrögðin. Hann fylgdi mér inn. Halda áfram að lesa