Mér finnst rigningin góð

Saving Iceland liðar fóru að Þjórsá í dag.

Mér finnst rigningin góð. Þ.e.a.s. rigning eins og í dag. Ég man ekki hvenær ég var úti í svona úrhelli síðast, það hljóta að vera mörg ár. Við þurftum að borða nestið inni í bílunum, annars hefði það orðið að brauðsúpu. Við vorum flest vel klædd en vatnið smaug niður hálsmál, inní ermar og ofan í skó. Einn var ekki í regnfatnaði og það var ekki þurr þráður á honum þegar við snerum heim. Samt var ekkert kalt. Það var reyndar mjög hvasst á leiðinni austur en gekk niður þegar við komum þangað.

Við vorum ekki mörg en þetta var lygilega gaman. Ekki of erfitt og bílarnir bara vel hitaðir svo engum varð kalt. Líklega er allt skemmtilegt í þessum félagsskap og ég held svei mér þá að þessi 86 ára hafi skemmt sér manna best. Allavega kjaftaði á henni hver tuska og hún sagðist hafa lifnað öll við eftir að hún fór að vinna með Saving Iceland. Einhverjir reyndu að fá hana ofan af því að fara með vegna þess hvernig veðrið var en hún tók það ekki í mál og sagðist ekkert vera viss um að hún fengi fleiri tækifæri til að sjá Urriðafoss.

Það er eitthvað sérstakt við að standa gegndrepa á steini og horfa á foss, vera samt ekki kalt eða með eyrnaverk. Mig langaði að kyssa einhvern. Samt kyssti ég engan.

Eva | 18:23 | Varanleg slóð |

Tjásur

viss um að þú kysstir rigninguna..

Posted by: baun | 13.09.2007 | 9:19:05