Facebook

Ég hef ekkert notað facebook sjálf en nokkrir af vinum mínum og kunningjum hafa gefið mér aðgang að síðunum sínum. Það er út af fyrir sig gaman að fá að sjá myndir úr daglegu lífi fólks sem manni líkar vel við. Mér finnst aftur á móti mjög einkennilegt þegar fólk sem ég hef aldrei séð eða talað við og veit nákvæmlega ekkert um, er að skrá mig sem „vin“ á facebook. Ég gæti skilið það ef þetta væru listamenn að reyna að vekja athygli á stórkostlegum ljósmyndum, eða einhver að leita að týndum vini en þetta eru bara venjulegar myndir af vinum og fjölskyldu viðkomandi. Af hverju ætti ég að hafa áhuga á fjölskyldu- og partýmyndum fólks sem ég þekki ekkert og af hverju vill þetta fólk endilega að ég skoði þær?

 

Ó Yoko

Ég get ekki sagt að ljósastaur hræsninnar særi skattgreiðandann í mér neitt tilfinnanlega. Ég hef áreiðanlega einhverntíma pungað út nokkrum krónum fyrir eitthvað sem er a.m.k. jafn ómerkilegt og partý fyrir fólk sem er of fint fölende til að þola nærveru hernaðarandstæðinga og annars almúgafólks sem borgar fyrir herlegheitin. Það kætir öllu heldur í mér kuldabolann að vita af þessum ljósengilslim sem tákni um stefnu Íslendinga í friðarmálum.

Ég veit ekki alveg hvort mér finnst betur viðeigandi, aðkoma Orkuveitunnar, sem svo sannarlega hefur stutt hernað og mannréttindabrot dyggilega, eða tímasetningin en í dag lýkur einmitt fundi hernaðarbandalags sem við Íslendingar erum svo lukkuleg að tilheyra og þar með að bera ábyrgð á dauða, limlestingum, fátækt og sorg þúsunda manna, sem hafa ekki hugmynd um það hvað við erum friðelskandi og menningarleg.

Það eina sem ég hefði viljað hafa öðruvísi er efniviðurinn. Limur ljósengilsins hefði vitanlega átt að vera úr áli.

Sannleikann

-Koníak? spurði Pegasus og þótt koníak hljómi eins og eitthvað virkilega rétt í bland við arineld og klassíska tónlist, verð ég að játa á mig slíkt menningarleysi að þykja koníak í skársta falli innbyrðanlegt sem fylling í konfektmola. Auk þess var ég á bíl og ætlaði ekki að gista.
Halda áfram að lesa

Hver var Pegasus?

-Hver er Pegasus?
-Pegasus var vængjaður hestur. Musurnar áttu hann, skáldgyðjurnar.
-Láttu ekki svona. Fannstu þér bara nýja musu eða áttu kærasta?
-Neeeei…
-Ne EEEEi? Hvað áttu við? Þú ert allavega eitthvað að slá þér upp? Halda áfram að lesa

Galdr

Það eru ekki örlög mín að verða blönk. Mammon er búinn að finna fullt af peningum handa mér. Vííííí!

Það sem hægt er að gera með einni hrafnskló, það er með ólíkindum. Og ég sem hélt að þetta yrði svo erfiður mánuður. Ég sá jafnvel fram á að lenda í smávægilegum vanskilum og var farið að svíða í nískupúkann undan tilhugsuninni um dráttarvexti. Það er semsé ekki á dagskránni.

Galdur virkar. Í hvert einasta sinn. Yfirleitt samt ekki svona rosalega fljótt og vel. Þessir peningar komu bara eins og utan úr geimnum, ég átti engan veginn von á þeim. Ég er svo órtúlega heppin að stundum held ég að ég hljóti að vera að ljúga því.

 

Mannúðlegt?

Ég verð að viðurkenna, þrátt fyrir dálæti mitt á Amnesty, að ég skil ekki tilganginn með svona yfirlýsingum.

Hefur einhver heyrt um mannúðlega aftökuaðferð? Er yfirhöfuð hægt að nefna mannúð og aftökur í senn?