Hver var Pegasus?

-Hver er Pegasus?
-Pegasus var vængjaður hestur. Musurnar áttu hann, skáldgyðjurnar.
-Láttu ekki svona. Fannstu þér bara nýja musu eða áttu kærasta?
-Neeeei…
-Ne EEEEi? Hvað áttu við? Þú ert allavega eitthvað að slá þér upp?

-Slá mér upp? Óðinn, Satan, Guð, hvað merkir það eiginlega?
-Svona nú, segðu mér. Hvernig er hann?
-Bara. Bara stórfínn held ég.
-Ok, ég skal giska. Lítill, sætur lopapeysuhippi á ryðguðu reiðhjóli. 10 árum yngri en þú. Ískrandi kátur en pínu feiminn líka. Skítblankur listamaður, er í stundakennslu í einhverjum framhaldsskóla eða í ótrúlegasta falli tölvunörd. Umhverfisvænn trúleysingi með söfnunaráráttu eða eitthvað annað sem þú getur tekið að þér að laga og haldinn tvinnakeflalosta eða eitthverju álíka undarlegu blæti.
-Ekki alveg.
-Jæja, ég er þá bara enginn spámaður. Leiddu mig í allan sannleikann.
-Er einhver nálægt sem getur veitt þér áfallahjálp?
-Eva, ekki segja mér að þú sért ástfangin af Friðrik Zophussyni?
-Nei, það er nú ekki svo slæmt.
-Jæja, út með sprokið.

-Hvernig hljómar hár og grannur, árinu eldri en ég, burstaklipptur í einkennisbúningi, býr í höll, á fjallajeppa, sportbíl og mótorhjól, pólitískt úti í móa og heldur sennilega að sonnetta sé aktivistahreyfing?
Löng þögn.

-Eva. Þú ert að grínast er það ekki?
-Nei.
-Og hvað? Er hann kannski strangtrúaður kaþólikki líka?
-Nei, vá, ég er nú allavega með annan fótinn á jörðinni ennþá.
-Ekki heyrist mér það. Hann hlýtur að vera algjört dýr í rúminu. That would explain it.
-Það má vel vera, ég bara veit það ekki.
-Ætlarðu að segja mér að þú sért ekki búin að prufukeyra gaurinn í bælinu?
-Sannleikurinn er jafnan lygilegastur.
-Kræst. Þú hlýtur að vera ástfangin.
-Ég segi það nú kannski ekki.

-Eva.
-Já.
-Er allt í lagi?
-Jájá. Alveg bara í himnalagi.
-Sorrý ef ég er leiðinlegur elskan en þetta hljómar eins og sorgarviðbrögð.
-Nú jæja? Hef ég einhverntíma brugðist við sorg á þennan hátt?
-Kannski ekki en þú hefur hingað til lagt æpandi á flótta undan hverjum þeim manni sem þig grunar að sé með meira en 170.000 í mánaðarlaun.
-Ég trúi á réttinn til að skipta um skoðun.
-Og ef hann sleikir eyrað á þér, ætlaðu þá líka að skipta um skoðun á því?
-Hann sleikir ekki eyrað á mér.