Keli vill endilega að ég skrifi lýsingu á því hvernig ástfangin kona hegðar sér. Nú er ég blessunarlega laus við ásókn ástfanginna kvenna og væri nú kannski betur viðeigandi að Keli skrifaði slíka grein sjálfur en það er nú ekki oft sem Keli biður mig um eitthvað svo habbðu þetta til marks góurinn: Halda áfram að lesa
Konan sem bíður
Sat hún ein við sauma
sumarbjartar nætur,
brynju gerði úr Björkum
batt sér Jó um fætur.
Reið á klæðin risti,
ramman Þurs hún vakti.
Kontórstingja Kaunir
kossum sjálf hún þakti.
Við eigum rétt á að vita það líka
Um daginn stóð Útvarp Saga fyrir skoðanakönnun á því hvort fjölmiðlar ættu að gefa upp þjóðerni meintra afbrotamanna og þjóðarsálin álítur víst að það sé rétt, gott og nauðsynlegt. Ekki er ljóst hvaða tilgangi það á að þjóna, nema þá helst þeim að auðvelda okkur að meta líkurnar á glæpahneigð út frá þjóðerni. Ef kemur t.d. í ljós að 20 Pólverjar hafa verið sakaðir um líkamsárásir, þá hlýtur það að segja eitthvað um eðli og innræti Pólverja almennt og full ástæða til að kenna börnum okkar að varhugavert sé að umgangast slíkan óþjóðalýð og aðra negra. Halda áfram að lesa
Hvítt er litur hreinleikans
Æðisleg röksemdafærsla hjá þessum kjánum.
Ég er líklega eins hvít og fólk sem ekki þjáist af blóðskorti getur orðið en þegar ég ber húðlit minn saman við hvítan ljósritunarpappír er „hreinleikinn“ langt frá því að vera augljós.
Ég hvet alla til að kynna sér málstað þessara hvítu hetja sem ekki þora að segja deili á sér. Ég vona sannarlega að síðunni verði ekki lokað því ekkert er líklegra til að verða þeim að falli en þeirra eigin málflutningur.
Já og ég fagna líka málfarinu og stafsetningunni á síðunni. Sá hroði kemur virkilega upp um menntunarstig, metnað og frumleika þessara djúpúðgu manna sem telja sig öðru fólki æðri. Ég er svona að velta því fyrir mér hvernig útkoman yrði ef ritstjóri Skaparans og ritstjóri Zion leggðu saman. Þessar síður eru svona álíka geðslegar og álíka gáfulegar líka.
Bara smá leki
Síðast þegar fréttist af lekanum úr aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar var hann um 200 lítrar á sekúndu en það ku víst ekki vera neitt umtalsvert samkvæmt talsmönnum Landsvirkjunar. Þar sem ekkert hefur heyrst meira um lekann frá því á miðvikudag í síðustu viku liggur beinast við að álykta að hann sé ennþá álíka mikill. Sé það rétt hefur á þessari einu viku, runnið út í jarðveginn vatn sem myndi nægja til að fylla Laugardalslaugina 46 sinnum. En þetta er auðvitað ekkert sem orð er á hafandi. Austurland er stórt og nóg pláss fyrir manngerðar mýrar.
Annars er ég að velta því fyrir mér hvort Mammon sé ekki bara að svara bænum mínum. Ef ég fæ Vigni til að selja Landsvirkjun vatslekanema verður vinnustofan mín orðin að stórveldi innan skamms og við getum farið að flytja inn Kínverja til starfa.
Kenndin
Mér finnst ég ekki veikbyggð en þótt hendur hans séu ekki stórgerðar nær hann utan um báða úlnliði mína með annarri þeirra. Rennir fingurgómum yfir kviðinn á mér og horfir á mig, mosamjúkum augum. Kyssir eins og á að kyssa. Elskar eins og á að elska. Fullkomið samspil hörku og blíðu, hann les mig rétt og ég finn að hann hefur það í sér, í alvöru. Leysir böndin á silkitoppnum mínum, sem er blágrænn eins og Pegasus. Og Kenndin rís úr djúpi aldanna; þykk, svört og voldug, hellist yfir mig, gagntekur mig.
-Já, hvísla ég þótt hann hefi ekki orðað neina spurningu.
-Ertu viss?
-Já.
Skrattinn steinsofandi í sauðarleggnum uppi við Rauðhóla og bærir ekki á sér. Það er fullkomnað.
Ligg í hálfmóki einhversstaðar milli ljóðs og vímu. „Maður fær ekki allt“ hef ég svo oft sagt. Hvílk della. Maður fær einmitt allt. Stundum meira að segja eitthvað betra en það sem maður biður um. Ég hefði orðið hæst ánægð með Elías en mér datt aldrei í hug að ég fengi Pegasus í staðinn.
-Ég treysti þér Pegasus, segi ég.
-Já, það er greinilegt, svarar hann og brosir kankvíslega eins og hann er vanur. Líklega kemur það mér meira á óvart en honum.
Það er fullkomnað.
Eftir öll þessi ár er það fullkomnað.
Óvænt
Ragnar á efri hæðinni færði mér hvítvínsflösku. Það gleður mig svo mikið. Ekki af því að ég sé svo mikill hvítvínssveglur heldur af því að mér þykir svo vænt um svona vináttuvott. Þetta var líka mjög óvænt. Hann hefur að vísu alltaf verið mjög notalegur í framkomu en ég bjóst ekki við þessu. Og neinei, hann er ekki að reyna við mig. Sumt fólk er bara svona indælt.