Spaug

Gálgahúmor höfðar ekkert sérstaklega til mín. Ég sé sjaldan neitt fyndið við stórslys, sjúkdóma, kynþáttahatur eða ofbeldi. Það eru helst Fóstbræður sem hafa hitt í mark hjá mér með ósmekklegheitum, mér fannst t.d. þátturinn þar sem fór fram kennsla í heimilisofbeldi sprenghlægilegur.

Mér fannst síðasti Spaugstofuþáttur lélegur. Það er svosem ekkert við því að búast að hver einasti þáttur sé akkúrat við mitt hæfi svo ég er nú svosem ekkert aftaka sorrý yfir því. Ég skil hinsvegar ekki alveg hversvegna fólk sem finnst bráðfyndið að gera grín að rónum, blindum, föngum, asíubúum, stjórnmálamönnum, misþroskuðum og öðrum undirmálshópum fer á límingunum ef geðsjúkir eru gerðir að aðhlátursefni.

Nýyrðasmiðir allra landshluta sameinist

Það vantar íslensk orð yfir ‘bionics’ í staðinn fyrir þessa 5 lína skýringu í orðabókinni, sem er aukinheldur svo flókin að mér dettur ekki í hug að læra hana nema eiga kost á prófskírteini út á það.

Plíííís, þið sem takið að ykkur að finna nýtt orð, látið það ríma á móti rassgat. Eða elska. Þátturinn gæti þá kallast krassgataða konan (það stuðlar m.a.s.) eða belskaða konan. Sko ég er m.a.s. komin með orðin svo nú þurfið þið nýyrðasmiðir bara að finna góð rök fyrir þeim.

Point of no return

Sunnudagur.

Kaffi og pönnukökur en að öðru leyti er lítill sunnudagur í mömmunni sem pakkar bókunum sínum í kassa á meðan börnin sveimhugast um íbúðina. Mamman minnir á fyrirætlanir sínar um að festa geymslu á mánudagsmorgun og mætir fullum skilningi hjá ungviði sem álítur ranglega að það sé svo lítið mál að koma persónulegu dóti og fatnaði burt að það sé engin ástæða til að byrja á því með 12 klukkustunda fyrirvara. Halda áfram að lesa

Róttæk aðgerð

Ætli maður að ýta ungunum út úr hreiðrinu í alvöru, þarf maður einnig að tryggja að þeir taki dröslin sín með sér. Hætt er við að ungmenni leggi undir sig hluta af heimilinu löngu eftir að þau eru flutt út og ég hef ekki í hyggju að reka búslóðageymslu fyrir börnin mín. Bílskúr pabba míns þjónaði okkur systrunum sem geymsla þar til hann seldi húsið og ég ákvað, m.a.s. áður en ég fjarlægði síðustu kassana mína, að læra af hans reynslu.
Halda áfram að lesa

Svooo boooooring!

Mér þykir miður að við skyldum bjóða þér í svona leiðinlegt partý, sagði Miriam, einlæg.

Ég lyfti brúnum í forundran. Sá alls ekki þessi meintu leiðindi. Þvert á móti finnst mér notalegt að geta haldið uppi samræðum við skemmtilegt og siviliserað fólk, án þess að þurfa að öskra. Drykkjuskapur í hófi, enginn leiðinlegur, enginn grenjandi, ælandi eða haldandi ógnarlangar einræður. Ég hafði satt að segja átt von á meiri hávaða, meiri drykkju og ruddalegri umgengni í þessu byltingarafmæli. Halda áfram að lesa

Undarleg þversögn

656528KB-banki lýsir því yfir að stóriðjustefnan skili harla litlum þjóðhagslegum ágóða. Samt líst landanum svona ljómandi vel á að fá fleiri álver.

Dag eftir dag minnir veðrið meira á apríl en janúar. Sumar eftir sumar sveltur lundinn vegna óeðlilegra hlýinda. Samt telur meirihluti Íslendinga að gróðurhúsaáhrif séu ekkert vandamál á Íslandi.

Í hvaða raunveruleikaþætti lifir þessi meirihluti eiginlega?