Mótmælandi bara til að vera á móti?

Eiríkur Harðarson skrifar tjásu við færslu sem ég birti í gær. Athugasemdin er svohljóðandi

Samkvæmt höfundarboxlýsingu þinni, kemur fátt annað upp í hugann en að þú hreinlega sért mótmælandi til að geta verið á MÓTI. þeim mun meira sem ég kynni mér málin, þá sækir æ fastar á huga minn að fólk“ekki allir“ telji það vera svo COOL.

Eiríkur er ekki sá fyrsti sem viðrar þetta viðhorf til svokallaðra mótmælenda, og finnst mér við hæfi að gefa greinargott svar.

Halda áfram að lesa

Held ég sé ástfangin…

… af Ragnari Aðalsteinssyni. Ég var að lesa yfir kröfu hans um leyfi til áfrýjunar dómnum í stóra vegatálmunarmálinu. Maðurinn er hvílíkur snillingur í því að koma fyrir sig orði að þessi lesning er á mörkum þess að vera ljóðræn. Ef hann væri bloggari myndi mig áreiðanlega langa að sofa hjá honum. Mig langar iðulega að sofa hjá góðum pennum, alveg þar til ég hitti þá í eigin persónu. Mín innri kynvera lifir í allt öðrum raunveruleika en ég sjálf. Sýndarveruleika netheima.

Skrýtið annars hvað það snertir djúpan streng í hjarta mínu að vita til þess að einhver verji mig. Þótt málið sé ómerkilegt og hafi ekki valdið mér umtalsverðum kvíða og jafnvel þótt hann fái borgað fyrir það, finnst mér samt eitthvað svo notalegt við það að einhver annar tali máli mínu. Kannski bara af því að það gerirst ekki oft. Venjulega er það ég sem stend í því að verja aðra.

Rapport

Ef allt gengur eftir fer ég til Tel Aviv þann 28. ágúst.

Kappa Fling Fling hringdi í mig og bauð mér betri kjör. Aftur! Ég skulda þessum banka helling af peningum og það hefði verið miklu rökréttara að skerða kjörin mín en bæta þau. Ég efast samt um að bankanum mínum þyki vænt um mig. Tek þessu frekar sem merki um að fýlan sé rokin úr Mammoni.

Ég er ekki frá því að hjartveikin í mér sé að skána. Ég á yfirleitt auðvelt með að taka ákvarðanir en er búin að vera í krísu út af búðinni alveg voðalega lengi. Mér þykir vænt um hana og vil ekki sleppa henni en hef svo sterka þörf fyrir að takast á við eitthvað nýtt að ég er lengi búin að vera að hugsa um að loka. Ég sé fram á að með því að fara í skólann geti ég bæði haldið í búðina og líka gert eitthvað fyrir heilann í mér.

Saving Iceland stendur fyrir dagskrá í Reyjavíkurakademíunni (JL húsinu) kl 19:30 í kvöld. Samarandra Des, indverskur sérfræðingur um áliðnaðinn heldur fyrirlestur um goðsögnina um hreina orku og Andri Snær Magnason mun einnig taka til máls. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og það er enginn aðgangseyrir. Ég hvet alla sem hafa áhuga á umhverfismálum eða vilja kynna sér rök stóriðjuandstæðinga til að mæta.

 

Hversvegna eru þau að þessu? SI stöðvar jarðhitaborun

,,Orkuveita Reykjavíkur fjárfestir í landi langra lista mannréttindabrota!”

HELLISHEIÐI – Í morgun stöðvaði umhverfishreyfingin Saving Iceland vinnu við eina af helstu jarhitaborholum á Hengilsvæðinu, þar sem Orkuveita Reykjavíkur stækkar nú Hellisheiðarvirkjun. Um 20 aktívistar hafa læst sig við vinnuvélar og klifrað upp á borinn til að hengja upp fána sem segir ,,Orkuveita Reykjavíkur burt frá Hellisheiði og Jemen”. Hópurinn hafði einnig í huga að fara í stjórnstöðvarherbergi svæðisins. Halda áfram að lesa

Ef þú smælar framan í heiminn

Já, við skulum endilega sýna þeim stjórnvöldum virðingu sem dæma unglinga til langrar fangavistar og draga lítil börn fyrir dóm ef þau lenda í klóm fíkniefnasala.

Og þeim sem fremja þjóðarmorð.

Og þeim sem drepa ungbörn.

Og þeim sem grýta fólk til bana.

Og þeim sem endurskilgreina pyntingar -og beita þeim.

Skömm mín á ríkisstjórn minni og forseta er harmi blandin. Ég skammast mín ekki fyrir að vera Íslendingur en ég skammast mín fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ólafur Ragnar Grímsson skuli vera það.

mbl.is Þrjú börn dæmd í þriggja ára fangelsi

Saving Iceland á Ítalíu og í Sviss

Merkilegt með hergöng sem eru framleidd hjá fyrirtækjum Alcoa. Þau eru eingöngu notuð til að verja fólk. Ekki til að ráðast á neinn.

http://savingiceland.puscii.nl/?p=2409&language=is

Ég sé að í greinina vantar tengil en ég reikna með að þetta sé tengillinn sem átti að fylgja henni:

Netsíða Alcoa

Og hér er svo smá á íslensku:

Alcoa er að eigin sögn hergagnaframleiðandi

Kort

Morðingi sem hefur engan hug á að láta af hátterni sínu býður þér til snobbveislu.

Á boðskortinu er tekið fram að geðsjúkir, eyðnismitaðir og fátækir séu ekki velkomnir.

Sýnir þú morðingjanum þá virðingu að mæta?

Það gerir forseti Íslands.

Ég er sár út í Ólaf Ragnar. Ég hef sjálf kosið hann til að gegna þessu skrautfjaðrarhlutverki og reiknaði allavega ekki með því að hann myndi gera eitthvað alvarlegt af sér, þótt ég hafi nú svosem ekki séð nein sérstök afrek af hans hálfu heldur. Það er alltaf dálítið fúlt að þurfa að viðurkenna að manni hafi skjátlast.

Ólafur Ragnar hefur brugðist sem forseti, sem fulltrúi þjóðarinnar á opinberum vettvangi. Nema þjóðin sé sátt við þá hugmynd að smjaðra fyrir stjórnvöldum sem brjóta samviskulaust gegn mannréttindum á alla hugsanlega vegu. Ekki veit ég hvaðan Ólafur fær þá hugmynd að harðstjórar séu líklegir til að snúa við blaðinu ef þeim er sýnd virðing. Það hefur aldrei gerst í veraldarsögunni en hinsvegar hefur fordæming alþjóðasamfélagsins og viðskiptahöft borið heimlikinn árangur.

Ég skil ekki af hverju almenningur kyngir því bara að hann ætli að mæta. Sjálf hélt ég upp á daginn með því að dreifa 150 kortum með textanum hér að ofan.