Saving Iceland á Ítalíu og í Sviss

Merkilegt með hergöng sem eru framleidd hjá fyrirtækjum Alcoa. Þau eru eingöngu notuð til að verja fólk. Ekki til að ráðast á neinn.

http://savingiceland.puscii.nl/?p=2409&language=is

Ég sé að í greinina vantar tengil en ég reikna með að þetta sé tengillinn sem átti að fylgja henni:

Netsíða Alcoa

Og hér er svo smá á íslensku:

Alcoa er að eigin sögn hergagnaframleiðandi

One thought on “Saving Iceland á Ítalíu og í Sviss

  1. ———————————

    Einhver Guðjón kommentaði á þessa færslu í gríð og erg en fjárlægði síðar þau innlegg

    ———————————

    Þú skilur þetta rétt Guðjón en þetta er aðeins brot af því sem þú gætir skilið ef þú kynntir þér málið. Ef þú læsir þér til myndirðu t.d. komast að eftirfarandi:

    -Alcoa ber ábyrgð á því að þúsundir fátæklinga lenda á vergangi á hverju einasta ári, vegna báxítnáms og virkjana á svæðum þar sem bláfátækt fólk sem hefur engin félagsleg réttindi býr.

    -Alcoa ber ábyrgð á báxítnámi víða um heim, þar með eyðingu regnskóga og mengun neysluvatns sem aftur leiðir af sér alvarleg heilbrigðisvandamál. Fyrir utan fegurð fjalla og fossa sem sumum finnst líka skipta máli.

    -Alcoa vinnur með gjörspilltum yfirvöldum sem fótumtroða mannréttindi, rétt eins og Alcoa.

    -Alcoa brýtur svo gróflega gegn réttindum verkafólks í Mexíkó að það gengur þrælahaldi næst og í Hondúras er ástandið ennþá verra.

    -Starfsmenn Alcoa í Hondúras eru sviptir tveggja til þriggja daga launum ef þeir mæta korteri of seint. Það er vitanlega ólöglegt.

    -Laun starfsmanna Alcoa í Hondúras duga ekki fyrir 40% af lágmarksframfærslu fjölskyldu. Jafnvel þótt bæði hjón vinni hjá Alcoa eru þau samt upp á hjálparstofnanir komin til að lifa af.

    -Starfsmenn Alcoa í Mexíkó og Hondúras eru reknir ef þeir taka þátt í starfi verkalýðsfélaga.

    -Í Hondúras standa verkstjórar gargandi yfir starfsmönnum og ýta við þeim með prikum ef þeir slaka á.

    -Afköstin sem krafist er eru óraunhæf, ómannúðleg og þeim er fylgt eftir með niðurlægjandi upphrópunum og hótunum.

    -Starfsmenn fá ekki pásur og geta vænst þess að vera boðaðir á aukavakt (sem ekki er hægt að afþakka) með 10 mínútna fyrirvara.

    -Klósett (þ.e. þau sem eru nothæf) eru aðeins eitt á hverja 100 starfsmenn og ekki er hægt að reikna með að sé boðið upp á ljós og klósettpappír.

    -Hámarkstími sem fólk má eyða á klósettinu eru 5 mínútur, tvisvar á dag og því aðeins að einhver geti leyst viðkomandi af á meðan. Ef einhver er lengur en 5 mínútur að ganga örna sinna getur hann vænst þess að verðir dragi hann þaðan út. Stundum er fólki neitað um leyfi til klósettferða svo lengi að það gerir á sig.

    -Loftkælingin í verksmiðju Alcoa í Hondúras hefur verið biluð í heilt ár. Það er eðlilegt og þykir allt í lagi að líði yfir starfsfólk af hitanum.

    Þetta er nú bara lítið brot af afrekum Alcoa. Þú heldur líklega að þú getir gert lítið úr glæpastarfsemi þessa fyrirtækis með því að taka eitt út úr og láta eins og ég sé að sleppa mér í nöldri út af einhverju einu smáatriði, og gjörðu svo vel Guðjón, reyndu endilega. Mig langar þó að vita hvaða hvatir liggja að baki þeirri viðleitni.

    Eva Hauksdóttir, 28.7.2008 kl. 12:32

    ———————————

    Nákvæmlega eins og ég átti von á, reynir þú að gera lítið úr mannréttindabrotum Alcoa, með því að draga eitt atriði út úr löngum lista sem er þó engan veginn tæmandi.

    Hvaða hvatir fá þig til þess að verja þetta Guðjón?

    Eva Hauksdóttir, 28.7.2008 kl. 13:47

    ———————————

    Ég sé þau dæmi sem ég taldi upp fyrir þig og mörg önnur. Finnst þér semsagt að okkur komi það ekkert við hvernig viðskiptavinir okkar fara með annað fólk og umhverfi þess? Myndir þú leigja raðnauðgara herbergi í húsi þínu?

    Eva Hauksdóttir, 28.7.2008 kl. 16:10

    ———————————

    Ég hef reyndar tilgreint mun fleiri en tvö atriði Guðjón og þar sem þú lest allt sem ég skrifa a.m.k. þrisvar sinnum er þér vel kunnugt um mannréttindabrot Alcoa allt frá óviðunandi hreinlætisaðstöðu og til yfirstandandi þjóðarmorðs.

    Það ert hins vegar þú sem pikkar út eitt eða tvö atriði og tekur þau úr samhengi, augljóslega í þeim tilgangi að reyna að gera málflutning minn tortryggilegan. Það tekst þér að vísu ekki enda er með ólíkindum hversu lítilli leikni þú hefur náð í útúrsnúningum, miðað við það hve oft þú reynir.

    Mér leikur ennþá forvitni á því að vita tilganginn. Ertu bara að reyna að ná athygli minni eða hversvegna er þér svona mikið í mun að klóra yfir voðaverk Alcoa?

    Eva Hauksdóttir, 30.7.2008 kl. 00:12

    ———————————

    Eva, veistu hvað „tilfinningarök“ eru?

    Fríða, 31.7.2008 kl. 14:46

    ———————————

    Já ég veit það. Af hverju spyrðu?

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 16:09

    ——————————–

    var bara svona að velta því fyrir mér.  En, það er fínt að þú veist hvað það er og þú veist þá líklega líka að þú ert m.a. að beita þannig rökum, og kannski jafnvel líka að þeir sem eru á öndverðum meiði, sem ég reyndar veit ekki hverjir ættu að vera, taka lítið mark á slíkum rökum.  Hinsvegar ertu mjög líkleg til að fá stuðning frá þeim sem eru hvort sem er sammála þér.  Ég sé ekki alveg tilganginn með þessu

    Fríða, 31.7.2008 kl. 20:13

    ———————————

    Við getum skipt röksemdum um allt sem varðar mannlegt samfélag gróflega í tvo flokka; tilfinningarök, sem byggja á huglægu mati um gott og illt, rétt og rangt, fagurt og ljótt, og svo aftur á móti hagkvæmnisrök sem byggja á alveg jafn huglægu mati um hagkvæmni. Sumir eiga það til að reyna að gera lítið úr málstað annarra með því að tala um rök þeirra sem „tilfinningarök“. Sama fólk virðist algerlega ómeðvitað um að stór hluti af lagakerfi okkar byggir á tilfinningarökum og allir fjölþjóðasáttmálar um mannréttindi og verndun dýra og náttúru, byggja á tilfinningarökum.

    Við getum tekið dæmi: Þú ert í fjárhagsvandræðum og möguleikarnir sem þú stendur frammi fyrir eru þeir að selja húsið þitt eða að selja dóttur þína (við gerum ráð fyrir að þú búir í samfélagi þar sem lög byggja ekki á tilfinningarökum og þar með eru viðskipti með fólk lögleg, enda þjóðhagslega hagkvæm).

    Ef þú tekur ákvörðun byggða á tilfinningarökum selurðu húsið þitt, jafnvel þótt þú fáir hærra verð fyrir stelpuna. Það er einfaldlega ekkert inni í myndinni að selja dótturina, bæði vegna þess að það er sjúkt og rangt að selja fólk (tilfinningarök), það gæti sært hana mikið að vera seld (tilfinningarök) og einnig vegna þess að þér þykir of vænt um hana til að láta hana frá þér (tilfinningarök).

    Ef þú aftur á móti notar veraldleg rök selurðu dótturina vegna þess að þú færð hærra verð fyrir hana (hagkvæmnisrök) vegna þess að þar með losnarðu einnig við útgjöld sem fylgja henni (hagkvæmnisrök) af því það er minna vesen að losa þig við ungling en að standa í flutningum (hagkvæmnisrök) og vegna þess að annars þarftu hvort sem er að finna annan stað til að búa á (hagkvæmnisrök).

    Á sama hátt mun sá sem hundsar tilfinningarök vera tilbúinn til að virkja Gullfoss, leggja blessun sína yfir notkun efnavopna, styðja frjálsan innflutning á fíkniefnum, hvetja son sinn til að taka að sér starf handrukkara eða hjálpa þrælahaldara að ná sér í fleiri þræla.

    Tilgangur þessarar umræðu er sá að kynna sjónarhorn sem fáir eru meðvitaðir um og gefa öðrum færi á að styðja þau eða hrekja með rökum, bæði veraldlegum og tilfinningalegum.

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 21:00

Lokað er á athugasemdir.