Ef þú ættir að deyja innan tveggja ára og mættir velja þér dauðdaga? (FB leikur)

Ég vildi vera kyrkt. Ekki þó af Davíð Oddssyni, heldur af brjáluðum elskhuga sem telur sig vera að bjarga mér frá ástinni. Ekki við Rauðhóla eða meðal villirósa, og alls ekki í skónum, heldur nakin, liggjandi í rúmi með hvítu damaski, kertaljós og Bob Dylan Oh, sister.

Hönd við kverkar. Ná hámarki. Horfa beint inn í augu einhvers sem hún treysti fullkomlega og sjá allt. Allt. Upplifa sannleikann. Upplifa endanlega afhjúpun á öllu helvítis feikinu, allri afneituninni, hræsninni, lyginni og smjaðrinu -í síðasta sinn.

Það gæti nálgast frelsi.

Þegar fokkið þyrmir yfir

Skil ekki hvaða fokk í rassgati almenningi kemur það við hvort Bubbi er í dramakasti yfir Birni Jörundi eður ei.

Mér finnst hrefnukjöt gott og hnísukjöt betra og hef ekkert á móti hvalveiðum ef stofnarnir þola þær, en skil ekki hvern fjandann við erum að reka Hafró fyrst aldrei er farið eftir ráðleggingum þaðan.

Og Steingrímur ætlar að afnema fokkans verðtrygginguna EFTIR að verðbólgan er komin niður. Hvað á ég að græða á því?

Bjartasta vonin hljómar eins og gaddavírsflækja ef hún gæti æpt.

Mér finnst eins og ég sé föst á vitleysingahæli. Og mig langar að elda allan mat í húsinu. Það yrði nú meira rugl hlaðborðið.

Eru ofbeldisverk „brot á vinnureglum“?

Það er alveg með ólíkindum hvað margir líta ofbeldisverk barna og unglinga gegn öðrum börnum mildari augum en ofbeldi meðal fullorðinna.

Síðast þegar ég vissi giltu sömu landslög á skólalóðinni og annarsstaðar í samfélaginu. Hér er ekki um að ræða brot á vinnureglum skólans heldur einfaldlega glæp og fyrst lögin banna fólki að svara fyrir sig eða aðstandendur sína (það er ekkert til í íslenskum lögum sem heitir sjálfsvörn) þá á vitanlega að kæra svona árásir til lögreglu. Skólayfirvöld ættu að sjálfsögðu að sýna vanþóknun sína á einhvern hátt en það er ekki þeirra að refsa fyrir svona verk, heldur dómsstóla.

Ef dómsstólar bregðast er aftur á móti siðferðilega rétt að almennir borgarar sjái um að framfylgja réttlætinu. Það er hinsvegar ólöglegt.

mbl.is Hópur unglinga réðist á einn

Hvaða persónu saknar þú mest? (FB spurningaleikur)

Ég sakna fólks sjaldan. Vinir koma og fara, ég er sátt við það. Og þeir sem virkilega skipta mig máli verða svo stór hluti af lífi mínu að það er óþarfi að sakna þeirra. Ég hélt að ég myndi sakna Drengsins sem fyllti æðar mínar af endorfíni, en ég hugsa sjaldan til hans með trega.

Ég sakna samt mannsins míns, sem ég hef enn ekki kynnst.

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks? (FB leikur)

Heildarmyndin held ég og svo málfar.

Um leið og maður sér einhvern tekur maður inn fullt af upplýsingum sem maður veltir ekki fyrir sér en gæti auðveldlega svarað ef maður væri spurður. Kynferði, aldursbil, kynþáttur. Svo er það bara mismunandi hvað er mest áberandi í fari hvers og eins. Ef einhver er 250 kg þá tek ég sennilega ekki eftir augnlit hans. Ef hann er með 15 pinna í gegnum andlitið tek ég kannski ekkert eftir því hvað hann er með sætan rass.

Yfirleitt tek ég lítið eftir fatnaði, gleraugum, augnlit, hárlit og hæð, nema eitthvað af þessu sé óvenjulegt. Ég tek hinsvegar mjög vel eftir málfarseinkennum og málsniði.

Uppáhaldsísinn? (FB leikur)

Jæja, þessi listi ætlar víst að endast mér fram á vorið. 13 er happatala svo ég hlýt að verða gífurlega heppin í kvöld. En áfram með smjörið:

Ís. já takk. Uppáhalds… Fokk. Ég fæ mér oftast annað hvort hnetutopp eða mjúkan úr vél með mokkasósu. Ef ég kaupi fjölskyldupakkningu þá er það oftast mjúkís með karamellu og pekanhnetum.

Og þú, veistu dálítið, þetta svar er ekki eins óspennandi og það lítur út fyrir að vera. Skoðaðu betur. Ef þú áttar þig færðu eina ósk uppfyllta.