Kvensmokkahallæri

http://www.smugan.is/frettir/frettir/nr/4616

Smugan segir frá því að ekkert apótek sem skoðað var hafi átt kvensmokka eða munnmottur.

Uhh… Var einhver búinn að tala við starfsfólkið og biðja um að þessar vörur yrðu pantaðar? Eða var það fyrst þennan dag sem afgreiðslufólk lyfjabúða frétti að til væri eitthvað sem kallast ‘munnmottur’?

Ég hef nokkrum sinnum beðið verslanir (ekki reyndar apótek) að panta fyrir mig vörur sem mig vantaði. Því hefur alltaf verið vel tekið og aldrei hefur hvarflað að mér að það væri blaðamál þótt kaupmenn fyndu ekki á sér hvað mig vantaði. Þetta lítur nú bara út eins og verið sé að búa til vandamál.

Það eina ítalska

Atli Haukur: Pizzan er að hluta bandarísk og að hluta grísk. Það eina á Ítalíu sem er raunverulega ítalskt er skakki turninn og það er bara af því að þeir voru fullir þegar þeir byggðu hann.

Í skjóli þessa viðhorfs, að ef kona sé nógu mikil dræsa, sé ekki hægt að misbjóða henni kynferðislega, þrífst kynferðisleg misnotkun og ofbeldi.

Mig langar að fá nafnið á þessum geðlækni sem er fær um að meta trúverðugleik fólks í gegnum sjónvarpið.

Stjórnlagaþingskosningin

Þetta er ekkert svo lítil þátttaka í ljósi þess að þetta er í fyrsta sinn sem gerð er tilraun í þessa veru. Fólk er alltaf feimið við nýjungar og við erum ekki vön þeim hugsunarhætti að almenningur geti haft einhver raunveruleg áhrif.

Það má alls ekki gerast að menn líti á þetta sem misheppnaða tilraun, heldur þarf að halda áfram að bjóða almenningi upp á möguleika á að hafa áhrif með öðrum aðferðum en þeim að sækja kosningar.

Jóladólgurinn

Jóladólgurinn er kominn af stað. Hvort sem þú hefur áhuga á jólageðveikinni eða ekki, skaltu hlaða öllu hugsanlegu Facebook jólablingblingi með hjörtum, glimmer og jólasveinum inn á veggi vina þinna, ásamt sykurklístruðum stöðulínum sem þú afritar frá einhverjum sem kann fleiri smákökuuppskriftir en stafsetningarreglur. Athugaðu að það hversu margir dólgast í þér á móti er óbriðgull mælikvarði á manngildi þitt.

Að gefnu tilefni árétta ég að ég set ekkert samasemmerki milli stafsetningar og manngildis. Ég set hinsvegar samasemmerki milli heimsku og þess að afrita hvaða vitleysu sem er frá öðrum, án þess að hugsa einu sinni út í það hvað maður er að gera. Ég hef séð copy-paste texta, fullan af málvillum og með stafsetningu sem nýbúi myndi skammast sín fyrir, hjá fólki sem er alveg þokkalega máli farið og ætti að hafa forsendur til að leiðrétta það. Skítt með það, fólk má pönkast eins og það vill á sínum eigin vefsíðum en það er orðið dálítið dólgslegt að skrifa t.d. ‘kóperaðu þetta og settu í statusinn þinn og sendu mér til baka ef þú elskar barnið þitt’ undir flórsykurhúðaða væmnina og klína þessum hroða inn á veggi annarra.

Það er hægt að draga úr þessu með því að sniðganga það. Ég fékk hroðalegan helling af svona glimmeri í hittifyrra, heldur minna síðasta ár enda sendi ég aldrei neitt til baka og hendi svona application dóti út nema það sé til styrktar einhverju góðu málefni.