Setjum sem svo að ég vinni hjá ríkisstofnun sem hefur það opinbera markmið að gæta hagsmuna öryrkja. Lengi hafa vinnubrögð stofnunarinnar verið harðlega gagnrýnd og upp á síðkastið hefur komið í ljós að í stað þess að standa vörð um réttindi öryrkja, hefur Stofnunin tekið beinan þátt í hneyksli. Hún hefur úthlutað ríkum, fullfrískum mönnum hjólastólum, sem þeir hafa svo notað til að keppa í ríkukallahjólastólaralli, þar sem brókarlausar yngismeyjar baða þáttakendur upp úr kampavíni og mata þá á gullkrydduðum snittum. Keppnin að sjálfsögðu fjármögnuð með skattfé almennings, sem hélt, vegna falskra upplýsinga frá Stofnuninni, að hann væri að greiða fyrir þjónustu við öryrkja.
Dag nokkurn er almennum borgurum nóg boðið og um 30 manns flykkjast inn í húsakynni Stofnunarinnar og trufla fund. Ég stjórna fundinum og finnst þetta verulega óþægileg uppákoma. Sumir láta dólgslega, einn sendir mér fingurinn og annar hrópar eitthvað í þá veruna að ég sé að vinna fyrir stofnun sem þjóni ekki tilgangi sínum og ætti að ‘tussa mér út’. Ég er óvön því að fólk tali með þvílíkri óvirðingu um Stofnunina og orðið ‘tussa’ er ekki viðhaft á mínu heimili eða vinnustað, svo mér er eðlilega brugðið. Auk þess berast fréttir af stimpingum í öðrum hluta hússins og ég óttast beinlínis um öryggi skúringarkonunnar og karlsins sem skiptir um ljósaperur.
Ég hringi á lögguna. Fólkið er fjarlægt, nokkrir handteknir. Ég er í sjokki það sem eftir er dags. Orðið ‘tussa’ hljómar í huga mér og vekur óhugnanlegar tilfinningar og þegar skúringakonan vinkona mín segir mér að einn innrásarmannann hafi klappað sér á rassinn, kviknar undarleg hugmynd í kollinum á mér. Daginn eftir fer ég til lögreglunnar og bið um að rannsakað verði hvort þessi innrás geti flokkast sem kynferðisofbeldi.
Löggi horfir agndofa á mig. Viðurkennir að uppákoman hljóti að hafa verið óþægileg en spyr hvernig í ósköpunum mér detti í hug að túlka hana sem kynferðisofbeldi. Jú ég tíni til rök, einn sendi fingurinn, sem er augljóslega merki um að viðkomandi óski eftir að hafa við mig mök gegn vilja mínum, annar notaði orðið ‘tussa’ sem bendir til þess að hann hafi verið búinn að plana hópnauðgun og svo varð skúringakonan fyrir beinni kynferðislegri árás og er enn í geðshræringu.
Löggi efast reyndar um að það að senda fingurinn og hrópa ‘tussa’ flokkist sem hópnauðgun en vill auðvitað allt fyrir mig gera og skoðar þessvegna myndbandið úr öryggismyndavélinni. Þar sést greinilega hvernig einn mótmæladólganna rekur höndina í afturenda skúringakonunnar þegar ljósaperukallinn stjakar við honum. Lögga finnst þetta líta út eins og algert slys en ekki meðvituð kynferðisáreitni en ég gef mig ekki. Ég upplifði atburðinn sem hópnauðgun og nú vil ég að verði gefin út ákæra fyrir kynferðisofbeldi.
Hvað myndi lögreglan gera? Vitanlega vísa málinu frá. Þegar ekkert bendir til þess að neinn hafi haft kynferðisofbeldi í huga og ekkert hefur gerst sem skynsamlegt er að túlka sem kynferðisáreitni, þá er ekki hægt að ákæra menn fyrir hópnauðgun. Reyndar á ekki að vera hægt að ákæra neinn fyrir neitt nema rökstuddur grunur liggi fyrir. Engu að síður, af því að ég er svo fín og valdamikil manneskja, lætur lögreglan undan, pikkar af handahófi 9 manns úr hópnum og ríkissaksókanri gefur út ákæru um hópnauðgun.
Já, þetta er fúlt en hvað um það, ég upplifði þetta svona og er þá ekki bara rétt að láta málið fara sína leið í réttarkerfinu? Nú ef fólkið er saklaust þá kemst dómari eflaust að þeirri niðurstöðu og málið er dautt.
Nei, það er ekki í lagi. Það er ekki í lagi að gefa út ákæru um einhverja bölvaða vitleysu sem engin rök hníga að. Það er ekki í lagi að láta fólk sitja undir sakargiftum sem eru gjörsamlega út í hött og draga það fyrir dóm. Það er ekki í lagi að varpa rýrð á mannorð þess, eyðileggja fyrir því marga vinnudaga vegna réttarhalda, halda því jafnvel í þeirri stöðu að geta ekki farið í ferðalög nema þá að sleppa því að mæta í réttinn, þar sem tekist er á um mál sem getur varðað sömu refsingu og gróft kynferðisofbeldi eða jafnvel morð, verði það sakfellt.
Eitt af fyrstu fjölmiðlamálunum sem vakti athygli mína þegar ég var barn, var Geirfinnsmálið. Þetta var í fysta sinn sem ég las meira en fyrirsagnir í blöðum og þótt ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir því hvað málið snerist um, var ég þó allavega með þrennt á hreinu; einhver Geirfinnur var týndur, einhverjir fjórmenningar voru ásakaðir um að hafa drepið hann og einhverjir voru brjálaðir af því að líkið af manninum fannst ekki. Ég man líka eftir umræðum við eldhússborðið heima, þar sem sumir töldu óhæfu að dæma menn fyrir morð án sönnunar en aðrir bentu á að sakborningar væru svosem engir kórdrengir.
Í þessu máli dæmdu íslenskir dómstólar fólk fyrir morð og aðild að morði, án þess að nokkur sönnun hefði fundist fyrir því að morð hefði verið framið. Sú sönnun hefur ekki fundist enn og margt bendir til þess að það hefði verið útilokað fyrir sakborningana að fremja þann glæp sem þeir voru dæmdir fyrir af íslenskum dómstólum. Engu að síður er útilokað að fá þetta mál tekið upp enda voru sakborningar sannarlega engir kórdrengir.
Þann 8. desember 2008, fóru um 30 manns inn í Alþingishúsið, í þeim tilgangi að láta rödd sína heyrast. Láta alþingismenn vita að almenningur væri óánægður með að stofnunin þjónaði ekki hagsmunum almennings. Einhverjir voru með háreysti, einn sagði ‘drullið ykkur út’, annar datt á þingvörð þegar annar þingvörður stjakaði við honum og einhver beitti tönnum til að reyna að losa sig þegar lögreglukona tók hann kjálkataki.
Uppákoman hefur sjálfsagt verið óþægileg fyrir þingmenn sem voru bara að reyna að vinna vinnuna sína (sem síðustu ár hafði falist í því að greiða götu auðmanna og stórfyrirtækja, með þeim afleiðingum að nú standa hundruð manna í biðröð eftir ölmusi í hverjum einasta mánuði og heilbrigðiskerfið er á hraðri niðurleið).
Í kjölfarið voru 9 einstaklingar ákærðir, ekki bara fyrir óspektir, heldur fyrir að stofna sjálfstæði þingsins í hættu. Atvikið er kært á grundvelli lagagreinar sem á við ef menn reyna að kollvarpa stjórnskipan landsins.
‘Ja þetta eru náttúrulega engir kórdrengir og best að þetta mál hafi bara sinn gang í dómskerfinu‘, segia þeir sem helst vilja bæla niður alla andspyrnu gegn yfirvöldum.
HALLÓ! Fólkið er ákært fyrir valdaránstilraun! Fyrir glæp sem varðar minnst árs fangelsi,en allt að 16 ára fangelsi eða þyngstu refsingu sem til er í íslenskum lögumverði þau fundin sek. Fyrir glæp sem réttarkerfið lítur jafn alvarlegum augum og hrottalega nauðgun eða lífshættulega líkamsárás. Á það bara að hafa sinn gang í kerfinu að fólk sé ákært fyrir glæp sem ekkert, nákvæmlega ekkert bendir til að hafi verið framinn? Sama dómskerfi og á sínum tíma dæmdi menn fyrir morð sem ekki er ennþá sannað að hafi verið framið. Sama dómskerfi og neitar að taka það mál upp aftur? Treystum við slíku dómskerfi fyrir pólitísku máli? Ekki ég allavega en þar fyrir utan er það skandall í sjálfu sér að Alþingi skuli standa að slíkri ákæru og annar skandall að kærunni hafi ekki verið vísað frá.
Þessi ákæra er móðgun við lýðræðið og gróf árás á ákærðu, hvort sem þau eru kórdrengir eður ei. Nú er í gangi undirskriftasöfnun, áskorun til dómsmálaráðherra um að beita valdi sínu til að stöðva þessa fáránlegu málsókn. Sumir spyrja hvort það skjóti ekki skökku við að sama fólk og gagnrýnir það að of mikil völd safnist á fáar hendur, skuli biðja einn mann að beita valdi sínu. Ég get vel skilið það viðhorf og ef lýðræðisleg leið væri í boði til að stöðva þesa ósvinnu, þá myndi ég frekar mæla með henni. Málið er bara að það er engin lýðræðisleg leið í boði. Við búum við kerfi þar sem ráðherra hefur vald og ekki hikaði Björn Bjarnason við að beita valdi sínu til að veita dæmdum glæpamanni (einum af kórdrengjum Sjálfstæðisflokksins) uppreisn æru, svo fáránlega sem það nú hljómar.
Nei, það er rétt, dómsmálaráðherra ætti ekki að hafa vald til að stöðva dómsmál. Ásta Ragnheiður ætti heldur ekki að hafa vald til að kæra fólk sem beitir ekki skæðara vopni en orðunum ‘drullið ykkur út’ fyrir valdaránstilraun. En hún hefur greinilega þetta vald. Dómstólar hafa líka, eins og dæmin sanna, vald til að dæma fólk án vísbendinga um glæp, jafnvel í 16 ára fangelsi. Dómsmálaráðherra hefur vald til að koma í veg fyrir að það verði gert. Við hin höfum það ekki. Eina löglega valdið sem við höfum er leyfi til að láta rödd okkar heyrast og biðja dómsmálaráðherra um að beita valdi sínu. Ef við beitum ekki allavega því valdi, þá erum við að styðja réttarkerfi, þar sem ekki er hægt að mógða valdamikið fólk, nema taka um leið áhættu á að fá á sig ákæru um glæpi sem eru lagðir að jöfnu við nauðganir og morð.
Viljum við slíkt samfélag? Ef ekki, þá undirritum við þessa áskorun, og þau okkar sem eru á fb, fara inn á þessa síðu og bjóðum öllum sem við þekkjum að taka þátt. Svo sendum við tengil á áskorunina með tölvupósti á alla aðra sem við þekkjum (eða þekkjum ekki) og bendum vinnufélögunum, símasölumanninum, afgreiðslustelpunni í Bónus og ömmusystur dagmömmunnar á hana líka.
Þetta getum við allavega gert til að standa vörð um lýðræðið. Til að koma í veg fyrir annað eins réttarfarsslys og Geirfinnsmálið. Með því að biðja einn mann að beita valdi já og það er súrt, en við búum ekki í fullkomnum heimi og í málum þar sem 16 ára fangelsi er í boði, höfum við einfaldlega ekki efni á pólitískri rétthugsun.
Hvað hefur breyst í réttarkerfinu? 1996 var gerð tilraun til að fá málið endurupptekið en því var synjað. Held ekki að mikið hafi breyst síðan.
Ég sá viðtal við einn sakborninga í málinu um daginn. Sú kona sagðist vilja að þau færu fyrir dóm og yrðu sýknuð, tók það fram að hún talaði aðeins fyrir sjálfa sig og tók ekki fram hvort henni þætti betri kostur að vera sakfelld eða að ákæran yrði dregin til baka. Hún tók líka fram að hún væri þakklát fyrir stuðninginn.
Sjálf er ég þeim sem hóf þessa undirskriftasöfnun þakklát, því þetta er mál sem kemur öllum við og frábært að vita að fólk úr öllum flokkum, öllum stéttum og á öllum aldri er mótfallið pólitískum ofsóknum.
Posted by: Eva | 19.11.2010 | 17:36:53
Ef það hefði eitthver umtalsverð breyting orðið í réttarkerfinu okkar þá væri löngu búið að biðja fjórmenningana afsökunar á allan hugsanlega máta og færa þeim æruna aftur.
Við eigum öll sem eitt að taka því verulega persónulega að þessir nímenningar hafi verið ákærðir og við eigum öll sem eitt að hræðast það að þau skuli vera sótt til saka út frá 100 gr. Það er verið að senda okkur skilaboð um að vera til friðs og sýna okkur hverju við megum eiga von á ef við tökum óánægjuna frá kaffibollanum
Posted by: Heiða B Heiðars | 19.11.2010 | 23:41:26
Hún Sólveig Anna sagði í sjónvarpinu að hún vissi ekki lengur hvort hún vildi að málinu yrði vísað frá eða færi í gegnum héraðsdóm og þar yrði hún/þau sýknuð. Mér fannst það alveg skýrt að henni þætti málið það mikil svífirða og þá ekki síst vegna þess, að sú ríkistjórn sem komst inn í alþingishúsið vegna búsáhaldabyltingarinnar skuli ekki krefjast þess að málinu sé vísað frá. Ég skildi það þannig að hún meinti að fyrst svo væri, þá væri bara best að alþingi sæti uppi með þá „svívirðu“ að láta þetta gerast. Það er nákvæmlega það sem þetta er, svívirða.
Posted by: helga völundar | 20.11.2010 | 2:33:12
Og áfram heldur bullið. Lögreglumaður man ekki hvort hann bar mann útúr húsinu eins og allar fréttaskýringar sýna að hann gerði, saksóknari man ekki hvort hún heimsótti þingpalla og dómaranefnunni gengur verulega illa að muna hvern sakborninga hann talar við. Þar sem hægt væri að hressa uppá minnið með gögnum hjálpar hirðuleysið og gögnum sem að hjálp kynni að koma hefur verið „týnt“. Þetta sýnir mér ekki framá að réttarkerfið hafi batnað hætishót síðan Geirfinnsmálið var og hét og klúðraðist. Mál að hætta þessari vitleysu áður en íslenskt réttarkerfi verður aðhlátursefni um allan hinn siðmenntaða heim ef það er þá ekki orðið um seinan
Posted by: Páll Heiðar | 20.01.2011 | 2:16:21
…eg er fyrir løngu farinn ad hallast ad thvi ad thad eina sem hægt se ad gera til thess ad syna thessum favitum ad thetta var ekki valdaranstilraun se ad fremja alvøru valdaran med AK47 i hendi hvers thess sem tekur thatt og taka af lifi einn eda tvo af thessum althingisgrisum sem gera ekkert nema sleikja ræpuflekkud thjo audvaldsins sem sponsadi thingsæti thess sama med floKKKsframløgum.
Posted by: Einar Maack | 9.02.2011 | 8:37:18
Það hefur nú vonandi eitthvað breyst í réttarkerfinu eftir Geirfinnsmálið. Kom ekki fram í sjónvarpinu um daginn að þau vilji láta þetta fara í gegnum dómskerfið.
Posted by: Halla | 19.11.2010 | 15:42:01