Ástþór Magnússon og fjölmiðlar

ÁstþjórÁstþór Magnússon forsetaframbjóðandi er umræddur maður. Umræddur en ekki sérlega umdeildur. Umræðan hefur að mestu leyti verið samhljóma dómar um að maðurinn sé fyrst og fremst vitleysingur og hafi auk þess óþægilegt augnaráð.

Þannig eru nú bara dómar götunnar og lítið við því að gera þótt tiltekinn maður verði fyrir persónulegu skítkasti á umræðusíðum á netinu eða yfir kaffibolla í heimahúsum. Það er hins vegar ósæmilegt þegar hver fjölmiðillinn á fætur öðrum lætur starfsfólk sitt komast upp með að sýna einstaklingi rakinn dónaskap þegar yfirlýst hlutverk fjölmiðla er að gefa þjóðinni kost á að kynna sér málflutning hans.

Mér er nokk sama hvað þáttastjórnendum ljósvakafjölmiðla og blaðamönnum kann að finnast um Ástþór Magnússon sem persónu. Það kemur mér ekkert við hvort þetta fólk álítur hann vitleysing eða eitthvað annað, ég er einfær um að mynda mér skoðun. Það kemur mér ekkert við hvort þeim sem tekur viðtal við hann finnst skynsamleg eða óskynsamleg ákvörðun hjá Ástþóri að fara í forsetaframboð með jafn lítið fylgi og skoðanakannanir benda til. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að segja mér hvaða álit tiltekinn fréttamaður hefur á því hvort forsetaframboð Ástþórs Magnússonar sé heppileg fjárfesting eða ekki.

Það er einfaldlega ekki í verkahring fjölmiðla að reyna að ala frambjóðendur upp eða leiða ákveðnum manni fyrir sjónir hversu vonlaus staða hans sé og þegar við bætist að stöðugt er gripið fram í fyrir honum og spurningar orðaðar bæði dónalega og í truntulegum tón, þá er öll fagmennska fyrir bí. Það er alveg nóg fyrir mig að fjölmiðlar tilkynni mér hversu mikið fylgi forsetaframbjóðenda mælist samkvæmt könnunum, ég get dregið mínar ályktanir án þess að þáttastjórnandi klifi á staðhæfingum á borð við „Ástþór, þú hefur ekkert fylgi, það vill enginn fá þig sem forseta“ eins og gerðist t.d. hvað eftir annað í útvarpsþætti síðasta laugardag. Það er auðvitað sjálfsagt að spyrja forsetaframbjóðanda kurteislega hverju hann vilji svara þeirri gagnrýni sem kemur fram. Beinskeyttar spurningar eru eðlilegar og nauðsynlegar svo framarlega sem viðmælandanum er sýnd eðlileg kurteisi. Það er hinsvegar óþolandi þegar fjölmiðlafólk tekur að sér að reyna að tala um fyrir forsetaframbjóðanda eins og uppreisnargjörnum unglingi líkt og stjórnandi Kastljóssins gerði t.d. um daginn.

Hvað sem mönnum kann að þykja um forsetaframboð Ástþórs Magnússonar og aðrar gjörðir hans, er hann í framboði til forsetaembættisins. Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að hann eigi fullan rétt á því að taka ákvörðun um að fara í framboð og standa eða falla með þeirri ákvörðun. Hann á sem frambjóðandi og sem manneskja heimtingu á því að fjölmiðlafólk sýni honum sömu virðingu og öðrum frambjóðendum og gefi honum sama tækifæri til að kynna hugmyndir sínar og stefnumál. Og það sem meira er; ég sem kjósandi, lesandi og áheyrandi á líka rétt á hlutlausri og faglegri umfjöllun. Mér finnst framkoma fjölmiðla við Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðanda og manneskju, til háborinnar skammar.

Share to Facebook

1 thought on “Ástþór Magnússon og fjölmiðlar

 1. —————

  Spúnkhildur @ 25/06 11.04

  Ég væri til í að sjá greiningu sérfræðinga á sviði geðlækninga á Ástþóri. Svo má rökræða að fenginni niðurstöðu hvor eigi að leifa alvarlega trufluðu fólki að sólunda almannafé, að því gefnu að Ástþór sé klikkaður.

  —————

  Eva @ 26/06 19.56

  Sjálfsagt álíta einhverjir að geðsjúkir eigi minni heimtingu á borgaralegum réttindum en annað fólk en á meðan geðsjúkir hafa sama rétt og aðrir á að fara í framboð, eiga fjölmiðlar að sýna öllum sínum viðmælendum tilhlýðilega virðingu, hvort sem þáttastjórnendur telja viðkomandi geðveikan eður ei.

  Ég ætla ekki að dæma um geðheilsu Ástþórs Magnússonar en hitt er ég sannfærð um að eftir 200-300 ár, þegar enginn man lengur augnaráð Ástþórs og hamhleypulega framkomu hans, munu skólabörn samt sem áður læra um hungmyndir hans og eldlegan áhuga á að nýta forsetaembættið í þágu heimsfriðar og mannúðarmála. Ef Ástþór er vitleysingur, þá er hann allavega hörkuduglegur vitleysingur og væri óskandi að hugsjónir hans fengju meiri athygli í umræðunni en þessi tómatsósusaga sem virðist endalaus uppspretta vandlætingar.

  —————

  Spúnkhildur @ 28/06 16.20

  Fólk sem er veruleikafyrrt ætti ekki að fá að sólunda almannafé. Ef menn eru alvarlega sinnissjúkir teljast þeir hvorki heppilegir sjálfráðir né teljast þeir sakhæfir. Þá er maður úr leik. Öll önnur fötlun og annmarkar ættu ekki að skerða stjórnarskrárbundin réttindi fólks.
  Hvað varðar hugmyndafræði Ástþórs þá kann það ekki góðri lukku að stýra að líkja sér við Jesú hafi maður á annað borð engan sannfæringarkraft. Það er hinsvegar spekingslega á-lyktað að hjá þér að í framtíðinni verði hann talinn mikill hugsuður, enda er það mikið frekar framkoma og atgerfi sem setur þennan mann úr leik en hugmyndafræði hans.

Lokað er á athugasemdir.