Rendi skilur ekki hvað starf hans felur í sér

Það er alveg rétt hjá Ríkisendurskoðanda að það er ekki boðlegt að bera saman kostnað Íslendinga og Dana við bókhaldskerfi fyrir stjórnsýsluna. Íslendingar hafa nefnilega ekki aðeins eytt óþarflega miklum peningum í búnaðinn heldur einnig borgað fyrir þjónustu sem aldrei var innt af hendi en það myndu Danir seint gera. Halda áfram að lesa

Ekki stela kardó, steldu frekar 100 milljónum

Það er ekki fallega gert að stela beikoni og kökudropum frá varnarlausu fyrirtæki en hvaða gagn skyldi það nú eiga að gera að dæma manninn í skilorðsbundið fangelsi? Telja menn að það sé góð leið til að kenna honum að hætta að stela kökudropum?

Það er ömurlegt kerfi sem refsar útigangsmönnum og alkóhólistum fyrir sjúkleika sinn. Sama ömurlega kerfið og það sem sendir róna út á götuna með hótun um fangelsi ef hann finni sér ekki löglega leið til að verða sér úti um áfengi, býður ekki upp á neina leið til að taka á fólki sem dæmir sjálfu sér tvöfaldar mánaðartekjur öryrkja á dag (miðað við að það vinni alla daga.)  Ekki einu sinni skilorð.

Mig langar ofboðslega mikið að vita hversu langt svona skítapakk getur leyft sér að ganga. Ef fólk má taka sér 270 þúsund í daglaun af hverju þá ekki alveg eins 300 þúsund eða tvær milljónir? Er nokkuð í lögum sem takmarkar rétt sjálftökufólks? Og ef svo er ekki, á virkilega ekkert að breyta því?

Fangelsismálastofnun svarar bréfi

Ég hef ekkert legið á skoðunum mínum á ofbeldisstofnunum ríkisvaldsins en það mega bæði Lögreglan og Fangelsismálastofnun eiga að þeim erindum sem ég hef sent þeim hefur verið svarað. Nú geta talsmenn stofnana yfirleitt ekki tjáð sig um mál tiltekinna einstaklinga og ég átti þessvegna aldrei von á því að fá fullnægjandi svar við þessu bréfi; ég sendi það aðallega til þess að koma til Fangelsismálastofnunar og fjölmiðla skilaboðum um spurningar sem brunnu á mér og fjölda annarra borgarara varðandi þetta mál. Halda áfram að lesa

Lára Hanna og vefvarpið

Lára Hanna Einarsdóttir er einn af bestu fréttamönnum Íslands. Ég hef reyndar ekki séð nein skrif frá henni um klæðleysi fræga fólksins eða annað það sem nær efstu sætum vinsældalistanna í andverðleikasamfélagi íslenskra fjölmiða en ólíkt meirihluta fréttamanna vinnur hún almennilega heimildavinnu. Hún kafar oftast miklu dýpra í málin en flest fjölmiðlafólk og er ötul við að grafa upp gamla atburði og setja þá í samhengi við ný mál. Fáir hafa verið jafn iðnir við að nota þá aðferð til að varpa ljósi á heildarmyndina. Halda áfram að lesa

Af hugvitssamlegum reikningsaðferðum Fangelsismálastofnunar

Ég er ekki búin að fá svar við bréfi mínu til Fangelsismálastofnunar sem ég birti síðasta  mánudagskvöld. Ég held þó að ég sé, með hjálp athugulla manna, búin að fá botn í það hversvegna Baldur Guðlaugsson er kominn í endurhæfingu á lögmannsstofu eftir aðeins hálft ár í fangelsi, þrátt fyrir að hafa fengið tveggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm. Vandinn liggur í hugtakanotkun Fangelsismálastofnunar en hugtakið „afplánunartími“ virðist hafa a.m.k. tvær ólíkar merkingar. Halda áfram að lesa

Afsökunarbeiðni til DV

Í pistli sem ég skrifaði í morgun kemur fram bagaleg villa en ég sagði að svo virtist sem Smugan hefði ætlað að taka vitleysuna upp eftir DV.

Fyrirsögnin sem kemur fram í vefslóð Smugunnar, og olli greinilegum misskilningi svosem sjá má af ummælum í umræðukerfinu sem og af því að þekktir bloggarar töldu víst að maðurinn væri í samfélagsþjónustu, er semsagt kveikjan að frétt DV en ekki öfugt.

Ég hefði þurft að fara betur yfir áður en ég birti þetta og kann ég Ingimar Karli Helgasyni bestu þakkir fyrir að vekja athygli á því að það er Smugan en ekki DV sem ber mesta ábyrgð á þessari röngu frétt.