Það er alveg rétt hjá Ríkisendurskoðanda að það er ekki boðlegt að bera saman kostnað Íslendinga og Dana við bókhaldskerfi fyrir stjórnsýsluna. Íslendingar hafa nefnilega ekki aðeins eytt óþarflega miklum peningum í búnaðinn heldur einnig borgað fyrir þjónustu sem aldrei var innt af hendi en það myndu Danir seint gera.
Það er þó líklega ekki þetta sem Sveinn Arason á við með því að samanburðurinn sé ekki frambærilegur heldur virðist hann telja eðlilegt að Íslendingar beri mun meiri kostnað af tölvukerfi en Danir. Hann var ekki beðinn að útskýra hversvegna það er eðlilegt. Einhver þeirra sem vann skýrsludrögin hefur greinilega verið honum ósammála um þetta atriði og þar sem Rendi tekur fram að enn hafi átt eftir að endurrita ýmislegt í skýrslunni, dettur manni svona í hug að til hafi staðið að taka þennan samanburð út áður en skýrslan yrði birt. Hann var ekkert spurður út í það heldur.
Það er skiljanlegt að menn reyni að afsaka drátt á verkefnaskilum og þræti fyrir spillingu þótt hagsmunatengslin beinlínis æpi á mann. En framkoma Ríkisendurskoðanda í þessu máli ber auk þess öll keim af því viðhorfi að upplýsingar sem varða almannahag séu einkaeign stofnana og/eða embættismanna, sem geti útdeilt þeim að eigin geðþótta og á eigin forsendum. Svo virðist sem hann skilji ekki að starf hans felst í þjónustu við Alþingi og þar með almenning í landinu.
Nokkur dæmi:
Ríkisendurskoðandi lítur greinilega á það sem glæpsamlegt athæfi að koma upplýsingum um afglöp innan stjórnsýslunnar í hendur fjölmiðla.
Hann hótar að kæra fjölmiðla fyrir að upplýsa almenning um það hvernig skattfé borgaranna er varið.
Hann neitar að afhenda Alþingismönnum gögn sem þeir falast eftir, og eru m.a.s. komin í fjölmiðla.
Hann gefur til kynna, í blaðaviðtali, að hann hefði tekið út úr skýrslunni upplýsandi samanburð ef hann hefði bara verið látinn í friði.
Sveinn Arason virðist þannig líta á Ríkisendurskoðun sem einkafyrirtæki og sjálfan sig sem eiganda þess. Maður sem skilur ekki þjónustuhlutverk Ríkisendurskoðunar og telur sig yfir Alþingi hafinn á ekki að gegna þessu embætti. Ef hann hefur ekki rænu á að segja upp sjálfur á Alþingi að leysa hann frá embætti hið snarasta.