Fjölmiðlar vilja vera klikkaðir í máli Baldurs (og bara almennt)

Fréttir af því að Baldur Guðlaugsson sé farinn að vinna á lögmannsstofu verjenda sinna hefur vakið töluvert umtal á netmiðlum og sýnist sitt hverjum. Sumir óska manninum til Helvítis en aðrir til hamingju.

Sjálfri finnst mér gott mál ef fangar sem ekki eru hættulegir fá sem mest frjálsræði og tækifæri til að stunda vinnu á almennum markaði. Ég held að það sé alveg nógu íþyngjandi að búa á Vernd þótt það sé skárra en að sitja á Hrauninu og ég sé ekki að vanlíðan sé til þess fallin að bæta nokkurn mann. Reyndar álít ég að fangelsi ættu eingöngu að hýsa hættulegt fólk en fjárglæframönnum ætti frekar að refsa með því að takmarka frelsi þeirra til fjármálaumsvifa og láta þá sæta ströngu eftirliti með öllum fjárreiðum. Mér finnst engin ástæða til að splæsa fangavist á menn eins og Baldur Guðlaugsson en hvort maður með hans sögu ætti yfirhöfuð að fá að vinna lögfræðistörf er áleitin spurning. Fínt að Baldur geti hitt ástvini sína daglega en mér finnst hinsvegar afskaplega mikilvægt að föngum sé ekki mismunað og vistun Baldurs á Vernd vekur spurningu um það hvort Fangelsismálastofnun mismuni föngum eftir stéttarstöðu.

Óvönduð umfjöllun

Þessari spurningu ættu fjölmiðar auðvitað að leita svara við en lítið fór fyrir því í fréttum gærdagsins að reynt væri að komast til botns í málinu. Reyndar eru fréttirnar hver annarri óvandaðri. DV hélt því fram að Baldur væri að sinna samfélagsþjónustu. Það er fráleitt því samkvæmt lögunum fá menn ekki kost á að taka dóminn út í samfélagsþjónustu hafi þeir fengið lengri óskilorðsbundinn dóm en til 6 mánaða en auk þess eru störf hjá einkafyrirtæki ekki samfélagsþjónusta.

Smugan virðist hafa ætlað að taka bullið beint upp eftir DV  Frétt Smugunnar virðist vera kveikjan að þessu bulli því í vefslóð Smugufréttarinnar er talað um samfélagsþjónustu.  (Sjá útskýringu á þessari leiðréttingu hér.) Þar á bæ virðist þó einhver hafa áttað sig á því hvað orðið samfélagsþjónusta merkir því í fréttinni er talað um afplánun utan fangelsis. Ekki virðist hafa verið leitað eftir svörum fangelsismálastofnunar um það hvort það sé rétt eða hvaða skilyrði séu fyrir afplánun utan fangelsis.

RUV er skömminni skárra því þar hefur allavega verið haft fyrir því að hringja í Fangelsismálastofnun. Í fréttinni er það haft eftir Fangelsismálastofnun að „ekki sé óvenjulegt að menn afpláni aðeins annað árið af tveggja ára dómi og fari að hálfu ári loknu á Vernd. Þar geti fangar verið í fjóra mánuði og verða síðan í tvo mánuði til viðbótar undir rafrænu eftirliti.“ Ekki er þó varpað fram spurningu um það hversu algengt sé að menn með tveggja ára dóm fari á Vernd eftir 6 mánaða afplánun eða hvernig það samræmist reglum Verndar sem lesa má hér, hvað þá að leitað sé svara.

Vernd er ekki opið fangelsi 

Enginn þessara miðla fjallar um það hverskonar fyrirbæri Vernd er en hjá almennum lesanda vaknar strax sú spurning hvort um sé að ræða opið fangelsi líkt og Kvíabryggju. Svo virðist ekki vera því Fangelsismálastofnun skilgreinir Vernd sem áfangaheimili sem fellur undir reglur um afplánun utan fangelsis.  Vernd er þannig ekki hugsuð sem „verðlaun“ fyrir „góða fanga“ heldur sem áfangaheimili t.d. fyrir þá sem hafa setið inni lengi, verið lengi utan vinnumarkaðar áður en þeir hófu afplánun og/eða stundað líferni sem þeir þurfa nauðsynlega að snúa baki við til þess að eiga möguleika á að halda sig frá glæpum. Enginn fjölmiðill hefur spurt hvort Baldur þurfi virkilega á hægri samfélagsaðlögun að halda eða hvort svo mörg pláss séu á Vernd að enginn annar þurfi meira á því að halda að fá þar inni. Samkvæmt 47. grein laga um fullnustu refsinga, þarf maður að hafa afplánað þriðjung dóms og þó að lágmarki eitt ár í fangelsi áður en hann fær tækifæri til afplánunar utan fangelsis og enginn fjölmiðill hefur heldur fjallað um það hvernig það stenst þá samkvæmt lögum að Baldur sé kominn á Vernd.

Allir sjá þessir miðlar þó ástæðu til að segja fréttir af því hvað vinnuveitendum Baldurs finnist hann vera góður gæi. Afsakið en hvað kemur það málinu við? Látum það vera þótt þess sé getið svona í framhjáhlaupi við almennilega umfjöllun en hér fær álit verjenda fangans á vinnuframlagi hans meiri athygli en spurningin um það hvort föngum sé mismunað og hvort Vernd sé raunverulega notuð til að hygla gæðingum fremur en sem áfangaheimili fyrir þá sem þurfa á aðlögun að halda.

Betra að bíða aðeins og hafa réttar upplýsingar

Fréttir eiga helst að vera nýjar en að æða af stað með ranga frétt, svosem þá að sakamaður sé í samfélagsþjónustu þegar hann er það alls ekki, er verra en að segja enga frétt. Það besta væri auðvitað að segja góða frétt strax en það er miklu betra að segja góða frétt degi síðar en að segja ranga frétt strax. Nú er dæmi Baldurs ekkert sérstakt fyrir íslenska fjölmiðlun, fúskið er gegnumgangandi sama hvort um er að ræða mikilvægar stjórnvaldsákvarðanir, fréttir af klæðleysi fræga fólksins eða eitthvað þar á milli.

Þeir vilja vera klikkaðir

Hversvegna er íslenskur fréttaflutningur almennt  svona óvandaður? Hversvegna kjósa fréttamiðlar fremur að segja rangar fréttir og illa unnar en að taka smá tíma í að afla sér heimilda? Mín tilgáta er sú að markmið þeirra sé fyrst og fremst að skapa sér þá ímynd að þeir séu gríðarlega vinsælir. Markmiðið er ekki upplýsing og vönduð umfjöllun, heldur að fá sem flestar flettingar. Hvort lesandanum verður nokkurt gagn af því að lesa er aukaatriði, aðalmálið er að hann „klikki“ á læk og deili tenglinum á facebook og öðrum samskiptasíðum. Fjölmiðlar virðast ekki hafa það að markmiði að upplýsa almenning um það sem er að gerast í samfélaginu, heldur að vera klikkaðir.

Share to Facebook

6 thoughts on “Fjölmiðlar vilja vera klikkaðir í máli Baldurs (og bara almennt)

  1. Blaðamennska er að einhverju leiti (allavega hvað varðar pappírsblöð) að deyja út. Fréttamiðlanir reyna að klóra í bakkann með því að safna klikkum , sem er ákv kredit fyrir þá varðandi að fá auglýsingatekjur, og klikkum er safnað með því að tröllast í múgnum. Ef stjórnmálamenn eru klöguskjóður leikvallarins, þá eru blaðamenn krakkarnir sem hópa sig í kringum vandræði og hrópa „slagur, slagur, slagur“

    En það eru risaeðlur sem stjórna þessum geira og þeir vilja ekki sleppa gömlu sýninni á blaðamennsku sem einhverskonar rogue vigelante embættistarfi , þar sem blaðamaðurinn berst fyrir því að afhjúpa lygar og birta sannleika, objektívt, satt og rétt.

    En sannleikurinn er að þessi sýn hefur aldrei verið annað en kredda – það er enginn í þeirri stöðu að sjá í gegnum hismann nema fyrir tilviljun, og þessvegna er day to day starf blaðamanns að gleðja auglýsendur og æsa upp múginn , þrátt fyrir að stundum slysist einn og einn blaðamaður til að rambá á einhverjar bombur, eða að ramma hlutina, svo heildræna og skaprskyggna sýn megi kalla.

    Ég var feginn þegar það byrjaði aftur að vera augljóst (í kringum aldamót) að blöðin eru málpípa stórra samsteypna – það er skömmini skárra en þessi lygi um að blaðamenn séu með einhverskonar blaðamennsku-hypocratesar eyð um að þeir muni vera objektívir – og lygin um að slíkt sé mögulegt fyrir það fyrsta.

  2. Bakvísun: Bullið í Evu Hauksdóttur | Ingimar Karl Helgason

  3. Þegar Davíð Oddsson gerðist ristjóri Mogganns fékk ég áfall þegar Illugi Jökuls, Guðmundur Andri Thors og fleiri, gott ef ekki Egill Helgason og fleiri eðalkratar, lýstu yfir vonbrigðum sínum með að þurfa nú að hætta að lesa/kaupa Moggann.

    Ég fékk áfall á sama tíma og ég fékk enn eina staðfestinguna á því af hverju frjálshyggjan fékk að vaða svona uppi athugasemdalaust frá hendi verkalýðshreyfingar og krata. Fyrir 20 árum síðan fóru ritstjórnir fréttamiðla að breytast úr hagsmunagæslu fyrir almenning í að vera markaðstæki fyrir eigendur sína. Fór mörgum að verða ljóst hvernig dagblöðin virkuðu og hvernig blaðamenn skrifuðu til að þóknast yfirmönnum sínum. Og fjölmiðlanna eru sérhæfðir í að bjaga veruleikann og vel tókst þeim til því kratarnir sáu þetta ekki fyrr en Davíð gerðist ritstjóri ! Löngu eftir hrun !

    Og enn heldur þessi kynslóð krata og Sjalla ( elítan með fjölskyldutengsl við eigendur Íslands ) að almenningur sjái ekki spillingarsnúninga eins og sýndardóma á Baldri bankaþjóf. Þeir halda enn að fjölmiðlarnir ráði því hvað fólk fær að vita. En netið hlífir engum og óróleikinn kemur upp á yfirborðið með nokkurra daga millibili. Og undir fullu nafni, athugið það!

  4. Vernd er áfangaheimili, einskonar æfingabúðir fyrir fanga til að læra á lífið utan fangelsisgirðingarinnar. Hjálpa þeim að aðlagast umheiminum. Það er vel passað upp á vistmenn og þeim kennt að fóta sig – undir eftirliti – í tilteknu frelsi. Þess er gætt að vistmenn séu ekki að slæpast. Þeir verða að halda sig við vinnu eða nám. Vinnustaðurinn er undir smásjá. Hann er kannski heimsóttur allt upp í þrisvar á dag – til að sannreyna að viðkomandi haldi sig að vinnunni. Suma daga er hann ekki heimsóttur. Aðra daga kannski tvívegis. Vistmaðurinn veit aldrei hvenær eftirlitsmenn stökkva inn á gólf.

    Vistmaðurinn getur alltaf búist við því að vera látinn blása í áfengismæli eða gefa þvagprufu. Jafnvel um miðja nótt. Hann verður að vera mættur í húsnæði Verndar fyrir klukkan 6 á kvöldin. Þá fær hann góðan mat í svanginn. Svo þarf hann að sinna einhverjum verkefnum: Mæta á AA-fund eða vaska upp eða skúra gólf eða þrífa veggi o.s.frv.

    Vistmenn eiga að vera komnir í rúmið klukkan 11 (eða hvort það er hálf 12?).

    Ef vistmaður stendur sig ekki fullkomlega er hann umsvifalaust fluttur austur á Litla-Hraun. Það er brot á reglum að mæta 1 mínútu of seint í kvöldmat eða yfirgefa vinnustað.

    Það er fátítt að vistmaður klúðri veru sinni á Vernd. Það er þvílíkur lúxus að vera þar í samanburði við að vera í fangelsi. Þar fyrir utan eru afbrotafræðingar og sálfræðingar og einhverjir slíkir búnir að greina fangann þannig að óhætt sé að hleypa honum í Vernd. Það eru aðeins útvaldir rólegheita fangar sem fá þar inni. Engir rugludallar; vímuefnafíklar, hættulegir ofbeldismenn, þjófar…

  5. Það er vissulega áleitin spurning hvort einhversstaðar á byggðu bóli séu til meiri skussar í fréttamennsku en hér á Fróni. Viskum vona að svo sé, en í þessu tilviki er eg hjartanlega sammála þessum aðfinnslum. Það er spurning hvort fjölmiðlamenn séu upp til hópa komnir á sömu buxur og hinn almenni blogg- og fésbókarkverúlant. Maður sér ekki beinlínis að nein krafa sé gerð um upplýsta og yfirvegaða umræðu, svo eg tali nú ekki um skynsamlega hlutlægni. Oft sér maður líka dæmi um skelfilega vankunnáttu blaða- og fréttamanna. Merkikerti eins og eg ber takmarkaða virðingu fyrir hefðbundnu kaffistofuglamri en það er þó oft ekkert lágkúrulegra en sumt sem fjölmiðlarnir láta frá sér fara.
    Með sama áframhaldi verður Feisbúkk alveg jafn yfirvegaður og upplýsandi miðill og hinir hefðbundnu miðlar. Og alveg ókeypis!

Lokað er á athugasemdir.