Míns eigins 2012

Árið 2012 var mér gott og reyndar með bestu árum sem ég þegar hef lifað.

Ég flutti til Glasgow í janúar og hóf sambúð með Eynari. Mér hefur aldrei liðið jafn  vel í ástarsambandi og ég er farin að trúa því að þetaldta verði bara alltaf svona gott. Ég hef aldrei átt jafn átakalaust ár og það kemur mér mjög á óvart að átakalaust líf skuli ekki vera neitt leiðinlegt. Ég hef hreinlega ekki upplifað nein persónuleg óþægindi á árinu. Það hlýtur að teljast fullkomið líf ef áhyggjur manns snúast um ástand heimsmála og að fólk sem manni er annt um sé ekki eins heppið og maður sjálfur.

Yfirvaldið

Ég varði töluverðum tíma til þess á árinu að bögga embættismenn og stofnanir með óskum um upplýsingar sem ég á rétt á en yfirvöld telja ranglega sína einkaeign. Tvö slík mál enduðu með því að ég lagði fram kærur sem varða upplýsingamál. Annarsvegar á hendur löggunni fyrir að neita mér um aðgang að skýrslunni um Búsó og hinsvegar á hendur dómsstjóra Héraðsdóms Reykjaness fyrir ólöglega gjaldtöku. Ég ætti að fá niðurstöður úr hvorutveggja á næstu dögum. Ég er ekki ennþá búin að ákveða hvort ég á að standa í því að klaga mannvitsbrekkurnar hjá kynjafræði HÍ fyrir að neita mér um aðgang að kennslugögnum.

Bloggs

Ég birti 334 bloggfærslur á árinu, þar af 18 persónulegar og 7 kvæði.

Þegar við Eynar fórum að bera okkur saman kom í ljós að heildarfjöldi flettinga á bloggið hans Eynars var svipaður og hjá mér, enda þótt ég skrifi 10 sinnum fleiri pistla en hann og leggi oft töluverða vinnu í þá. Ég taldi helstu skýringuna vera þá að konur væru bara almennt óvinsælli pennar en karlar. Eynari fannst mun líklegra að það væri sýnileikinn sem réði úrslitum og hvatti mig eindregið til að færa bloggið mitt yfir á markaðsvænna svæði. Mér hafði nokkrum sinnum verið boðið að blogga á stærri miðlum en langaði það ekkert. Hvorttveggja þykir mér vænt um lénin mín en auk þess langar mig ekkert að sætta mig við markaðslögmálin.

Eftir að ég kom fram í Silfrinu í apríl, rigndi yfir mig þakkarbréfum og margir þeirra sem skrifuðu mér höfðu ekki fylgst með skrifum mínum og jafnvel ekkert vitað af pistlinum.is. Ég væri ekki að birta skrif mín nema vegna þess að mig langar til að þau hafi áhrif og um mánaðamótin sept-okt ákvað ég að prófa að fara yfir á Eyjuna. Ég hugsaði sem svo að ef ný staðsetning hefði ekki mikil áhrif gæti ég bara farið heim aftur. Eynar reyndist hafa rétt fyrir sér. Lesendahópurinn minn hefur stækkað til muna og konur eru farnar að setja inn ummæli um pistla mína um dólgafeminisma en það var sjaldgæft áður. Svo ég viðurkenni hér með opinberlega: Ok, Eynar þú hafðir rétt fyrir þér, kynferði mitt ræður ekki miklu og kannski engu um það hvort fólk les pistlana mína.

Skáldagrillur

Ég gekk loksins frá ferðasögunni til Palestínu og kom útprentun í hendur Óla. Sé þó ekki nein merki þess að honum finnist neitt athugavert við hernámið, aðskilnaðarstefnuna og stríðsglæpi Ísraelsmanna.

Ég skrifaði eina ljóðabók sem ég á ekki von á að nokkur maður lesi. Eitt af því sem sem gladdi mig mikið á árinu 2012 var þó að tónlistarmenn hafa sýnt kvæðunum mínum áhuga. Evulögin eru allavega komin út, hvað sem síðar verður.

Nokkrir vina minna hafa samið ágæt lög við texta eftir mig en enginn þeirra hefur gert neitt í því að gefa efnið út. Ég hef í gegnum tíðina sent meira en 100 starfandi hljómsveitum og trúbadorum texta og óskað eftir samvinnu en fyrir árið 2012 hafði ég aðeins einu sinni fengið svar. Það var frá ljúfum drengjum sem afþökkuðu kurteislega en aðrir hafa ekki einu sinni staðfest móttöku á pósti. Jafnvel tónlistarfólk sem ég þekki persónulega hefur ekki látið svo lítið að svara. Gimaldin hafði samband við mig að fyrra bragði og lýsti yfir áhuga á að nota textana mína og það þykir mér vænt um.

Síðan ég kynntist Eynari hefur hann hvatt mig stöðugt til þess að hafa samband við Bubba Morteins og bjóða honum texta en mér fannst hugmyndin fáránleg. Sagði honum að fyrst amatörar virtu mig ekki svars, þá væri ævinýralega vitlaust að láta sér detta í hug að Bubbi læsi einu sinni póst frá mér. Að lokum sendi ég Bubba póst, eiginlega bara til að geta sagt Eynari að það væri fullreynt. Mér til undrunar svaraði Bubbi og bað mig að þýða fyrir sig ljóðið “Cranky Old Man”. Mér fannst virkilega gaman að heyra lag með texta sem ég þýddi flutt fyrir troðfullri Eldborg á Þorláksmessu. Ét hér með ofan í mig þá fordóma mína að fólk sem nýtur velgengni sé öðrum ólíklegra til að skoða möguleikana á að vinna með einhverjum óþekktum.

Áramótaheit

Árið 2012 var ár var aukinheldur ár hinnar frúarlegu hárgreiðslu. Nú er hárið á mér komið í nógu druslulega sídd til þess að ég er farin að líkjast sjálfri mér aftur.  Þar sem ég hefi öngvar syndir, gef ég engin kalvínísk áramótaheit. Ég mun því halda áfram að drekka rauðvín, borða súkkulaði og sofa til hádegis þegar mig langar til þess, en í tilefni af því að hárið á mér aftur að verða eins og á örlaganorn, ætla ég að leggja meiri rækt við fordæðuskap minn á nýja árinu. Og það finnst mér nú skemmtilegt.