Ég þyngdist um 3 kg á 4 vikum. Ég þurfti ekkert að hafa fyrir því. Bara að standa á beit allan daginn og ekki í gulrótum og gúrkum heldur konfekti og kökum. Harðfiskur með smjöri sem kvöldsnakk. Brauð með súpunni, eftirréttir með rjóma. Kjöt og sósur á hverjum degi. Ef ekki heil kjötmáltíð þá allavega flatkökur og hangikjöt.
Nú er vika síðan ég kom heim og eitt kg farið. Kannski bara vatn en mér er alveg sama, það hefur þá líka verið vatn sem ég bætti á mig. Ég hef svosem ekkert þurft að hafa fyrir því heldur, ég hef alveg fengið mér súkkulaði, hafði beikonpasta í matinn eitt kvöldið og ég borðaði vínarbrauð um helgina eins og venjulega. En ég hef ekki borðað nammi í algjöru hugsunarleysi, ekki búið til feitar sósur og ég hef borðað minna af sterkju en ég geri þegar ég er ekki að passa mig.
Ég reikna með að þurfa að hafa aðeins meira fyrir því að losna við þessi 2 kg sem eftir eru. Síðasta vor gerði ég það með því að elda frekar hitaeiningasnauðan mat 3 daga í viku, venjulegan mat 3 daga og sukkmat einu sinni í viku.
Í gær bjó ég til blómkálssúpu. Notaði mjólk og kartöflur í staðinn fyrir rjóma. Það er reyndar alls ekki nauðsynlegt að nota neitt meira en kálið sjálft ef maður á góðan blandara en maður verður fljótt svangur ef er engin næring í súpunni.
Ég sauð kartöflur, blómkálsstöngul og lauk ásamt hvítlauk, súputeningi, smjöri (10 g á mann), karrýi, smá múskati, salti og pipar. Bætti mjólk út í þegar þetta var búið að sjóða í svona rúman hálftíma og hleypti suðunni upp.Lét kólna aðeins og maukaði svo í blandaranum. Setti aftur í pott, blómkálsknappa út í og sauð í 5 mínútur. Bætti svo dálitlu sherry út í.
Á meðan súpan var að sjóða steikti ég sveppi gullinbrúna í dálitlu smjöri (10 g á 120 g af sveppum) og reif 30 grömm af góðum osti. Ég bar súpuna þannig fram að ég setti nokkur lauf af klettasalati ofan á og steikta sveppi og ost í miðjuna.
Þetta varð ósköp góð súpa, þykk og mjúk. Ég er ekki viss um að rjómi hefði bætt hana verulega mikið. Minna en 800 hitaeiningar með osti og öllu. Þetta var yfirdrifið nógur matur handa okkur Einari báðum en við borðum næstum alltaf salat í forrétt. Með salatinu eru þetta 400-500 he á mann, eftir því hvað maður notar mikla olíu á salatið og mikinn ost í súpuna. Og ef er einhver á heimilinu sem þarf meiri orku þá býður maður bara upp á brauð með súpunni.
Ég ætla að elda pasta í kvöld. Ekki samt með beikoni eða rjóma.