Viðtökurnar við SCUM

 

 

 

Valerie Solanas

Ég var að lesa SCUM, fyrst nú, hef aldrei lesið ávarpið í heild áður. Það væri áhugavert að sjá viðbrögðin ef einræðu um ógeðslegt eðli og innræti kvenna yrði hampað sem listaverki.

Af hverju hef ég á tilfinningunni að Andspyrna myndi ekki hefja til skýjanna verk sem talaði um konur sem óværu og tíundaði það hvernig þær hafa mergsogið karlmenn bæði tilfinningalega og fjárhagslega, haldið þeim í margskonar ánauð, kallað fram allt það versta í þeim, hindrað þá í því að nýta hæfileika sína og í raun eyðilagt heiminn. Það er ekkert erfiðara að rökstyðja það viðhorf en sorann sem Valerie Solanas lét frá sér.

Það er út af fyrir sig athyglisvert að mitt í allri umræðunni um hlutgervingu kvenna og endalausa niðurlægingu þeirra af hálfu karlmanna, sé hatursáróðri í garð karlmanna lýst sem hressum og kjaftforum. Hvaðan kemur annars sú hugmynd að ef kona hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi þá hafi hún þar með leyfi til þess að dreifa skít? Ég sé ekki fyrir mér að það fólk sem mælir þessu bót myndi hampa sambærilegum sora í garð t.d. svartra manna, með þeim rökum að höfundur hefði orðið fyrir nauðgun af hálfu svertingja.

Ekki er Knúzið með skárri greiningu en Andspyrna.

Það væri hægt að flokka SCUM sem satíru í anda Swift ef tilgangurinn hefði verið sá að varpa ljósi á karlhatur. Swift var semsagt að hæðast að því viðhorfi að fátæklingar væru byrði á samfélaginu en ekki að leggja til að börn yrðu étin. Solanas var hinsvegar ekki að hæðast að því viðhorfi að karlar séu byrði á konum, hún var að hella úr skálum reiði sinnar og það þarf ævintýralega afneitun til að sjá það ekki.

Annars er reiðilestur Valerie Solanas ekkert áhrifarit og tilraun hennar til að ráða Andy Warhol bana fékk fremur snautlegan endi. Hún var ein í þessum samtökum sínum, rétt eins og séra Skúli er eini meðlimur íslensku Sköpunarkirkjunnar. Þau eiga margt sameiginlegt, m.a. það að njóta engrar virðingar samtímafólks síns. Það er hinsvegar verulega ógeðfellt að sjá upplýstar konur á 21. öldinni verja þennan viðbjóð.

Við getum alveg hlegið að karlhatri og afsakað það með því að ofbeldi kvenna í garð karla sé hvort sem er svo sjaldgæft að það sé ekkert vandamál en þegar grannt er skoðað er það einmitt mjög svipað viðhorf sem notað er til að réttlæta nauðgunarhúmor. Ég sé femínista ekki taka undir þá skoðun að það sé algerlega fráleit hugmynd að Giljagaur myndi ráða 5 stæðlega negra til að nauðga feministum og þar með sé engin merking á bak við brandarann, en hann var þó allavega að reyna að vera sniðugur.

Deildu færslunni

Share to Facebook