Vantar eina blaðsíðu eða tvær

baggalutur

Hvað segir geðbólgan yfir þjóðhátíðartexta Baggalúts okkur um afstöðu þessa hóps, sem fordæmir hann, til listarinnar?Ég sé ekki betur en að þessi texti (sem sjá má hér), eins og flestir aðrir textar Baggalúts, sé írónisk lýsing á ákveðnum veruleika, ákveðnum viðhorfum sem þrífast í samfélagi okkar. Ekki fær maður á tilfinninguna að þeir sem ort er um séu ungir menn á uppleið; fremur sér maður fyrir sér heldur aumkunarverða pilta í örvæntingarfullri viðleitni til að losa sig við sveindóminn (sem þeir í bjánaskap sínum líta á sem mikinn klafa). Ég hefði haldið að þeir sem heyra þennan texta væru líklegri til að taka þá afstöðu að þeir ætli ekki að skipa sér í þann flokk sem geta tekið textann til sín, en að hugsa sem svo að það sé góð og gild hegðun að stökkva á kófdrukknar stúlkur og gera þarfir sínar á þeim.

Það að lýsa lágkúrulegum hugsunarhætti er ekki það sama og að hvetja til glæpa. Ef við ætluðum að taka viðhorf feministafélagsins alvarlega, væri einnig rökrétt að losa okkur við alla list sem sýnir sjónarhorn og afstöðu sem getur leitt til vondra verka hvort sem sú list er sett fram í alvöru, af léttúð eða með háði. Við myndum þá fordæma jafnt sjónvarpsþættina um Dexter og gamla sjómannasönginn sipp og hoj (og svo nýja í næstu höfn). Texti Jóa og Simma um Hannes Smárason yrði einnig skoðaður sem hvatning til þess að stunda óábyrgt gróðabrask og nýta sér skattkerfið í Sviss til að fela tekjur.

Ég á erfitt með að trúa því að nokkur geti verið svo sneyddur hæfileika til listrænnar túlkunar að hann skilji texta Baggalúts í alvöru sem lofsöng til ofbeldisfullrar hegðunar. Ég hef þó rekið mig á það sjálf að það er til fólk sem hreinlega skilur ekki íróníu svo líklega eru þessi viðbrögð ekki bara stælar. Sennilega vantar bara eina blaðsíðu eða tvær í þá sem skilja ekki textann. Það er þó vafasamt að nokkur listamaður muni láta þá fáu sem skortir hæfileika á borð við kímnigáfu og skilning á háðsádeilu hafa áhrif á sig.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Vantar eina blaðsíðu eða tvær

 1. Gamlar tjásur

  ef umræddur texti gerir unga drengi að nauðgurum þá er illa komið fyrir þjóðinni.

  Posted by: baun | 31.07.2008 | 17:31:50

  náááákvæmlega!

  Posted by: hildigunnur | 31.07.2008 | 20:39:30

  Mér finnst þetta ágæta fólk miklu fremur vera að lýsa sínum eigin hugsunum en annara. Minnir mig dálítið á þetta Smáralindarmál hér um árið.

  Posted by: Guðjón Viðar | 1.08.2008 | 12:29:03

  Hvað skal þá segja um perrana Gvend á eyrinni sem naut mikillar ánægju af kindunum sínum, eða þá Þórð sjóara sem elskaði þilför?

  Posted by: anna | 1.08.2008 | 19:36:16

  Hvað þá dýramisnotkun eins og í laginu með Hjálmum um Kindina Einar.
  http://gvv.blog.is/blog/gvv/entry/605139/

  Posted by: Guðjón Viðar | 1.08.2008 | 21:21:38

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *