Ég er ósammála Friðriki Smára, yfirmanni rannsóknarlögreglunnar, um að almennir borgarar eigi ekki að taka lögin í sínar hendur. Þvert á móti finnst mér það bara gott mál. Þ.e.a.s. að almennir borgarar sinni þeirri rannsóknarvinnu sem löggan vanrækir.
Ég vil helst ekki sjá almenna borgara taka að sér að dæma og refsa þótt vissulega megi deila um hæfni réttarkerfisins en að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir ofbeldi er hinsvegar sjálfsagt, jafn sjálfsagt og að koma náunga sínum til hjálpar í vanda. Það er samfélagsleg ábyrgð sem ætti að efla ef eitthvað er. Hvort lög sem skilgreina vændiskaup sem kynferðisglæp eiga rétt á sér, það er hinsvegar allt annað mál.
Að vera stóra systir
Ég ólst upp sem stóra systir. Ung að árum vissi ég flesta hluti betur en aðrir á heimilinu og þá einkum hvað systkinum mínum væri fyrir bestu og hvaða uppeldsisaðferðir væru líklegastar til að skila árangri. Ég elskaði þau út af lífinu, varði þau, barði og ráðskaðist með þau fram á fullorðinsár, í þeirri heilögu sannfæringu að mér bæri að hafa vit fyrir þeim. Enn í dag kemur það fyrir að mér finnst í raun og sannleika að æskilegast væri ef þau leyfðu mér að stjórna lífi sínu enda veit ég iðulega betur en þau. Það sem hefur breyst síðan ég var fjórtán ára er að í dag geri ég mér grein fyrir því að þessi umhyggja mín kallast á mannamáli frekja og stjórnsemi og þegar hún grípur mig tek ég því sem merki um að eitthvað vanti upp á geðprýði mína, fremur en að eitthvað sé að þessu fullorðna fólki sem hvað eftir annað tekur einhverjar allt aðrar ákvarðanir en mér þykja bestar.
En sumar stórar systur vaxa aldrei upp úr hlutverkinu. Sumar þeirra líta alla tíð á annað fólk sem börn eða minnimáttarmanneskjur sem þær, þessar stóru og merkilegu, þurfi að gæta, snýta og ala upp. Þær halda áfram að ráðskast með annað fólk í gegnum stjórnkerfið. Þær fara í lögguleik þegar þær telja líkur á að þessi litlu og vitlausu séu að gera eitthvað af sér eða fara sér að voða og hóta svo að klaga í pabba og mömmu, já eða bara „segja öllum“ ef þau hlýði ekki.
Ólögleg aðgerð — en er það svo slæmt?
Margir hafa velt upp þeim spurningum hvort aðgerð kúklúxbúrkusystranna sé ólögleg og/eða ósiðleg. Svarið er að hún er ólögleg. Klárlega. Það er bannað að auglýsa vændi, þær brutu þau lög, það er bannað að hvetja aðra til lögbrots, þær brutu einnig þau lög, það er líka ólöglegt að taka upp símtöl án þess að viðmælandinn viti af því og slík gögn eru ógild fyrir dómi.
Ég býst við því að margir þeirra sem þekkja afstöðu mína til vændislaganna reikni með að ég hafi óbeit á þessari aðgerð en svo er reyndar ekki. Ég hef óbeit á vændislögunum en ég hef skilning á þessari frekjuaðgerð. Lög eru engin heilög kýr. Lög um persónuvernd eru ekki sett í þeim tilgangi að glæpamenn geti dundað við sína iðju óáreittir, heldur þeim tilgangi að vernda almenna borgara gegn yfirvaldinu eða sá ætti allavega að vera tilgangur þeirra. Hvað varðar lög um vændisauglýsingar þá er einfaldlega fáránlegt að banna auglýsingar á löglegri starfsemi og því jafn bjánalegt að hnýta í stóru systur fyrir það, eins og það er af stóru systur að pönkast á fjölmiðlum fyrir að birta þær. Mér finnst lögbrotið því í sjálfu sér ómerkilegt. Verri finnst mér hótun þeirra um birtingu persónuupplýsinga. Það er nefnilega þannig í réttarríki að maður skal teljast saklaus uns sekt er sönnuð og þrátt fyrir að stórasystir sé búin að vera í samfelldu frekjukasti í mörg ár, hefur sú regla enn ekki verið afnumin gagnvart kynferðisbrotum.
Þetta kúgaða og sjálfsvirðingarlausa fórnarlamb feðraveldisins hefur sætt vændi og þarf nú sárlega á afmellunarmeðferð að halda til að átta sig á því að hún vill þetta í rauninni ekki.
Með augum Stóru Systur
Áður en við fordæmum kúkluxbúrkufasysturnar fyrir tiltækið, skulum við skoða þetta aðeins frá þeirra sjónarhóli. Við skulum gera okkur grein fyrir því að systraveldið hefur dálítið sérstakar hugmyndir um veruleikann. Þessar konur líta á vændiskaup sem alvarlegt kynferðisafbrot. Ekki minniháttar misneytingu heldur gróft ofbeldi gagnvart varnarlausum þolanda. Þær trúa því í raun og sannleika að karlmenn séu stórkostlega varhugaverðar skepnur og konur fórnarlömb, alltaf og við allar aðstæður. Þær trúa því í alvöru að vændiskúnnar séu illa innrætt skrímsli með manngervingsviðhengi fast við óseðjandi tittlinginn og að allar hórur séu viljalaus verkfæri, geðsjúklingar eða einhverskonar börn sem þurfi á vernd og umvöndun stóru systur að halda.
Þær trúa því að þótt kona geti sjálfviljug borað fingrunum ofan í sveittar spikfellingar til að nudda stífa vöðva, hreinsað graftarvellandi sár, meðhöndlað klamidíusýktar píkur, fjarlægt kúkableiur og klippt inngrónar táneglur, „hlutgervist“ hún skyndilega um leið og hún kemst í snertingu við nokkuð jafn ógeðslegt og stífan karlmannslim án þess að vera tilbúin til að giftast honum og eignast með honum börn. Breytist í verkfæri, bæði í eigin huga og „gerandans“ sem liggur á bakinu í hamslausum losta sínum á meðan hún þvingar sig til að strjúka þetta viðbjóðslega líffæri, með æluna í hálsinum og tárin rennandi niður kinnarnar. Og gangi hlutgervingin svo langt að karlinn, af óhaminni og viðurstyggilegri hórugirnd sinni, tæli hana eða beiti hana annarskonar andlegu ofbeldi til að þvinga hana úr nærbuxunum, missir hún skyndilega sjálfsvirðinguna, gott ef „sjálfsmynd hennar skerðist“ ekki (hvað sem það nú merkir) um leið og hún gyrðir niður um sig. Á þessu stigi hefur hún ennþá möguleika á að staðnæmast á druslustiginu og leita sér hjálpar hjá stóru systur til að endurheimta sjálfsvirðingu sína en ef peningar eða dýr gjöf hefur komið til tals er hún þegar orðin viljalaust fórnarlamb. Hún hefur „leiðst út í“ vændi. Hún „sætir“ vændi, sem hann „beitir“ hana, því eins og segir í Kynungabók:
Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislega áreitni og klám.
Þetta er að vísu rangt en engu að síður sú hugmyndafræði sem nærbuxnafeministar vinna eftir.
Ef um aðra glæpi væri að ræða …
Þessi hugmynd um vændiskaup sem gróft kynferðisofbeldi er náttúrlega dálítið flippuð en í huga þessara kvenna er hún veruleiki og það sem meira er, þessi brenglaða mynd af veruleikanum hefur verið staðfest með lögum. Til þess að leggja mat á aðgerðina, verðum við því að máta aðra „glæpi“ inn í samskonar aðgerð. Ímyndum okkur t.d. að við vissum af dópmangara sem einbeitti sér að ólögráða börnum, löggan hefði engan áhuga á því og blöðin aðstoðuðu við markaðssetningu. Þætti okkur þá í lagi að þykjast vera væntanlegur kúnni og taka símtalið upp? Sennilega þætti flestum það réttlætanlegt því velferð barna er mikilvægari en bókstafur laganna.
Á myndinni má sjá konur sem eru ekki til því eins og segir í opnu bréfi samtaka um kvennaathvarf til þingfulltrúa 20. október 2003, þar sem skorað var á þá að taka lifibrauðið af vændiskonum:
Þær konur sem stunda vændi eru þar ekki af fúsum og frjálsum vilja heldur út af neyð, engin kona velur sér meðvitað það hlutskipti að gerast vændiskona.
Best gæti ég trúað að enn fleira fólk liti aðgerðina mildum augum ef það setti barnasölu inn sem breytu. Nú er í rauninni ekkert til sem heitir barnavændi. Að hafa mök við barn heitir barnamisnotkun og er jafn ólöglegt hvort sem peningar skipta um hendur eða ekki. Flestum okkar býður við slíkri hegðun og ég hef heyrt nokkur dæmi þess að fólki þyki stórasysturaðgerðin í lagi gagnvart manninum sem ætlaði sér að hitta 15 ára telpu gegn greiðslu en ekki gagnvart þeim sem ætluðu að hitta fullorðnar konur. Við skulum hinsvegar athuga að búrkusystur sjá engan sérstakan mun á vandræðaunglingum sem hitta menn á einkamal.is til að hala inn pening fyrir næsta skammti og fullorðnum druslum á sama vettvangi. Konur sem hegða sér ekki eins og þær vilja eru í þeirra huga börn, litlu systur sem þarf að passa. Í því ljósi er aðgerðin rökrétt og er rökhugsun þó ekki sterkasta hlið nærbuxnafeminista.
Að tækla Stóru Systur
Nú eru fasysturnar búnar að skamma óþekku bræðurna og næsta skref stóru systur hlýtur að vera að stoppa litlu systur í því að fara sér að voða. Við getum reiknað með að næst þykist þær vera þokkalega múraðir vændiskúnnar og mæti í búrkunum sínum á hóruhúsin til að bjóða fórnarlömbum feðraveldisins upp á afmellunarmeðferð. Og ef það dugar ekki til, má líklega reikna með að þær klagi í foreldra þeirra eða ef þær eru útlendingar að þær birti myndir af þeim í blöðunum svo við getum öll hjálpast að við að passa upp á að þær haldi nærbuxunum upp um sig.
Stóra systir kemur ekki til með að draga úr eftirspurn eftir vændi. Kúklúxbúrkurnar hafa hugsanlega gert einhverjum vesalingum hverft við svo þeir læra hér með að fara varlegar en lengra ná áhrif þeirra ekki. Lagalega hefur aðgerðin ekkert gildi. Samkvæmt íslenskum lögum er maður saklaus uns sekt hans er sönnuð og enn a.m.k. þarf dómsúrskurð fyrir forvirkum rannsóknarheimildum. Upplýsingarnar sem fasysturnar gáfu löggunni skipta því nákvæmlega engu máli fyrir hugsanlega rannsókn. Hinsvegar væri hægt að draga bjargvættirnar fyrir dóm ef einhver hórkarlinn hefði kjark til þess að kæra þær. Ég efast þó um að nokkur muni leggja í það, það er nefnilega svo ljótt að vera svona tittlingsskrímsli sem er m.a.s. til í að borga fyrir það sem ekki er í boði hjá stóru systur.
Svo hvernig er þá hægt að tækla stórusystur í frekjukasti? Jafnvel þótt við leiðréttum lögin, svo vitlaus sem þau nú eru, skiptir það litlu máli, það er eftir sem áður hægt að dunda sér við að elta fólk uppi og afhjúpa einkalíf þess. Það þarf að breyta lögunum en það dugir ekki til. Líklega væri besta leiðin gegn fasystraaðgerðum sú að hætta að líta á vændi og vændiskaup sem feimnismál. Viðurkenna veruleikann sem við blasir, líta á kynlífsþjónustu sem hverja aðra starfsgrein. Svara svo stóru systur á sama hátt í þessu tilviki eins og fullorðið fólk gerir allajafna þegar stóru systur þess fá frekjukast; tilkynna þeim af hinu mesta æðruleysi að þeim komi þetta að vísu ekki við en þær geti svosem ólmast eins og þær vilja, í búrku eða án. Segja þeim að þær geti birt nöfn og kennitölur ef þeim sýnist því þeir sem vinni við kynlífsþjónustu og noti hana, líti ekki á það sem neitt skammarlegt.
Þessi svívirtu fórnarlömb kynlífskaupenda vita ekkert hvað þær eru að tala um.
Þær þurfa stóru systur til að hafa vit fyrir sér.
——————————————————————————–
Frábær færsla eins og flestar þínar færslur undanfarið! Gott að sjá málið reifað og mörg sjónarmið tekin til greina. Svo spillir ekki að ég er hjartanlega sammála niðurstöðunni 🙂
Posted by: Harpa Hreinsdóttir | 21.10.2011 | 3:52:36
Snilldarpistill.
Posted by: atli | 21.10.2011 | 9:51:45
Virkilega skemmtilegur pistill aflestrar takk. Ég gat ekki haldið í mér hlátrinum þegar þú fórst á flug í lýsingum þínum á „hlutgervingu“ og „smækkaðri“ sjálfsmynd.
Posted by: Sigurður | 21.10.2011 | 10:46:41
Hjartanlega sammála flestu hvað varðar prinsippin í þessu. Að einhverju leiti finnst mér þetta meira réttlætanlegar aðgerðir stórusystra í talíbanabúningum af því þarna voru fullorðnir menn að leita sér eftir að níðast á óhörðnuðum unglingum.
En algjörlega sammála því að þetta er afskiptasemi sem ber að mótmæla. Fólk á rétt á sínum eigin líkama (eftir 18 ára aldur) og má gera við sig eins og það vill. Það er mergurinn málsins. Svo er það annað mál að margar hórur vinna þetta ekki af meiri neyð heldur en flest annað fólk neyðist til að vinna sína vinnu. Og hórur fá reyndar mun betur borgað en flest annað fólk (svo hverjir eru raunverulegu hórurnar?).
Mér finnst að hórur ættu bara að koma út úr skápnum. Og við hin sem sjáum að þetta snýst um mannréttindi ættum að þora að tala skýrt um þessi mál, án þess að óttast að vera kölluð hórumangarar eða vændiskaupendur. Menn þurfa ekki að vera hrifnir af vændi til að viðurkenna það sem mannréttindi. Alveg eins og menn þurfa ekki að vera alkóhólistar til að vilja leyfa almenna sölu á áfengi.
Svo með því að fá þetta upp á yfirborðið þá eru munu kjör þessa fólks skána. Þau geta farið til lögreglu ef á þeim er brotið og geta borgað skatta og lífeyrisgjöld osfrv. eins og venjulegt fólk á rétt á. Að ýta þessu niður í undirheima er ekkert að hjálpa þessum konum neitt. Þannig að ef búrkukonum er virkilega annt um velferð þessara systra sinna ættu þær að hugsa málið aðeins betur.
Posted by: Viðar F. | 21.10.2011 | 14:14:09
Góð grein hjá þér.
Ofstæki og fyrirframgefnar forsendur hannaðar að meintum tilgangi eru alltaf varhugaverðar.
Þegar aðgerðarsinninn sveipar sig leynd þá vitum við að hann telur sig ekki falla undir sömu reglur og aðra.
Svo búrkur og nafnleynd og persónunjósnir ??? Í fangelsið með þær hið sama !
Segðu að þarna hefðu verið karlmenn og upplýsingarnar snúið að fjármálum fólks … jamm … hefði verið ansi öðruvísi tekið á málum.
Samt er mansal og ofbeldi miklu alvarlegra er fjármálaglæpir í augum yfirvalda.
Svo „Stóra systir“ er að nýta sér linkind karlaveldisins gangvart konum … auðvitað átti lögreglan að skrá niður nöfnin þeirra og beita til þess handtökum ef þörf væri á.
Jamm … lögreglan brást þarna hrikalega … „Stóra systir“ fékk óáreitt að viðurkenna persónunjósnir og lögbrot og þeir spurðu þær ekki einu sinni að nafni.
Posted by: Hlynur Jörundsson | 22.10.2011 | 0:33:19
Vændiskonur geta ekki komið fram og tjáð sig, því femínisitar vinna að því hörðum höndum að viðhalda á þeim slíkum vansældar og hörmungastimpli að það getur engin kannast við það að starfa við vændi án þess að vera um leið samkvæmt almannarómi orðinn vesælasti hlekkurinn í samfélaginu.
Posted by: Kristinn | 22.10.2011 | 0:49:38
Kristinn, heldurðu í alvöru að það sé Femínistum að kenna að skömm fylgi vændi?
Posted by: Toggi | 22.10.2011 | 2:33:31
Toggi, nei, ekki einir. En femínistar standa sig djöful vel við að ala á skömminni – viðhalda henni.
Posted by: Kristinn | 22.10.2011 | 2:43:03
Og þeirra öfgar snúa ekki bara að vændi. Vilja skerða tjáningarfrelsið og að vefsíðum sé lokað. Ritskoðun, persónunjósnir og krefjast þess að takmörkuðum tíma og pening lögreglunnar sé forgangsraðað í þessa „glæpi“. Og að hóta birta nöfn er ekkert annað en nútíma galdrabrenna. Nornaveiðar á Íslandi 2011!
Posted by: Sigurbjörn | 22.10.2011 | 3:20:47
Við skulum nú ekki kenna femínistum um of mikið. Það virðist þó vera að fyrirlitning (eða vorkunn) á þeim sem kjósa kynlífsiðnaðinn sé hluti af „rétttrúnaðinum“ og það finnst mér stórfurðulegt.
Posted by: Einar Þór | 22.10.2011 | 3:53:19
Mér fynnst ekkkert hræðilegt þótt svona pólitísk aðgerðarsamtök taki sig til og geri einhvern svona gjörning.
Röksemdarfærsla þeirra og tilhneyging til þess að vilja skilgreina orð og hugtök í hringi („vændi=feðraveldi=ofbeldi=nauðgun=vændi=“) fynnst mér vera sophmoric ofureinföldun, en það er svosum einkenni allra pólitískra aðgerðarhópa að ofureinfalda flókinn veruleika – því það er erfitt að safna í lið gegn flóknum aðsteæðum og auðvellt að safna í lið með svart/hvítum upprhópunum
Ein slakasta röksemdin (og ofureinföldunun)er málið með „hamingjusömu hóruna“ . Sú röksemd er jafn slæm hvort sem verið er að tala um hana sem „raunverulega“ (ala susara Amx bloggara gúbba style) eða „óraunverulega“ (ala femmenatzi rageaholic-isma undir yfirskyni ummhyggju)
Ég á í miklum vandræðum með að finna hinn hamingjusama íslending, hvað þá búðarstarfsmann eða einhvern sem vinnur á McDonalds eða öðru þjónustustarfi.
Ekki einu sinni þessir oföldu kverúlanta eylífðarstúdentar virðast vera sérstaklega hamingjusamir
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 4:14:04
Nú veit ég að það er hrein bilun af mér að hætta mér út í þessar umræður en samt…hvernig dettur ykkur í hug að þessar konur fyrirlíti vændiskonur? Í alvöru talað.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 4:15:39
Þorgerður,
Þær eru ófærar um að sjá vændiskonur sem einstaklinga með mismunandi skoðanir, væntingar og þrár. Sjá þær bara sem einhliða táknmyndir í þjónustu við eigin hugmyndafræði. Ef maður á bara hamar, er hætt við að allt taki að líta út eins og nagli.
Posted by: Eyjólfur | 22.10.2011 | 4:30:26
Afsakið, en þið talið eins og þið kannist ansi vel við fólk í þessum „iðnaði“. Það er þessum svokölluð „nærbuxnafeministum“ að þakka að konur í sem sæta misrétti í vændisiðnaðinum geta nú leitað sér hjálpar, með því að fá það í gegn að salan verði lögleg, það er því kaupandinn sem lögbrjótur í þessu tilfelli. Lög um persónuvernd eru ekki sett í þeim tilgangi að glæpamenn geti dundað við sína iðju óáreittir, heldur þeim tilgangi að vernda almenna borgara, og þessar „hórur“ eru almennir borgarar og það eru glæpamenn líka. Í þessu tilfelli er þetta spurning um siðferði.
Ástæðan fyrir því að stígamótakonur og aðrir „nærbuxnafeministar“ halda því fram að í vændi fari fram gróft ofbeldi og misbeyting á valdi gagnvart „hórum“ er sú að í áraraðir hafa konur úr þessum bransa verið í viðtölum hjá þeim, leitað sér hjálpar hjá þeim, getið þið ímyndað ykkur sögurnar sem þær hafa heyrt?
Og hversu margar konur hafa sagst elska starfið sitt? Einhverjar en það er ekkert í líkingu við þær sögur sem komið hafa fram um konur sem lentu illa í því, og jafnvel héldu því fram að þetta væri starf sem þær „elskuðu“.
Það svelta ekki öll börn í afríku en það breytir ekki þeirri staðreynd að alltof mörg þeirra deyja úr hungri.
Posted by: Rebekka | 22.10.2011 | 4:35:09
Þessi aðgerð beindist að vændiskaupum…en hér vaða auðvitað alhæfingarnar, nema hvað.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 4:35:33
@Þorgerður
Ég held að þær „fyrilíti“ vændiskonur á svipaðann hátt og ég fyrilít menn sem ganga í herinn – þ.e. ég geri ráð fyrir því að þeir séu ekki endilega skörpusut hnífarnir í skúffuni
Munurinn er samt sá að ég tel þá sem skrá sig í herinn eða selja sig þurfa að taka ábyrgð á vitleysu sinni að einhverju leiti sjálfir/sjálfar (þó vissulega sé markviss heilaþvottarstarfsemi stunduð í herþjálfun og vissulega til dæmi í álíka hlutfalli um mansal) á meðan femenistar vilja kenna karlmönnum/feðraveldinu um allt sem kemur við þeim ósið sem vændi er (veit ekki hvaða skoðanir femenistar hafa á hvatningu til að sinna herþjónusutu)
Ég held líka að sú tilhneyging til að vilja hugsa fyrir aðra fullorðna einstaklinga í nafni umhyggju sé í það minnsta jafn oft yfirhylming yfir fyrirlitningu eins og preststarf getur yfirhylming yfir annað misjafnt.
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 4:39:54
@ Rebekka
Ég andmæli á engann hátt því að vændi sé vafasamt og að í því „þrífist“ ofbeldi
Ég er hinsvegar ósammála femenistum þegar þær vilja meina að þetta sé allt gert bara í einhverjum þrældómi, það tel ég ofureinföldun
Og ég er ósammála femenistum um flest sem þær segja um klám, Þ.e. klámiðnaðinn. Klám á netinu í dag er að miklu leiti heimatilbúið og gert af fúsum og frjálsum vilja af exhibitionistum.
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 4:56:08
Hvað vilja vændiskonurnar sjálfar?
Danir birtu rannsókn um þetta í sumar þar sem fram kom að meirihluti vændiskvenna í Danmörku vill EKKI að vændi verði bannað, né að sænska öfgaleiðin verði tekin upp.
Posted by: Sigurbjörn | 22.10.2011 | 5:14:30
Það er ekki nóg að halda eitthvað, Ólafur Ágúst, þetta eru bara fabúleringar hjá þér.
Og að halda því fram að mest allt klám á netinu sé búið til af exhibitionistum…ég hló upphátt þegar ég las það. Fáránlegur órökstuddur barnaskapur og vitleysa.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 5:26:15
Hér er lítil grein varðandi praktíkina í lögleiðingu vændis.
http://ideas.repec.org/p/got/gotcrc/096.html
Meti það hver eins og hann vill. Er einhver með statistíkina á því hversu margar vændiskonur hérlendis eru Íslendingar?
Posted by: Danni | 22.10.2011 | 5:29:00
@Þorgerður
Það var líka mikið hlegið núna fyrir sirka ári þegar klámiðnaðurinn í bandaríkjunum bað um bailout vegna þess að þeir hefðu orðið af svo miklum tekjum vegna netsins og heimagerðu klámi
Bæði ég og femenistar geta fagnað því að ríkið setti ekki neina peninga í það
Það er allavega vel staðfest og augljós staðreynd að 90% af þeim video-um sem þú sérð á helstu klámsíðunum eru heimagerð
Kíktu bara á tvær vinsælustu klámsíðurnar ef þú trúir því ekki
hérna eru url-in
youporn.com
redtube.com
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 5:31:13
Ég get glatt þig með því að ég hef skoðað þessar síður og maður þarf að vera í meira lagi barnalegur til að sjá ekki að hér er fyrst og fremst verið að setja inn klipp úr klámmyndum. Kommon.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 5:34:18
@Þorgerður
Vá hvað ég er glaður
Jú jú: heimagerðum klámmyndum
Ég held að hérna sé vandamálið í hnotskurn: Fólk sér það sem það vill sjá
Orðanotkun femenista er uppfull af loðnum subjective hugtökum (sjálfsmynd, hlutgerving, staðalýmindir, feðraveldi) sem gerir auðveldara fyrir þá að læsast inní eigin hugarheimi byggðan á einhverskonar oprah winfrey
félagsfræði (lesist:stjörnuspeki)
(ekki það að mín sýn á þennan óendanlega ósýnlega fíl sé endeilega eitthvað fullkomnari þó ég þykist sjá frá mínu sjónarhorni aðra hluti en femenistarnir)
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 5:55:21
æji vinur ,skoðaðu þetta aðeins nánar. Fyrir neðan langflest klippin er vísun í klámsíðuna sem það er tekið frá. Og það eru engar amatörsíður, jafnvel þó að menn vilji gjarnan að það líti þannig út. Sjálf myndi ég gjarnan vilja að klám væri allt saman búið til heima í einhverri gleði, það væri auðvitað langbest, en það er bara barnaskapur að halda að svo sé.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 5:58:52
Að vísað eða hýst sé á pro-síðum á netinu en að content-ið sé amateur er reglan en ekki undantekningin á netinu – common
Til að útskýra aðeins betur það sem ég tel vera almennt sjónarmið þeirra karla sem horfa á klám, þ.e nánast allir – (en þó hafa engann áhuga á vændi eða ofbeldi)
Varðandi stígamót og þeirra starf þá hef ég svipaða skoðun á þeim og á AA
Ég held að bæði Stígamót og AA séu að gera góða hluti og vill ekki gera lítið úr þeirra starfi, en ég er ekki sammála þeim svart/hvíta heim sem AA menn lýsa alcahólisma sem, þ.e. að annað hvort sértu alki eða ekki og ekkert grátt svæði sé þarna á milli – ég held frekar að gráa svæðið sé stærst og undantekningarnar séu óalandi alkahólistar og/eða fólk sem fer afskaplegaa vel með vín
Að sama skapi tel ég gráa svæðið stærst þegar kemur að „klámiðnaðinum“ (án þess að gera (að mínu mati) lítið úr hörmungum alkahólisma eða vændis)
En ef alkahólisti eða vændiskona mætir í AA/Stígamót þá tekur á móti honum/henni fólk sem talar við hana/hann og lítur á vandamál hanns/hennar á svarthvítum nótum.
Ég hef fullan skilning á því að þeir sem vinni erfitt starf við að taka á allskyns viðbjóði, harni í afstöðu sinni gagnvart vandamálinu – en ég get ekki tekið þeirra sín sem gospeli endilega, þegar um ræðir yfirsýn á heilu samfélagi, sem þær/þeir hafa ekkert endilega betri en aðrir.
Það er þekkt tilhneyging hjá fólki eitthvað sem heitir staðfestingarvilla.
Pólitísk samtök eins og systurnar eru vanalega keyrð áframm á staðfestingarvillu
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 6:14:34
Venjulega kem ég fram undir nafni hér en ég hef þannig séð engan áhuga á að fólk viti þetta. Ég hef búið til klám fyrir svona síðu og fannst mjög gaman. Það var engin neyð í því.
Posted by: —— | 22.10.2011 | 6:22:18
Ólafur,
Við þetta má bæta að þú færð ekki gott (representative) úrtak til rannsóknar á áhrifum áfengis með að velja úr skjólstæðingum AA samtakanna.
Posted by: Eyjólfur | 22.10.2011 | 6:24:03
Það væri of langt mál að diskútera um starfsemi Stígamóta við þig, sem þú hefur greinilega einmitt nokkuð svart/hvíta sýn á.
En þú heldur semsagt að þetta sé allt amatör stöff sem er síðan hýst af einhverri góðmennsku á pró síðum? Allir bara að ríða sér til skemmtunar og fá svo pró klámsíður til að vista allt saman.Jahá!
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 6:26:40
Hýsingaraðilinn fær auglýsingatekjur með því að hýsa efni sem aðrir sækja í
Þetta er algengasta fyrirkomulagið á uppsetningu server-a á netinu og þú talar um þetta eins og þetta sé einhver uppsuna samsæriskenning hjá mér
Mér þykar það benda til þess að þú sér t frekar þröngsýn og viljir ekki viðurkenna alkunna staðreyndir
Og vá hvað það er mikið cop-out að vilja ekki útskýra hvað er rangt varðandi lýsingu mína á hvað einkennir AA/stígamót og önnur hæli.
Megin inntakið í lýsingu minni var almennt um það hvernig sjálfboðaliðar í slíkum stofnunum geta myndað með sér ákv front. Þetta er vel þekkt og almenn staðreynd t.d í lýsingum á hjúkkum sem dæmi
Að þú brennimerkir það sem svarthvíta lýsingu án þess að rökstyðja bendir ekki til neins annars en að þú kunnir ekki að rökstyðja það sem þú villt ýja að
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 6:33:51
Er ekki dagsetningin og klukkan eitthvað vitlaust stillt á servernum þínum Eva? Nema þá að þú sért svona framsýn 😉
Posted by: Pétur | 22.10.2011 | 6:44:45
Ég bara má ekki vera að því að ræða þetta allt við þig, er ekkert að reyna að koma mér hjá því.
Á þessum síðum birtast sömu „leikarar“ aftur og aftur…þetta sér maður ef maður skoðar þetta í dálítinn tíma, eins og ég hef gert. Þannig að þú ert að segja að þessar konur/menn séu amatörar sem visti efni sem þau fá ekki borgað fyrir hjá fjölmörgum vefsíðum sem eiga að höfða til mismunandi hópa? Þú ert að reyna að halda því fram? Þú ert að telja mér trú um að fólkið fái ekkert greitt fyrir?
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 7:15:19
Nei Þorgerður
Ég afsaka ef ég hef látið það hljóma þannig að ég telji engann klámbransa vera til.
Auðvitað er fullt af þessu borgað klám (síðan má deila um hver er fórnarlambið þar ) Og sumir/sumar koma fyrir oft þarna og eru eflaust „gleðikonur“ (no pun intended)
en augljóslega er slatti af þessu pör, ein í herbergi þar sem annar aðilinn (yfirleitt karlinn, og má kenna markhópi kláms því um) sem heldur á camerunni.
Minn inngangs og útgangspunktur sé að gráa svæðið sé stærst – ekki að klám sé einhverskonar skátasamkoma í heild sinni
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 7:25:36
Þá er línan milli amatöranna og proffanna býsna óskýr ekki satt? Allir fá borgað fyrir sömu vinnu?
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 7:28:20
@Ólafur Ágúst (fyrst þú hefur svona gaman að lélegum samlíkingum)
Gefum okkur svo að þér þykji hafragrautur vondur.
Gefum okkur síðan að Jói sé sjálfboðaliði í Sómalíu. Enginn myndi nokkurntíma setja út að það að Jói væri sjálfboðaliði í Sómalíu en ekki allri Afríku, hvað þá að setja út á það að hann sé að gefa einhverjum börnum hafragraut, sem vilja kannski ekkert hafragraut heldur Crémé Bruleé!
Mér þykir skrítið að hvernig búrkusysturnar kjósa að haga sér í þessu máli vekji harðari viðbrögð fólks heldur en málefnið sem þær vilja að beina sjónum að…
Posted by: Rebekka | 22.10.2011 | 7:34:22
@Þorgerður: Jú einmitt – miklu óskýrari en yfirleitt er viðurkennt í svona umræðu
@Rebekka: Ég myndi gjarnan vilja fá útskýringu á hvað er lélegt við hvaða samlíkingu? það hlýtur að vera auðvellt að skjóta þær niður með hörðum rökum, fyrst þær eru lélegar
Ég verð að segja að ég skil ekki þína samlíkingu – ekki einu sinni í sjálfri sér: hvaða afstöðu telur þú að ég sé að taka til Jóa?, Sómalíu?, eða hafragrauts?
Og hvað eiga Jói, Sómalía og hafragrautur að standa fyrir?
Varðandi málafenið sem Systur beindu sjónum að (þ.e. mögulegan barnanýð á 15 ára stelpu) þá eru fá mál sem fá jafn mikla athygli í fjölmiðlum á síðustu árum
Og ég tók framm í fyrstu færslu að mér þykir ekkert (hræðilegt) að því að þær geri það sem þær voru að gera – ég er bara að útlista hvað það er sem gerir að verkum að mikill hluti karlmanna og dágóður hluti kvenna á erfitt með að samsama sér með þeim, og það er að sjálfsögðu ekki það að allir geti ekki verið sammála um að barnanýð sé ógeðslegt, eða að jafnrétti sé réttlátt – heldur skilgreiningar femenista á ofbeldi, klámi og vændi, og karlaveldi og samsuðu samsæriskenningar þeirra um hvernig karlmenn stundi og hylmi markvisst yfir ofbeldi og nauðganir gegn konum.
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 7:47:29
Ég átti nú bara við að ég sé þá ekki alveg muninn á „venjulegum“ klámleikurum og þessum launuðu amatörum.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 7:50:35
Ok þorgerður
en þetta með, sem ég tek framm: öll myndböndin þar sem par er að leika sér með cameru og enginn annar í herberginu.
Ég er nógu mikill „klámhundur“ til að vita að það er slatti af þeim, ég myndi jafnvel þora að slumpa að það sé góður meirihluti (en kannski er það bara af því að ég er með blæti fyrir slíkum myndböndum)
Afhverju er það ofbeldi og nauðgun og karlaveldi o.s.f?
(ef við gefum okkur að hvorugt okkar geti vitað hvort greiðsla fór fram áður en cameran rúllaði)
Posted by: Ólafur Ágúst | 22.10.2011 | 8:10:58
As many as 60 million slaves could be living in Britain, it was claimed last night.
Experts said the slaves were being forced to do horrible, demeaning jobs and live in disgusting conditions.
Tom Logan, director of SlaveWatch, said: “We reckon they are being lured from schools and universities and then forced to work for about eight hours a day doing something completely pointless for a wage so small it may as well not exist.
“They are kept in tiny, beige-carpeted rooms, usually near dual carriageways or retail parks. Often these rooms contain little more than a television, a beige sofa and a Wii. It’s just sickening.”
Posted by: Eyjólfur | 22.10.2011 | 8:49:33
Athugasemdirnar hér eru nú alveg efni í nýja færslu, ég skrifa hana kannski við tækifæri.
Þorgerður, það sér það hver maður að afstaða róttækra femninsta til vændiskvenna einkennist af samblandi af vorkunnsemi og fyrirlitningu. Það eru ekkert feministar sem eiga heiðurinn af því að gera hóruna að úrkasti en þið hjálpið svo sannarlega til við að viðhalda þeirri stöðu. Fordómarnir koma m.a. fram í því að þær eru ekki spurðar álits og þegar þær koma málstað sínum á framfæri samt, eru þær ekki álitnar marktækar. Ég er ansi hrædd um að þú myndir kalla það kvenfyrirlitningu ef einhverjar aðrar konur fengju sömu meðferð. Feministar telja sig vera að gera gott með því að vernda vændiskonur gegn vilja þeirra á sama hátt og arabiskir karlar telja sig góða gæja þegar þeir vernda konur með því að skerða frelsi þeirra.
Vændiskonur og annað fólk í kynlífsþjónustu þakkar ekki feministum fyrir björgunaraðgerðirnar, heldur frábiður sér frekari afskipti. Þær vilja fá að stjórna sinni réttindabaráttu sjálfar. Jafnvel fórnarlömb mansals vilja ekkert frekar en fá að vera í friði, berjast jafnvel með kjafti og klóm gegn björgunaraðgerðunum.http://www.timeslive.co.za/africa/article831672.ece/Chinese-prostitutes-resist-effort-to-rescue-them-from-Africa
http://www.mid-day.com/news/2010/oct/231010-sex-workers-rescue-shelter-Hadapsar.htm
E.t.v. myndu fleiri kæra sig um afskipti yfirvalda og feminista ef björgunin fæli í sér raunverulega hjálp en bæði í Bandaríkjunum og Evrópu hafa þessar konur bara verið sendar heim í eymdina aftur. Enda snýst þessi barátta ekki um að hjálpa konum, heldur um ímyndarsköpun bæði bjargvættanna og samfélaga þeirra, að viðhalda ákveðnum siðgæðishugmyndum og ekki síst að takmarka fjölda innflytjenda án þess að viðurkenna á sig kynþáttahyggju. Velviljinn felst aðeins í vorkunnsemi og hóruhjálpin verður vettvangur fyrir feminismann fremur en feminisminn vettvangur fyrir mannúðarstarf.
Posted by: Eva | 22.10.2011 | 9:07:50
Það er magnað hversu gott þú átt með að gera fólki upp skoðanir, svona miðað við það hvað þú gagnrýnir forræðishyggju mikið.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 11:16:30
Báðar vita Þorgerður og Eva eins vel og ég að fólk ræður því ekki sjálft hvað örvar það kynferðislega.
Verum því ekkert að gefa tilbrigðum (eða ætti ég að segja afbrigðum?) hvers annars einkunnir.
Posted by: Marquis de Sade | 22.10.2011 | 12:36:12
Þorgerður
Sjáðu hvað Stóra systir segir um klám og vændi í „viðtali“ við Bleikt.is:
„Við lítum ekki á klám og vændi sem kynlíf. Við horfum á þetta sem pjúra ofbeldi,“
Hvernig á vændiskona sem hefur það bara alveg sæmilegt að sjá það sem annað en fyrirlitningu af hendi femínista og þeirra sem taka undir, að talað sé um hana sem þolanda „pjúra“ ofbeldis, þegar hún upplifir hlutina ekkert þannig og vill kannski ekkert að þannig sé talað um þá?
Posted by: Kristinn | 22.10.2011 | 12:41:32
Kristinn
Ég er líklegast svona treg, ég get ekki skilið þessa staðhæfingu sem fyrirlitningu á vændiskonum, veit ekki betur en að þær séu að berjast gegn kúnnunum og vændiskaupunum …svona fyrst að ég fæ það hlutverk að verja þær í þessu samhengi.
Annars vitum við minnst um hvað vændiskonum hér finnst um þetta, það væri mjög spennandi að heyra það. Femínistar eru sakaðir um að taka fram í fyrir hendurnar á vændiskonum (eða gyrða upp um þær, er það ekki pointið með þessu nærbrókafemínistahugtaki sem stundum sést hér?)en margir eru líka duglegir að tjá skoðanir vændiskvenna án þess að í þeim heyrist sjálfum. Það er t.d. gert töluvert á þessari síðu.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 12:52:18
Þorgerður
Tökum Catalinu sem dæmi. Um hana og vændishring hennar segir hún sjálf að karlarnir hafi upp til hópa verið venjulegir vingjarnlegir karlar. Þær reyndu að pína eins mikið af peningum út úr þeim og þær gátu. Hvar er þetta „pjúra ofbeldi“ sem þær urðu fyrir?
Posted by: Kristinn | 22.10.2011 | 13:04:34
Catalina gerði út vændiskonur. Kannski ekki þessi týpíska vændiskona? Mögulega hennar hagur að gera lítið úr ofbeldi? Reyndar man ég ekki betur en að hún hafi lýst vændisheiminum sem ofbeldisfullum, a.m.k. á einum stað.
Posted by: Þorgerður E. Sigurðardóttir | 22.10.2011 | 13:19:03
Ég væri sannarlega til í það líka að konur sem eru eða hafa verið í kynlífsþjónustu létu meira í sér heyra en það er ekkert ólíklegt að margar þeirra séu útlendingar.
Fyrir nokkrum árum var ung, íslensk kona sem vann á súlustað dálítið dugleg við að kommenta á fréttir og blogg um þessi mál. Hún var ýmist hundsuð eða þá að henni var sagt að hún hefði ekkert vit á þessu eða hún hlyti að vera í neyslu.
Posted by: Eva | 22.10.2011 | 14:14:26
Ég er að átta mig á því að þegar ég leiðrétti dagsetninguna á pistlinum (klukkan var vitlaus hjá mér) duttu nokkrar athugasemdir út. Set þær hér með inn aftur:
Posted by: Eva | 22.10.2011 | 14:18:44
Er ekki dagsetningin og klukkan eitthvað vitlaust stillt á servernum þínum Eva? Nema þá að þú sért svona framsýn 😉
Posted by: Pétur | 22.10.2011 | 14:30:47
Góður pistill. Ég hef einmitt oft furðað mig á því hversvegna t.d. stripparar sem hafa komið fram og sagt að það sé mikill peningur í þessu og þær ráði alveg hvað þær ganga langt með kúnna og eins eskortdömur eru ekkert taldar með þegar er fjallað um þessi mál.
Posted by: Stebbinn | 22.10.2011 | 14:37:33
Já Stebbinn, hamingjsömu kvenhórunni er umsvifalaust afneitað og ýmist tilvist hennar eða geðheilbrigði dregið í efa af forréttindafemínistum.
Ég hef sjálfur fylgst með slíkum umræðum t.d. á póstlista Femínistafélags Íslands. Þar var sett fram sú tilgáta að greinar og viðtöl við konur sem störfuðu við þetta, og sögðust sáttar við það, væru í raun skrifaðar af karlmönnum til að viðhalda samsæri feðraveldisins gegn konum. Hugmyndin hlaut ágætis hljómgrunn.
Sem áhugamaður um kynjavinkilinn finnst mér svo sérstaklega áhugavert að nú sjáum við dæmi um að óhamingjusömu karlhórunni er afneitað á sama hátt og hamingjusömu kvenhórunni sbr. fjölmiðlaumfjöllun í dag.
Posted by: Sigurður | 22.10.2011 | 15:06:40
Þorgerður
Hvað áttu við með að Catalina hafi kannski gert lítið úr ofbeldinu? Stóra systir talar ekki um að hefðbundið ofbeldi sé ofbeldi, heldur að allt vændi sé ofbeldi. Catalina getur því ekki með nokkru móti sagt neitt til að breyta því hvernig Stóra systir talar um það sem hún gerir (gerði), því það er búið að dæma fyrirfram og velja að nota orðalag sem gefur alveg ákveðna mynd af því sem um ræðir – sama hvað hún segir sjálf.
Posted by: Kristinn | 22.10.2011 | 15:33:42
Hér er danska skýrslan um vændi 2011.
http://www.altinget.dk/misc/Prostitution.pdf
Athyglisverðar töflurnar á síðu 276-278 um hvað vændiskonurnar sjálfar vilja. Lokaniðurstan er þessi á ensku: The report stressed that prostitution cannot be treated as a monolithic or homogeneous entity, in particular drawing a distinction between outdoor (street) and indoor work. It suggested a more targeted approach, pointing out that many sex workers had chosen their profession rather than being coerced.
Síðan hefur Nýja Sjáland tekið upp skynsama löggjöf um vændi. (Og Gamla Sjáland)
Það finnast enn samfélög sem byggja á smá frjálslyndi, sem betur fer.
Posted by: Sigurjbjörn | 23.10.2011 | 5:50:21
Actual tölur sem eru ekki bara dregnar uppúr hatti eða skáldaðar?? Jedúddamía.
En srsly, þá er amk það sem ég er búinn með (soldið löng skýrsla og ég les dönsku leiðinlega hægt) faglegt og trúverðugt. Kannski verður loxins hægt að fara að debata útfrá raunverulegri tölfræði núna 😛
Posted by: Einar Þór | 23.10.2011 | 8:35:14
Síðan eru finnsku lögin um vændi skynsamleg, en þar er vændi leyfilegt en þriðji aðili má ekki hagnast og hægt er að ákæra kaupandann ef keypt er vændi og um er að ræða human trafficking.
Posted by: Sigurbjörn | 23.10.2011 | 8:43:37
Þetta er áhugaverð ábending hjá þér Sigurbjörn. Ég vissi þetta ekki um finnsku lögin.
Þessi leið er sjálfsagt best til þess fallin að sætta andstæðar fylkingar í þessu máli. Baráttan gegn mansali og gróðabraski þriðja aðila er samkvæmt þessu ólöglegt og kaupandinn ber ábyrgð en vændi sem einstaklingur kýs að stunda af fúsum og frjálsum vilja á eigin vegum er löglegt.
Ég sé ekki annað en að forréttindafemínstar ættu að geta samþykkt þetta þar sem þær trúa hvort eð er ekki á frjálst vændi. Samkvæmt hugmyndafræði þeirra verður því allt vændi ólöglegt eftir sem áður.
Allir sáttir.
Posted by: Sigurður | 23.10.2011 | 14:33:07
Ég var í vændi, þarna meðan það var löglegt – eða amk refsilaust eða eitthvað, þeir eru alltaf að hræra í lögunum ég er aldrei viss…og það var alltílæ, ekki besta starf í heimi en ég er ekki varanlega sködduð á sál&líkama…
Það sem ég vildi benda á er að mennirnir sem Stóra Systir gómar upplýsingar um…
Þegar það er verið að semja um hitting þá er maðurinn sem gefur þér fullt nafn, heimilisfang, símanúmer og mynd af sér ekki maðurinn sem er að fara að lemja þig og nauðga þér. Þetta eru upplýsingar sem maður þarf að hafa (amk eitthvað af) bara af öryggisástæðum og þær eru gefnar í trausti til þess að þú upplifir þig örugga að fara til hans. Þeir sem gefa ekki upp neitt eru sketchy kallarnir þar sem maður hefur varann á. Og þeir sem stóra systir veit líklega ekkert um. Og nú eru örugglega allir skíthræddir við að segja stelpunum neitt, sem þýðir að það er búið að taka mjög áhrifaríkan öryggisþátt út. Mér þykir þessi hjálp frá Stóru Systur ógagnleg og jafnvel skaðleg.
Ég hef rætt þetta við femínista sem og karlrembur, og þeir eru skárri. Ég hef ekkert á móti femínisma – titla mig gjarna slíka sjálf – en það pirrar mig svoldið hvað því er haldið fram að ég sé ekki til, að ég sé ekki fær um að taka ákvarðanir um hvað ég vil gera við líkama minn og með hverjum, að ég hljóti að hafa verið misnotkuð í æsku (neibb), að vera á kafi í dópi(neibb), að það sé bara eitthvað að mér(held ekki…).
Þetta er minn líkami og ég sef hjá hverjum sem ég vil af hvaða ástæðu sem ég vil.
Áður en ég var vændiskona var ég drusla í smá stund. Ég svaf hjá mönnum sem ég þekkti ekki – fyrir drykki, af því mér leiddist eða þótt’ann sætur eða whatever.
Mér fannst það ekkert skárra, verra ef eitthvað er. Ég varð stoltari ogsjálfstæðari eftir mér hugkvæmdist að rukka. Og keypti mína eigin drykki.
Posted by: Einsog einhyrningur, bara sjaldgæfari | 24.10.2011 | 6:43:42
Þetta er fyrsta færslan sem ég les eftir þig og þekki því ekki afstöðu þína til vændislagana. Mér finnst að hún hefði mátt koma skýrar fram og líka hvernig þú vilt að lögin séu. Gætiruðu útskýrt það fyrir mér ? Ég varð nefilega svolítið rugluð þegar ég las þetta og á báðum áttum, sérstaklega vegna kaldhæðninnar sem þú notar mikið. Á einum stað í færslunni stendur ‘einfaldlega fáránlegt að banna auglýsingar á löglegri starfsemi’ og vísar þá til auglýsinga Stóru systur á vændi. Þú veist að vændi er ekki lögleg starfsemi, er það ekki örugglega? Það varðar við lög að kaupa vændi, ekki að selja það en það er ólögleg starfsemi. Fyrir utan hvað það er manskemmandi starfsemi. Þú trúir þó ekki að konur geri þetta af fúsum og frjálsum vilja eins og þú gefur í skyn hér? Ég vona ekki. En endilega viltu svara mér og útskýra afstöðu þína skýrar.
Posted by: Ragnheiður | 24.10.2011 | 9:25:16
Þetta er fyrsta færslan sem ég les eftir þig og þekki því ekki afstöðu þína til vændislagana. Mér finnst að hún hefði mátt koma skýrar fram og líka hvernig þú vilt að lögin séu. Gætiruðu útskýrt það fyrir mér ? Ég varð nefilega svolítið rugluð þegar ég las þetta og á báðum áttum, sérstaklega vegna kaldhæðninnar sem þú notar mikið. Á einum stað í færslunni stendur ‘einfaldlega fáránlegt að banna auglýsingar á löglegri starfsemi’ og vísar þá til auglýsinga Stóru systur á vændi. Þú veist að vændi er ekki lögleg starfsemi, er það ekki örugglega? Það varðar við lög að kaupa vændi, ekki að selja það en það er ólögleg starfsemi. Fyrir utan hvað það er manskemmandi starfsemi. Þú trúir þó ekki að konur geri þetta af fúsum og frjálsum vilja eins og þú gefur í skyn hér? Ég vona ekki. En endilega viltu svara mér og útskýra afstöðu þína skýrar.
Posted by: Ragnheiður | 24.10.2011 | 9:27:23
Ragnheiður, væri ekki einfaldast að skoða bara nokkrar eldri færslur höfundar?
Posted by: Einar Þór | 24.10.2011 | 13:29:05
Skýrslan sem Sigurbjörn bendir á hér að ofan er mjög merkileg lesning. Hún sýnir svart á hvítu hvað málflutningur nærbuxnafemínistanna er hrikalega falskur – sérstaklega hvað varðar heimskulegar alhæfingar sem þá að allt vændi sé „pjúra ofbeldi“.
Um er að ræða nýja skýrslu frá danska velferðarráðinu og það er fjallað í þaula um allar helstu tegundir vændi, hvað leiðir fólk út í það og svo framvegis.
Það ættu allir að lesa þessa skýrslu – þótt hún sé á dönsku.
http://www.altinget.dk/misc/Prostitution.pdf
Posted by: Kristinn | 24.10.2011 | 14:28:59
Ragnheiður, ef þú slærð inn atriðisorð, svosem vændi, hóra, kynlífsþjónusta, kynlífsþrælkun, mansal, klám, femnistar o.fl. á leitinni hérna hægra megin á síðunni, færðu upp eldri færslur um þessi mál.
Í bók minni „Ekki lita út fyrir -sjálfshjálparbók handa sjálfri mér og öðrum ýlandi dræsum“ er svo útskýrð ákveðin afstaða til kynlífs og mannslíkamans sem í sumum tilvikum mótar þá skoðun að vændi sé valkostur enda þótt engin neyð sé til staðar.
Posted by: Eva | 24.10.2011 | 18:05:57
Sigurbjörn, takk fyrir að benda á dönsku skýrsluna, ég hef ekki séð hana fyrr en mun lesa hana á morgun.
Einhyrningur, kærar þakkir fyrir þitt innlegg, frábært að heyra frá konu sem hefur reynslu af því sem er til umræðu og mér finnst mjög athyglisverður punktur sem þú bendir á varðandi það að svona aðgerð geti unnið gegn öryggi þeirra sem á að bjarga.
Posted by: Eva | 24.10.2011 | 18:09:02
Jújú, ég var löngu búin að lesa þessa skýrslu. Þarna kemur t.d. greinilega fram að bjargvættastarfið er enganveginn í þágu útlendinga sem stunda vændi í Danmörku.
Posted by: Eva | 25.10.2011 | 4:43:40
Þessa skýrslu sem er mjög vel unnin og er glóðvolg vilja feministar ekki tala um, einhverja hluta vegna. Líklega þar sem vændiskonurnar eru spurðar sjálfar hvernig lög þær vilja. Í dag eru umræður í Svíþjóð um að vændi sé að aukast. Upp blossa nuddklínikur og á mörgum netsíðum er vændi auglýst opið eins og þessi
http://www.adoos.se/l/ero
Einnig halda vændiskonur þar úti síðu. Þessum síðum er ekki lokað, enda málfrelsi meira í Svíþjóð en hér, og þá er mikið sagt.
Þetta þýðir bara sama hlutinn sem hér á Íslandi að þessi lög draga ekki úr vændi og gera ekkert gagn.
Posted by: Sigurbjörn | 25.10.2011 | 9:57:39
Á vefsíðu stóru systur hafa þær nú sett inn slóðir á umræður um aðgerðirnar og hlekki á umfjöllun fólks með „sérfræðiþekkingu“ á afleðingum vændis.
Ég sé þessa skýrslu hvergi. Væntanlega ekki nógu miklir sérfræðingar sem hafa staðið að henni?
Posted by: Sigurður | 25.10.2011 | 10:12:19
Takk fyrir frábæra grein!
Posted by: Þorkell | 26.10.2011 | 22:03:08
Snilldar pistill!
Ég hló nokkrum sinnum, t.d.:
„Þær trúa því í alvöru að vændiskúnnar séu illa innrætt skrímsli með manngervingsviðhengi fast við óseðjandi tittlinginn..“
Hahahah
Posted by: Gunnar Th. Gunnarsson | 28.10.2011 | 9:10:28
Það þarf enga sérstaka stílgáfu til þess að sjá hver er höfundurinn á bak við Einhyrning 😉
Posted by: Páll postuli | 3.11.2011 | 10:46:52
Ekki er ég svo stílfróð að ég sjái það á ekki lengri ummælum hver Einhyrninguinn er Páll postuli en fyrst þú sérð það í hendi þér hlýtur það að vera einhver sem reglulega birtir skrif. Mig langar til að komast í samband við umræddan Einhyrning en hún gaf ekki upp netfang, svo fyrst þú veist hver hún er, viltu þá vera svo elskulegur að senda mér tölvupóst á eva@norn.is
Posted by: Eva | 3.11.2011 | 16:44:05