Sálarmorð

the_dead_soul_by_bexify.png

Bloggari sem ég les reglulega sagði frá því fyrir 1-2 árum að móðir hennar hefði orðið fyrir slysi og misst höndina. Við fengum svo að fylgjast með því hvernig þeirri konu vegnaði.

Bloggarinn skrifaði mikið um það hvað mamma hennar væri dugleg og jákvæð og stæði sig vel. Hún birti myndir af henni brosandi. Það getur vel verið að hún hafi nefnt varanlegan skaða eða gjörbreytt líf, svona í framhjáhlaupi, ég bara man það ekki, en öll áherslan var á möguleika og vilja konunnar til að lifa góðu lífi þrátt fyrir áfall. Ef ég lendi einhverntíma í erfiðu slysi, vona ég að vinir og vandamenn tjái samhyggð sína á þennan hátt, fremur en að grenja yfir því hvað þetta sé nú allt hræðilegt.

Almennt virðist sú afstaða ríkja, þegar fólk verður fyrir skelfilegum áföllum, að með góðri umhyggju og stuðningi geti fólk samt sem áður lifað góðu lífi. Enginn með réttu ráði afneitar því að áföll hafi afleiðingar en athyglinni er beint að því hvað fólk geti gert, þrátt fyrir allt, í stað þess að velta sér upp úr öllu sem það getur ekki. Af einhverjum undarlegum ástæðum virðist þessi afstaða þó sjaldnast uppi ef áfallið er kynferðislegt ofbeldi. Fórnarlömb kynferðisofbeldis geta varla kveikt á útvarpi eða flett dagblaði án þess að orð og frasar á borð við; ör á sálinni, varanlegur skaði, stolin æska, glatað sakleysi, sálarmorð, skaðlegar afleiðingar, nær sér aldrei, óbætanlegt tjón, ófyrirgefanlegur glæpur… dynji á þeim.

Ég velti því svona fyrir mér hvort bloggarinn hefði getað birt margar brosmyndir af móður sinni handarlausri, ef fjölskyldan, vinirnir og allir fjölmiðlar landsins hefðu sameinast í harmaveini yfir því hvað þetta væri nú allt hræðilegt og óbætanlegt, tíundað líkurnar á því að móðirin leggðist í sút og sjálfvígspælingar, drykkju og dóp og hamrað á nauðsyn þess að finna sökudólg og stefna honum. Hversu oft þarf manneskja sem er nýbúin að ganga í gegnum hræðilega reynslu að heyra það að líf hennar sé ónýtt og sálin í henni dauð, áður en hún fer að trúa því sjálf? Hvaða áhrif ætli slík skilaboð hafi á börn og unglinga?

Það er engin ástæða til að gera lítið úr þjáningum þeirra sem verða fyrir nauðgun eða misnotkun. En það er líka alger óþarfi að gera lítið úr hæfni þeirra til að vinna úr áföllum og finna leið til að lifa góðu lífi. Það er hægt að jafna sig á þessum áföllum eins og öllum öðrum. Það er nógu slæmt að lenda í klónum á illmenni þótt þolandinn þurfi ekki ofan í kaupið að sitja undir endalausu harmarunki yfir því að líf hans sé hreinlega bara ónýtt. Það hlýtur að vera sálardrepandi andskoti.

9 thoughts on “Sálarmorð

  1. ———————————————————

    Virkilega, virkilega góð pæling hjá þér. Hef oft hugsað á svipuðum nótum en aldrei náð að koma því frá mér á nokkurn hátt jafn skilmerkilega og þú gerir.

    Verð að hrósa þér fyrir frábært blogg. Færslan um samtal þitt við mannin sem bar fyrir þig pokana var sömuleiðs topp klass.

    Posted by: Kristinn | 21.09.2007 | 18:07:09

    ———————————————————————

    þetta er snjöll observasjón hjá þér Eva, held að möguleiki fólks á að ná sér eftir áföll hljóti að markast að miklu leyti af væntingum og viðbrögðum umhverfisins.

    Posted by: baun | 21.09.2007 | 20:15:13

    ———————————————————————

    Ég er alveg sammála, en eingöngu upp að vissu marki. Það er nefninlega ótrúlega miklu erfiðara að takast á við það að vera fórnarlamb árásar eða að lenda í slysi. Hef reynt bæði, slysið skildi eftir mjög stór ör á líkama mínum en árásin ekki eitt einasta, og nota bene, þetta var ekki nauðgun. Samt var árásin miklu verri að vinna úr, ég var hrædd og viðkvæm mjög lengi á eftir. Slysið kenndi mér bara nýja hluti, sýndi mér að taka ekkert sem sjálfsagðan hlut, og gaf mér tíma til að hugsa um og gera upp ákveðna galla á lífi mínu. Það er því mjög erfitt að bera saman slys og árás. EN, samt sammála því að óþarfi er að juðast sífellt á þessum hluta og mér er mjög minnisstætt viðtal við konu sem varð fyrir hrottalegri nauðgun á Akureyri og var bara jákvæð og ákveðin í að lifa lífinu áfram.

    Posted by: Kristín | 22.09.2007 | 6:38:22

    ———————————————————————

    Það er ekkert langt síðan þolendur kynferðisofbeldis fengu ýmist þau skilaboð að ábyrgðin lægi hjá þeim sjálfum, eða þá að það væri fullkomlega óviðeigandi að hafa orð á því sem gerðist. Auðvitað þurfti að breyta þeim viðhorfum en fyrr má nú aldeilis vera. Stundum finnst mér þjóðarsálin eins og suðandi flugnager á skítahaug. Engu líkara en að fólk þrífist á því að velta sér upp úr einhverju ógeði í stað þess að reyna að uppræta það.

    Posted by: Eva | 22.09.2007 | 9:02:25

    ———————————————————————

    Þessir gæjar eru líklega eftir þínu höfði Eva. Ekkert væl, heldur bara húmor fyrir sjálfum sér:

    http://www.youtube.com/watch?v=aCxDZRJKkqY

    og

    http://www.youtube.com/watch?v=AUrZi2XQKyU

    Posted by: Þorkell | 26.09.2007 | 14:57:48

    ———————————————————————

    Ég fer svosem ekkert fram á að fólk hafi húmor fyrir aðstæðum sínum. Mér þætti hinsvegar bót að því ef fjölmiðlar og almenningur hætti að klæmast á svona harmleikjum.

    Posted by: Eva | 26.09.2007 | 15:35:57

Lokað er á athugasemdir.