Feminismus

Pilturinn bauðst til að bera pokana fyrir mig og ég þáði það. Lét þakklæti mitt í ljós og hafði á orði að fáir íslenskir karlmenn skildu gildi þess að sýna herramennsku.
-Ég skil það heldur ekkert, sagði pilturinn, ég geri þetta bara af því að ég skora svo mörg stig með því og það væri heimskulegt að nýta sér það ekki.

Ég svaraði því að það væri svosem ekki verri ástæða en hver önnur en renndi samt í grun að hann vissi meira um slík mál en hann lét í veðri vaka.

-Af hverju er það annars svona æðislegt? spurði hann. Af hverju verða konur eins og sperrtir smáfuglar ef maður ber eitthvað sem þið gætuð auðveldlega borið sjálfar? Eða opnar dyr, mér finnst nú bara beinlínis flippað að fá kikk út úr því að láta opna fyrir sig. Haldiði í alvöru að karlmenn sem gera svona hluti beri eitthvað meiri virðingu fyrir ykkur?
Já, sagði ég, flestar konur eru svo miklir kjánar að tengja saman innræti og framkomu og það er kannski ekki eins langt úti í móa og þú heldur. Málið er að hlutirnir eru yfirleitt nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera og karlmaður sem virðurkennir að það sé snjallt að gera konum til geðs er þar með að segja að líðan okkar skipti máli. Hvað sjálfa mig varðar þá er ég nú svo galin að sjá táknræna merkingu í ómarkverðustu hlutum og athöfnum, þannig að þegar einhver býðst til að bera eitthvað fyrir mig, þá eru það skilaboð frá örlögunum um að ég þurfi ekki alltaf að vera sterkasta manneskjan í lífi mínu. Ef einhver opnar fyrir mig dyr, táknar það að ég muni fá stórkostleg tækifæri án þess að grátbiðja um þau.
Hann var greinilega ekki sannfærður.
-Ég held nú samt að þetta sé meira hégómagirni hjá þér en galdur. Annars þætti þér alveg jafn æðislegt ef kona gerði eitthvað svona fyrir þig.

Ég varð kjaftstopp andartak og það gerist ekki oft. Sagði honum svo eftir nokkra umhugsun að það væri nokkuð til í því hjá honum enda ætlaði ég ekkert að afneita hégómaþættinum. Konum fyndist almennt notalegt að vera dáðar og dekraðar og mér þætti það svosem allt í lagi. En táknræni hlutinn skipti samt máli og já, það er rétt, það verður að vera karlmaður.

-Og nú skal ég segja þér mikinn sannleika elskulegur. Sannleika sem margar konur munu reyna að leyna þig. Það er nefnilega vegna þess að karlmaðurinn er sterkara kynið. Hvað sem öllum feminisma líður. Þessvegna er ekkert að marka það ef kona ber fyrir mig poka eða opnar fyrir mér dyr, ég gæti aldrei trúað á tákngildi þess.
-Það þarf nú ekki krafta til að opna dyr,
sagði pilturinn sem hafði líkast til ekki alveg náð þessu mað táknsýkina í mér en fannst svarið þó greinilega nokkurrar athygli vert.
-Jæja, sagði ég. Þekkir þú einhverja konu sem hefur fengið stórkostleg tækifæri án þess að karlmaður togaði í einhverja spotta? Veist þú um konu sem hefur orðið rík af sjálfdáðum? Eru til einhverjar „mægður í Vesturbænum“?
-Það hljóta nú andskotinn hafi það að vera til konur sem hafa meikað það án karla? Ég man ekki eftir neinni í augnablíkinu en – ég meina í alvöru – þetta getur ekki verið svona?
-Jú gullið mitt, þetta er einmitt svona. Og konur verða heldur aldrei nein númer í undirheimum nema sem viðhengi einhverra karla. Karlar stjórna ekki bara pólitíkinni, viðskiptalífinu og menningarlífinu, heldur líka fíkniefnabransanum og allri annarri afbrota- og undergroundstarfsemi. Karlar eru m.a.s. allsráðandi í klám- og kynlífgeiranum, þar sem næstum 90% starfsfólks eru konur. Það er ekki beinlínis yfirgangur eða að konur séu sniðgengnar meðvitað, það bara eimir aftir af aldalöngum venjum.
-En ef þetta er málið, ættirðu þá ekki frekar að verða vond þegar þú ert minnt á að þú tilheyrir veikara kyninu?
-Ég yrði náttúrulega stjörnuvitlaus ef ég væri minnt á það með lítilsvirðingu en þetta er annað. Meira svona eins og staðfesting á því að þeim sterkari beri ákveðin skylda til að opna þessar dyr sem við þyrftum annars að brjóta upp með látum.

-Satt að segja kitlar það dálítið í mér hellisbúann að vera sterkara kynið. Ég held að engin kona hafi sagt það við mig áður. Og þótt einhver segi það er ég nú samt ekkert viss um að þið trúið því, sagði hann. Flestir okkar verða nefnilega aldrei neinir feðgar í Vesturbænum, sama hversu marga innkaupapoka við berum.
Rétt, sagði ég, en þótt þú verðir aldrei „feðgar i Vesturbænum“ mun það ekkert hindra konurnar sem bera sína poka sjálfar í því að krefjast þess að þú sért sterkara kynið. Karlhatarar grípa gjarnan til skýringa eins þeirra að karlar beri ábyrgð á öllu ofbeldi og óréttlæti í heiminum jafnvel þótt þeir slordónar séu afar fáir. Karlar fyrirlíta konur fyrir að vera þurfandi og hégómagjarnar en sannleikurinn er sá að flestar okkar berjast við karlfyrirlitningu af því að okkur finnst þið bregðast. Af því að flestir karlmenn eru í svo hroðalegri ímyndarkreppu að þeir vita ekki hvoru kyninu þeir tilheyra. Þessvegna vanrækja þeir þá skyldu sína að taka af okkur byrðarnar þegar þær verða okkur ofviða og opna fyrir okkur dyr að nýjum tækifærum.
Hann tók af sér gleraugun til að nudda augun og það var ekki gott að sjá hvort hann var frekar upprifinn eða gramur.

-Ég er svo ungur að ég er ennþá beðinn um skilríki í ríkinu og ég er samt orðinn svekktur á því hve margar konur virðast halda að allir karlmenn séu annaðhvort ofbeldismenn eða aumingjar. Svo segðu mér, svona fyrir okkur vesalinga sem verða aldrei feðgar í Vesturbænum og grenjum við jarðarfarir og kunnum ekki einu sinni neitt betur á borvélar en þið; til hvers í fjandanum ættum við að bera fyrir ykkur poka og opna dyr? Græðum við eitthvað á því?
-Það ætlast enginn til þess að þú sért ofurmenni. Ekki frekar en þú væntir þess að kærastan þín sé Jenna Jameson eða Julia Roberts eða hvaða týpa það nú annars er sem þú fílar. En ef þú leyfir henni að vera svolítil prinsessa af og til, án þess að gera lítið úr henni, þá mun hún líka gera ýmislegt sem þér þykir vænt um, án þess að heimurinn gargi „hlutgerving og þöggun“.

Hann melti þetta dálitla stund, hnyklaði svo vöðvana tilgerðarlega með yfirdrifnu Tarzanbauli, setti hnykk á mjamirnar og kvað svo upp úrskurð sinn:
-Sounds fair!

Á því andartaki fannst mér ég vera mjög vitur.

Deildu færslunni

Share to Facebook