Örugglega …

Ég verð stöðugt hrifnari af feministafélaginu. Að vísu er ég sjaldan sammála því sem þessar kraftmiklu konur hafa að segja en þeim tekst heldur betur að hrista upp í þjóðarsálinni og ekki veitir af. Það er þó skömminni skárri plebbismi sem eys órökstuddum óhroða yfir skoðanir og aðferðir hugsjónafólks en sá plebbismi sem situr bara steiktur fyrir framan nýjasta litprentaða A-4 auglýsingablaðið og veit ekki af þeim möguleika að mynda sér skoðun yfirhöfuð.

Mig langar annars að vita meira um þetta öryggisráð. Ætli hlutverk þess sé að koma í veg fyrir hryðjuverk gegn kvenkyninu? Það verður allavega að reikna feministafélaginu það til hróss að hvorki frumleikaskortur né skortur á dirfsku og dugnaði háir þeim.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Örugglega …

 1. ———————————

  Æi. Mér finnst þessi árás á klámið frekar þreytt. Það er ókeypis klám út um allt á vefnum. Hvað er næsta skref. Ritskoða vefinn eins og gert er í Kína? Kæra alla sem álpast inn á slíkar síður?

  Og síðan hvenær eru konur einu “fórnarlömb” klámsins? Eru ekki karlmenn líka sýndir? Ég ég veit ekki betur en að konur horfi í sí-auknu mæli á klám, svo ekki er þetta lengur bara til svala þörfum karla.

  Posted by: Þorkell | 11.12.2007 | 19:56:31

  — — —

  Ég er ekki alveg að skilja fyrstu málsgrein hjá þér. Hvern ertu að kalla plebba? Femmurnar, þá sem eru þeim ósammála eða bæði og alla aðra?

  Það er þó skömminni skárri plebbismi sem eys órökstuddum óhroða yfir skoðanir og aðferðir hugsjónafólks en sá plebbismi sem situr bara steiktur fyrir framan nýjasta litprentaða A-4 auglýsingablaðið og veit ekki af þeim möguleika að mynda sér skoðun yfirhöfuð.

  Ha?

  Persónulega er ég hrifnari af jafnrétti en stefnum sem byggja á hópsiðferði og hjarðmyndunum eins og þeim sem skikka sér í raðir á grundvelli trúar, kyns, litarhafts eða þjóðernis í staðin fyrir að sleppa plebbismanum og nýta sér rétt sinn til þess að mynda sér sjálfstæða skoðun.

  Posted by: J. Einar V. Bjarnason Maack | 12.12.2007 | 9:24:56

  — — —

  Ég hefði átt að útskýra betur hvað var að hugsa en það skýrist kannski í samhengi við þessa færslu http://www.pistillinn.is/?p=6886

  Ég er mjög hrifin af jafnrétti sjálf og þótt ég sé ekki alltaf sammála feministum um hvaða leiðir séu bestar til að tryggja jafnrétti, virði ég þeirra framlag. Ég er líka hrifin af grasrótarstarfi almennt og ég vil endilega að viðhorf sem stinga í stúf við þau sem við fáum nánast með móðurmjólkinni (og eru fyrir það eitt talin öfgar) fái að heyrast. Ég er algerlega ósammála feministum um ýmislegt. T.d. það að konan sé í eðli sínu fórnarlamb, að klám- og kynlífsiðnaðurinn sé í eðli sínu alltaf og óhjákvæmilega misnotkun á konum og börnum, að lítill munur sé á vændi og nauðgun o.s.frv. Hins vegar dáist ég að elju þeirra og finnst umræðan um feminista hjá ákveðnum hópi moggabloggara ákaflega ómálefnaleg svo ekki sé meira sagt.

  Posted by: Eva | 12.12.2007 | 9:57:20

  — — —

  Þ.e.a.s. Það er plebbaháttur að ausa skít yfir Sóleyju Tómasdóttur. Það er samt sem áður skárri plebbaháttur en að hafa bara enga skoðun. Fíflið leggur töluvert til málanna með því að opinbera bjánaskap sinn og er því nytsamlegri en sá sem er bara sama.

  Posted by: Eva | 12.12.2007 | 10:08:52

  — — —

  Það er eitt undarlegt við þessa umræðu. Þegar Sóley tjáir sig þá koma ca. 90% af öllum athugasemdum frá karlmönnum sem eru algjörlega ósammála henni og sem á stundum tjá sig með heldur ósmekklegum hætti í hennar garð. Hin 10% eru frá konum sem segjast vera sammála henni að öllu leiti. Telur þú þetta vera uppbyggilega umræðu um jafnréttismál ? Mér virðist þessi umræða snúast fyrst og fremst um aðferðir til umræðu fremur en málefnið sjálft.

  Posted by: Guðjón Viðar | 12.12.2007 | 12:58:45

Lokað er á athugasemdir.