Óróar og kvótar

fidrldiVinkona mín benti mér einu sinni á athyglisverða líkingu, þar sem fjölskyldu var líkt við óróa. Það þarf ekki mikið til að koma hreyfingu á óróann en þegar hann er látinn í friði fara allir hlutar hans alltaf í sömu stellingu. Ef nýjum hlut er bætt við, hreyfist óróinn í smástund en nýi hluturinn fellur svo í ákveðna stellingu og áður.

Það má yfirfæra þessa líkingu á samfélagið allt. Það að skipta um manneskjur í tilteknum stöðum, breytir óróanum sáralítið, eina leiðin til að eitthvað gerist er sú að halda honum á hreyfingu.

Ég fór að hugsa um þetta aftur þegar ég sá umfjöllun un reynslu Norðmanna af kynjakvótum. Lög um kynjakvóta virðast ekki sérlega skilvirk svo ef karlar hafa áhyggjur af því að missa völd ættu þeir að horfa á einhverja aðra þætti en svokallaða jákvæða mismunun. Ég er fyrir mitt leyti alfarið á móti kynjakvótum. (Sem einhverjir munu væntanlega túlka sem svo að ég vilji helst láta karla stjórna heiminum og hafa konur óléttar á bak við eldavélina.)

Í fyrsta lagi er mismunun neikvæð í eðli sínu, það er ekki hægt að ná fram réttlæti með ranglæti.

Í öðru lagi er hugmyndin um tvo jafn hæfa einstaklinga er tálsýn enda höfum við nú alveg dæmi um að jafnréttisráð meti hæfni út frá allt öðrum forsendum en þeir sem réðu í stöðuna. Það er kannski hægt að mæla hæfni til að leysa tiltekin verkefni en það er ekki hægt að mæla allt og það hvernig fólk vinnur saman, hlýtur á endanum að ráða verulega miklu um árangurinn, það er þessvegna ekkert vit í því að þvinga atvinnurekendur og yfirmenn stofnana til að ráða einhvern sem þeim fellur ekki við. E.t.v. á þetta ekki við um fjölmennar stjórnir hlutafélaga en þar sem náið samstarf lítilla hópa á við, veltur allt á góðum samskiptum.

Í þriðja lagi er fráleitt að halda að formlegt leyfi til mismununar verði ekki misnotað eins og allt annað. Það hljómar svosem ágætlega að þegar tveir standa jafnfætis eigi að taka konuna fram yfir ef karlar eru í meirihluta og öfugt en hvenær stendur fólk jafnfætis og hvenær ekki? Á endanum verða vanhæfari einstaklingar teknir fram yfir þá hæfari og reyndar má alveg leiða að því líkur að það sé einmitt það sem gerist þegar önnur viðmið eru sett fyrir karla en konur. T.d. eru gerðar minni kröfur til líkamsstyrks kvenna í lögreglunni og þar með er í raun verið að ráða fólk sem er á ákveðnu sviði vanhæfara en aðrir sem bjóða sig fram til starfans. Nú hef ég enga samúð með körlum sem eru ekki nógu mikil vöðvabúnt til að komast í lögguna en halló, hversu langt verður þar til farið verður að gera minni kröfur til karla en kvenna um hæfni í mannlegum samskiptum í leikskólastarfi? Og er ekki hætta á að kynbundnar kröfur um líkamlegt atgervi verði á endanum skilgreindar sem kynjamismunun og slakað á kröfum fyrir bæði konur og karla?

Það er stórhættuleg stefna að gera mismunandi kröfur til fólks eftir kynjum. Kynjakvótar munu verða misnotaðir ef þeir eru það ekki nú þegar. Það kemur dálítilli hreyfingu á óróann að fá fleiri konur í stjórnunarstöður en sú hreyfing varir ekki lengi. Óróinn er ennþá sá sami, það eina sem breytist er að bleikum hlutum fjölgar, fúnksjónin er samt eins. Þar fyrir utan kemur í ljós að kynjakvótar eru mjög seinleg leið og þegar upp er staðið er vafasamt að það að kona komist í góða stöðu þjóni hagsmunum annarra kvenna en hennar sjálfrar.

Væri ekki reynandi að vinna að jafnréttismálum með því að bylta kerfinu í stað þess að reyna að finna konum stað innan þess?

Uppfært: Sjö og hálfu ári eftir að þessi pistill var birtur fékkst enn staðfesting á því að kynjakvótar virka ekki.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook