Lygin í klámlöggunni

Dines

Gúggull þekkir þig. Hann veit hvað þú vilt sjá. Gail Dines heldur því fram að í „hinni dæmigerðu klámmyndasenu“ séu þrír kallar að hamast á sömu konunni, kvelja hana, hárreyta, lemja hana, niðurlægja og nauðga henni í öll líkamsop samtímis, oft þannig að þjáningin lýsi af henni og í sumum tilvikum kasti hún upp.Í gærkvöld skrunuðum við Einar í gegnum nokkur myndbönd, einmitt með þeirri aðferð Gail Dines, að slá inn „porn“ á gúggli og skoða það fyrsta sem kom upp. Afar óvísindaleg aðferð sem ekkert er á byggjandi. Við völdum 10 myndbönd af handahófi með lokuð augu af fyrstu síðunni. Af þessum 10 myndböndum var eitt þar sem fleiri en einn karl kom fyrir, eitt myndbandið sýndi tvær konur og tvö voru sjáfsfróunarsenur kvenna. Þar sem karlar komu á annaðborð fyrir sást lítið eða ekkert framan í þá heldur var öll áhersla á kynfæri þeirra. Í aðeins einu myndbandi var karl greinilega að leggja sig fram um að gera konu til hæfis en það sem kvenhyggjusinnar myndu kalla „greinilega undirskipan konunnar“ var áberandi í fjórum tilvikum. Í einu tilviki sást svipur á konu sem mér fannst bera vott um óþægindi, hugsanlega sársauka. Svipbrigði í klámmynd segja vitanlega ekkert um raunverulega líðan leikaranna en þessi óvísindalega athugun okkar staðfesti allavega ekki þær misþyrmingar og þjáningu sem Gail Dines lýsir. Hart kynlíf vissulega, en ekki nauðganir.

Ég efast ekki um að það er auðvelt að finna klám af því tagi sem Gail telur dæmigert ef maður leggur sig eftir því.  Efstu síðurnar sem ég fæ upp við leit eru þó fyrst og fremst ofboðslega leiðinlegar en ekkert í líkingu við þann hrottaskap sem Gail Dines telur dæmigerðan. Skýringin gæti verið sú að gúggull, sem er nú farinn að þekkja okkar áhugasvið, gefi okkur allt aðrar leitarniðurstöður en Gail Dines og öðrum sem eru með klám á heilanum. Ég get þessvegna ekki sagt til um hvað „dæmigert klám“ felur í sér. Ég efast reyndar um að nokkuð sé dæmigert í þeim efnum. Ég efast líka um að sú aðferðafræði sem Gail Dines beitir í sínum klámrannsóknum sé neitt vísindalegri en þetta amatörafikt okkar Einars.

Dines(1)En göngum bara út frá því að dæmigerð klámmyndasena sé eins og Gail Dines lýsir henni. Hópnauðgun í öll líkamsop. Nú segjast starfsmenn kynferðisbrotadeildar lögreglunnar sjá skýr áhrif kláms í kynferðisbrotamálum svo það er þá væntanlega þetta „dæmigerða“ klám sem þeir eiga við. Og hvaða mál skyldu það nú vera?

Árið 2011 komu tvö hópnauðgunarmál inn á borð til lögreglu. Í öðru tilvikinu voru meintir gerendur par. Því máli var vísað frá hjá ríkissaksóknara með þeim orðum að framburður meints brotaþola hefði verið fullur af innbyrðis mótsögnum og stangast á við önnur gögn málsins. Í hinu málinu var um að ræða ofbeldisfulla árás tveggja karla á konu. Þetta mál er með grófari naugunarmálum sem hafa komið til kasta dómstóla á síðustu árum.

Samskonar árásir þekktust vitanlega fyrir daga klámmyndanna og Playboy. Í Kvennablaðinu 1915 mótmæla konur nauðgunum sem  séu fylgifiskur stríðs, ekki einu sinni þá voru það nein tíðindi að nauðganir væru notaðar sem vopn í stríði. Lýsingarnar á stríðsnauðgunum í gegnum aldirnar slá út öllu því klámi sem hugmyndaflug venjulegrar manneskju nær yfir. Konur ganga í gegnum hópnauðganir og líkamsmeiðingar sem í sumum tilvikum hafa leitt til varanlegrar örorku. Ofbeldið á sér stað í viðurvist barnanna þeirra og þær horfa svo upp á eiginmenn sína, bræður og feður pyntaða á grimmilegan hátt og jafvel myrta. Skoðið lýsingar á nauðgunum í tengslum við Víetnamstríðið og þjóðarmorðið í Ruanda og segið mér svo að internetklám sé orsök kynferðisofbeldis.

Hver sem er getur kynnt sér dóma í kynferðisbrotamálum á vefsíðu dómstólanna. Í flestum þessara mála er sönnunarfærsla erfið, einmitt vegna þess að engir líkamlegir áverkar sem benda til nauðgunar eru til staðar. Hrottalegar lýsingar eru sjaldgæfar. Hið dæmigerða kynferðisbrotamál er ekki hópnauðgun í öll göt, heldur bröltir fullur karl upp í rúm til fullrar og/eða sofandi konu og káfar á henni. Í kynferðisbrotum gagnvart börnum koma líkamlegar misþyrmingar nánast aldrei fyrir, ég hef allavega ekki fundið slíkan dóm, heldur er oftast um að ræða káf og að barnið sé látið snerta gerandann. Algjörlega óafsakanleg hegðun en ekkert sem hægt er að rekja til klámmynda af því tagi sem Gail Dines lýsir og því miður ekkert sem hefur ekki tíðkast frá örófi alda.

Hvað gengur lögreglunni til með því að halda því fram að í kynferðisbrotamálum gæti greinilegra áhrifa frá klámi? Er þetta bara einhver mantra sem höfð er yfir í hugsunarleysi? Eru starfsmenn kynferðisbrotadeildar að reyna að þóknast kennivaldinu með því að staðfesta þörf á stríði gegn klámvæðingunni? Eða bara í örvæntingarfullri leit að rökréttum  skýringum á óskiljanlegri hegðun?

Ég veit það ekki en hitt veit ég að á bak við hræðsluáróður liggur annað og meira en einskær sannleiksást. Þeir sem reka hræðsluáróður, með röngum upplýsingum og „rannsóknum“ sem standast ekki vísindalegar kröfur, eru stundum bara súrrandi klikkaðir af heilaþvætti en langoftast eiga þeir líka einhverra hagsmuna að gæta. Á bak við lygaáróður er nánast alltaf hagsmunagæsla og oftast ásókn í meiri völd og áhrif.


Screenshot-from-2012-10-17-150642Gail Dines hefur beinna hagsmuna að gæta þar sem hún er á kafi í klámbaráttubissniss sjálf og hefur beinlís atvinnu af því að viðhalda mýtunni. Á fundinum í gær var hún spurð um leiðir til að uppræta klám og benti þá snarlega á að það mætti gera með því að beina viðskiptum til fyrirtækis hennar.

Takið eftir því hvernig börn eru notuð í áróðursskyni. Ég get ekki sett tengil á myndina af litla drengnum með skiltið en hún er á bissnisssíðu Gail Dines.  Myndirnar rótera og hún ætti að birtast ef maður staldrar við. Ætli drengurinn á myndinni hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að bera þetta skilti?

Hagsmunir kynferðisbrotadeildar lögreglunnar eru heldur ekkert óljósir; réttarkerfið allt situr stöðugt undir ámæli fyrir að sinna kynferðisbrotamálum ekki nógu vel og auðvitað er þægilegt fyrir lögguna að geta bent á sökudólg. Hvernig í ósköpunum ætti löggan að ráða við vinnuna sína þegar hún á í höggi við annan eins óvin og klámvæðingardjöfulinn?

Deildu færslunni

Share to Facebook