Væri rétt að kenna kynjafræði í grunnskólum?

fornarlambaskolinn-688x451

Þessi grein birtist í tímaritinu Þjóðmálum sem kom út núna í júní.

Sú skoðun virðist útbreidd að grunnskólinn eigi að innræta börnum tiltekin viðhorf. Þessa sér stað í aðalnámskrá grunnskólanna en samkvæmt henni eru grunnþættir menntunar lýðræði, jafnrétti, sjálfbærni, heilbrigði, sköpun og læsi. Þótt merking þessara hugtaka sé hvorki einföld né óumdeild hefur þessi áhersla aðalnámskrár nánast engri gangnrýni sætt. Ef til vill skýrist það af þeirri  túlkun að skólum beri að starfa í anda lýðræðis, jafnréttis o.s.frv. fremur en að taka upp markvissa kennslu í þessum grunnþáttum. Þó hafa femínistar nú sent frá sér ályktun um að kynjafræði skuli tekin upp sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum og verði af því mun brátt reyna á það hlutverk grunnskólans sem aðalnámskrá virðist boða; að innræta börnum pólitískar og móralskar hugmyndir.

screenshot-from-2014-06-22-072919

Ályktun femínistanna kemur ekki á óvart enda hefur meint þörf fyrir kynjafræðikennslu verið í umræðunni um nokkurt skeið. Kvenhyggjuhreyfingin er áhrifamikil á Íslandi og sjálfsagt þykir að stjórnmálamenn noti stofnanir samfélagsins í þágu femínisma. Til dæmis stóð ráðuneyti mennta- og menningarmála fyrir útgáfu kynjafræðinámsefnis fyrir framhaldsskóla sumarið 2010 og þáverandi menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, ritaði formála að námsefninu sem ber heitið Kynungabók. Það er því ástæða til að ætla að einhverjir stjórnmálamenn muni taka þessa ályktun til greina.

Rök femínistanna fyrir því að kenna þurfi kynjafræði í skólum, eru annarsvegar þau að jafnréttisfræðsla sé lögboðin og hinsvegar þau að kynjafræðikennsla í framhaldsskólum hafi skilað þeim árangri að nemendur hafi stofnað femínistafélög. Við þetta er tvennt að athuga: Í fyrsta lagi ríkir engin sátt um það sjónarmið að jafnréttisfræðslu sé best komið í höndum kynjafræðinga. Í öðru lagi er það tæplega hlutverk grunnskólans að stuðla að framgangi pólitískra hreyfinga. Ég tel í meira lagi vafasamt að láta kynjafræðinga annast jafnréttisfræðslu og ætlun mín með þessari grein er að færa rök fyrir þeirri skoðun.

Kynjafræðin er pólitísk

thorgerdur-300x179Það hefur varla farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með kynjaumræðu síðustu ára að meðal femínista er sú skoðun ríkjandi að konur séu í veikari stöðu en karlmenn í nær öllum aðstæðum og því stöðugt í hættu á að verða fyrir kúgun eða ofbeldi. Þetta viðhorf er einnig áberandi í femínískum rannsóknum. Starf kynjafræðinga og annarra femínískra fræðimanna við Háskóla Íslands er hápólitískt; það snýst ekki um þekkingarleit heldur um að staðfesta þessar hugmyndir. Gengið er út frá því sem staðreynd að flest félagsleg fyrirbæri megi skýra í ljósi valdaójafnvægis milli samfélagshópa, einkum kynjanna og rannsóknir miða oft að því að sýna fram á að samfélag okkar einkennist af kvenfyrirlitningu.

Starf kynjafræðinga og annarra femínískra fræðimanna við Háskóla Íslands er hápólitískt; það snýst ekki um þekkingarleit heldur um að staðfesta þessar hugmyndir.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að það er ekki bara mitt mat að kynjafræðin í Háskóla Íslands byggist á hugmyndafræði femínismans, því Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði og fyrrum deildarforseti Stjórnmálafræðideildar, skilgreinir kynjafræði beinlínis sem „akademiskan femínisma”. Þetta er sambærilegt við þá skoðun að stjórnmálafræði sé „akademísk frjálshyggja” eða þjóðfræði „akademísk þjóðernishyggja”. Það er kannski ekki að undra að einhverjir telji pólitísk markmið grunnþætti menntunar ef sú skoðun sætir engri gagnrýni að hlutverk  háskóla sé að uppfóstra pólitíska hreyfingu.

Dæmi um íslenska kynjafræðirannsókn

Það þarf langa leit og ítarlega til að finna íslenska kynjafræðirannsókn sem á eitthvað skylt við vísindi. Algengast er að rannsakendur gefi sér niðurstöðurnar fyrst og taki svo viðtöl við nokkra einstaklinga sem líklegir eru til að gefa svör sem styðja þær niðurstöður sem ætlað er að ná fram. Sjaldan er reynt að breiða yfir þessar aðferðir, enda eru þær álitnar eðlilegar innan kynjafræðinnar. Í inngangi ritgerða er oft tekið fram að gengið sé út frá femínískri hugmyndafræði eða öðrum tengdum hugmyndum sem engin sátt ríkir um, hvorki innan vísindasamfélagsins né meðal almennings. Túlkun gagnanna minnir svo iðulega meira á skáldskap en vísindi.

Algengast er að rannsakendur gefi sér niðurstöðurnar fyrst og taki svo viðtöl við nokkra einstaklinga sem líklegir eru til að gefa svör sem styðja þær niðurstöður sem ætlað er að ná fram.

Líklega er þekktasta kynjafræðirannsókn sem gerð hefur verið á Íslandi rannsókn Thomasar Brorsen Smidt, þáverandi meistaranema í kynjafræði og fyrrum ráðskonu Femínistafélagsins, á klámi á vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Viðtöl voru tekin við fimm einstaklinga sem töldu sig hafa orðið vara við klámfengið tal og kynferðislega áreitni á vinnustöðum borgarinnar. Fimm handvalda einstaklinga af þeim tíu þúsund sem starfa hjá borginni. Fyrsta rannsóknarspurning T.B. Smidt var ekki hvort klám þrifist á vinnustöðum Reykjavíkur, heldur á hvaða hátt klámfengin orðræða birtist í starfs- og námsumhverfi borgarinnar. Hann gengur beinlínis út frá því að klám og kynferðsáreitni einkenni vinnustaði hins opinbera. Túlkanir á viðtölunum eru svo í besta falli umdeilanlegar, því af örfáum dæmum um ósæmilega hegðun (að því gefnu að allt sem máli skiptir komi fram í frásögnunum, sem er óvíst) er dregin þessi niðurstaða:

„… the roots of patriarchy still have a very firm hold and continue to nurture the pornification of the culture that grows above it.“

Í íslenskri þýðingu:

„… rætur feðraveldisins hafa enn sterk tök og halda áfram að næra klámvæðingu menningarinnar sem vex upp úr því.“

klamvaeding-279x300Ástæðan fyrir því að rannsókn Smidt er vel þekkt meðal almennings er sú að í mars 2012 gaf Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar út fræðslubækling byggðan á þessari rannsókn, undir heitinu „Klámvæðing er kynferðisleg áreitni” og var hann rækilega kynntur í fjölmiðlum. Í ritstjórn bæklingins sátu, auk fulltrúa Mannréttindaskrifstofu, tveir kynjafræðingar.  Annar þeirra var fyrrnefnd Þorgerður Einarsdóttir, þáverandi deildarforseti Stjórnmálafræðideildar. Maður gæti haldið að þegar Mannréttindaskrifstofa stendur fyrir útgáfu 20 blaðsíðna fræðslubæklings væri um umfangsmikið vandamál að ræða. Það kemur því nokkuð á óvart að viðhorfskönnun sem gerð var meðal starfmanna borgarinnar árið 2011, sýnir að aðeins um 0,2% svarenda sögðust hafa orðið fyrir líkamlegri kynferðislegri áreitni, og um 0,3% fyrir kynferðislegri áreitni í orðum.

Hversvegna réðist Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur í útgáfu þessa bæklings þegar fyrir lá rannsókn sem sýndi allt annað en það víðtæka klámvæðingarvandamál sem Thomas Brorsen Smidt telur sig hafa sýnt fram á? Því verður ekki svarað hér en útgáfa bæklingins vekur þá hugmynd að klám og kynferðisofbeldi sé stórt vandamál á vinnustöðum hins opinbera. Það eru afar vond vísindi sem gefa svo ranga mynd af veruleikanum og hætta á að það ýti undir ástæðulítinn ótta.

Dæmi um áhrif feminisma á aðrar greinar félagsvísinda

Áhrif feminista sjást einnig í námsritgerðum við félagsvísindadeild HÍ. Ég læt nægja að nefna MA ritgerð Guðrúnar Margrétar Guðmundsdóttur mannfræðings: Af hverju nauðga karlar? Ástæðan fyrir því að ég tek Guðrúnu Margréti sem dæmi er sú að hún er einn höfunda Kynungabókar sem fjallað verður um hér á eftir.

Í inngangi ritgerðarinnar lýsir höfundur verkefni sínu þannig:

„Með þessar hugleiðingar, vísbendingar, mótsagnir og spurningar að leiðarljósi ákvað ég að búa til rannsóknarspurningu sem væri nógu víð til að varpa ljósi á öll þessi viðhorf og væri á sama tíma nógu afmörkuð til að svara afar mikilvægri femínískri spurningu: Af hverju nauðga karlar? Þessi spurning er rauði þráðurinn í ritgerðinni og byggir á þeirri hugmynd að nauðgun sé kynbundið menningarfyrirbæri. Skoðað verður hvað það sé í félagsmótun og menningu karla almennt sem veldur því að undir vissum kringumstæðum langar suma þeirra til að nauðga konum, ákveða að gera það eða framkvæma það.“ (bls 10)

Eins og sjá má er gengið út frá því að kynferðisofbeldi skýrist af félagsmótun og karlakúltúr; rannsóknarspurningin er femínísk.

Hluti af ritgerð Guðrúnar er eigindleg rannsókn á karlamenningu. Viðtöl voru tekin við átta menn á aldrinum 18-23ja ára. Höfundur segist hafa staðið sjálfa sig að fordómum, því þegar mennirnir sýndu ekki þá karlrembuhegðun sem hún hafði búist við, hafi hún farið að leita að „venjulegum” viðmælendum. Hún lét samt ekki verða af því að skipta út þátttakendum því hún komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði misskilið menningu karla. Karlmennskudýrkunin var þó að hennar mati til staðar en birtist ekki á þann hátt sem hún hafði búist við, heldur til dæmis í hommafælni, því að gera sér leik að því að espa konur upp og í neikvæðum viðhorfum til stúlkna sem leggja mikið upp úr útliti sínu. (Sjá bls 87-104.)

Hvernig ætli vísinda-samfélagið brygðist við ef mannfræðingur kynnti rannsókn sem ætlað væri að svara „afar mikilvægri spurningu þjóðernis-hyggjunnar: Af hverju stela svertingjar?” og drægi svo víðtæka ályktun um glæpakúltúr svartra af viðtölum við átta þeldökka menn með hreina sakaskrá?

Enda þótt ekkert bendi til þess að þessir átta piltar séu nauðgarar telur höfundur að viðtölin styðji þá niðurstöðu hennar að nauðganir séu þáttur í karlamenningu; karlar nauðgi af því að það sé talið karlmannlegt. Hin fyrirframgefna niðurstaða, að nauðganir skýrist af menningu karla, er þannig staðfest með túlkun höfundar á gögnunum. Hefði henni ekki þótt sú túlkun nærtæk hefði eflaust verið hægt að finna „venjulega” viðmælendur.

Hvernig ætli vísindasamfélagið brygðist við ef mannfræðingur kynnti rannsókn sem ætlað væri að svara „afar mikilvægri spurningu þjóðernishyggjunnar: Af hverju stela svertingjar?” og drægi svo víðtæka ályktun um glæpakúltúr svartra af viðtölum við átta þeldökka menn með hreina sakaskrá?

svertingjar

Fánaberar fávísinnar

Þessi tvö verkefni eru engar undantekningar heldur eru óvísindalegar aðferðir og langsóttar túlkanir gegnumgangandi í femínískum rannsóknum. Þetta á ekki aðeins við um útskriftarverkefni heldur einnig rannsóknir reyndra fræðimanna. Ég læt nægja að nefna kynjagreiningu Þorgerðar Einarsdóttur og Gyðu Margrétar Pétursdóttur á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Þann 21. september 2010 sat ég opinn fyrirlestur í Öskju, þar sem Þorgerður og Gyða Margrét kynntu fyrrnefnda rannsókn sína. Kjarninn í niðurstöðum þeirra var sá að karlar og karllæg gildi hefðu valdið bankahruninu og til þess að forða því að slíkt endurtæki sig væri nauðsynlegt að auka hlut kvenna í stjórnsýslunni. Reyndar nefndu þær dæmi um konur sem einnig bæru ábyrgð en þeirra þáttur var ýmist skýrður með „styðjandi kvenleika” eða því að konan hefði verið „í karlgervi”. Að sama skapi töldu þær að þeir stjórnmálakarlar sem voru „í kvengervi” hefðu litlu ráðið.

Ég undrast það hversu fáir virðast sjá neitt athugavert við að hið opinbera leggi fé í aðra eins þvælu.
Hitt er þó alvarlegra að háskólakennarar skeyti hvorki um vísindaleg vinnubrögð, né spyrji augljósustu spurninga áður en þeir setja fram niðurstöður.

Að fyrirlestrinum loknum gafst áheyrendum færi á að varpa fram spurningum. Ég spurði vísindakonurnar hvernig þær teldu aukinn hlut kvenna vera lausn fyrst konur gætu hegðað sér af sama ábyrgðarleysi og karlar með því að taka á sig karlgervi. Þeirri spurningu var svarað út í hött.

Ég undrast það hversu fáir virðast sjá neitt athugavert við að hið opinbera leggi fé í aðra eins þvælu. Hitt er þó alvarlegra að háskólakennarar skeyti hvorki um vísindaleg vinnubrögð né spyrji augljósustu spurninga áður en þeir setja fram niðurstöður. Eina vitræna ályktunin sem hægt er að draga af íslenskum kynjafræðirannsóknum er sú að kynjafræðin við Háskóla Íslands eigi meira skylt við forheimskun en vísindi.

Ekki séríslenskt vandamál

Óvísindalegar aðferðir og frjálslegar túlkanir einkenna einnig rannsóknir margra erlendra femínista sem kynna sig sem „fræðimenn og aktívista”. Nefna má Melissu Farley sem einkum er þekkt fyrir rannsóknir sínar á klámi og kynlífsiðnaði. Oft er vitnað í Farley í fræðilegri umfjöllun íslenskra femínista um kynlífsiðnaðinn og verk hennar hafa verið á leslistum við HÍ. Ronald Weitzer, prófessor við George Washington háskóla hefur bent á stórkostlega galla á hverjum einasta þætti í rannsóknaraðferðum Farley og úrvinnslu hennar á gögnum og árið 2008 sendu 19 aðilar, aðallega fræðimenn en einnig stofnanir á sviði félags- og heilbrigðisvísinda, ásamt samtökum kynlífsþjóna, frá sér yfirlýsingu þar sem vinnubrögð Farley og samstarfsmanna hennar eru harðlega gagnrýnd. Yfirlýsingin hafði þó ekki þau áhrif að íslenskir háskólakennarar tækju Farley út af leslistum. Haustið 2008, fáum mánuðum eftir að yfirlýsingin var birt, var Farley t.d. á leslista í námskeiði Þorgerðar Einarsdóttur og Katrínar Önnu Guðmundsdóttur, „Klámvæðing kynþokkans” við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Ísland.

wordcloud

Svo sterk eru áhrif kvenhyggjunnar að hugmyndir um femíníska nálgun á eðlisvísindi hafa verið ræddar í fullri alvöru. Moira von Wright, prófessor í menntavísindum, hefur lýst þeirri skoðun að vísindasamfélagið ætti að hafna stórum hluta hefðbundinnar eðlisfræði. Wright telur það mismunun í garð stúlkna að taka rökhugsun fram yfir upplifun og vill sem dæmi aðlaga eðlisfræðina þeirri hugmynd að regnboginn eigi sér áþreifanlegan stað. Dr. Wright segir reyndar að gagnrýnendur hennar misskilji hana en hún hefur ekki útskýrt í hverju sá misskilningur felst. Það er svo til marks um gagnrýnisleysi vísindasamfélagsins á femíníska fræðimenn að þrátt fyrir þessar undarlegu hugmyndir varð Moira von Wright rektor við sænskan háskóla árið 2010. Hér má sjá umfjöllun Tönju Bergkvist um hugmyndir Moiru von Wright.

Meðvirkni vísindasamfélagsins

Ég taldi lengi að gagnrýnisleysi vísindasamfélagsins á femínískar rannsóknir stafaði af því að vísindamenn hefðu lítinn áhuga á öðrum sviðum en sínum eigin. En vísindasamfélagið er ekki bara skeytingarlaust, það spilar með. Sem dæmi má nefna rannsókn sem sænska vísindaráðið taldi tilvalið að styrkja árið 2009 og bar yfirskriftina: „Trompetinn sem tákn um kyn/kynferði.“  Ein af rannsóknarspurningunum var þessi:

„Vilken klang i trumpetens breda klangspektrum blir till norm och vilken klang uppfattas som avvikande och kallas för kvinnlig respektive manlig? Vad händer med klangen, när trumpetaren spelar med en ’kvinnlig klang’?“

Í lauslegri þýðingu (þetta er reyndar svo djúpt að ég efast um að í íslensku séu til orð sem koma þessari snilld til skila):

„Hvaða hljómur í hinu breiða hljómrófi trompetsins verður að normi og hvaða hljómur upplifist sem frávik og kallast karllægur eða kvenlægur? Hvað gerist varðandi hljóminn þegar trompetleikarinn spilar með „kvenlegum hljómi“?“

Þetta flokkar vísindaráð Svíþjóðar sem áhugaverða rannsóknarspurningu. Tanja Bergkvist fjallar um trompetrannsóknina í þessari grein.

Kynungabók

Á meðan það vísindastarf sem hér hefur verið lýst sætir engri gagnrýni er ástæða til að ætla að það verði fræðimenn af þessum toga sem muni sjá um framleiðslu á jafnréttisnámsefni og sinna kynjafræðikennslu, verði hún tekin upp sem skyldugrein.

fornarlambaskolinn-688x451

Í framhaldsskólunum eru það femínistar sem kenna kynjafræði og sumarið 2010 gaf menntamálaráðuneytið út Kynungabók, kynjafræðinámsefni fyrir framhaldsskóla. Texti Kynungabókar hefur fræðilegt yfirbragð og áhersla er lögð á að jafnréttismál varði bæði kynin. Engu að síður er hugmyndafræði kvenhyggjunnar undirliggjandi. Tónninn er sleginn strax í inngangi Kynungabókar:

„Talið er að rekja megi núverandi  kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið en það gerðu þeir út frá hagsmunum sínum.“ (bls 7.)

Þessi barnalega söguskoðun er sett fram sem jafn almenn sannindi og þau að jörðin snúist um möndul sinn.  Ekki er á það minnst að flestir karlar hafa aldrei tilheyrt neinni valdastétt …

Þessi barnalega söguskoðun er sett fram sem jafn almenn sannindi og þau að jörðin snúist um möndul sinn.  Ekki er á það minnst að flestir karlar hafa aldrei tilheyrt neinni valdastétt eða að óréttlæti hafi einnig bitnað á kotbændum og öðrum fátækum körlum; vinnumönnum, flækingum og niðursetningum. Fullorðinni manneskju kann að þykja það augljóst en við erum að tala um námsefni fyrir unglinga, þar sem megin áherslan er á kynjamisrétti. Það er fyrirsjáanleg ályktun ungs lesanda að takmarkað frelsi og undirokun ráðist beinlínis af kyni.

Bókin er öll lituð af þeirri skoðun að jafnréttisstefna snúist um konur og þessi skoðun birtist ekki síður í því sem er ósagt látið. Talað er um verkaskiptingu á heimilum sem jafnréttismál en ekkert fjallað um misjafna stöðu kynjanna í forsjármálum. Barátta kvenna fyrir jafnrétti á vinnumarkaði er kynnt en ekki vikið orði að því háa hlutfalli drengja sem rekst ekki í skóla. Áherslan á vanda drengja í skólum snýr að því hversu erfitt kvenlegir strákar eigi uppdráttar félagslega og einnig er talið vandamál hve lítið piltar sæki í kvenlægar námsgreinar.

Sýn Kynungabókar á „kynbundið ofbeldi” einkennist svo af fullyrðingum sem engin tölfræðigögn styðja. Því er haldið fram fullum fetum að fjórða hver kona verði fyrir ofbeldi í nánum samböndum en engra heimilda er getið. Einnig er staðhæft að kynlífsþjónusta og mansal hafi aukist þótt engar ábyggilegar tölur séu til um umfang þessarra mála fyrr og nú.

Ætlum við að treysta femínistum fyrir jafnréttisfræðslu í grunnskólum? Fólki sem telur að vísindin eigi að þjóna pólitískum skoðunum þess? Fólki sem heldur því fram að öll okkar saga og samfélag hafi mótast af hagsmunum karla og að íslensk nútímamenning beri sterk merki feðraveldis?

Kynungabók ber þess öll merki að vera skrifuð af femínistum. Hún einkennist af órökstuddum skoðunum sem gefið er fræðilegt yfirbragð meðal annars með því að vísa til rannsókna sem ýmist eru vafasamar eða ekki getið á heimildaskrá. Það er á valdi kennarans að kynna það efni sem ekki er nefnt í bókinni og það er ekki síður áhyggjuefni. Hvernig fjalla kynjafræðikennarar um karla sem ekki eru á vinnumarkaði? Hvernig skýra þeir kynjahlutföll meðal útigangsmanna, fanga og annars utangarðsfólks fyrir unglingum? Ætlum við að treysta femínistum fyrir jafnréttisfræðslu í grunnskólum? Fólki sem telur að vísindin eigi að þjóna pólitískum skoðunum þess? Fólki sem heldur því fram að öll okkar saga og samfélag hafi mótast af hagsmunum karla og að íslensk nútímamenning beri sterk merki feðraveldis?

Hver á að sinna pólitísku uppeldi?

brainwash1-300x245Ef grunnskólarnir eiga að verða pólitískar uppeldisstofnanir þá skulum við spyrja hvaða grasrótarhreyfing, stofnun eða fyrirtæki muni næst biðja um aðgang að skólabörnum. Fær píratahreyfingin að sinna lýðræðiskennslu eða eiga lýðræðishugmyndir framsóknarmanna betur heima í skólum? Munu heilsugúrúar sem boða grænmetisát og jóga sinna heilbrigðisþætti aðalnámskrár eða verður það líkamsvirðingarhreyfingin eða kannski eitthvert tryggingafélagið? Hvort ætli Landsvirkjun eða Náttúruverndarhreyfingin verði fyrri til að óska eftir færi á að kynna börnum túlkun sína á sjálfbærni?

Og hvaða hugmyndir verða næst teknar upp sem grunnþættir menntunar? Ættu frelsi og friður ekki ágætlega heima í aðalnámsskrá? Verða þá hernaðarandstæðingar látnir sinna þeim þáttum eða frjálshyggjumenn eða  Ástþór Magnússon?

Er pólitískur grunnskóli það sem við viljum sjá? Eða ætti aðalhlutverk grunnskóla kannski að vera uppfræðsla og hugmyndafræðileg innræting á valdi heimilanna fremur en skólans?

————————————

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla 2011, Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Ályktun Kvenréttindafélags Íslands og Landssambands femínistafélaga framhaldsskólanna um kennslu í kynjafræði í grunn- og menntaskólum landsins, http://kvennabladid.is/2014/04/18/kennsla-til-jafnrettis/, sótt 11. maí 2014.

Bergkvist, Tanja (2009): “Vetenskap eller galenskap” SvD Opinion, http://www.svd.se/opinion/brannpunkt/vetenskap-eller-galenskap_2531501.svd sótt 11. maí 2004.

Bergkvist, Tanja (2010): “Genusvaldet intar Södertorns Högskola” Tanja Bergkvists Blog, http://tanjabergkvist.wordpress.com/2010/01/11/genusvaldet-intar-sodertorns-hogskola/ sótt 11. maí 2014.

Berglind Rós Magnúsdóttir o.fl. (2010): Kynungabók. Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Bryndís Björk Ásgeirsdóttir (2003): Vændi meðal ungs fólks á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Rannsóknir og greining.

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir (2004):  Af hverju nauðga karlar? MA ritgerð í mannfræði við Háskóla Íslands.

Sanders, Tyla o.fl., yfirlýsing dagsett 29. apríl 2008: A Commentary on ‘Challenging Men’s Demand for Prostitution in Scotland’: A Research Report Based on Interviews with 110 Men who Bought Women in Prostitution, (Jan Macleod, Melissa Farley, Lynn Anderson, Jacqueline Golding, 2008.) .

Smidt, Thomas Brorsen (2011): Pornography as Work Culture and Cultural Phenomenon. Nýsköpunarsjóður námsmanna.

Smidt, Thomas Brorsen (2012):  Klámvæðing er kynferðisleg áreitni. Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og MARK – Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna við Háskóla Íslands.

“Vetenskapskritisk rektor?” viðtal við Moira von Wright í Forskning og Framsteg 4. maí 2010, http://fof.se/tidning/2010/4/vetenskapskritisk-rektor sótt 11. maí 2014.

Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2011 (2012): Mannauðsskrifstofa Reykjavíkurborgar.

„Viðtal við Þorgerði Einarsdóttur” (2009): Myndskeið á Youtuberás Ingvars Ómassonar https://www.youtube.com/watch?v=qL2ZwSA3_T8  sótt 11. maí 2014.

Weitzer, Ronald (2005): “Flawed Theory and Method in Studies of Prostitution.”  Violence Against Women, Vol. 11 No. 7, 2005:934-949.

Wright, Moira von (1998): Genus och text: När kan man tala om jämställdhet i fysikläromedel? Projektet Jämställdhet i läromedel.

Þorgerður Einarsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir (2010): „Skál fyrir genunum, peningunum og framtíðinni”. Kynjagreining á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Opinn fyrirlestur í Öskju 21. september 2010.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook