Kvenhetjur í barnaefni – hafa fjölmiðlar áhrif?

disney

Fjölmiðar móta okkur. Hljóta að gera það. Fyrirtæki myndu ekki verja skrilljón trilljónum í auglýsingar ef þær skiluðu ekki hagnaði. Við sjáum líka áhrif kvikmynda og annarra miðla á það hvaða vörur ná vinsældum. Disney þetta Disney hitt, bleikt með glimmer fyrir stelpur og eitthvað öllu töffaðra fyrir stráka.

Ég held samt að við gerum stundum of mikið úr áhrifamætti fjölmiðla. Berum saman aðgengi barna og unglinga að ofbeldisefni og hryllingi í dag og fyrir 50 árum. Ef áhrif þess væru mikil þá hlytu blóðugar slátranir að vera næsta hversdagslegur atburður í dag en svo er alls ekki. Ofbeldi tíðkast jú, en það er bara engin nýlunda og hlutfallslega hefur dregið úr tíðni líkamsárása ef eitthvað er.

Annað dæmi eru þær kynjaímyndir sem börn alast upp við. Þrátt fyrir að framboðið af barnaefni aukist stöðugt, hefur framboðið af ímynd sterku stelpunnar verið næsta fátæklegt í gegnum tíðina og ég sé allavega ekki að nein bylting hafi orðið.

Þegar ég var að alast upp var Lína Langsokkur eina kvenhetjan sem barnaefni sjónvarpsins bauð upp á. Einhverntíma var Galdrakarlinn í Oz sýndur og Doróthea var náttúrulega sterk stelpa en það var einstakur atburður. Flestar stelpur teiknimynda og framhaldsþátta voru passívar prinsessur eða þá venjuleg börn, eins og Laura Ingalls og systur hennar sem þrátt fyrir væmni þáttanna voru sterkar stelpur á sinn hátt en engar ofurhetjur þó. Allar vinsælu teiknimyndafígúrurnar voru karlkyns og þar sem kvenfígúrur á annað borð voru með, voru þær aukapersónur.

Barnabækur fjölluðu um stráka sem leystu ráðgátur, eltust við bófa og björguðu fólki úr lífsháska og stelpur sem stóðu sig vel í skólanum, gerðu góðverk og leystu konflikta á milli fólks.

Ég hef áreiðanlega fylgst betur með barnaefni sem höfðaði til drengja þegar mínir strákar voru að alast upp, svo eitthvað hefur kannski farið fram hjá mér en eina kvenhetjan sem ég man eftir frá þeim tíma er Pocahontas. Aðrar sterkar kvenpersónur voru skúrkar. Jákvæðu stúlkunar voru prinsessur sem náðu hápunkti tilveru sinnar þegar þær giftust prinsinum og litla hafmeyjan var jafnvel til í að fórna röddinni fyrir hann enda þótt hann gerði ekkert sérstakt til að verðskulda mikla fórn. Solla stirða jú, hún varð vinsæl um það leyti sem mínir hættu að nenna að horfa á barnaefni.

Ég veit hreinlega ekki hvernig staðan er í dag en þá sjaldan að ég sé sjónvarp er aðeins ein kvenhetja sem ég verð vör við í efni sem ætlað er börnum. Það er einhver hryllingur sem heitir Hannah Montana. Ég hef aldrei kvalið sjálfa mig á því að fylgjast með lengur en 3 mínútur í senn en mér sýnist henni vera ætlað það hlutverk að brúa bilið milli prinsessunnar og sterku og sjálfstæðu stelpunnar.

Þegar maður skoðar þær kynjaímyndir í barnabókum og barnakvikmyndum síðustu 50 ára sem helst blasa við, þá verður maður eiginlega dálítið hissa á því að stúlkur geri yfirhöfuð nokkuð annað en að bíða eftir prinsinum. Staðreyndin er hinsvegar sú að stúlkur fara í háskóla og verða læknar og lögfræðingar og ef þær á annað borð stofna til sambúðar, þá er það ekki til að þjóna prinsinum heldur reikna þær með að hann taki þátt í heimilisstörfum og spyrji þær álits áður en hann fer á fasanaveiðar.

Mér finnst stórmerkilegt að framleiðendur barnaefnis skuli ekki leggja meira upp úr kvenhetjum á þessum jafnréttistímum. Þær sterku stelpur sem á annað borð koma fram, raka inn gulli svo þeir ættu að sjá sér hag í því. En þrátt fyrir að veruleikinn sem við lifum við sé sterkar konur, ráðvilltir karlar og svo nokkur valdamikil jakkaföt sem fáir samsama sig, þá lifa kynjaímyndirnar; hetjan og prinsessan, góðu lífi í kvikmyndum og bókum sem höfða til barna. Ekkert verra lífi nú en fyrir 50 árum eftir því sem ég fæ séð.

Nú hef ég ekkert á móti því að börn sjái dáðadrengi og prinsessur en á mér brenna tvær spurningar:
-Hafa fjölmiðlar mikil áhrif á neyslu okkar en lítil áhrif á lífsviðhorf og siðferði?
-Getur verið að það sé ekki markaður fyrir fleiri en eina kvenhetju á hverja kynslóð barna?

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Kvenhetjur í barnaefni – hafa fjölmiðlar áhrif?

 1. ——————-

  Hæ. Þú veist ekki jafn mikið og þú heldur, og ef þú heldur að það sé tilviljun að það er meira ofbeldi í sjónvarpinu, en minna ofbeldi í raunveruleikanum, þá ertu ekki alveg að skilja krókaleiðirnar sem þarf að fara til að ná ákveðnum árangri. Manneskja sem er búið að venja við að horfa á hryllilegar myndir sem myndu venjulega fá hana til að öskra, hoppa, æla etc mörgum sinnum á dag, dáið fólk, misþyrmingar, morð, alls konar hluti sem misbjóða og hneyksla….og sér þetta svo oft þetta er hætt að hafa áhrif, hefur deyft hana/hann og veldur jafnvel bara geispa og leiðindum…

  Það er allt öðruvísi manneskja en forfeður okkar og komin talsvert lengra í burtu frá dýrunum.

  Og nú segi ég þér ekki meir 😉

  Posted by: some1 | 25.06.2011 | 17:37:19

  ——————-

  Skemmtileg kenning en það er heldur ekkert sem bendir til þess að tilfinningadoði sé neitt algengari nú en fyrir 50 árum eða 100.

  Posted by: Eva | 25.06.2011 | 18:34:37

  ——————-

  Sko, ég held að ofbeldisvinkillinn sé mjög flókinn og kannski eitthvað til í því sem some1 segir. Það má ekki gleyma því að börnin voru að alast upp í skugga stríðs fyrir 50 árum síðan, alin upp af fólki sem sjálft óx upp í skugga annars stríðs.
  Þú heldur því blákalt fram að við lifum nú á „jafnréttistímum“. Ef þetta eru jafnréttistímar, er ég að leita að einhverju öðru en það. Ég finn fyrir sterku bakslagi og er mjög ósátt.

  Posted by: Kristín í París | 26.06.2011 | 7:01:23

  ——————-

  Framleiðendur barnaefnis eru náttúrulega ekki jafnréttissinnar. Hinsvegar er munurinn á stöðu kvenna nú og fyrir 50-60 árum gífurlegur. Í vestrænu samfélagi í dag eru tækifæri og staða meðalkonunnar ekkert verri en staða meðalkarlsins. Fleiri karlar en konur njóta óvenjulegrar velgengni en það eru líka fleiri karlar en konur sem eru í óvenju slæmri stöðu.

  Mér finnst alltof algengt að fólk einblíni á það sem ekki hefur náðst í stað þess að fagna því sem hefur áunnist, hvort sem það er í jafnréttismálum, mannréttindamálum eða einhverju öðru. Ég er sátt við árangurinn í þeim skilningi að ég held að það hefði verið fullkomlega óraunhæft að búast við meiru. En að vera sáttur við árangurinn merkir ekki að manni finnist bara nóg komið og nú sé hægt að hætta að pæla í þessu. Ekki frekar en að manneskja í kjörþyngd getur sleppt því að hugsa um heilsu sína.

  Mér finnst hinsvegar sumar áherslur feministahreyfingarinnar ekki til þess fallnar að bæta heiminn. Það er ekki verið að rífa feðraveldið niður heldur styrkja það. Kynjakvótar í stjórnunarstöðum gagnast t.d. fáum konum. Það myndi hinsvegar gagnast mörgum konum ef þau störf sem konur sækja mest í væru metin að verðleikum. Um leið og réttur kvenna til menntunar og fjárhagslegs sjálfstæðis var viðurkenndur, afsöluðum við okkur réttinum til að ala börnin okkar upp sjálfar. Þegar ég vann sem mest þekkti Stína á leikskólanum hann Darra minn betur en ég sjálf og samt bjuggu drengirnir mínir við lakari kjör en ég gerði sem barn þótt móðir mín væri heima. Og samt var ég þó betur sett en pabbi þeirra. Árangur, jú vissulega. Ég naut hvers einasta dags í háskólanum og ég vil ekki vera fjárhagslega háð karlmanni en þær stundir komu þó sem ég velti því fyrir mér hvort fórnarkostnaðurinn væri ásættanlegur.

  Posted by: Eva | 26.06.2011 | 7:43:56

  ——————-

  Þú ert að gleyma She-Ra sem var systir hans He-Man og var vinsæl þegar ég var krakki (1985 eða svo) og svo um 2000 komu fram á sjónarsviðið Power puff girls og svo núna nýlega hún Dóra Könnuður sem er æðisleg kvennhetja að mínu mati.

  Dóra leysir nefnilega vandamál og hjálpar öðrum (aðallega dýrum) að ná markmiðum sínum með góðum ráðum og dyggum stuðningi (það er reyndar ein Dóru mynd sem ég hef séð sem fer í taugarnar á mér og það er „Dóra í ævintýralandi“ því þar er hún prinsessa).

  En það er rétt að það eru fáar kvennhetjur sem kona gat/getur samsamað sig við.
  Ég las reyndar Nancy Drew en það sem mér fannst að þeim sem 11 ára stelpu var að hún átti svo svakalega mikla peninga!
  Hún gat ferðast um heim allan og gert það sem hana langaði til með öllum vinkonum sínum.
  Verandi alin upp af einstæðri móður með takmörkuð fjárráð, þá var ég alltaf hálf svekkt yfir þessu atriði.

  En svo ég vendi mínu kvæði í kross langar mig að nefna hvað ég er ánægð með að vera ekki ein um að finnast kynjakvóti undarlegt jafnrétti.

  Vill einhver kona í alvöru vera ráðin vegna þess að hún er kona en ekki vegna þess að hún sé hæfust? Ég myndi ekki vilja vera ráðin á þeim forsendum.

  Posted by: Andrea | 1.07.2011 | 9:26:22

  ——————-

  Takk fyrir ábendingarnar um kvenhetjur 🙂

  Karlar hafa reyndar verið ráðnir á þeirri forsendu að þeir séu karlmenn, í gegnum tíðina án þess að skammast sín neitt fyrir það. Einhverntíma á 10. áratugnum gerði Ian Ayres, lagaprófessor í Chicago tilraun sem benti til þess að hvítum körlum væru boðin betri kjör á bílasölum en hvítum konum. En hún benti reyndar líka til að svörtum konum væru boðin betri kjör en svörtum körlum.

  Ég er á móti kynjakvótum, bæði af því að mér finnst mismunun neikvæð í eðli sínu en líka vegna þess að ég held að þeir styrki strúktúr feðraveldisins. Það breytir ekki svo miklu að setja konu í stað karls en það gæti breytt miklu ef við hættum að líta niður á umönnunarstörf.

  Posted by: Eva | 1.07.2011 | 10:45:04

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *