Karlmennskan í HÍ

jb

Jón Baldvin Hannibalsson segist hafa fengið þá skýringu á afturköllun boðs um að halda gestafyrirlestra við HÍ að svokallaðir „kynjafræðingar“ hafi mótmælt ráðningu hans skriflega. Ég bað forseta félagsvísindasviðs um afrit af þessu mótmælabréfi en fékk það svar að hann vissi ekki til þess að slíkt plagg væri til.
Nú er ljóst að einhver lýgur. Lugu samstarfsmenn JBH upp þessu mótmælabréfi og ef svo er, hversvegna voru þeir að því? Lýgur Jón Baldvin þegar hann segist hafa fengið þessar skýringar? Eða lýgur Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs, að mér þegar hann neitar því að þetta bréf sé til?

Annars er púkinn á mínum fjósbita í ágætu skapi þessa stundina. Ef það er satt sem Jón Baldvin segir, þá hafa samstarfsmenn hans afsakað sig með því að þeir hafi ekkert ætlað að reka hann en hún Þorgerður hafi orðið brjáluð og þeir orðið hræddir við hana og ekki þorað annað en  að hlýða. Einhverntíma hefði það nú ekki þótt karlmannlegt að skýla sér á bak við ótta sinn við reiði kvenna. Það er út af fyrir sig ágætt að þessir þvælukjóar viðurkenni fyrir JBH að þeir hafi orðið hræddir. En það er kannski einum of niðurlægjandi að viðurkenna það opinberlega?

Eða er JBH að ljúga? Ef svo er þá hlýtur það að vera satt sem Daði Már segir hér, að hann og aðrir sem bera ábyrgð á þessari ákvörðun hafi tekið tillit til sjónarmiða sem koma fram í bréfi Hildar Lilliendahl og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur. Þeir hafa þá ekki beygt sig fyrir hinum akademíska armi tiltekins pólitísks þrýsithóps, heldur bara konum úti í bæ.

Kannski finnst Daða Má skömminni virðulegra að vera hræddur við almenningsálitið en að hanga í pilsfaldi falsvísindakvenna? Við Daði erum þá að minnsta kosti sammála um það.