Hvar eru öll þessi dæmigerðu sýknumál?

hammer-311342_640

Árum saman hneykslaðist ég á öllum þessum sýknudómum í kynferðisbrotamálum og öllum málunum sem vísað er frá.Svo kom að því að ég fór að skoða dómana sjálf og mér til undrunar neyddist ég til að éta þær fullyrðingar ofan í mig. Ég fann satt að segja ekki marga sýknudóma sem mér þóttu vafasamir. Ég tek það fram að ég tel dómstóla eiga að virða almenn mannréttindi svo þeir sem vilja afnema þau eru mér vafalaust ósammála. Ég komst líka að því að þótt mörg mál séu felld niður hjá lögreglu er skýringin ekki svo einföld að löggan vísi þeim bara frá af einskæru áhugaleysi eða samúð með nauðgurum.

Mér finnst gaman að hafa rétt fyrir mér og ég játa að þótt þetta væri í sjálfu sér gleðileg uppgötvun, gætti einnig nokkurrar gremju hjá mér yfir því að hafa fallið fyrir vitaskuldum. Mér finnst skemmtilegra að vera reið við dómara, lögguna og kerfið en sjálfa mig og langaði satt að segja ekkert að éta stóru orðin ofan í mig. Auk þess hef ég andúð á löggunni og er verulega tortryggin gagnvart dómskerfinu svo það hefði hentað minni hugmyndafræði fullkomlega að finna staðfestingu á því að réttarkerfið kói með nauðgurum. En ég fann hana ekki.

Og hvað gerir manneskja sem vill helst alltaf hafa rétt fyrir sér þá? Ég sá tvo kosti í stöðunni; að afneita því að mér hefði skjátlast, halda staðfastlega við þá trú að nauðgarar sleppi næstum alltaf og beita „jú víst og þú ert bara nauðgaravinur“ rökunum ef mér yrði mótmælt; eða að horfast í augu við mistök mín, fyrirgefa sjálfri mér fyrir að hafa jarmað með hjörðinni og afla mér nægilegra upplýsinga til að geta haft rétt fyrir mér framvegis. Ég valdi síðari kostinn þótt hann útheimti bæði töluverða heimildavinnu og satt að segja líka dálitla krísu yfir því að þurfa að slá aðeins af heift minni gagnvart lögruglu og dómskerfi (bara aðeins ponkulítið samt, ég er ekkert minna brjáluð en áður yfir þeirri valdníðslu sem raunverulega fer fram í skjóli yfirvalda.)

Nú hef ég skoðað alla kynferðisbrotadóma síðustu þriggja ára sem ég finn með leitinni á  domstolar.is. Ég hef ekki athugað þá nógu vel til að setja fram tæmandi greiningu en þó nógu vel til að ég þori að fullyrða að sektardómar falla oftar en sýknudómar. Sýknudómana hef ég skoðað mun betur en sektardómana og ég sé ekki betur en að langoftast séu mjög góðar ástæður fyrir því að dómurinn telur ekki réttlætanlegt að sakfella ákærða.

Meðal sýknumálanna eru tvennskonar mál mest áberandi. Annarsvegar mál þar sem konan ber að hún hafi ekki getað spornað gegn verknaðinum vegna ölvunar og/eða svefndrunga. Verulega ógeðfellt verð ég að segja en málið er bara að í mörgum þessara sýknumála staðfestir áfengismæling ekki að ástand konunnar geti hafa verið jafn slæmt og hún segir. Í öðrum tilvikum er ekki hægt að skera úr um það hvort konan var sofandi eða hvort hún gaf upplýst samþykki. Hinsvegar koma fyrir dómstóla gömul mál þar sem framburður beggja er trúverðugur og útilokað að segja til um það hvað raunverulega gerðist. Þegar orð stendur gegn orði og útilokað er að færa sönnur á verknaðinn, á sakborningur að njóta vafans. Það er ömurlegt fyrir raunverulegan þolanda en þó skárra en að saklausum manni sé refsað. Það finnst mér allavega og það vill svo skemmtilega til ég er ekki ein um þá skoðun, þeir sem skrifa og samþykkja almenna mannréttindasáttmála hafa sömu afstöðu. Ég vildi að ég gæti stungið upp á lausn sem er réttlát fyrir báða aðila en því miður, ég kann ekki slíkt ráð.

Ég hef beðið þá sem halda því fram að dómstólar standi með nauðgurum að sýna mér dæmi um fráleita sýknudóma en mönnum verður satt að segja fátt um svör. Síðast í gær átti ég spjall við mann sem telur algerlega nauðsynlegt að litið verði á sálarástand brotaþola sem sönnunargagn í kynferðisbrotamálum. Rökin eru þau að það sé svo erfitt sé að fá menn sakfellda þrátt fyrir að sekt þeirra sé öllum augljós. Þar sem þau gögn sem ég hef skoðað staðfesta ekki þetta mat hans, bað ég hann að nefna mér eitthvert dæmi um sýknudóm, þar sem sekt hins ákærða væri augljós. Hann nefndi Hótel Sögu málið sem hann segir vera klassískt dæmi. Þetta er andstyggilegt mál en þessi ágæti kunningi minn lætur hjá líða að taka fram þrennt sem skiptir máli:

  1. Í þessu tilviki voru nægar aðrar ástæður til sakfellingar, bæði líkamlegir áverkar og ummerki um ofbeldi á vettvangi. Dómari sem sýknar mann þrátt fyrir það er ekki líklegur til að sakfella eingöngu á grundvelli sálarástands.
  2. Hæstiréttur vísaði málinu aftur heim í hérað (464/2007).
  3. Þegar málið fór aftur fyrir héraðsdóm var maðurinn sakfelldur og dæmdur í þriggja ára fangelsi (S-839/2007).

Þannig að já, Hótel Sögumálið er ljótt og á margan hátt klassískt. Klassískt dæmi um að hæstiréttur vísi málum aftur til héraðsdóms vegna óvandaðra vinnubragða. Seinni dómurinn er svo klassískt dæmi um að þar sem nokkur áþreifanleg sönnunargögn liggja fyrir, sé niðurstaða dómsins sakfelling. Hótel Sögu-málið er ekki klassískt dæmi um að maður sem augljóslega er sekur, hafi sloppið vegna þess að ekki sé tekið tillit til sálarástands brotaþola. Það er hinsvegar klassísk taktík hjá feminista að benda á eitt dæmi um  himinhrópandi óréttlæti en horfa ekki á heildarmyndina.

Hver feministinn á fætur öðrum hefur haldið því fram að ég misskilji greinargerðina með frumvarpi um endurskilgreiningu nauðgunarhugtaksins. Alls ekki sé ætlunin að færa sönnunarbyrðina yfir á sakborning. Nú gæti það ekki verið mikið skýrara sem fram kemur í þessari greinargerð að hugmyndin er sú að nota andlegt ástand brotaþola sem fullgilt sönnunargagn í sakamálum. Nái það fram að ganga, lendir það á herðum sakbornings að sanna að sálarástand konunnar (jafnvel drykkjuskapur hennar) eigi sér aðrar skýringar en þær að hann hafi nauðgað henni. Hvernig er það ekki öfug sönnunarbyrði? Því hefur enginn svarað enn.

Það hefur heldur enginn svarað því hvaða lögskýringargögn dómstólar muni nota til að meta hvort nauðgun hafi átt sér stað, þegar búið er að kippa skilgreiningunni út úr lagagreininni sjálfri. Svarið er augljóst, þeir munu skoða greinargerðina með frumvarpinu og komast að þeirri niðurstöðu að nauðgun hafi átt sér stað ef brotaþola líður eins og henni hafi verið nauðgað. Ég kemst ekki hjá því að hugsa til vinkonu minnar sem kom heim eftir læknisaðgerð sem reyndist henni þungbær og sagði að sér liði eins og hún hefði orðið fyrir hópnauðgun. Hefði hvarflað að henni að kæra læknana fyrir hópnauðgun? Nei, örugglega ekki en hún var heldur ekki klikkuð og lögin skilgreindu nauðgun sem verknað en ekki upplifun. En hvað í fjandanum mun gerast þegar almenningur verður farinn að skilgreina nauðgun út frá upplifun en ekki verknaði? Kannski ættum við að afgreiða þá spurningu áður en því drífum í því að breyta lögunum.

Deildu færslunni

Share to Facebook