Um daginn var ég spurð að því í blaðaviðtali hvað mér fyndist um þá gagnrýni sem ég hefði fengið vegna skrifa minna um femínisma. Ég svaraði því til að ég hefði ekki fengið neina marktæka gagnrýni frá femínistum. Og það er rétt. Ekkert af því sem ég hef sagt um femínisma hefur verið hrakið.
Í gær gerði þó bloggari sem skrifar undir nafninu Parísardaman einhverskonar tilraun til að útskýra hvers vegna femínistar svari ekki skrifum mínum með rökum. Inntakið í pistlinum er það að ég sé bara ekki viðræðuhæf. Þetta er í raun ekki svaravert en þar sem þessi pistill er kennslubókardæmi um vandræðagang femínista sem langar að svara mér en hafa engin rök, þá má ég bara til.
Fyrstu rök Parísardömunnar eru þau að ég flokki það sem aumingjaskap að vera með yfirdrátt í banka. Ekki bendir hún á það hvar ég á að hafa sagt þetta. Ég er svosem ekki hissa á að hún bendi ekki á neitt dæmi enda er það ekki og hefur aldrei verið mín skoðun að það sé aumingjaskapur að ná ekki endum saman. Ég hef hinsvegar kallað það landlægan hálfvitagang að líta á það sem viðunandi ástand að lifa af yfirdrætti, og haldið því fram að auðvaldið beri töluverða ábyrgð á því hugarfari. Ætli það sé þetta viðhorf sem hún á við með ofurfrjálshyggju?
Parísardaman vísar einnig í umræður sem hún heldur fram að ég hafi fjarlægt af Facebook þegar hún hafi „stungið upp í mig“. Ég hef reyndar nokkrum sinnum fjarlægt innlegg af Facebook. Ég hef fjarlægt innlegg frá rasista sem þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um að hætta því hélt áfram að setja inn á vegginn minn efni sem kom umræðum þar ekkert við. Ég hef tvisvar sinnum efnt til umræðu og tekið sérstaklega fram fyrirfram að ég ætlaði að ritstýra þeim þráðum svo þeir yrðu ekki of langir. Og ég hef nokkrum sinnum fjarlægt persónulegar svívirðingar í garð nafngreindra einstaklinga, oftast þekktra femínsta.
Þetta er nú öll ritskoðunin sem ég stunda. Ég fjarlægði ekki þennan umrædda þráð, hann er ennþá inni og öllum sýnilegur. Á honum voru 68 komment þegar Parísardaman birti pistil sinn, þar af tæplega 50 sem komu inn eftir að hún stakk svona snilldarlega upp í mig, að eigin mati. Þau voru að tínast inn langt fram á næsta dag, sem þýðir að þráðurinn sást á mörgum fréttaveitum í meira en sólarhring, svo það er augljóslega þvæla að ég hafi lokað á möguleika fólks til að sjá þetta stórkostlega tilsvar hennar.
Fyrir þá sem nenna ekki að lesa allan þráðinn er hér skjáskot af því hvernig þráðurinn sem Parísardaman hélt að ég hefði fjarlægt byrjaði, þeirri femínisku túlkun sem hún notar til þess að „stinga upp í mig“ og mitt svar við því.
Tilgangurinn með þessari rangfærslu um að ég hafi fjarlægt umræðuþráð, virðist vera sá að gefa þá mynd af mér að ég ritskoði Facebook-vegginn minn til að líta betur út í augum annarra. Það er bara mjög langt frá því.
Enn ein ástæðan fyrir því að Parísardaman telur mig ekki viðræðuhæfa er það sem hún kallar ömurlegt viðhorf gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. Með því á hún væntanlega við það þá afdráttarlausu skoðun mína að ekki megi slaka á sönnunarbyrði í þeim málaflokki frekar en öðrum og að það flokkist ekki sem nauðgun ef engin nauðung er inni í myndinni, t.d. þegar kona leggst með karli af því að hún er of kurteis til að afþakka.
Pistill Parísardömunnar er nokkuð dæmigerður fyrir þá „gagnrýni“ sem ég fæ frá femínistum. Mér eru gerðar upp skoðanir, snúið út úr orðum mínum og einhverri vitleysu haldið fram þrátt fyrir að gögn sýni annað (í þessu tilviki tiltekinn FB þráður.)
Hvorki Parísardaman né aðrir femínistar hafa hinsvegar hrakið það sem ég hef að segja um kvenhyggju. Sem dæmi má nefna umfjöllun mína um;
kynjafræði sem gervivísindi, gallaðar femíníiskar rannsóknir og fráleitar túlkanir á gögnum,
að andspyrnan gegn staðgöngumæðrun byggi ekki á neinum tækum rökum,
að sænska leiðin í málum kynlífsiðnaðarins þjóni betur stjórnsemi femínista en hagsmunum kynlífsþjóna,
að sú mynd sem baráttan gegn staðalmyndum tekur á sig geri lítið úr kvennamenningu,
að skilgreiningar á kynbundnu ofbeldi séu komnar út í rugl.
Þetta eru aðeins örfá dæmi um það sem Parísardaman og hennar skoðanasystur hafa ekki reynt að hrekja. Ekki vegna þess að ég sé óviðræðuhæf, heldur vegna þess að þær geta það ekki.