Druslur og dindilhosur

ELVGREN_img_38

Ég hef líklega verið í 9. bekk. Við vorum í dönskutíma, skiptumst á um að lesa og þýða. „Kvinderne hylede af fryd“ las einn. „Konurnar emjuðu af frygð“ þýddi annar. Kennarinn skellti upp úr og útskýrði góðlátlega að reyndar þýddi fryd gleði en frygð væri nú samt góð ágiskun því sennilega væru bæði orðin af sömu rót.

Frygð og gleði, það er fögur tenging. Náskyld orð merkja frjósemi eða gróska á öðrum Norðurlandamálum og það er líka fallegt. Á 19. öld var orðið frygð reyndar notað um viðbjóð eða ótta en það er væntanlega dregið af danska orðinu frygt. Tengingin er athyglisverð enda virðist oft skammt á milli gleði og ótta þegar kynferðismál eru annars vegar. Og óskaplega mikið hamrað á þeirri tengingu þessa dagana.

Sænska orðið kåt er af sama stofni og kátur í íslensku en það merkir í nútímamáli  graður. Sem aftur merkir það sama og gráðugur, sem er nú ekki beint jákvætt og á heilmikið skylt við girnd sem einnig er tengt frekju og eigingirni. Losti er skyldur lyst og í norsku og sænsku merkir sama orð (losta seg í norsku og lusta sej í sænsku) að skemmta sér eða njóta. Fýsn er sá haldinn sem er fús til slíkrar skemmtunar og „fýsa“ er eitthvert hinna dónalegustu orða sem notuð eru um sköp kvenna. Væntanlega af því að dándikonur eru ekki fúsar eða hvað?

Hýr er sá sem lifir kynlífi með fólki af sama kyni. Áður fyrr var hann argur en ergi er nátengd hverskyns tröllskap, óreiðu og hamförum og reyndar náði ergi yfir mun fleiri perversjónir en samkynhneigð. Í dag notum við orðið ergilegt um  það sem setur áætlanir úr skorðum, ertir mann eða vekur væga reiði.  Kynfrelsið vegur salt á mörkum hins jákvæða og neikvæða.

Konur sem ástunda frjálsar ástir eru lauslátar, lausgyrtar eða lausar í rásinni. Það þykir ekki fínt og þegar þessi orð eru notuð táknar orðið laus óáreiðanleika og stefnuleysi fremur en frelsi. Glaðlegri merkingu bera orðin léttlyndi og léttúðug. Daðurdrósin er einnig sögð kókett, það er dregið af franska orðinu coq sem merkir hani eða karlkyns gaukur og coquet merkir að sprerra sig eins og hani. Hún er ekki ómerkileg púta heldur fullkomlega sannfærð um aðdráttarafl sitt rétt eins hani í hænsnahóp. Áhugavert að feðraveldið skuli hafa tekið upp sama orð um ástleitna konu (í dag er slík kona reyndar kölluð athyglissjúk) og það sem bæði Svíar og enskumælandi þjóðir nota um gleðipinna karlmanns. Kuk í sænsku, cock í ensku, sjálfsagt eru skyld orð notuð í sömu eða svipaðri merkingu í fleiri málum.

Það er alþýðuskýring að orðið hóra sé skylt enska orðinu hour og merki því einn klukkutími. Hið rétta er að rót orðsins merkir þrá en við erum auðvitað komin alllangt frá rótinni. Fyrir nokkrum áratugum voru hórur kallaðar gleðikonur. Í dag eru þær venjulega nefndar vændiskonur en vændi er af sama stofni og vondur.  Enda eru hórur vondar konur sem þarfnast betrunar. Reyndar þykir ekki við hæfi að refsa þeim í dag heldur á að lækna þær af undirlægjuhættinum.

Kynhvöt má lýsa með gleðiorðum eins og frygð og losti. Ef hún birtist á neikvæðan hátt er hún girnd eða gredda. Ástleitin kona getur verið frjálsleg, semsagt kókett og léttlynd eða þá að við getum kallað hana lausláta eða ístöðulausa til að árétta vanþóknun á henni. Eða við getum gengið ennþá lengra og kallað hana druslu eða dræsu.

Mér finnst það snjallt bragð hjá frelsishreyfingu samkynhneigðra að taka skammaryrði upp á arma sína. Hommi er ekki lengur neikvætt orð nema í hugum þeirra sem halda dauðahaldi í fordóma sína og ég held að afsaurgun orðins kunni að hafa hjálpað til. Ég hef sjálf notað orð eins og drusla, dræsa og hóra í sama tilgangi, ef ég viðurkenni hegðunina þá þarf ég ekki að forðast orðið. En hommar og lesbíur afsaurguðu ekki bara orðið hommi, þau tóku líka upp orðið hýr eða (gay á ensku) og tengdu sig þannig talsvert meiri skemmtilegheitum en þeim sem felast í ergi og öfughneigð.  Og það er fallegt. Nógu fallegt til þess að ég vil ekki láta nægja að gefa orðinu drusla jávkæðari merkingu, ég vil líka taka upp fallegri orð. Ég er alveg til í að vera drusla og ýlandi dræsa, þeir geta hóstað mín vegna sem eiga erfitt með að kyngja. Því druslan er jafnframt kókett, tilkippileg, ástleitin, léttlynd. Hún er dindilhosa eða gleðikona, lostafull eða emjandi af frygð og sér enga ástæðu til að skammast sín fyrir dýrðina á sér. Eða fýsuna ef við erum svo dónaleg að álíta fýsn réttlætanlega.