Ég ber blendnar tilfinningar til meintra feminista. Það besta við feministahreyfinguna er að hún er á köflum óþolandi og þar með nógu ögrandi til þess að knýja fram umræðu. Mér þykja yfirvaldstilburðir þeirra andstyggilegir en held líka að það gæti orðið hættulegt að kippa áhrifum þeirra úr sambandi.
Mér finnst druslugangan góð hugmynd en æ hvað mér finnst leitt að sjá karlhatrið krauma í kringum hana. Þegar drusluganga var fyrst kynnt á Íslandi, vonaði ég að hún yrði í ætt við hina glaðlegu og jákvæðu kynfrelsisbaráttu samkynhneigðra. Sá jafnvel fyrir mér að feministar og súlustelpur gætu fundið snertiflöt í áherslunni á réttindi druslunnar til mannvirðingar og kynfrelsis. En ég held að það sé óraunhæfur draumur. Ég vona samt að gangan verði til þess stærri og fjölbreyttari hópur taki þátt í umræðum um kynferðisofbeldi og vandamál í samskiptum kynjanna og hef reyndar dálitla trú á því.
Ég viðraði lærapokana utan höfuðborgarsvæðisins í dag. Kom í bæinn undir kvöld, sá fréttirnar og varð dauðfegin að hafa ekki sprangað um í hórugallanum í miðbæ Reykjavíkur.
Þetta eru semsagt íslenskar druslur? Ég er loksins farin að skilja hversvegna öskudagsbúningarnir gengu fram af þeim. Maður fær á tilfinninguna að dándikonurnar hafi mætt á svæðið til að lýsa yfir samúð með dræsunum án þess þó að líta á sig sem slíkar.
Það er eitthvað fallegt við þetta. En drusluganga … ? Nei bara meint drusluganga.