Af hverju eru konur svona óvinsælir pennar?

Hildur Knútsdóttir skoðar kynjahlutföll í útgáfu og bókmenntaumræðu og út frá hausatalningu er freistandi að álykta að karlveldið hindri konur í að koma sér á framfæri.

Ég vildi að skýringin á því að ég lifi ekki af því að skrifa væri bara sú að útgefendur vilji mig ekki og fjölmiðlar reyni að þagga niður í mér, því þá gæti ég reddað því með því að sniðganga þá og gefa bara út sjálf. En skýringin á óvinsældum skrifandi kvenna er einhver allt önnur og sennilega illviðráðanlegri.

Kynjahlutföll TMM eru t.d. ekki slæm ef við miðum við bloggbirtingar og lestur samkvæmt bloggáttinni (en mér vitanlega eru engar takmarkanir á bloggfrelsi kvenna.)

Á lista yfir nýbirtar færslur (42 færslur eru á listanum) eru þegar þetta er ritað, 3 færslur eftir konur, þar af 2 eftir Pjattrófurnar en þær virðast flestum bloggkonum vinsælli.

Á lista yfir 25 vinsælustu bloggarana er nú ein kona, sjaldgæft er að sjá fleiri en 3 kvenmannsnöfn á þeim lista. Afar sjaldgæft að kona lendi í einu af efstu 5 sætunum og þá hangir hún þar venjulega aðeins í nokkrar klukkustundir.

8 konur eru á vinsældalista fésbókar, þar ef eru færslur eftir konur í efstu 3 sætunum, sú vinsælasta eftir Tobbu Marínós og næstu tvær frá Pjattrófunum.

Því miður þá er það einfaldlega svo að konur birta síður skrif sín en karlar og skrif kvenna njóta minni vinsælda. Vinsældir kvenna eru jafnvel ennþá minni þar sem birtingum og umfjöllun er ekki stýrt ofan frá. Það er því ekki við fjölmiðla eða útgefendur að sakast þótt verk kvenna fái minni athygli. Mér þætti hinsvegar mjög áhugavert að sjá umræðu um það hversvegna konur birta síður skrif en karlar og ekki síður hversvegna við náum ekki sömu vinsældum. Eru konur yfirhöfuð leiðinlegir pennar? Veljum við umfjöllunarefni sem eru ekki áhugaverð? Eiga karlar fleiri vini? Hvað í fjandanum veldur þessu? Það er nefnilega ekki kvenfyrirlitning TMM sem veldur.

 

One thought on “Af hverju eru konur svona óvinsælir pennar?

  1. ———————————
    Ég held að ef maður er á annað borð að í hausatalningu og lestrargreiningu þá myndi bætast alveg ný vídd í rannsóknina ef maður skoðaði það sem virðist vera öfug fylgni á milli lestrar og gæða skrifanna.

    Blogggáttin er í raun voða lítið issjú lengur. Um hana fer lítil umferð – og auðvelt að rokka upp og niður listann þar með örfáum tugum eða hundruðum lestra. Hun mælir aðallega iðni bloggarans. Miklu meiri umferð er um Feisbúkk, Dv, Eyjuna, Pressuna o.s.frv.

    En ef þú skoðar hvaða færslur eru mest lesnar á landinu þá sérðu hliðstæðu við mest lesnu fréttirnar. Froðan flýtur ofan á.

    Síðan koma skammar, umvöndunar eða áróðursfærslur sem höfða til ákveðins hóps – sem dreifir þeim með miskunnarlausri skilvirkni eins og farþegar í millilandaflugi dreifa veirum og öðrum ófögnuði.

    Ef ég skrifa t.a.m. skammarfærslu um hvað sveitarfélögin eru vond við okkur kennarana og hvað við erum illa launaðir og metnir þá veit ég að fleiri þúsund munu lesa færsluna og hún mun renna um fésbókina þvera og endilanga. Af því hún höfðar til múgsálarinnar. En ef ég skrifa miklu vandaðari færslu um að eitthvað af ógæfu kennara sé okkur sjálfum að kenna þá mun hún líklega ekki fá mikinn lestur.

    Mengi þeirra sem lesa TMM og þeirra sem skrifa í það eru ekki svo ólík að stærð. Margir sem lesa það lesa það af áhuga fyrir sjálfum sér.

    Það er varasamt að skoða tölfræði (sérstaklega um magn) og álykta sem svo að meira sé til marks um betra. Ég er til dæmis viss um það að lestur frétta af heimsku, illgjörnu og kjánalegu fólki eru töluvert fleiri en fjöldi fólksins gefur ástæðu til.

    Alveg eins og bloggfærslur (og lestur á þeim) karla eru fleiri en gæði þeirra og greind gefur ástæði þeirra til.

    Við lesum oft blogg eða fréttir af sömu hvötum og við horfum á bílslys. Fæst blogg opnar maður með það í huga að láta fræðast. Maður er meira að hugsa „hvaða rugl fær maður að lesa í dag“. Að vilja fjölga konum í þeim hópi sem maður les svona er álíka göfugt og að vilja fjölga konum í bílslysum.

    Posted by: Ragnar Þór Pétursson | 28.07.2011 | 12:11:32

    ———————————

    Spurningin er ekki sú hvort bloggskrif séu merkileg eða hvort merkilegustu skrifin rati á blogggáttina heldur hversvegna konur birti síður skrif sín en karlar og hversvegna þær séu óvinsælli.

    Hvort sem umferð um blogggáttina er mikil eða lítil þá sýnir sú umferð mun meiri áhuga á skrifum karla en kvenna. Það sama á við um fb og á meðan þorri bloggara var á mbl.is þá voru karlar áberandi í efstu sætum þar.

    Nú veit ég hreinlega ekki hvort eyjan og dv raða bloggurum upp eftir aldri færslna, vinsældum eða einhverju öðru en ég get ekki betur séð en að stór meirihluti þeirra vefbóka sem þessir miðlar sýna á forsíðu séu blogg karla.

    Posted by: Eva | 28.07.2011 | 12:31:34

    ———————————

    Karlveldið er ekki einhverjir karlar á sellufundum að skipuleggja markvissar aðgerðir gegn konum. Ég fæ ekki séð að Hildur haldi því fram að ritstjórn TMM hafni frekar efni eftir konur eða neitt slíkt. Það er líklega flestum ljóst að TMM berst alveg örugglega minna efni frá konum en körlum og þá einmitt full ástæða til að rýna í mögulegar orsakir þess og reyna að sporna gegn þeim því konur eru svo sannarlega ekki verri eða leiðinlegri skríbentar en karlar.

    Það er ekki eins og það sé eitthvað meðfætt hjá konum að vera óframfærnar og hjá körlum að vera með uppblásin egó (ATH: ég er alls ekki að halda því fram að allir karlar hafi uppblásin egó, aðeins að sá eiginleiki virðist talsvert algengari meðal karla, né heldur tel ég að allar konur séu óframfærnar). Þetta eru eiginleikar sem fólk þróar með sér m.a. út af viðbrögðum umhverfisins við því sem það gerir.

    Það er minna mark tekið á því sem konur segja/skrifa, síður hlustað á þær. Minna hlegið þegar kona segir eitthvað fyndið heldur en þegar karl gerir það (margir karla hlæja t.d. aldrei nokkurn tímann þegar kona segir eitthvað sniðugt).

    Í gegnum tíðina hafa jú sumar konur einmitt gripið til þess ráðs að skrifa undir karlanöfnum, t.d. George Eliot, George Sand, Isak Dinesen…. Hér er nýlegur vitnisburður konu sem fór að skrifa undir karlmannsnafni til að geta séð sér og sínum farborða: http://www.copyblogger.com/james-chartrand-underpants/

    Svo hafa verið gerðar rannsóknir t.d. þar sem sama sívíið er ýmist látið hafa kvenmanns- og karlmannsnafn og borið undir sérfræðinga á viðkomandi fræðasviði sem þykir afrek viðkomandi merkilegri ef karlmannsnafn er á. (Ég get grafið upp einhverjar heimildir ef einhver hefur áhuga, nenni ekki að róta eftir þessu núna.)

    Sem sagt: Ég held að minni vinsældir þess sem konur skrifa hafi nákvæmlega ekkert að gera með að þær séu vitlausar eða leiðinlegar heldur snúist málið um fordóma (oftast ómeðvitaða) lesendanna.

    Posted by: Eyja M. Brynjarsdóttir | 28.07.2011 | 12:35:04

    ———————————

    Takk fyrir þetta innlegg Eyja. Mér finnst þessi hlekkur sem þú bendir á um James Chartrand sérlega áhugaverður. Er ekki örugglega árið 2011?

    Ég vil helst ekki þurfa að skrifa undir karlmannsnafni til að fólk nenni að lesa það sem ég skrifa. Ég vil heldur ekki þurfa að skrifa mikið um varaliti til þess. En á meðan fjöldi lesenda minna gæti rúmast í einu strætóskýli þá get ég varla reiknað með að útgefendur og gagnrýnendur hafi áhuga á mínum skrifum. Spurning hvort þriðja leiðin er kannski til?

    Posted by: Eva | 28.07.2011 | 12:55:16

    ———————————

    Þriðja leiðin: Að eyða ‘kyni’ úr hugtakaforða okkar? Svona í alvöru held ég að kostirnir við það væru fleiri en gallarnir en geri mér litlar vonir um að það sé raunhæft. Það tæki alla vega nokkur þúsund ár.

    Konur sem skrifa undir karlmannsnafni leggja auðvitað ekkert af mörkum til að gera konur sýnilegri í þessum efnum. Í raun má segja að það sé eigingjörn lausn, þótt hún geti vel verið skiljanleg þegar málið snýst um að hafa í sig og á.

    Ég held að það skipti máli að veita konum hvatningu til að skrifa meira og láta meira í sér heyra. (Og auðvitað er það einföldun að orða það svoleiðis. Auðvitað eru til konur sem þarf ekkert að hvetja og sömuleiðis karlar sem þyrfti að hvetja meira.)

    Posted by: Eyja M. Brynjarsdóttir | 28.07.2011 | 13:15:09

    ———————————

    Ég held nú reyndar að fólk, af hvoru kyninu sem er, hafi alltaf gagn af hvatningu. Hinsvegar fjölgar lesendum ekkert þótt einhver klóri manni á bakinu. Svo velti ég því fyrir mér hvort strákarnir á kryppunni og egginni hafi í raun og veru meira sjálfstraust en konur sem hafa áhuga á pólitík og samfélagsmálum eða hvort eitthvað annað ræður því að karlar skrifa meira en konur um þessi efni.http://www.norn.is/sapuopera/2011/03/hver_meinar_konum_a_tja_sig_a.html

    Posted by: Eva | 28.07.2011 | 13:48:34

    ———————————

    Það má einnig benda á í tengslum við pistilinn sem ég tengdi á í tjásunni hér að ofan, að eina vefsetrið sem er almenningi aðgengilegt, þar sem ég finn safn greina helgaðar feminisma eftir ýmsa höfunda, er öðlingssíða visis. Það eru semsagt karlar sem skrifa um feminisma eins og öll önnur pólitísk mál, a.m.k. eru það karlarnir sem eru lesnir. Ég hef velt því fyrir mér hvort hugsunin á bak við þetta „öðlingsátak“ sé þessi: æ það þýðir ekkert fyrir kerlingar að vera að þenja sig, það nennir enginn að hlusta á þær.

    Posted by: Eva | 28.07.2011 | 14:07:42

    ———————————

    Mér finnst þetta mjög áhugaverð spurning. Held reyndar að svarið við þessu, eins og svo mörgum „feminískum“ spurningum, geti ekki verið eitthvað einfalt og þægilegt.
    Svo ég quote-droppi smá: „For every complex problem there exists an answer that is clear, simple and wrong“.

    Posted by: Einar Þór | 28.07.2011 | 16:34:20

Lokað er á athugasemdir.