Kona að nafni Þórlaug Ágústdóttir sakar mig um að vinna gegn baráttunni gegn þrælahaldi. Það var svosem auðvitað. Ein af baráttuaðferðum dólgafeminismans eru þessi skilaboð; „ef þú samþykkir ekki allt sem ég segi, hvort sem það er byggt á einhverjum raunveruleika eða ekki, ertu þar með að verja kúgun kvenna og grafa undan kvenréttindabaráttunni. Ef þú ert karlmaður ertu auk þess kynferðislega brenglaður og halt þú svo bara kjafti.“ Þetta viðhorf kom t.d. glöggt fram í svari Maríu Lilju til Davíðs Þórs nú nýverið. Enda þótt hann væri í grundvallaratriðum sammála henni, var það að eitthvað bæri í milli í viðhorfum þeirra, sönnun fyrir því að hann væri sérlegur fylgismaður vændisánauðar.
Í svipuðum dúr er svar Þórhildar á umræðuþræði á knúzinu, þar sem ég hafði með vísun í rannsóknir, hafnaði þeirri kenningu að langflestar vændiskonur eigi hræðilegar aðstæður að baki. Ég tók einnig fram að án þess að nokkur afneiti því að þrælahald viðgangist í kynlífsbransanum, séu tölur um það stórlega ýktar og þótt þrælahald sé einnig stundað í fjölmörgum öðrum starfsgreinum fái aðeins kynlífsánauð einhverja athygli. Þetta er svarið sem ég fékk:
,,Eva Hauksdottir, þetta er beinlínis rangt hjá þér, þrælasala í það heila fær sáralitla athygli en child-soldiers, námuverkamenn og kynlífsþrælar hafa allir fengið of LITLA athygli. Eitthvað finnst mér þú afvegaleidd í baráttunni gegn óréttlæti heimsins ef þú sérð ekki bara ástæðu til að gera ekkert, heldur beinlínis vinna á móti því að vekja athygli á vandamálinu sem kynlífsþrælasala er. Öll þrælasala er viðbjóðsleg, furðulegt að þú sjáir ástæðu til að gera upp á milli þræla á þennan hátt. Sjaldan sem maður sér einhvern svo keikan við að verja viðbjóðinn og hafðu skömm fyrir.“
Ég er semsagt ,,keik við að verja viðbjóðinn“ af því að ég hef vogað mér að benda á fúskrannsóknir og þöggun þeirra kvenna sem sjá sér hag í því að stunda kynlífsþjónustu (sem eins og komið hefur fram í fyrri pistlum mínum á hreint ekki bara við um millistéttarmellur heldur einnig margar þeirra kvenna sem sjálfar segjast vera frjálsar og hafa jafnvel þurft að borga sig inn í kynlífsiðnaðinn á Vesturlöndum en eru samt sem áður skilgreindar sem fórnarlömb mansals.)
Nú hef ég ekki á bak við mig neina vísindalega úttekt á því hvaða tegundir þrælahalds fá mesta athygli. Sú tilgáta að það sé kynlífsþrælkun er sett fram eingöngu út frá þeirri umræðu sem ég verð vör við sjálf og sú upplifun er hugsanlega ekki í takt við raunveruleikann. Ég spurði þessvegna Gúggul vin minn hvaða þrælaumræðu hann hefði orðið var við og skyndikönnun (sem er engan veginn vísindaleg og eingöngu til þess fallin að gefa smá vísbendingu er þessi:
(mynd vantar)
(Mér hafa orðið á einhver mistök varðandi neðsta flokkinn, ,,barnahermenn“ því google sýnir miklu fleiri niðurstöður. Hugsanlega hef ég gleymt núlli eða slegið leitarorð vitlaust inn.)
Ég hafði einnig samband við fjölmiðlavaktina og lét fletta upp nokkrum leitarorðum þar. Leitað var að öllum beygingarmyndum orðanna. Gagnagrunnurinn nær aftur til 01.03.2005 og nær yfir allar fréttir og flesta umræðurþætti í ljósavakamiðlum, prentmiðlun og netmiðlum dagblaðanna. Niðurstaðan var þessi:
(mynd vantar)
Nú segir hvorki fjölmiðlavaktin né Gúggull neinn stórasannleika (frekar en þeir sem fremja kynjafræðirannsóknir) Fjöldi leitarniðurstaðna á google getur jafnvel verið breytilegur eftir ip-tölu tölvunnar, en ég tel þetta allavega vera vísbendingu um að kynlífsþrælkun (orðið mansal er nánast ekkert notað um aðrar tegundir þrælahalds) fær síst minni athygli en aðrar tegundir þrælahalds og sennilega mun meiri. Ef það er röng ályktun getur Þórlaug kannski upprætt fáfræði mína og upplýst mig um það hvaða aðferð hún notaði til að komast að þeirri niðurstöðu að kynlífsþrælkun sé svona vænrækt hneyksli. Það er annars út af fyrir sig áhugavert hvaða mál yfirvöld, vísindasamfélagið og fjölmimðlar álíta að komi okkur við. Ég væri t.d. til í að fá upplýsingar um það hversu miklum fjármunum Norðurlandaþjóðirnar hafa varið síðustu 5 árin í rannsóknir á kynlífsiðnaðinum miðað við aðar starfsgreinar þar sem ólöglegir innflytjendur starfa. Ef einhver sem les þetta getur bent á heimilidir þá þigg ég það með þökkum. Ég bíð þess svo með eftirvæntingu að heyra rökstuðning Þórlaugar fyrir því að kynlífsþrælkun fái minni athygli en aðrar greinar þrælahalds.
Það er von að Þórlaugu blöskri þegar fólk tekur að sér að „verja viðbjóðinn“ en af orðum hennar mætti ætla að ég hafi varið þrælahald. Það hef ég aldrei gert. Ég hef hinsvegar varið viðbjóð á borð við kröfuna um að það sem sett er fram í nafni vísinda, sé byggt á vísindalegum aðferðum en ekki trúarbrögðum femninsta. Ég hef einnig varið sjálfsákvörðunarrétt kvenna, sem er náttúrulega alger viðbjóður í hugum þeirra sem telja sig hafa einhverskonar yfirskilvitlegt umboð til að valta yfir aðra og ákveða einhliða hvað þeim er fyrir bestu. Ég hef varið annan eins viðbjóð og mannréttindi kvenna sem er „bjargað“ úr kynlífsbransanum gegn vilja sínum og sendar heim í eymdina, oft í hendur alvöru melludólga sem eiga lítið skylt við eigendur vestrænna nektardansklúbba og erótískra nuddstofa. Í Danmörku, þar sem Þórlaug er búsett, fá þessar konur 100 daga uppihald (við erum ekki að tala um upphæðir sem komast neitt nálægt laununum þeirra) áður en þeim er hent úr landi. Mótmæli gegn þessari meðferð er jú einn viðbjóðurinn sem ég er að verja.
Það er skemmtileg tilviljun að Þórlaug skuli nefna barnahermenn því svo vill til að Íslendingar hafa einmitt reynslu af því að fótumtroða mannréttindi barnahermanns, þagga niður ákall hans um hjálp og láta sig örlög hans nákvæmlega engu varða. Ætli Þórlaug viti hvað varð um Henry Turay? Ætli einhver alþingismaður viti það? Það efast ég um en bæði alþingismenn og almenningur eru hinsvegar með það á hreinu í smáatriðum hvernig Gunnar í Krossinum káfaði á mágkonum sínum. Það flokkar landinn sem sálarmorð (Sjá t.d. umræðukerfið hér) en ég hef líklega verið að „verja viðbjóðinn“ þegar ég sagði að það væri gróf móðgun við barnahermenn og fórnarlömb pyntinga að kalla kynferðislega áreitni af þessu tagi sálarmorð. Það með hlýt ég, samkvæmt feminiskri rökvísi að vera að hvetja menn til að káfa á mágkonum sínum eða hvað?
Nei gæskan ég hef aldrei gert lítið úr hörmungum fórnarlamba ofbeldis og þrældóms. Þeir sem gera lítið úr hörmungum eru fólkið sem framkvæmir og heldur á lofti rannsóknum sem standast enga skoðun. (Af mörgu er að taka en hugmyndin um bældar minningar er einn viðbjóðurinn sem fjöldi Íslendinga hefur sameinast um að verja.) Þeir sem jafna vægri kynferðislegri áreitni við sálarmorð, Þeir sem setja samasemmerki milli kynlífskaupa og nauðgunar. Þeir sem „bjarga“ fólki úr viðunandi aðstæðum sem þykja þó ekki par fínar, til þess eins að senda það á vit fátæktar, ofbeldis og þrældóms. Þeir sem sjá engan mun á milligöngu um vændi og þrælahaldi. Þeir sem sjá engan sérstakan mun á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi. Þeir sem halda því fram að barnavændi sé algengt á Íslandi og að það sé algengt að íslenskir karlar læsi konur sínar inni og geri þær út til kynlífsþjónustu. Þeir sem flokka allar farandhórur sem þræla og neita staðfastlega að gera minnstu tilraun til að horfa á heiminn út frá sjónarhóli þeirra sem þeir þykjast ætla að frelsa.
Þetta eru þeir sem gera lítið úr hörmunugum. Flestir þeirra kalla sig feminista.
———————————
Kærar þakkir fyrir svarið Eva!
Ég er upp með mér yfir því að vakið hjá þér svo sterk viðbrögð, það þýðir að á þér brennur óréttlætið sem ég brigslaði þér um að verja með því að gera lítið úr vandamálinu.
Mér þykir gott að þú sjáir ástæðu til að leiðrétta ásökunina, því hingað til hef ég verið þeirrar trúar að þú hefðir hjartað á réttum stað, þó stundum finnist mér fljótfærnin ráða för.
Ég geri athugasemdir við að þú gerir lítið úr því vandamáli sem kynlífsþrælasala er, því það gerðir þú í athugasemdum þínum. Þetta má teygja og hártoga af þrætulyst, en hver getur dæmt fyrir sig á upphaflega þræðinum. Mér finnst rangt að gera lítið úr svo stóru og augljósu vandamáli, rétt eins og mér finnst rangt að gera lítið úr því vandamáli sem þrælasala almennt er.
Það vill svo undarlega til að þegar rykið sest erum erum sammála bæði um vandamálið þrælahald og um rétt konunnar til að selja sinn eigin líkama -og því tek ég upphrópanir þínar um dólgafemínista ekki á nokkurn hátt til mín, né þegar þú telur upp „þá“ sem hafa hinar og þessar skoðanir sem eru andstæðar þínum… og þú skrifar mig fyrir án þess að fyrir því finnist nokkur fótur.
Gagnrýni mín snérist um það að þegar við afneitum hræðilegum hlutum og förum að rífast um aukaatriði (eða tökum hlutina persónulega) þá erum við ekki að vinna að lausn vandans.
Kynlífsþrælasala er raunverulegt vandamál sem þarf að taka á, rétt eins og önnur þrælasala. Konur sem kjósa að selja líkama sinn af fúsum og frjálsum vilja eru „í samkeppni“ við konur sem eru neyddar í vændi, konur sem enginn afneitar að eru beittar hræðilegri nauðung og ofbeldi. Ofbeldið sem nauðungarhórur eru beittar smitar út frá sér yfir til þeirra frjálsu kvenna sem telja sig veita „kynlífsþjónustu“, nauðungin hefur t.d. líka áhrif á verðmyndun og marga aðra hluti sem er of langt að telja upp hér.
Það er hagsmunamál allra að vandamál heimsins séu rædd á yfirvegaðan hátt og að við gerum hvoru öðru ekki upp skoðanir. Ég taldi þig gera lítið úr vandamáli sem þú leiðréttir hér að þú takir alvarlega. Á móti held ég að þú hafir lesið allt, allt of mikið í mín orð og reynir hér að draga umræðuna út í persónulegan dilkadrátt með kunnuglegu stefi. Um hvað snýst þetta mál eiginlega? Um æru þína eða að við finnum vitræna lausn á því vandamáli sem nauðungarsala á líkama fólks raunverulega er?
Posted by: Þórlaug Ágústsdóttir | 5.11.2011 | 20:10:13
Takk fyrir svarið Þórlaug, ég er svo heppin að hafa engan heiður að verja svo í mínum huga snýst þetta ekki um mína æru heldur það að rétt sé farið með staðreyndir. Það er forsenda þess að hægt sé að takast á við raunveruleg vandamál (sem eru ærið nóg) í stað ímyndaðra og bara sorrý, sú mynd sem dregin hefur verið upp af kynlífsiðnaðinum er ekki í neinum takti við veruleikann.
Ég er ekki að gera þér upp skoðanir þótt ég bendi á nokkur dæmi um það hvernig yfirlýstir feministar hafa gengisfellt stór orð með ýkjum og alhæfingum. Það eru dólgafeministar sem stjórna umræðunni og ég hafði í öllum tilvikum ákveðin dæmi í huga (hef skrifað um þau öll) en fannst kannski fullmikið að tengja á hverja setningu. Ég set kannski inn tengla í fyrramálið þegar ég hef tíma til þess.
Posted by: Eva | 5.11.2011 | 20:34:21
Ég tek eftir því að upphaflega ummælin þín sem ég var að mótmæla vantar hér að ofan svo ég bæti hér með úr því lesendum til glöggvunar.
Eva Hauksdóttir mælir:
„það hefur enginn svo ég viti til afneitað því að þrælahald viðgangist. Það er hinsvegar eingöngu í klám- og kynlífsgeiranum sem það fær einhverja athygli auk þess sem tíðni þess er stórlega ýkt.“
Posted by: Þórlaug Ágústsdóttir | 5.11.2011 | 21:00:45
ps Eva, þú afsakar vonandi þó ég láti umræðunni lokið af minni hálfu hérna og leyfi mér að vera ósammála þér um nálgunina á vandamálið.
Ég vil nálgast málið sem félagslegt vandamál, ekki (tilfinningalausa) verslun á varningi eða þjónustu, og vil með þeim vinkli, setja líðan, heilsu og öryggi vændiskonunnar í forgang þ.m.t. baráttuna gegn mansali.
Posted by: Þórlaug Ágústsdóttir | 5.11.2011 | 21:15:40
Það að kenna þeim sem er ekki á sömu skoðun um að styðja eitthvað glæpsamlegt er auðvitað rökvilla, og ekkert annað.
Þarna er ennfremur verið að reyna að þagga niður í fólki. Hingað til hafa feministar á Íslandi notað þessa aðferð með alveg ágætum árangri hingað til.
Íslenskir feministar hættu reyndar að tala við mig, en ég pirra mig ekki á svoleiðis smámunum.
Posted by: Jón Frímann | 6.11.2011 | 0:10:25
Bíddu, um hvað eruð þið eiginlega ósammála?
Posted by: Einar Þór | 6.11.2011 | 0:18:25
Einar Þór, við erum ósammála um nálgunina. Ég vil ekki nálgast kynlífsþjónustu sem félagslegt vandamál, heldur sem atvinnugrein. Ég vil hinsvegar nálgast þrælahald sem glæp og ýmsar aðstæður sem verða til þess að konur (og mun færri karlar) fara út í kynlífsþjónustu nauðbeygðar, sem félagslegt vandamál.
Þeir sem vinna við kynlífsþjónustu á eigin forsendum líta á hana sem þjónustugrein, hvorki tilfinningalausari né tilfinningaríkari en önnur störf sem miða að því að láta fólki vel. Starf sem eðlis síns vegna útheimtir góð samskipti og þar sem kúnninn á ekkert að komast upp með skítaframkomu eða að krefjast þjónustu sem alls ekki var samið um. Ekki frekar en þú gætir pantað þér tíma í klippingu og heimtað svo með frekju og dónaskap að hárfríðkan klippti á þér táneglurnar. Starf sem hentar alls ekki öllum og getur verið sumu fólki hættulegt. Rétt eins og sumt fólk þolir ekki erfiðisvinnu í steikjandi sól eða störf þar sem andlegt álag er mikið, er til fullt af fólki sem ætti alls ekki að leggja kynlífsþjónustu fyrir sig.
Í mínum huga er vændi ekki vandamál og milliganga um vændi ekki heldur, ekki frekar en hver annar fyrirtækjarekstur. Neyðin er það hinsvegar. Fátækt er vandamál, ofneysla fíkniefna er vandamál, að búa í samfélagi sem býður ekki upp á almennilega heilsugæslu, menntun og félaglega aðstoð við þá sem eru ófærir um að framfleyta fjölskyldu sinni hjálparlaust er vandamál. Neyðin sem rekur manneskjur til að gera eitthvað sem hefur eyðileggjandi áhrif á þær er vandamál, hvort sem það er að vinna við vændi, kolanám eða eitthvað annað. Löggjöf sem býður beinlínis upp á það að milligöngumaðurinn misnoti aðstöðu sína (þar sem engin vinnuvernd eða stuðningur við þá sem brotið er á, er í boði) er líka félagslegt vandamál. Þessvegna þarf að lögleiða vændi og aflétta stigmanu.
Ég vil nálgast mansal á sama hátt og allt annað þrælahald sem nákvæmlega það sem það er, skipulagða glæpastarfsemi. Kakórækt er ekki félagslegt vandamál. Þrælahald kakóframleiðenda er hinsvegar glæpur.
Posted by: Eva | 6.11.2011 | 17:09:51
OK. Mér skildist á Þórlaugu að hún væri sammála þessu, þ.e.a.s. að nauðungarvændi/kynlífsþjónusta væri félagslegt vandamál en ekki vændi eða kynlífsþjónusta í eðli sínu.
Lenti í rifrildi um daginn sem mér sýnist af svipuðum meiði. Ég gagnrýndi (eða hæddist að, sorry) eina „baráttugrein“ skrifuð undir merkjum femínista sem fór svo rangt með staðreyndir að mér blöskraði; laug beinlínis um atburði að því virtist í þeim eina tilgangi að sýna hvað karlar væru vondir og konur kúgaðar.
Hinum aðilanum blöskraði að ég skildi vera að hnýta í einhver „smáatriði“ í greininni en horfa framhjá aðal atriðinu; heimilsofbeldinu (aka kynbundnu ofbeldi) í samfélaginu.
Mér fannst aðal atriðið hljóta að vera sannleikurinn. Honum fannst það vera attitude þjóðfélagsins (i.e. mín) sem léti svona ofbeldi viðgangast.
Seinna þegar við spjölluðum rólega þá náðum við nú alveg saman um það að „blaðamennska“ (hah) á íslandi væri fáránlega mikið slúður fram og til baka og sömuleiðis að í hverjum baráttuhóp færi fram talsvert af upphrópunum og hóprunki sem ekki stæðist skoðun. Hann benti á að hóprunkið væri líklegt til að vekja athygli á verðugu máli. Mhm, en ég benti á að kjaftshögg gerði það sama, en stuðaði á vondan hátt og væri líklegt til að stuðla að því að vandamálið „firrtist“ frá raunveruleikanum í huga fólks; að pólarisera umræðuna milli þeirra sem „trúa“ og þeirra sem „gá“ og sjá að það er gjá á milli þess sem er sagt og þess sem er að gerast.
Við vorum semsagt alveg sammála um öll efnisleg atriði (heimilsofbeldi==mjög vont. blaðamennska/dægurmálaumfjöllun á íslandi == jafnvel verra) en samt varð þetta einhvernveginn að talsverðu rifrildi…
My point being: Oftar en ekki þegar ég spjalla við fólk face-to-face þá erum við miklu meira sammála en ósammála. En svo koma upphrópanir, slagorð, villandi upplýsingar, jafnvel lygar og einhver tekur upp trúarbragðakennda nálgun. Þeir fá alla athyglina og umræðan pólast í „með“ og „á móti“ hópinn aftur…
Posted by: Einar Þór | 6.11.2011 | 18:19:52
Það er einmitt þessi trúarbragðakennda nálgun sem mér finnst óþolandi.
Ég held líka að ýkjur séu afleit leið til að vekja athygli á vandamálinu og sérstaklega þegar þær eru settar fram sem vísindi. Ef við köllum lærakáf sálarmorð og ósköpumst yfir því mánuð eftir mánuð hvernig það hafi lagt mannslíf í rúst, hvernig eigum við þá að lýsa grófu kynferðisofbeldi? Verður fólk ekki bara ónæmt?
Posted by: Eva | 6.11.2011 | 18:34:45
Ég fæ mun fleiri niðurstöður fyrir child soldiers; 96.400.000 án gæsalappa og 2.840.000 með þeim. Gæti þetta komið til vegna stafsetningarvillu (í töflunni stendur ‘soilders’)?
Ég fæ 3.590.000 úr brick + slavery, og 1.400.000 úr fireworks + slavery, en aðrar tölur stemma upp á +/- 400.000, svo munurinn á barnahermönnunum hlýtur að skýrast af öðru.
Posted by: Tinna Gígja | 7.11.2011 | 1:52:54
Takk fyrir ábendinguna um þessa villu Tinna Gígja, þetta gæti verið skýringin.
Posted by: Eva | 7.11.2011 | 8:15:41
Rétthugsun. Ég kæri mig ekki um að fólk noti mínar vefsíður til að koma á framfæri persónulegu skítkasti gagnvart öðru fólki. Þér er velkomið að nota tjásukerfið mitt til að biðja Þórlaugu afsökunar en þessi ummæli verða fjarlægð. Það er mjög óvenjulegt því mér finnst riltfrelsi mikilvægt en það eru takmörk fyrir öllu. Ég hef haldið úti bloggi frá árinu 2001. Ég birti milli 300 og 400 færslur árlega. Þetta er þriðja sinn, allan þennan tíma sem einhver gengur svo fram af mér með ósvífni að ég sjái ástæðu til að fjarlægja ummæli
Posted by: Eva | 7.11.2011 | 8:21:29
Þú heldur varla að ég fari að biðja stjórnmálafræðingi afsökunar á eigin ummælum og athöfnum. Sem stjórnmálafræðingur getur hún borið ábyrgð á sjálfum sér.
Posted by: Rétthugsun | 8.11.2011 | 5:08:55
Mér finnst vel við hæfi að þú biðjist afsökunar á því að fara með fleipur um undirskriftasafnanir og kærur, sama hvort viðkomandi er stjórmálafræðingur eða eitthvað annað. Hafi hún kallað þig rasista byggir hún þá skoðun væntanlega á því hvernig þú talar um fólk frá öðrum menningarheimum.
Posted by: Eva | 8.11.2011 | 7:57:44
Gúgglaðu hana.
Posted by: Rétthugsun | 8.11.2011 | 8:20:57
Big people talk about ideas
Medium people talk about things
Small people talk about other people
Posted by: Skúli Skúlason | 8.11.2011 | 22:01:25
Big people talk about ideas
Medium people talk about things
Small people talk about other people
Posted by: anonymous | 8.11.2011 | 22:07:15
Ég býð hér með líkama minn til hlutgervingar og afþreyingar!
– Gegn vægu gjaldi.
Því miður hef ég engan í slagtogi við mig að sleikja af mér salt.
Ég býð upp á hlutgervingu líkama míns, hér og nú gegn vægu gjaldi!
Ég býð upp á hálftíma og klukkutíma session í gegn um webcam og vona að þjónusta mín verði einungis notuð í listrænum tilgangi og módelteikningu.
Hálftími kostar 15 þúsund og klukkutími 30 þúsund, ég er með ágætis internet tengingu og ætti að geta verið nokkuð live, er með skemmtilega hráann bakgrunn á bak við mig.
Fyrirframgreiðsla mun ávalt vera fyrirkomulagið, áhugasamir geta sent mér skilaboð.
helgrima@hotmail.com
Posted by: helgrima | 12.11.2011 | 18:59:16
Þetta er vitaskuld bara mannfræðitilraun til að finna á eigin skinni hversu djúpstæð áhrif þetta mun hafa á mig. Ég ætla að ganga í lið með hórunum í mánuð.
Posted by: helgrima | 12.11.2011 | 19:01:39
Takk fyrir innleggið Helgríma. Það er einmitt dálítið athyglisvert að það sér enginn neitt athugavert við það þótt þú sitjir fyrir nakin hjá listmálara eða listrænum ljósmyndara. En um leið og hann örvast kynferðislega eða býr til verk sem öðrum finnst æsandi, þá er hann allt í einu farinn að „hlutgera“ þig og þá er það ekki lengur list sem hann er að vinna að, heldur klám. Í báðum tilvikum ertu viðfang en aðeins þegar athyglin beinist að kynferði þínu ertu „hlutgerð“. Finnst þér kannski að vanti eitthvað í þessa hugmyndafræði?
Ef út í það er farið ertu að nota líkama þinn öðrum til afþreyingar ef þú ert atvinnuleikari, dansari o.s.frv. Þú leggur ýmiskonar óheilbrigði á líkama þinn og sál í þágu allskyns skíthæla þegar þú vinnur almenna launavinnu og aðeins hinir „öfgafyllstu“ anarkistar sjá það sem vandamál. Ef píkur og typpi koma við sögu ætlar hinsvegar allt um koll að keyra og fólk sem vinnur við jafn geðslega þjónustu og stóriðju og auglýsingagerð og hefur það að kaupa drasl að áhugamáli, ætlar bókstaflega að kafna af vandlætingu.
Mannfræðitilraunin er út af fyrir sig áhugaverð en hún myndi segja miklu meira um þig sem manneskju en eðli hórirísins. Þú getur ekki gengið í lið með hórunum nema skilja forsendur þeirra. Þú þarft semsagt annaðhvort eða bæði að fá kikk út úr því að vera þráð og dáð af körlum sem þú hefur ekki áhuga á eða þá að líta á fátækt sem vandamál. Ef þú ert ekki tilbúin til að ráða þig í vinnu annaðhvort sem tískumódel eða við lítils metna þjónustu þar sem þú þarft að smjaðra fyrir fólki sem þú kannt misvel við, þá ertu sennilega ekki efni í góða hóru.
Posted by: Eva | 12.11.2011 | 22:13:55
Fyrst auglýsir Stóra systir vændi á einkamál.is og krefst síðan að síðunni sé lokað. Nú kemur mannfræðigrey og auglýsir vændi á norn.is. Má vænta þess að krafa kemur um að síðunni verði lokað?
Annars svarar þú Helgrímu mjög vel, málefnalega og skýrt eins og þér er lagið.
Posted by: Sigurbjörn | 15.11.2011 | 4:09:35
Fyrst auglýsir Stóra systir vændi á einkamál.is og krefst síðan að síðunni sé lokað. Nú kemur mannfræðigrey og auglýsir vændi á norn.is. Má vænta þess að krafa kemur um að síðunni verði lokað?
Annars svarar þú Helgrímu mjög vel, málefnalega og skýrt eins og þér er lagið.
Posted by: Sigurbjörn | 15.11.2011 | 4:10:57
Helgríma er ekki að auglýsa vændi heldur bjóða sig fram sem fyrirsætu til listsköpunar sem felur í sér hlutgervingu.
Tilraun Helgrímu vekur áhugaverðar spurningar um ýmis landamæri svo sem mörk kláms og módelteikningar, mörk kynlífsþjónustu og kláms, mörk listar og hlutgervingar o.s.frv. Einnig spurninguna um það hvort klámið fari aðallega fram innan nærbuxna eða hvort Helgríma getur forðast hlutgervinguna með því að vera í nærbuxum.
Posted by: Eva | 15.11.2011 | 5:17:55
Ég læt nú yfirleitt ekki þagga mig niður, en verð að viðurkenna að mér býður við viðbrögðum „dólgafeministanna“ þegar ég eða einhver reynir að andmæla ýkjunum sem þær slengja fram sem heilögum sannleika (hinum eina sanna).
Þess vegna veigra ég mér orðið við að taka þátt í umræðum um þetta (nema þegar ég fæ virkilega knýjandi þörf).
Þú átt heiður skilinn Eva, fyrir að hætta þér út í þessa ormagryfju.
Ég er algjörlega sammála þinni nálgun á málið.
Posted by: Gunnar Th. Gunnarsson | 15.11.2011 | 17:58:39