Að hata feminista

agree

Magnús Sveinn Helgason veltir fyrir sér þeirri orðræðu og heift sem viðgengst þegar rætt er um og við feminista og ég get svosem tekið undir margt af því sem hann segir. Skítkastið gengur stundum fram af manni.

Ég er hinsvegar ekki eins undrandi á þessu og Magnús Sveinn. Aðrir hópar aðgerðasinna hafa svosem ekki farið varhluta af skítkasti, allt sem víkur frá norminu kallar fram sterk viðbrögð. Feministar hafa þó sennilega orðið fyrir snarpari persónuárásum en nokkur annar hópur hugsjónafólks. Það á sér skýringar, ekki réttlætingar en skýringar samt.

Ég held að skýringarnar á þessari heift í garð feminista séu annarsvegar þær að í samfélagi ríkir alltaf tilhneiging „minna þroskaðra manna“ til þess að taka því að ákveðnir hópar eða einstaklingar sæti gagnrýni, sem formlegu leyfi til þess að leggja þá í einelti. Það er „seif“ að vera á móti þeim sem meirihlutinn hnussar yfir. Hinsvegar sú að feministar hafa látið alveg sérdeilis heimskulega og ljóta hluti frá sér fara og eiga það til að beita sálfræðihernaði fremur en rökum. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt skrif sem bera keim af fordómum og fórnarlambshugsun kalli fram andúð og reiði.

Magnús Sveinn segir: ,,Svo er líka áhugavert að spyrja sig: Eru femínistar verri en annað hugsjónafólk? Eða femínískir aktívistar verri en aðrir aktívistar?“

Svarið er nei. Feministar eru ekkert verri en annað fólk og kannski bara ögn skárri á sumum sviðum. EN fólk sem ásakar þá sem eru ekki sammála því í einu og öllu um kynferðislega brenglun og illmennsku þarf ekki að undrast þótt því sé sagt að halda kjafti. Þeir sem gera engan sérstakan greinarmun á karlmanni og nauðgara geta reiknað með að vera álitnir karlhatarar og aktivistahópur sem tekur sér heiti sem vísar í fasisma og gervi sem vísar í ku klux klan, gengst upp í yfirvaldssinnuðum aktivisma og móðgast svo alveg ægilega yfir því að vera kenndur við fasisma, ætti kannski að leita orsakanna hjá sjálfum sér.

Við skulum líka hafa í huga að upphaflega var „feminazi“ notað um þá sem aðhylltust frjálsar fóstureyðingar, af fólki sem leit á fóstureyðingar sem manndráp. Það hefur líklega verið andúð á þeim verknaði fremur en persónulegt hatur sem kallaði fram þessa nafngift. Það var í sjálfu sér ekkert ómálefnalegt við það þótt þeir sem líta á fóstur sem manneskjur sjái baráttu fyrir frelsi kvenna til að láta eyða eins mörgum fóstrum og þeim sýnist, sem hliðstæðu helfararinnar, en í dag er vísunin gleymd og það þykir hentugt og kúl að nota orð sem stinga, fremur en að sérstök hugsun búi að baki.

Svörin við skrifum feminista einkennast af nöldri, háði og persónulegu skítkasti. Það er stundum vandgreint á milli gagnrýni og hatursáróður og það er ósköp dapurlegt. En að reyna að sporna gegn skítaþeytingi með því að biðja þá sem setja fram réttmæta og rökstudda gagnrýni, (gagnrýni sem feministar kjósa fremur að væla yfir en að taka til athugunar), virðingarfyllst að halda skoðunum sínum út af fyrir sig, svona til að espa ekki skrílinn, það er hmprmphh… verulega vond hugmynd.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Að hata feminista

 1. Tjásur:

  Kannski þurfa málefnalegir gagnrýnendur femínista (ég leyfi mér að telja sjálfan mig með) að setja saman smávegis óskalista.

  Eitthvað svona:

  Kæru femínistar, verið svo vænir að láta sem oftast í það skína í skrifum ykkar að:

  1. Það sé hægt að vera ykkur ósammála, en samt vera jafnréttissinnaður.
  2. Það sé hægt að þykja þið stundum sum vera úti að aka án þess að það þýði að maður sé brengluð karlremba með hættulegar skoðanir.
  3. Að þið séuð meðvituð um að það geti verið auðvelt að sjá í öllu þau mynstur (t.d. klámvæðingu) sem verið er að leita að.
  4. Að stundum talið þið svo óvarlega um feðraveldið að orðræðan hljómar eins og argasta karlahatur.
  5. og svo framvegis.

  mbk,

  Posted by: Kristinn | 19.11.2011 | 11:13:03

  —   —   —

  Maðurinn minnist á að bæði umhverfisverndarsinnar og femínistar séu að berjast gegn raunverulegum og hættulegum hlutum, þ.e.a.s. eyðingu náttúrunnar og klámvæðingunni, en öfugt við náttúruverndarsinnana á eftir að sannfæra mig um að þessi klámvæðing sé hættuleg og þá hvernig.

  Posted by: Einar Þór | 19.11.2011 | 12:03:50

  —   —   —

  Tja, Einar. Það má t.d. rekja faraldur átraskana til sífellt ýktari líkamsímynda auglýsinga- og kvikmyndaiðnaðarins.

  Það má deila um einstaka auglýsingar eða einstaka reðurtákn á ljósmynd, en ekki um áhrif líkamsímyndanna á ungt fólk.

  Ég persónulega fíla ekki að þessi þróun sé kennd við klámið, þ.e. kynferðislegar ljós- og kvikmyndir, þar sem ég hef séð slatta af klámi sem er einmitt að fokka í þessum ímyndum. En margt sem um er rætt þegar hugmyndin um klámvæðinguna er skilgreind er mér þó sannarlega áhyggjuefni.

  Posted by: Móðursýkin | 19.11.2011 | 13:59:36

  —   —   —

  Já ok, er útlitsdýrkunin hlutmengi klámvæðingarinnar? Ég vissi ekki að væri talið saman. En, já, ég kaupi það alveg að ofuráherslan á útlit er löngu orðin kjánaleg, enda held ég að pendúllinn sem farinn að sveiflast til baka í því.

  Posted by: Einar Þór | 19.11.2011 | 15:57:43

  —   —   —

  Ég held að þetta snúist mest um upplifun. Staðreyndin er sú að margir fá svipaða meðferð á netinu. Það þarf ekki annað en að lesa komment á greinum um Þorgerði Katrínu eða Bjarna Benediktsson. Svo maður nefni náttúrlega ekki Hannes Hólmstein. Svipaða sögu er að segja af Jóhönnu Sigurðardóttur. Það hefur ekkert með kyn að gera.

  Þegar kemur að því er lenskan að taka ekki mark á því og líta bara á þetta sem yfirfall netsins – fávitana sem eiga engin rök. Þannig taka flestir á þessu en ekki sumir feministanna. Staðreyndin er sú að ég held að feministar fái ekkert endilega meira skítkast en aðrir sem halda fram sjónarmiðum sem eru umdeild. Þeir gera bara meira úr þeim.

  Og vissulega gerist það stundum að sjónarmið feminista fari yfir einhverskonar línu. Þetta er a.m.k. á einhverjum mörkum:
  http://smugan.is/2011/11/klamvaedd-modurast/

  Posted by: Logi | 19.11.2011 | 17:03:23

  —   —   —

  Ég veit ekki hvort er rétt að tala um klám sem hlutmengi útlitsdýrkunar eða útlitsdýkun sem hlutmengi kláms en þetta skarast allavega. En svo er til líkamsdýrkun sem er samt ekki útlitsdýrkun í þeim skilningi að krafan hljóði upp á ákveðið útlit. Þegar upp er staðið er klámið aðallega í hausnum á manni.

  Annars þætti mér fróðlegt að sjá rannsókn á því hvort samband er milli klámneyslu og kvenfyrirlitningar, klámneyslu og útlitsdýrkunar, klámneyslu og sjálfsmyndar, klámneyslu og þess hversu mikil áhrif staðalmyndir hafa á neytandann.

  Best gæti ég trúað að ef á annað borð er eitthvert samband þá séu það ákveðnar týpur sem báðar breyturnar einkenna fremur en að eitt orsaki annað. Allavega eru staðalmyndir og kvenfyrirlitning ekki óþekkt fyrirbæri í samfélögum þar sem takmarkað framboð er á klámi.

  Posted by: Eva | 19.11.2011 | 17:14:32

  —   —   —

  Það er ekki alveg rétt að allir sem halda fram umdeildum sjónarmiðum fái á sig skítkast. Ég hef einmitt velt þessu mikið fyrir mér og finnst þetta mjög áhugavert. Ég held t.d. oft fram umdeildum skoðunum, jafnvel mjög óvinsælum og ég fæ oft á mig gagnrýni en svona persónulegt skítkast fæ ég mjög sjaldan, kannski 3-4 sinnum á ári. Það er ein færsla af hverjum hundrað og venjulega bara eitt komment frá einhverjum sem ég tek hvort sem er ekkert mark á, ég get vel lifað með því.

  María Lilja er búin að fá á sig meira persónulegt skítkast vegna þessarar einu smugugreinar en ég hef fengið á mörgum árum. Ef hún væri nú eitthvað verulega öfgafull þá gæti ég skilið þetta en það að tengja móður og dóttur samtímis einhverju kynferðislegu felur í sér ákveðið daður við sifjaspell sem ég held nú satt að segja að flestum þyki dálítið kekkjótt hugmynd. Stór hluti svaranna eru persónulegar svívirðingar, háð og tuð um að sumir sjái klám í hverju horni. Í fljótu bragði sé ég ekki skynsamlegri skýringu á þessum viðbrögðum en feministahatur.

  Posted by: Eva | 19.11.2011 | 17:32:21

  —   —   —

  Ég leyfi mér að efast um að femínistar hafi hegðað sér „alveg sérdeilis heimskulega“. Reyndar held ég að það sé eiginlega út í hött.
  En svo er annað, sem mér finnst mikilvægt í þessu öllu: Gjörningur þessa hóps sem kallaði sig „stóra systir“ var augljóslega einhverskonar gjörningur – uppákoma – og maður þarf að vera undarlega bókstaflegur til að halda virkilega að félagsskapurinn hafi í fúlustu alvöru verið að vísa í „fasisma“ með nafninu. Ég man eftir að hafa lesið greinar þar sem Saving Iceland var líka gagnrýnt fyrir yfirlæti og hroka – vegna þess að nafnið væri á ensku, það væri ekki íslenskt, en ekki síst vegna þess að það einkenndist af einhverskonar forsjárhyggju – það ætti að bjarga Íslandi frá íslendingum. Fyrirlitleg forsjárhyggja osfv osfv. Félagar í þeim samtökum vildu líka vera að hylja andlit sín. Sem mönnum þótti sanna að þar væru á ferð ótíndir glæpamenn.
  Og nú eru aktívistar sem eru að hylja andlit sín og annað appearance orðnir að Ku klux klan liðum?
  Og hér komum við að öðru sem mér finnst merkilegt að bókstaflegri netverjar hafa ekki fattað: Það er í lagi þegar úthrópað fólk „eignar“ sér neikvæðar stereótýpur eða særandi orð. Eins og þegar blökkumenn í Bandaríkjunum kalla hvorn annan „nigger“. Það er ekki þar með í lagi að aðrir kalli þá „niggers“, né eru þeir að „viðurkenna“ að þeir séu skítugir surtir, en það er skilningurinn sem rasistar leggja í hugtakið. Myndmál og nafngift gjörningsins „Stóra systir“ var augljóslega írónísk appropriasjón á orðum og hugmyndum – samtökin voru ekki að vísa með einhverri velþóknun í fordóma andfemínista. Þetta hlýtur maður að fatta ef maður leyfir sér að hugsa um þennan félagsskap/gjörning sem róttækan aktívisma, skipulagðan af róttækum aktívistum, fólki sem tekur sig alvarlega, er fullt af hugsjón en líka lífsgleði og sér samfélagið sem það býr í í gegn um ákveðin írónísk gleraugu. Við þekkjum bæði mikið af þessháttar fólki.
  Svo er þetta: „fólk sem ásakar þá sem eru ekki sammála því í einu og öllu um kynferðislega brenglun og illmennsku þarf ekki að undrast þótt því sé sagt að halda kjafti.“ Það er ekki rétt að María hafi sakað Davíð um kynferðislega brenglun vegna þess að hann hafi ekki verið henni sammála í einu og öllu. Davíð tók því þannig – en ef upprunalegur pistill (pistill sem er reyndar svo nauðaómerkilegur að það er furðulegt að fólk skuli í alvörunni vera að velta sér upp úr honum) er lesinn og samhengið skilið sést að það er fráleitt að skilja hann svo að María hafi verið að gera Davíð upp allar þær sakir sem hann las úr þessu.
  En hvað um það. Það má líka spyrja: Hvað með fólk sem sakar þá sem eru þeim ekki sammála í einu og öllu um að vera fasistar, talibanar eða meðlimir ku klux klan? Það er í lagi? Má afgreiða það fólk með því að segja því að halda kjafti? Með þínum rökum, já. Nú, eða fólk sem hefur lýst yfir stríði við borgaralegt samfélag, gengur í götóttum fötum og borðar mat sem offramleiðslu og sóunarkerfi þess hefur ákveðið að fleygja – á það fólk að taka því þegjandi, og leita orsakanna hjá sjálfu sér, þegar talað er um að það sé skítugir útigangsmenn, fólk sem ekki þvoi sér, skítahyski sem ætli að pissa framan í Egil Helgason? Eigum við að kinka kolli og segja, já. Á það að „leita orsakanna hjá sjálfu sér“ eða í fordómum þeirra sem hafa ákveðið að dæma alla aktívista út frá einhverjum einangruðum og misskildum tilfellum?
  Tilfellið er að róttækir aktívistar hegða sér á skjön við viðtekin gildi og hugmyndir – og kalla yfir sig hatur, hræðslu og fordæmingu smásálanna. Ofbeldisfyllstu smásálirnar ausa það svo skít – tala t.d. um að það þurfi að loka aktívista inni í búri og beita þá kynferðislegu ofbeldi, samanber skemmtilegt „grín“ Baldurs Hermanssonar. Grín sem er ekki svo frábrugðið gríni Egils Einarssonar í garð femínista. Það ætti að hópnauðga þeim til að þeir lærðu að halda kjafti. Og já, ástæðan er einmitt sú að Baldur og Egill Einarsson standa í þeirri meiningu að það sé í lagi að tala svona um aktívista/femínista. Meðal annars vegna þess hvernig talað er um þá á netinu. Sem skítugt hyski – eða fasista. Fólk sem ekki nýtur sömu verndar og góðborgararnir. Fólk sem er hættulegt öfgafólk sem vill annað hvort ræna völdum og krossfesta Ástu Ragnheiði eða ræna völdum og krossfesta Davíð Þór.
  Það var nú aðalatriðið í þessu öllu hjá mér.
  Já, og svo hitt að mér finnst að maður þurfi að gæta sín á að legitímísera ekki með neinum hætti orðbragð eða hegðun manna eins og Baldurs og Egils Einarssonar.
  Afsakið annars langhundinn. Það er líka ákveðið einkenni hjá sumum aktívistum að tala og skrifa aðeins lengur en kommentalesarar nenna að lesa eða dómarar í héraðsdómi nenna að hlusta!

  Posted by: Magnús | 19.11.2011 | 17:33:26

  —   —   —

  „Þær eru klæddar í sokkabönd og liggja ansi frjálslega og opinmynntar með tómt augnaráð við hlið nokkurra viðardrumba, sem mætti hæglega túlka sem reðurtákn. Persónur þeirra skína á engan hátt í gegnum myndirnar og hefði fólk ekki vitað það fyrirfram hefði það aldrei áttað sig á tengingunni milli þeirra.“

  Ég verð að viðurkenna að ég næ þessu bara ekki. Á persónuleikinn að skína úr augunum? Og er allt sívalt reðurtákn?

  Það er ekki erfitt að vera ósammála þessu – og reyndar mörgu öðru. Ég er það til dæmis. Ég held að það sé undir hverjum og einum komið hvað hann sjái útúr þessu. Það sem pirrar mig er það hvernig ósamþykki mitt er túlkað. Þá gerist það stundum að maður er sagður stuðningsmaður klámvæðingar og jafnvel mansals. Það var, að ég held, það sem Davíð Þór varð svona rosalega fúll yfir. Og ég verð að viðurkenna að ég skil hann alveg.

  Án þess að ætla mér að vera ómálefnalegur, þá gerist það býsna oft að þeir sem halda fram ákveðnum sjónarmiðum, sama hver þau eru, fá oft á sig þau svör til baka að fyrst þeir séu ekki sammála þessu þá séu þeir á einhverri línu sem þeir kannast ekki við. Ef mér til dæmis yrði það á að segja að mér fyndist Gillz stundum soltið sniðugur – þá er ég ekki að segja að ég styðji kvenfyrirlitningu eða klámvæðingu.

  Hlutir eru ekki alltaf svartir eða hvítir. Flest í okkar umhverfi er einhvernveginn grátt. Mörkin eru óljós og maður er sammála sumu og öðru ekki. En ég, sem tel mig frekar málefnalegan, nenni ekki að rökræða við fólk sem gerir mér alltaf upp skoðanir.

  Hvað þig varðar, þá held ég að þú sért aðeins utan alfaraleiðar. Það eru færri sem lesa bloggið þitt en marga af miðlunum sem við höfum talað um og kannski er pistlunum þínum ekki dreift svo víða.

  Posted by: Logi | 19.11.2011 | 17:44:46

  —   —   —

  Takk fyrir innleggið Magnús Sveinn.

  Þannig að þegar slagorðið „stóra systir fylgist með þér“ varð til, þá var það hugsað sem hvað? Írónía? Á hvað þá? Eftirlitssamfélagið? Eða þá sem sjá tengingu milli stóru systur sem fylgist með þér og stóra bróður og eftirlitssamfélagsins?

  Búningurinn sem minnir annarsvegar á klæðnað kvenna í strangtrúarríkjum muslima og hinsvegar á ku klux klan, leynireglu sem stundaði nornaveiðar gegn fólki sem meðlimir reglunnar töldu einfaldlega ógeð þótt þeir hefðu svosem ekki gert á hluta neins, það var semsagt bara svona létt írónía. Jæja það lítur allavega út fyrir að þó nokkuð margir hafa bara ekki náð djóknum.

  Ég man nú reyndar ekki eftir neinum mótmælaaðgerðum þar sem andlit voru hulin fyrr en í aðgraganda búsáhaldabyltingarinnar en það skiptir svosem litlu máli. Annars hef ég ekki orðið vör við að S.I. og feministar séu í einhverskonar typpamælingakeppni. Hef ég misst af einhverju?

  Nei, það er ekki í lagi að úthrópa þá sem eru manni ekki sammála í einu og öllu sem hryðjuverkamenn. Það er hinsvegar allt í lagi að benda á líkindi.

  Fasísk samfélög einkennast m.a. af persónunjósnum, ritskoðun, forræðishyggju, hugmyndinni um ákveðinn hóp sem sökudólg sem er alltaf á einhvern hátt rót allra vandamála, refsigleði og hugmyndum um að ákveðnir hópar eigi ekki að njóta mannréttinda. Það er ekkert annað en daður við fasisma að hefja þessar hugmyndir til virðingar og það ber vott um undarlega sjálfsblekkingu af hóp sem kallar sig stóru systur og gengur fram með þeim hætti sem þarna var gert, að móðgast yfir því þótt fólk sjái þar tengingu við fasisma.

  Ég hef aldrei verið því hlynnt að reynt sé að þagga niður í fólki. Þvert á móti finnst mér sama hversu bjánalegar og hættulegar skoðanir fólk hefur, það á að njóta málfrelsis og reyndar finnst mér því meiri ástæða til að ræða viðhorf sem þau eru verri. Ég er hinsvegar ekkert HISSA á því að María Lilja fái svona skilaboð eftir skrif hennar til Davíðs. Þar með er ég ekki að segja að það sé í lagi að segja henni að halda kjafti en eins og ég tek fram í pistlinum hér að ofan er ég að stinga upp á skýringum en ekki réttlætingum. Ég er heldur ekkert HISSA á því að fólk sem gengur eins og umrenningar til fara fái á sig glósur um að það ætti að fara í bað eða hafa fataskipti eða hvað það nú er. Reyndar er sá munurinn á að það kemur engum við hvernig annað fólk klæðir sig en það kemur okkur dálítið við hvernig fólk tjáir sig opinberlega og sorrý en María Lilja fór yfir öll velsæmismörk. Mér segir svo hugur um að þú myndir ekki bera í bætifláka fyrir karlmann sem hefði sent feminista þau skilaboð að hún hefði brenglað viðhorf til karlmanna og kynlífs og að viðhorf fólks eins og hennar væru rótin að kynlífsþrælkun og öðru ógeði.

  Posted by: Eva | 19.11.2011 | 19:27:04

  —   —   —

  Það er ekkert verkefni allra feminista sérstaklega að berjast gegn klámvæðingunni. Verkefni feminista er að berjast fyrir jafnrétti kynjanna.

  Það eru mörg mismunandi viðhorf til kláms meðal feminista. Líka meðal „sexista“

  Og ef við tölum um t.d. vændi, þá vilja sumir feministar banna það og sumir feministar vilja lögleiða það.
  Þeir eru líka til sem líta á konur sem eign og eru algjörlega á móti bæði klámi og vændi.

  Posted by: Lotta B. Jónsdóttir | 19.11.2011 | 20:27:50

  Logi:

  María: „sem mætti hæglega túlka sem reðurtákn“

  Logi: „Og er allt sívalt reðurtákn?“

  Áttarðu þig á merkingarmuninum í þessum tveimur setningum? Með því að setja „mætti hæglega“ er María ekki að segja að svona séu hlutirnir, heldur að slík túlkun sé möguleg, og í þessu samhengi ekki fráleit. Og allt langt og sívalt *getur* í sjálfu sér verið reðurtákn (rétt eins og allt hnöttótt getur í sjálfu sér verið tákn fyrir plánetur, eða allt kringlótt og gult getur verið tákn fyrir sól), en ef þú heldur því fram að eitthvað sé reðurtákn þarftu að færa fyrir því rök að svo sé. Það er nú heila málið með tákn, þau má túlka og ein túlkun er ekki endilega sú rétta. María virðist alveg gera sér grein fyrir þessu og setur ákveðna fyrirvara, þó ég þykist vita að hún sé nokkuð sannfærð um að drumburinn sé reðurtákn og hafi verið settur í myndirnar sem slíkur. Túlkun á tilteknum táknum byggir m.a. á tilteknu samhengi, og drumburinn í þessu samhengi (á mynd með tveimur fáklæddum konum sem gera sitt besta til að vera sexí, og lýsa því yfir í myndatexta) virkar alveg ágætlega sem reðurtákn. Það væri eiginlega einfeldni að neita að sú túlkun sé möguleg. Ef þetta hefði verið mynd af trjádrumbi liggjandi úti í skógi hefði sú túlkun verið mun fráleitari, þar sem samhengið er allt annað. Sem þýðir ekki að hann sé reðurtákn á þessum myndum, heldur að þannig megi túlka hann. Af hverju er svona erfitt að skilja þetta?

  Fyrir utan það að grínistar, sérstaklega í kvikmyndum, hafa leikið sér endalaust að því að setja langa sívala hluti í fyndið samhengi og líkja þeim við lim í reisn. Og ekki bara reðurtákn, melónur (og fleiri ávextir) eru oft notuð sem tákn fyrir brjóst. Sorrí, en ég á bara svo erfitt með að skilja af hverju fólki finnst þessi túlkun Maríu eitthvað fáránleg. Ef þú getur hlegið að því í Monty Python-sketsi að fallbyssu, Eiffel-turninum og lest að fara inn í göng og ég veit ekki hverju er líkt við reistan lim, þá er þetta ekkert fráleitara. Það er margt annað í grein Maríu sem má gagnrýna, en þetta er ekki eitt af því.

  Posted by: Gummi | 19.11.2011 | 21:46:55

  —   —   —

  Sem dæmi: http://www.youtube.com/watch?v=zl_295f530E

  Posted by: Gummi | 19.11.2011 | 21:50:12

  Ertu ekki að grínast, Gummi?

  María Lilja var að eigin sögn að furða sig á takmörkuðum viðbrögðum þjóðfélagsins við þessum myndum. Sem dæmi um ástæður þess að þjóðfélagið hefði átt að bregðast illa við þeim nefnir hún að það megi e.t.v. sjá í búnka af niðurhoggnum eldiviði reðurtákn.

  Það er nákvæmlega engin ástæða til þess að tala um þennan við sem reðurtákn, nema því aðeins að maður sé staðfastlega að reyna að sjá eitthvað miður sæmilegt út úr hlutunum, og það er það sem María Lilja gerir og furðar sig á að allt samfélagið sé ekki að gera með henni.

  Jú, það er einmitt nokkuð sem má gagnrýna í skrifum hennar. Þetta er einu orði sagt fáránlegt.

  Posted by: Kristinn | 20.11.2011 | 5:37:53

  —   —   —

  Þess má geta að á einni myndinni er kaktus, mjög stór -og stóll! Bæði kaktusinn og fætur stólsins eru möguleg reðurtákn! Á sömu mynd stendur móðirin með hendur niður með síðum og er í raun sjálf eitt stórt reðurtákn!

  http://www.lingerietalk.com/2011/11/14/the-lake-and-stars/family-values-the-lake-stars-hit-another-hot-button.html

  Þau leynast víða, þessi undirförlu typpi!

  Posted by: Kristinn | 20.11.2011 | 6:36:14

  —   —   —

  Mér finnst dálítið merkilegt að hversu miklu leyti umræðan hefur snúist um reðurtákn og það hvort konur í nærfataauglýsingum megi vera tómlegar til augnanna. Það sem grein Maríu Lilju snýst um er þetta daður við sifjaspell. Auglýsandinn auglýsir fjölskyldutengsl kvennanna sérstaklega, þannig að það er alveg á hreinu að það sem við eigum að sjá út úr myndunum eru mæðgur og ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki á mörgum heimilum sem mæður og fullorðnar dætur faðmast hálfnaktar. Myndirnar vekja mun fleiri spurningar um líkamlegt samneyti og hvaða snerting og nætvera sé viðeigandi milli hverra en um nærfötin. Siðferðishliðin á tiltækinu er fullkomlega tækt umfjöllunarefni og þótt mér finnist þessar myndir reyndar ekki sexý, væri fráleitt að afneita því að þær vekja samt spurningar um kynferðislega upplifun og ímyndir.

  Posted by: Eva | 20.11.2011 | 7:24:27

  —   —   —

  Mér fynnst ég taka eftir fáránlegum commentum frá báðum hliðum – enda ekki við öðru að búast þegar umræður eru í gangi hjá swarmi internetsisn

  Verst fynnst mér við flesta umræðu á íslandi, að sitthvor hliðin virðist elta uppi lélegustu rök andstæðingana en hunsa þau bestu… m.ö.o það er einkennandi fyrir alla þessa hópa aðgerðarsinna að vera svamlandi í eigin confirmation bias og circular lógík

  Það er engum til framdráttar

  Posted by: Ólafur Ágúst | 20.11.2011 | 8:32:48

  —   —   —

  María Lilja eyðileggur alltaf spurningar sínar með framsetningunni. Svo lituð er hún af vilja til að sjá vandamál þar sem deila má um að aðkallandi vandamál sé að finna, að sá vilji verður umfjöllunarefnið en ekki það sem hún fjallar um.

  Í umfjöllun auglýsenda segir að spurningunni um atlot mæðgina sé þarna velt upp ásamt því hvort fólk hafi tilhneigingu til að bera þær saman og meta hvor sé kynþokkafyllri.

  Að því gefnu að þessum spurningum megi velta upp er það bara nokkuð smekklega gert þarna.

  Síðan snertast konur oft allt öðruvísi en körlum finnst í lagi að gera. Einmitt þess vegna trufla þessar myndir mig ekki neitt – kynferðislega spurningin kemur varla upp, hvort sem þær eru mæðgur eða ekki.

  Posted by: Kristinn | 20.11.2011 | 8:46:22

  —   —   —

  síðan er þessi klámvæing ekki sjálfgefin, sem einhver sjálfstæð eining, eins og Magnús og femenistar vilja halda fram

  Það hefur fyrst og fremst orðið upplýsingavæðing, með tæknivæðingu – klám flýtur þar með, en ekkert frekar en margt annað (t.d. tölvuglæpir, aðgangur að torrent og fl)

  Ef femenistar vilja gefa skýr rök á hvað þeir meina með klámvæðingu, þá er ég all ears – og ekki efast ég um að þær geti bent á margt markvert varðandi það

  Hinsvegar er ég ennþá efins þegar framsaga þeirra einkennist frekar af því að vilja blanda öllu saman í eitt stórt klámvæðingar/karlaveldis histeríu samsæri, en að fara skýrt í hvernig hægt er að sýna fram á beina afleiðingu „klámvæðingar“

  alltof oft virðast þeir sem tala gegn klámvæðingu gera engan greinarmun á causation og correlation… sem þá strax gerir það að verkum að ekki er frekari ástæða til að hlusta á það fólk heldur en Alex Jones eða David Icke

  Posted by: Ólafur Ágúst | 20.11.2011 | 8:59:26

  —   —   —

  Ef það er hægt að greina að klámvæðing hafi verið meiri en einhver önnur væðing sem fylgir upplýsingavæðingu, þá þori ég að veðja að tilfinningaklámvæðing er þar stór partur – og femenistar eiga þar stórann þátt

  Posted by: Ólafur Ágúst | 20.11.2011 | 9:40:10

  —   —   —

  Takk fyrir innleggi Ólafur Ágúst. Með klámvæðingu er átt við annarsvegar það að æ fleiri hlutir og aðstæður séu settir í kynferðislegt samhengi og hinsvegar að það skuli vera samþykkt sem norm.

  Ég get tekið undir það að þetta er einn af eðlilegum fylgifiskum aukins upplýsingarflæðis fremur en sjálfstætt fyrirbæri sem hægt sé að taka úr samhengi við aðra tjáningu enda held ég nú ekki að þeir séu margir sem líta á klámvæðinguna sem sjálfstætt fyrirbæri og ég get ekki lesið þá túlkun út úr skrifum Magnúsar. Hver sem orsökin er, er hitt ljóst að aðgegni að klámi er allgott og ekki bara gott heldur er efni sem sumir telja klámfengið, troðið upp á fólk sem kærir sig ekki um það. Sumum finnst margt sem tengist kynlífi beinlínis ógeðslegt, einkum ef það er sett í ákveðið samhengi. Umræðan um klámvæðingu á því að mínu mati fullan rétt á sér og bara gott mál að ólík sjónarmið komi fram.

  Ég er algerlega á móti ritskoðun sjálf en hinsvegar finnst mér bæði klám og reyndar líka ýmislegt annað efni, svosem slúður af fræga fólkinu, eiga sinn stað og stund. Það á að vera aðgengilegt fyrir þá sem vilja það en hinsvegar ætti það ekki að blasa við þeim sem ofbýður það hvar sem þeir koma. Ekki frekar en kúkur og piss ætti að blasa við á götum úti þótt þeir sem það vilja, megi mín vegna velta sér upp úr hvorutveggja heima hjá sér. Það er nú bara þannig að til er fólk sem finnst gagnkvæmt káf móður og dóttur ekkert geðslegra en kúkur og piss. Og fólk á bara fullan rétt á þeirri skoðun þótt það hafi hinsvegar ekki rétt til að reyna að koma í veg fyrir að aðrir góni á þessháttar efni eða káfi á þeim ættingjum sínum sem vilja það.

  Posted by: Eva | 20.11.2011 | 9:48:41

  —   —   —

  Takk Eva

  Já ég er alveg sammála þér

  Mín skoðun er að megin partur þessarar klámvæðingar sem um ræðir sé á gráu svæði,(auðvitað er mansal og fegurðarsamkeppnir smábarna á kolbikarsvörtu svæði, svo enginn misskilji mig)

  En um það sem er á gráu svæði (og ég tel vera megin part „klámsins“) gengur ekkert annað upp en að fólk ræði saman og semji sín á milli um mörkin með lýðræðislegum aðferðum.

  Bara flott að sem flestir komi að þeirri umræðu… en aftur á móti grútleiðinlegt hvernig báðir bogar þessarar umræðu eru fljótir að alhæfa

  Posted by: Ólafur Ágúst | 20.11.2011 | 10:01:20

  —   —   —

  p.s

  Eins og ég sagði; fegurðarsamkeppni smábarna er á kolbikarsvörtu svæði

  en þegar feminstar gagnrýna lögráða einstaklinga fyrir að taka þátt eða halda fegurðarsamkeppnir, þá þykir mér femenistanir vera búnir að stíga á dökkari enda gráa svæðisins (ég horfi samt ekki á fegurðarsamkeppnir og fynnst þær hallærislegar og smekklausar – en ekki síður smekklaust er að vera með stjórnsemisblæti yfir lögráða einstaklingum)

  Posted by: Ólafur Ágúst | 20.11.2011 | 10:08:20

  —   —   —

  Nei, Kristinn, ég er ekki að grínast, enda virðistu ekki hafa lesið kommentið mitt neitt sérstaklega vandlega. Það sem birtist á myndum má einfaldlega túlka á ýmsa vegu. Að segja að „nákvæmlega angin ástæða sé til“ að túlka þetta á þennan hátt bendir eiginlega frekar til þess að þú sért að grínast. Af hverju geturðu ekki bara rætt um þetta á eðlilegan hátt í stað þess að setja upp vandlætingar- og hneykslissvip og fussa og sveia? En nota bene, ég hef sjálfur frekar litla skoðun á þessum myndum, nema hvað ég er sammála þessum punkti Evu um að sifjaspellsdaðrið er böggandi.

  Posted by: Gummi | 20.11.2011 | 10:44:52

  —   —   —

  Gummi

  Ég las innlegg þitt vandlega. Það má alltaf túlka hluti á ýmsa vegu. Það er einmitt ekkert áhugaverður punktur.

  Punkturinn er að þessi ákveðna túlkun er ekkert aðkallandi, nema því aðeins, eins og ég sagði og virðist hafa farið fram hjá þér – sem bendir til þess að þú hafir ekki lesið svar mitt vel – að um mikinn vilja til að sjá eitthvað ósæmilegt úr hlutunum sé að ræða.

  Það að skammast í Maríu Lilju fyrir kynlífsvæða myndina fyrir lesandanum hefur með það að gera að hún setur spurninguna um sifjaspellstenginuna ekki vitund hlutlaust fram, heldur gerir sjálf í því að setja tóninn fyrir þess háttar túlkun – og að kalla þetta reðurtákn er meira að segja ansi langt gengið í þeim efnum.

  Það sama hefur verið gert í umfjöllun um þessar myndir víðar á netinu og þá verða viðbröðgin sterk. En ef sá tónn er ekki sleginn fer fólk síður að velta sér upp úr kynferðislegri merkingu myndanna. Er þá verið að vekja athygli á vanda, eða búa hann til?

  Posted by: Kristinn | 20.11.2011 | 11:19:33

  —   —   —

  Hmmm, ok mætti sumsé segja að „klámvæðing“ sé „Normalisering á kynferðislegri framsetningu og kynferðislegri hegðun í almenna rýminu“? (almenna rýmið hljómar kjánalega, en held að það skiljist).

  Ég kaupi það algerlega að það hafi verið að gerast síðustu ca. 20-30 ár og sé enn að gerast.

  Ég er alveg sammála Evu um að umræðan sé þörf og margar spurningar eigi rétt á sér. Ég er á hinn bóginn ekki sannfærður um að þetta sé endilega slæm þróun þegar á heildina er litið.

  Ennfremur er ég ekki viss um að þetta sé þróun sem hægt sé að stöðva með neinum ráðum sem ég gæti sætt mig við (ég gæti skrifað langan pistil um það, en ég er bara of latur til að skrifa pistla :p)

  Posted by: Einar Þór | 20.11.2011 | 13:16:32

Lokað er á athugasemdir.