Stráreður vikunnar

nærfötEinhvernveginn snerist umræðan um klámvæddu móðurástina upp í pælingar um soralegt ímyndunarafl Maríu Lilju sem stakk upp á hugsanleika þess að eldiviðardrumbarnir væru reðurtákn. Mér finnst kostulegt að fólk skuli velja að beina athyglinni að því smáatriði fremur en því sem málið snýst um, sem er einhverskonar daður við sifjaspell, leikur að hugmyndinni um fegurðarsamkeppni móður og dóttur, tilraun til að má út mörkin milli ástúðlegs sambands og erótísks, kannski fleira. Ég get alveg skilið að einhverjum leiðist klámvæðingarfóbía en ósköp er það nú dapurlegt ef má ekki ræða þessa hluti. Í dag sá ég umræður um að þessi túlkun á viðardrumbum sem reðurtáknum gæfi dónaskapnum í manni alveg nýtt svigrúm, nú mætti jafnvel líta á swiss miss auglýsingar sem handbendi klámvæðingarinnar og jájá, það væri langt seilst að sjá eldiviðinn í swiss miss auglýsingu sem reðurtákn en kommon, þar eru heldur engar mæðgur að káfa hvor á annarri í sokkabandabeltum.

Umræddar myndir eru ekki nærfataauglýsingar nema að nafninu til. Þær eru fyrst og fremst pólitísk list (hvort sú list er vond eða góð ætla ég ekki að leggja mat á.) Það er auglýsandinn sjálfur sem vekur athygli á fjölskylduböndunum svo augljóslega snúast myndirnar um tengsl kvennanna en ekki klæðnað þeirra. Auglýsingunni er ekki ætlað að sýna „fallegt samband móður og dóttur“ heldur að ögra hugmyndum okkar um það hverskonar tengsl séu viðeigandi milli náinna ættingja og í hvaða félagsskap sé “eðlilegt” að vera eingöngu í undirfatnaði. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að fólk velti þessum myndum fyrir sér með tilliti til siðferðis og kláms. Allavega efast ég um að það sé algengt að mæður dressi sig upp í sokkabönd áður en þær láta ástúðlega að dætrum sínum enda er það víst sjaldgæfni þessa ástúðlega sambands sem á að selja.

Ég viðurkenni að mér verður dálítið flökurt við tilhugsnunina um kynferðissambönd náinna ættingja. Hvað þá innan minnar eigin fjölskyldu. Hugsunin nær því ekki einu sinni að verða meira en aðkenning að mynd heldur kippist hún til baka um leið og hún snertir bannsvæðið, líkt og fingur af heitri hellu. Bara eitthvað sem tepran í mér ræður ekki við og líklega gæti ég neytt hana til þess, þanið þolmörk hennar en ég sé ekki tilgang í því, allavega ekki eins og er.

En kynferðissambönd náinna ættingja eru samt til, hvað svo sem teprunni í mér finnst um það. Og hvað kemur mér það við? Hvað kemur löggjafanum það við?  Hversvegna ætti fullorðið fólk ekki bara að haga sínum samböndum eins og því sjálfu sýnist án tillits til blóðbanda, sokkabanda eða þeirra fjötra sem úreltar samfélgasaðstæður leggja á okkur? Hvað er að því að systkini sofi saman? Eða mæðgur? Einhvernveginn segir mér svo hugur um að viðbrögðin við myndunum hefðu orðið harðari ef faðir hefði faðmað 19 ára dóttur sína á nærtötum. Ég er nokkuð viss um að einhverjir hefðu túlkað það sem normaliseringu á barnamisnotkun og já, ég get skilið að jafnvel hið frjálslyndasta fólk, jafnvel þeir sem gútera sambönd náinna ættingja, líti á það sem leik að eldi svo jafnvel þótt ég kyngi teprunni er ég engan veginn viss um að það sé í lagi að hafa alla þætti veruleikans til sýnis.

Hvað eldiviðinn varðar þá hefur honum væntanlega verið stillt upp þarna í einhverjum tilgangi.  Þegar eldiviður er sýndur í swiss miss auglýsingu er samhengið augljóst og þægilegt. Kakó er heitur drykkur sem fólk fær sér þegar það kemur inn úr kuldanum. Eldiviðurinn undirstrikar það markmið að fá hita í kroppin (vá af hverju dettur mér í hug að það geti hljómað dónalega?) og skapa notalega stemningu. En hver er tilgangur eldiviðar í nærfataauglýsingu? Hvort sem reðurtákn er augljós skýring eða ekki, á spurningin fullkomlega rétt á sér.

Mér detta í hug fleiri skýringar. Kannski eiga skilaboðin að vera þau að hér sé á ferð eldfimt efni. Eða að þótt eldiviðurinn sé til staðar, logi hreint ekki eldar bara af því að kona klæðist sokkaböndum.

Eða kannski stillti stílistinn drumbunum upp og flissaði, leit sposkur á ljósmyndarann og sagði; djöfull skal ég veðja að þetta verður túlkað sem reðurtákn.

En halló gæjs, það skiptir ekki öllu máli hvort eldiviðardrumbur er reðurtákn í þessu samhengi eða eitthvað annað. Þetta snýst nefnilega ekkert um reður.

 

 

One thought on “Stráreður vikunnar

  1. ————————————————————–

    ég hef stundum áhuga á því, að „kommentera“ á færslunar þínar

    Posted by: Sjöfn Kristjánsdóttir | 20.11.2011 | 14:06:27

    —   —   —

    Og hvað hindrar þig? Það er hægt að skrifa nafnlaust ef fólk kýs það frekar. Þarf ekki einu sinni að gefa upp netfang.

    Posted by: Eva | 20.11.2011 | 14:10:16

    —   —   —

    Ég set bara stórt spurningamerki við þessa hugmynd að allt kynferðislegt sem er sett fram í fjölmiðlum hafi óhjákvæmilega þau áhrif að normalizera kynkamismun

    Auðvitað gerir margt smátt eitt stórt, en samfélagið er miklu kvikara, og háð miklu chaotískari öflum en svo að hægt sé að fullyrða eitthvað um þessa hluti

    Hvort sem litið er til auglýsinga (skáldskapar) eða fréttamats (faction) þá hefur það ekkert að gera með normalið hvað það er sem selur, eða orsakar magn click-a (á netinu)

    Fólk laðast af ýkingum, fólk hefur áhuga á hlutum sem eru ýktir miðað við hversdagslegikann, þá á dramatískan, tragedískan, kómsískan eða farsakenndann hátt.

    Þessvegna eru hvorki fréttir né auglýsingar einhver endurspeglun á samfélaginu, eins og oft er haldið fram, heldur miklu frekar endurspeglun á hugarfari (zeitgeist)- sem btw er miklu kvikara og hverfulara fyrirbæri en samfélög í heildina litið.

    Ég kaupi til að mynda ekki þá kenningu sem ég hef heyrt frá mörgum femenistum að fjölmiðlar stuðli að því að normilisera „óheilbyrgða fyrrirmynd“ eins og Gillz með því að fjalla um hann. Gillz er svona karakter sem sameinar næstum allt ofangreint, (allavega farsa, tragedíu, og kómedíu) – þessvegna klikkar fólk á linkana , en líklega síst vegna þess að fólk vilji líkjast honum.

    Líka bara þetta að skella skuldinni á fjölmiðla, að þeir viðhaldi einhverjums taðalímyndum – Fjölmiðlar eins og við þekkjum þá eru að hruni komnir og eru háðir ayglýsingatekjum sem þeir fá með því að sýna fram á klikk fyrst of fremst.
    Auðvitað einkennast fréttir af öllu sem æsir uppí histeríu þegar svoleiðis árar

    Maður hlýtur því að spyrja sig, hversu mörg klikk fær Gillz frá fólki sem kýkir á linkinn til þess að hneykslast á staðalýminda-mangi fréttamiðla? (og þarmeð telur sig ekki vera partur af þessu staðalýminda vandamáli fréttamiðla)

    -getur verið að þessar staðalýmindir séu að einhverju leiti self-fullfilling prophecy hjá fólki sem pælir mikið í staðalímyndum?

    Og í landi þar sem á hverjum einasta degi er einhver frétt um kynferðislega misnotkun ( og oftar en ekki er það sama málið dag eftir dag)
    -getur þá verið að þetta self-fullfilling-linka-click prophecy sé að hluta til að gefa ýkta staðalýmind af íslandi sem einhveskonar paradís fyrir kynferðislega afbrotamenn?

    Það er allavega feedback lúppa á milli þess hvað fréttamenn byrta og hvað við erum til í að skoða (og væla um)

    Posted by: Ólafur Ágúst | 20.11.2011 | 15:41:07

    —   —   —

    Ég er alveg sammála þér með að það sé ekkert óeðlilegt að finnast eitthvað um að fyrirsæturnar séu mægður, hefði búist við því að óreyndu.

    Hinsvegar aftengdist ég boðskap greinar Maríu þegar hún fór að kvarta yfir því að kvenkyns fyrirsætur væru notaðar til að kynna kvenmannsnærföt og ég hreinlega skellti upp úr þegar reðurtáknið var kynnt til sögunnar. Aldrei í lífi mínu hefði mér dottið það í hug að fyrra bragði að þessir drumbar gætu táknað uppraðaða belli.

    Ég get allavega ekki ímyndað mér að stílistinn hafi horft á bláan bakgrunninn og hugsað með sér „hér vantar reðurtákn“.

    Satt að segja þá held ég að þeir sem aðhyllast þessar hugmyndir ætli hönnuðum auglýsinganna allt of mikið. Ég sé þetta sem vel hannaða auglýsingaherferð ef mælikvarðinn er eftirtekt almennings. Að hafa fyrirsæturnar mægður og gera það að þungamiðju var, sýnist mér, bara góð leið til að standa upp úr – burt séð frá því hvað okkur svo finnst um siðferðisþáttinn í því.

    Posted by: Sigurður | 20.11.2011 | 23:24:07

    —   —   —

    Skemmtileg grein að vanda, Eva.

    Ég verð þó að fá að mótmæla því að um strámann (stráreður) sé að ræða hjá mér í greininni sem mér þykir þú vera að gagnrýna: http://www.andmenning.com/?p=9452

    Ég er sammála því að það megi (eigi jafnvel) staldra við og ræða þessar myndir og hvort þær séu liður í klámvæðingunni. Það er ekkert að því, eins og ég sé hlutina.

    En mér þykir viljinn til að gefa sér að hálfopnir munnar og fjarræn augnaráð þýði eitthvað ákveðið og viðardrumbarnir séu reðurtákn allt of mikill – líka hér hér þar sem leitað er dyrum og dyngjum að tengingum fyrir eldiviðinn – sem þarf ekki að hafa haft aðra merkingu þarna en í Swiss miss auglýsingu, þótt klúrir hugar okkar haldi annað, sérstaklega þegar búið er að benda okkur á kynferðislegu tenginguna.

    Ég fullyrti ekkert falskt um málstað Maríu Lilju og var því ekki að setja upp strámann til að fella, heldur var ég aðeins að benda á að túlkunargleði hennar og vilji til að setja hlutina í eins klúrt samhengi og hugsast getur skapi falska umræðu um myndirnar.

    Túlkun á myndum er huglægt fyrribrigði sem jafnvel hefur ekkert með ætlaðan tilgang ljósmyndara og stíllista að gera. Ef sívalningar í námunda við nekt eru alltaf reðurtákn er búið að klámvæða ansi margt og öll umræðan um klámvæðingu verður bara kjánaleg fyrir vikið. Ég mæli með að þangað verði ekki farið með þá umræðu.

    mbk,

    Posted by: Kristinn | 21.11.2011 | 11:37:17

    —   —   —

    Mér finnst líka fólk (ekkert bara feministar) oft ganga langt í túlkunargleði, hvort sem um er að ræða mynd eða mál. En ég varð hissa á að sjá alla þessa áherslu á smáatriði þegar greinin sjálf snýst um efni sem hlýtur að teljast áhugavert.

    Posted by: Eva | 21.11.2011 | 12:49:10

    —   —   —

    Annars er nú ýmislegt túlkað sem reðurtákn þótt það sé ekki beinlínis typpalegt útlits. Ég efast t.d. að dildó í líki Smáralindarinnar kæmist ofalega á vinsældalista leikfangaunnenda.

    Posted by: Eva | 21.11.2011 | 14:00:09

Lokað er á athugasemdir.